Hvernig væri heimur án trúarbragða?

duty_calls

Ímyndum okkur heim þar sem enginn trúir á Guð, sálarheim handan þessa heims, eða því að lífið hafi æðri tilgang en þann sem hver einstaklingur skapar sér.

Trúarbrögð bjóða upp á átakasögur milli hins góða og illa, reyna að móta veginn til hins góða fyrir sérhvert barn í trúfélaginu og reyna að stýra því frá hinu illa. Þannig verða trúarbrögð að einhvers konar samfélagslegu öryggisneti fyrir sálarlíf einstaklinga. Þetta net tryggir að viðkomandi verði í samskiptum við fólk sem trúir því sama, og verði líklegri til að leita hins góða í heimi þeirra trúarbragða sem viðkomandi ástundar.

Ég hef ekkert á móti þessu.

Svo eru það hinir trúlausu. Þeir telja skipulögð trúarbrögð vera byggð á hindurvitnum, eða sögum sem hafa ekkert að segja þegar kemur að hinum hversdagslega veruleika og þeim sannleika sem vísindalegar rannsóknir halda fram um heiminn, að sérhver kenning sé fallvölt og sé í eðli sínu röng sé hún ekki mögulega röng í hugum þeirra sem trúir henni. Í heimi vísinda er hið fullkomna og óendanlega ekki til.

Ég hef ekkert á móti þessu heldur.

En lífið heldur áfram. Það eru 8 milljarðir manneskja á þessari Jörð sem þurfa einhvern veginn að lifa saman, helst í sátt og samlyndi, en oft brjótast út átök, ófriður og jafnvel styrjaldir. Hinir trúlausu kenna oft trúarbrögðum um þessi átök, en trúaðir leita dýpra.

Í þessum suðupotti sem jörðin er, hljóta að verða átök, sama hvort fólk trúir á einhverja yfirnáttúru eða ekki. Reyndar er nákvæmlega jafn líklegt að átök rísi meðal hinna trúlausu og hinna trúuðu. Kommúnismi Leníns reyndi að bæla niður öll trúarbrögð í Sovétríkjunum, gerði vantrú að lögum; nokkuð líkt því þegar Ólafur Tryggvason neyddi þá sem trúðu á goð eða ekki neitt til að verða kristnir, eða réttdræpir. Afleiðingarnar voru þeir að fólk fór að ástunda trú sína í leyni. Á síðustu öld neyddist fólk í fjölda landa Evrópu og Asíu til að fela sína trú vegna ofsóknar vantrúarmanna. Mörg árhundruð hafa vantrúaðir þurft að fela vantrú sína vegna ofsókna trúaðra.

Þetta virðast vera tvær hliðar á tuttugu hliða teningi.

Það er flott þegar fólk trúir á eitthvað sem er þeim æðra, á eitthvað sem þekkingarfræði vísinda getur ekki snert, og reynir ekki að snerta. Ástæðan er sú að í trúarbrögðum finnur fjöldinn oft á tíðum visku sem gerir þeim fært að lifa í sátt og samlyndi.  Það er líka flott þegar fólk hefur enga þörf fyrir trúarbrögð og lifir samkvæmt þeirri sannfæringu.

Það sem er hins vegar pirrandi er þegar fólk úr öðrum hópnum reynir að sannfæra hina um að þeir hafi rangt fyrir sér, annað hvort með ofsatrú á rök, eins og þau hinstu rök séu byggð á einhverju öðru en trú, eða með trúarbókstöfum. Hvorugt er virkilega sannfærandi. 

Það væri best í þeim heimi sem ég bý í að fólk fengi að vera trúað eða trúlaust í friði. Það er það sem trúfrelsi snýst um. Þá finnst mér allt í lagi að trúaðir og trúlausir haldi fram sínum boðskap og að fólk læri um hann, og móti sér sínar eigin skoðanir um heiminn. 

 Það að þola ekki einhvern annan fyrir að vera svolítið öðruvísi en maður er sjálfur er svolítið eins og að vera upptekinn af því þegar einhver vogar sér að vera á ólíkri skoðun einhvers staðar í netheimum.

Annars langar mig að ljúka þessari hugleiðingu á pælingu frá manni sem virðist hafa áttað sig á samfélagslegu mikilvægi trúarbragða, sem ópíum fyrir fjöldann:

 

"Trúarleg streita er í sömu mund tjáning raunverulegrar streitu og mótmæli gegn raunverulegri streitu. Trúarbrögð eru andvarp hinnar kúguðu skepnu, hjartað í miskunnarlausum heimi, rétt eins og þau eru andinn í andlausum aðstæðum. Þau eru ópíum fyrir fólkið. Gjöreyðing trúarbragða sem tálsýn hamingju fyrir fólkið er nauðsynleg til að það geti öðlast raunverulega hamingju. Krafan um að hafna tálsýn um ástand þess er sú krafa að hafna ástandi sem krefst tálsýna." Karl Marx

 

Svarið við spurningunni um hvernig heimurinn væri án trúarbragða, væri sjálfsagt í líkindum við ef spyrt væri hvernig hátíðarmatur væri án hátíðar, eða hvernig rauðvín braðgðist án berja, eða hvernig mexíkóskur matur bragðaðist án kryddjurta. Heimurinn væri sjálfsagt fátækari og bragðdaufari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

http://www.youtube.com/watch?v=6p5jnqEyUs4

Björn I (IP-tala skráð) 7.12.2011 kl. 18:53

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Hrannar Baldursson, 7.12.2011 kl. 19:37

3 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Heimur án trúarbragða gæti hreinlega ekki verið til !

Vegna þess að við finnum hið innra, að lífið er miklu meira heldur en að ganga nokkra metra eftir jörðinni og deyja svo átakalaust. Nema þeir sem sannarlega taka út kvalir þegar þeir ganga í gegnum dauðans dal.

Það er því miður eitt slíkt tímabil nú, að allt of margir lifa fyrir MacDonalds hamborgara.

Á móti kemur að einnig er mikið trúarlíf hjá flestum þjóðum.

Vandinn er sá að hógværð þarf að fylgja okkur eins og skugginn, hvort heldur sem við erum trúuð eða vantrúuð.

Með hógværðinni kemur meiri reisn, meiri mannvera verður sýnilegri.

Við þurfum að gleðjast með hógværð, þá verður gleðin okkur blessun.

Fari gleðin út fyrir viss mörk, er það ekki lengur nein gleði, heldur galsi, sem auðveldlega fer yfir mörkin og er þá allt í einu orðin bölvaldur.

Takk fyrir pistlana þína hógværi maður!

Sigurður Alfreð Herlufsen, 7.12.2011 kl. 20:34

4 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Það kostar milljarða á milljarða ofan af almannafé  að halda lífi í öllu þessu gjörsamlega órökstudda trúarbragðakjaftæði og ætti það að segja sína sögu. Þetta er greinilega nígeríusvindl allra tíma.

Það má vel vera að einhver guð sé til eða annar kraftur sem stýrir þessu öllu en ef svo er þá hefur hann því miður ekkert látið vita af sér hingað til. Auðvitað hefur hann alltaf verið að tala við einhverja svikastrumpa en þú hefur bara þá sjálfa fyrir því og það er bara eins og hver önnur fjársvikakjaftasaga.

Baldur Fjölnisson, 7.12.2011 kl. 21:38

5 identicon

... sagði Baldur og staðfestir það sem Hrannar er að segja.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 7.12.2011 kl. 23:56

6 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Þetta eru svo sem ágætis ævintýri sumt af þessu þannig séð en samt frekar léleg söluvara. Mér hefur td. verið gjörsamlega hulið síðustu áratugina hvernig nokkur einasti heilvita maður getur tekið þennan blessaða guð alvarlega þegar hann heldur því blákalt fram í trúarbók sinni að jörðin sé flöt og hvíli á stöplum. Að vísu held ég að nýlega hafi orðið endanlega ómögulegt að finna vitleysing sem væri tilbúinn til að láta kalla sig kirkjumálaráðherra, sem er vonandi góðs viti.

Þeir sem vilja stúdera þessa vitleysu eiga að gera það í sínum málfundaklúbbum á eigin kostnað. Mér finnst þó vel koma til greina að hið opinbera styrki þessar ævintýrapælingar um nokkrar milljónir á ári. 

Baldur Fjölnisson, 8.12.2011 kl. 00:33

7 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Bráðum verður Baldur, hér að ofan, búin að tala sig inn á, að það fyrirkomulag sem nú er við lýði, sé bara ágætis lausn.

Trúarlífið fái þann sess sem því ber og samnefnari þjóðarinnar er sáttur við.

Þetta er allt saman hið besta mál, jafnvel hinir hörðustu andstæðingar sjá að við erum sammála um fleira en að þrefa. Getum líka verið sammála um meginlínur.

Ég segi við Baldur: "Velkomin í hóp almennra borgara sem vilja halda í núverandi fyrirkomulag, enda eru trúlausir menn svo fámennir þegar upp er staðið."

Sigurður Alfreð Herlufsen, 8.12.2011 kl. 00:53

8 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Sigurður Alfreð Herlufsen , eins og ég segi þessar trúarspekúlasjónir eru mér svo sem að meinalausu ég vil bara minnka kostnað hins opinbera vegna þeirra úr fimm milljörðum í nokkrar milljónir. Það ætti ekki að hafa minnstu áhrif á svokallað trúarlíf fólks.

Baldur Fjölnisson, 8.12.2011 kl. 01:06

9 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Ágæti Baldur,

ég sé að þú hefur ræktað líkama þinn vel og hann er fallegur og stæltur.

Þú átt hrós skilið fyrir að leggja þig fram um að byggja upp heilsuna.

Þetta segi ég með þeim fyrirvara að þú notir ekki stera eða annan ólyfjan, því slíkt er hámark sýndarmennsku og óheilbrigð lífs.

Á sama hátt og þú gerir vel við líkama þinn, er einnig mjög mikils um vert að huga að sinni andlegu vegferð. Hver tilgangurinn með veru okkar hér er, og hvort við getum haft áhrif á andlega þróun okkar og þroska.

Eftir svona 40 til 50 ár verður þú orðin aldraður og þroskaður maður. Þinn stælti líkami verður ekki samur þegar þar erkomið sögu. Hins vegar verður þinn andlegi líkami og sál enn þá í fullu fjöri og þá er líklegt að skoðanir þínar og langanir verði gjörólíkar því sem þær eru nú.

Allt þetta er umhugsunar virði. Trúarlífið tekur einmitt á þeim málum og reynir að færa okkur svör.

Ég sé á afstöðu þinni í síðasta bloggi að þú ert tilbúin til að gefa þessum andlegu málum eitthvert rými. Það bendir til að þú sért þrátt fyrir allt leitandi að svörum og þá tel ég að þú sért á réttri leið - og einnig til hamingju með það.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 8.12.2011 kl. 02:21

10 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Góðar pælingar, - og svo innilega sammála um þetta með sannfæringuna. -

Besti áhrifavaldurinn er að vera fyrirmynd. - Ég er kennari, bæði að mennt og í eðli mínu og reynsla mín hefur sagt mér að það skiptir miklu meira máli hver segir orðin en hvað þau segja. 

Ef að sá sem segir orðin lifir þau, er trúverðug manneskja - er miklu líklegra að aðrir fari að hlusta. -  Þetta er það sem við sjáum í uppeldi barna.  Móðir sem býsnast yfir sjálfri sér fyrir framan spegilinn, að hún sé aldrei nógu falleg eða grönn, kennir dóttur sinni þessa hegðun,  svo að það skiptir engu máli þegar dóttirin  fer að býsnast yfir að hún sjálf sé of feit eða ekki nógu falleg, hvað mamman segir.  Mamman er búin að kenna þetta með sinni hegðun. 

Það væri auðvitað hægt að taka miklu fleiri dæmi, sbr. foreldrið sem reykir en segir barninu sínu að fara aldrei að reykja. O.s.frv. 

Þannig að besti boðskapurinn er í raun að vera sá eða sú sem við segjumst vera og lifa það. 

Fagnaðarerindið er m.a. það að við megum vera ófullkomin.  Við megum gera mistök og fara út af sporinu. - Það er líka góð fyrirmynd, - þó þetta virki kannski svolítið þversagnarkennt. -  

En ef einhver ætlar að vera hann sjálfur/hún sjálf þarf viðkomandi auðvitað að horfast í augu við að vera ófullkomin - og það eru líka góð skilaboð til annarra.  Fullkomnunarárátta byggist oft á því að geta ekki fyrirgefið sér að gera mistök.  Það er fullkomnunaráráttan sem leiðir út í prófakvíða, anorexíu og býr til ótta við að mistakast.  

Það þarf því líka að vera fyrirmynd í því hvernig við tökumst á við mistök - ekki fela þau, heldur játa, fyrirgefa, - og svo læra af þeim.  Það getur þurft nokkrar tilraunir.   

Hmm... Þetta spratt út af trúmálaumræðunni.  Það er þetta að halda að hægt sé að neyða trú upp á fólk eða vantrú,  sannfæra um að "mín skoðun" eða mín hugmyndafræði sé rétt og náungans röng, sem fer eflaust mest í pirrurnar á okkur. -  

Við komum alltaf á upphafsreit í svona umræðu, - þetta snýst alltaf um hvern og einn einstakling.  Hvað vil ég, og hverju trúi ég? -   Þegar einstaklingur veit hver hann er og hvað hann vill,  þá svarar hann því fyrir sig.  Að sjálfsögðu segir hann sína sögu,  ef hann vill.  Einhver tekur hann sem fordæmi og tileinkar sér svipuð viðhorf.  Það er það sem við erum að gera á hverjum degi.  Spegla okkur í heiminum og spegla okkur til heimsins.  

Hið mikilvægasta er að vera heil og sönn. 

Nú er ég hætt ;-) 

Takk fyrir góðan og vekjandi pistil Hrannar. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 8.12.2011 kl. 09:13

11 identicon

Heimurinn væri mun betri.. trúarbrögð eru geðsjúkdómur sem fékk virðingu.. vegna þess að fólk vildi ekki vera dautt þegar það var dautt, fór það að taka þátt í fáránlegu veðmáli um líf eftir dauðann.

Trúarbrögð hafa heft mannkyn, sett okkur á hækjur í árþúsundir, hindrað framfarir.. trúarbrögð keyrast áfram af græðgi og littlu öðru.

Jóhanna er kannski gráðugasta manneskja íslands.. :)

DoctorE (IP-tala skráð) 8.12.2011 kl. 11:36

12 Smámynd: Heimir Tómasson

Trúarbrögðin réðu öllu um tíma ... tíma sem að kallaður er "hinar myrku miðaldir".

Go figure.

Heimir Tómasson, 8.12.2011 kl. 12:31

13 identicon

Fagnaðarerindið er í grófum dráttum það að hreinsa okkur óæskilega fólkið í burtu frá hinum sanntrúuðu.  Hjal Jóhönnu hér að ofan um einhverja aðra túlkun er bara kjánaleg leið til að sannfæra sjálfa sig um að val hennar byggi á einhverju öðru en óverðskulduðri von um jákvæðan samanburð við náungann.

Trúarlífið færir engin svör líkt og Sigurður heldur fram, heldur fyllir inn í göt þar sem þekkingu skortir með hagsmunatengdu bulli sem ég man ekki eftir að hafa nokkru sinni staðist er fram liðu stundir og þekking jókst.  Þó svo að mann skorti einhver svör, þá þýðir það ekki að rökrétt sé að fylla í þau göt með bara einhverju.

Hér er  svo annað brot úr Family Guy sem sýnir afleiðingar trúarbragða.

http://www.youtube.com/watch?v=rzcsAu5XR50

Björn I (IP-tala skráð) 8.12.2011 kl. 13:47

14 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Strákar mínir,  verið bara góðar fyrirmyndir ykkar sjálfra og barnanna ykkar - eða annarra manna barna and "all is well"  ;-)

Fyrirmyndin felst m.a. í því að þora að vera maður sjálfur = hugrekki til að lifa eftir eigin vali. -  Gott þið eruð sáttir við ykkar val. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 8.12.2011 kl. 15:47

15 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir góðar athugasemdir.

Þær eru hver annarri betri, og ekki verra að fá smá Family Guy húmor inn á milli, en þær söguskýringar sem þar birtast tek ég samt hæfilega alvarlega.

Hrannar Baldursson, 8.12.2011 kl. 16:43

16 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Ekki get ég séð að nokkuð væri í raun öðruvísi hér þó að trúarbrögð hyrfu.

Fólk finnur sig alltaf knúið til að sjá gott og illt, hvort sem það er trúarlegs eðlis eða af einhverjum öðrum orsökum.

Ég er ekki trúaður svona sem dæmi en ég aðhyllist stefnu virðingar og hlutleysis varðandi trúarbrögð. Sem dæmi þá mun Baldur Fjölnisson ekki vera maður tillitseminnar ef marka má orð hans, en hann nýðir niður þá trúuðu. Hann hlýtur þó að trúa á eitthvað fyrst hann lætur svona.

ég leyfi börnunum mínum að velja hvort þau vilji vera meðlimir í trúfélagi eins og mamma þeirra, eða þá að velja mína leið sem er annars ágæt þar sem ég þarf ekki að fara eftir dyntum preláta og annarra spámanna.

Eitt er þó víst að ef ég væri trúaður þá myndi ég yðka þá trú í einrúmi fyrir mig en ekki presta, páfa, eða hvað skal kalla alla þessa spámenn.

Ég valdi trúleysið vegna þess að ég vil geta valið að vera góður við þá sem ég vil vera góður við. Ég læt ekki biblíur og aðrar skáldsögur byrgja mér sýn.

Með kveðju

Kaldi

Ólafur Björn Ólafsson, 8.12.2011 kl. 18:19

17 identicon

Meiri Family Guy, það er sannleikskorn í þessu held ég: http://www.youtube.com/watch?v=6p5jnqEyUs4

:)

Bragi (IP-tala skráð) 8.12.2011 kl. 21:43

18 Smámynd: Hrannar Baldursson

Bragi, þetta myndband er það sama og Björn benti á í athugasemd 1, en takk fyrir.

Reyndar held ég satt best að segja, að trúarbrögðin (ekki bara kristni) hafi tekið mikinn þátt í að efla vísindi og vernda menningarverðmæti, þó að dæmi séu til um hið gagnstæða. Að minsta kosti hafa hindurvitnin verið skráð, og hægt er að byggja á áreiðanlegum heimildum og hver maður getur tekið eigin afstöðu. 

Þar að auki sé ég ekki miklar vísbendingar um að þeir sem ganga til kirkju eða bænahúsa hagi sér nauðsynlega samkvæmt þeim boðskap sem þeir þykjast fylgja. Það þýðir þó ekki að allir séu þannig.

Hrannar Baldursson, 9.12.2011 kl. 06:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband