Forsetinn hefur gefið tóninn: íslensk þjóð er ekki huglaus aumingi

Forseti íslenska lýðveldisins, herra Ólafur Ragnar Grímsson sýndi hugrekki í dag þegar hann hafnaði að skrifa undir samning sem hefði samþykkt Íslendinga sem skríðandi aumingja. Þess í stað fáum við tækifæri til að standa í fæturna og snúast gegn því óréttlæti sem dunið hefur yfir fjölda Íslendinga frá fyrstu dögum Hrunsins.

Kjarni þessa óréttlætis er sáraeinfalt:

Miklum auðævum var rænt af Íslendingum, sem og fólki frá öðrum löndum. Í stað þess að leita sökudólganna, loka þá inni, frysta eigur þeirra og stöðva þau; var ákveðið að leita ekki sökudólga, heldur láta hina íslensku þjóð borga fyrir, og ekki nóg með það. Hinir grunuðu ganga enn lausir og eru byrjaðir upp á nýtt, en hinn almenni borgari sligast undir stöðugt aukinni þyngd.

Með samþykkt á þessum fræga samningi hefði þyngdin einfaldlega haldið áfram að aukast og sífellt fleiri fallið hljóðlaust í valinn, sífellt fleiri gamalmenni að hverfa frá þar sem ekkert pláss er lengur fyrir gamalmenni, sífellt fleiri sjúklingar að falla frá þar sem ekkert pláss er lengur fyrir sjúklinga, og sífellt fleiri blankir að hverfa úr landi þar sem ekkert pláss er lengur fyrir blanka.

Þetta skref forsetans getur verið mikið gæfuspor ef haldið er rétt á spilunum. Helstu verkefni sem liggja fyrir eru þessi, og alþjóðasamfélagið verður að skilja það:

1. Finna skal og dæma á réttlátan hátt alla þá réttnefndu glæpamenn sem misnotuðu aðstöðu sína til að öðlast auð með vafasömum aðferðum;
  • eins og kúlulánum, þar sem bæði sá sem lánaði og þáðu lánið bera ábyrgð;
  • arðgreiðslur frá fyrirtækjum sem rekin voru með tapi;
  • kennitöluflakk fyrirtækja og sá peningaþvottur sem því fylgir;
  • stöðutökur gegn íslensku krónunni - sem virðast einkum hafa verið notaðar rétt fyrir Hrun til að sýna fram á hagnað þegar aðeins um tap var að ræða, en þær tölur hafa sjálfsagt verið notaðar í arðgreiðslur;

2. Nauðsyn er á virkri samvinnu með alþjóðasamfélaginu til að hafa upp á hinum réttu þrjótum; nauðsyn er á virkri upplýsingagjöf til

  • ríkisstjórna erlendis,
  • fjölmiðla erlendis og
  • vísinda- og fræðimanna erlendis (þar sem sannleikurinn virðist ekki flæða eðlilega frá fjölmiðlum til fólksins, hugsanlega vegna fjölmiðlakreppunnar, þar sem dagblöð virðast vera á hrakhólum um allan heim)
  • Íslendinga

Það er stórt og alvarlegt verkefni fyrir höndum, sem hægt er að eyðileggja með flokkapólitík, erjum og hugleysi, eða hægt að tækla með hugrekki, samstöðu og hyggjuviti, sem við Íslendingar höfum nóg af og ættum ekki að skammast okkur fyrir að hafa. Það var nefnilega ekki hyggjuvitið sem kom okkur í vandræði, heldur stjórnlaus og eftirlitslaus græðgi og traust sem ekki hafði innistæðu.

Ég vil þakka herra Ólafi Ragnari Grímssyni fyrir að sýna af hverju forsetaembættið er nauðsynlegt og af hverju okkur ber að virða þetta embætti, sem gaf þjóðinni tækifæri til að stoppa alvarleg mistök frá því að verða að veruleika. Íslendingar hafa góða ástæðu til að vera stoltir af sínum forseta í dag, þrátt fyrir að verkefnin framundan verði erfið, en þau eru þó byggð á samhug og vilja íslensku þjóðarinnar, nokkuð sem er margfalt gæfulegra en sundurlyndi og minnimáttarkennd.

Ég þarf þó að vera ósammála mínum gamla og góða félaga Eiríki Bergmann, sem túlkar þetta sem breytingu á embætti forseta Íslands og gera það pólitískara en það var. Svo er ekki, því að ákvörðun forsetans var alls ekki pólitísk, heldur þverpólitísk og vann meira að segja gegn hans eigin pólitísku skoðunum. Hann hafði greinilega heill þjóðarinnar í huga og það ber að virða. Því miður hefur fólk komist upp með að bera nánast enga virðingu fyrir forsetaembættinu í orði, en nú hefur forsetinn sýnt að það er virðingarvert á borði. Því vona ég að fólki fari að snúast hugur um mikilvægi þessa embættis, þrátt fyrir að einhverjum pólitíkusum hafi tekist að gera það umdeilt og óvinsælt, með smærri hagsmuni í huga en þjóðarinnar allrar.

Forsetinn hefur gefið tóninn. Nú er það hlutverk þjóðarinnar að spila undir svo eftir verður tekið, um alla heimsbyggð.

 

Eins og ævinlega býð ég þér að skrifa athugasemd hérna fyrir neðan, með eða án nafns, með eða án skráningar. Óska ég þó eftir kurteisi. Einnig mega lesendur afrita úr þessari sem og öðrum greinum mínum, en verða þó að geta höfundar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir frábæran pistil.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 5.1.2010 kl. 18:10

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Forsetinn hefur ekki gefið tóninn. Hins vegar hefur hann rétt óvitum eldspýtustokk.  Við skulum sjá hverjir verða kallaðir til að slökkva þá elda sem þessir óvitar kveikja núna

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 5.1.2010 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband