Bloggfærslur mánaðarins, október 2023

Um það sem við höfum og það sem við höfum ekki

Image

Sum okkar þráum sífellt meira og sum okkar viljum aðeins það sem við þegar höfum. Að þrá sífellt meira má tengja við græðgi og samkeppni, en að vilja það sem við höfum má tengja við sátt og þakklæti. Að þrá sífellt meira er tengt við efnisleg gæði en að þrá það sem við höfum er tengt við andleg og siðferðileg gæði. Stundum er þrá eftir því sem við höfum ekki kallað metnaður og þrá eftir því sem við höfum ekki kallað metnaðarleysi.

Efnisleg gæði eru takmörkuð, þar erum við að tala um peninga, völd og fallega hluti, en andleg og siðferðileg gæði eru ótakmörkuð, en þar erum við að tala um dygðir, góðan vilja, hugrekki, seiglu og margt sambærilegt.

Sum okkar halda kannski að tilgangur lífsins tengist því að sækjast eftir efnislegum gæðum. Sem reyndar er ósköp tilgangslaust í sjálfu sér því þegar við föllum frá munum við ekki halda þeim gæðum.

En hvað um andlegu og siðferðilegu gæðin, verður eitthvað eftir af þeim þegar við höfum fallið frá? Er einhver tilgangur með þeim? Hvað skilur kennsla eftir, skáldsaga eða ritgerð, það eru andleg gæði. Og hvað um góðmennskuna, að hjálpa fólki í neyð, að gera það sem er rétt, mun það skila sér útfyrir líf og dauða?

Efnislegu gæðin eru eitthvað sem virka fyrir okkur hér og nú, en andlegu og siðferðilegu gæðin virðast alltaf eiga við, og eru ekkert endilega tengd einni manneskju, heldur heild okkar, samfélaginu, jafnvel mannkyninu.

 


Um fyrirmyndina þig

Image

Stundum finnst okkur við sjálf vera miðja alheimsins, að augu allra beinist að okkur, að hegðun okkar, hverju við segjum, ákvörðunum okkar; að einhver sé alltaf að dæma okkur. Það er að hluta til statt, en að mestu ósatt.

Það er frekar ólíklegt að einhver utanaðkomandi fylgist stöðugt með okkur, því að við séum að haga okkur eins og við ættum að haga okkur, segja það sem við ættum að segja, ákveða það sem við ættum að ákveða. Reyndar fylgjast stór kerfi með okkur frekar en manneskjur, kerfi eins og Facebook, TikTok, Google, Snapchat og þar fram eftir götunum, og upplýsingar um okkar eru notuð til að selja auglýsingar og vita aðeins meira um tíðarandann á okkar svæði í heiminum. 

Talað er um þessar upplýsingar sem hið nýja gull, að þeir sem stjórni upplýsingunum geti stjórnað heiminum. Það kannast flestir við hvernig Cambridge Analytica notaði upplýsingar frá Facebook Like hnappinum til að hjálpa stjórnmálamönnum að vinna kosningar í Bretlandi og Bandaríkjunum, þar sem menn eins og Boris Johnson og Donald Trump komust til valda, og sjálfsagt hafa þessi tæki verið notuð víðar, hugsanlega á Íslandi líka. (Wikipedia, 2023) 

En það er sama hvort það sé satt að einhver utanaðkomandi sé sífellt að fylgjast með okkur, þá skiptir það svo litlu máli í samanburði við þá einu manneskju sem skiptir allra mestu máli, mann sjálfan. 

Hefur þú velt fyrir þér hversu mikilvægt er fyrir þig að vera góð fyrirmynd fyrir þig? Málið er að þú ert alltaf að fylgjast með því sem þú gerir, því sem þú hugsar, það sem þú ákveður. Enginn þekkir þig betur. 

Ef þú hugsar, gerir eða ákveður eitthvað rangt, þá ert það þú sem áttar þig á því fyrst og fremst. Og frekar en að hafna því að hafa gert einhver mistök, þá þarftu að viðurkenna það fyrir sjálfum þér, viljir þú læra af þeim, og gera þig að betri manneskju.

 


Um siðferði og markmiðasetningu

Show a cowboy riding into the sunset. Photorealism.

Gamalt orðtæki sem hægt er að rekja aftur til 11. aldar í aðeins annarri mynd segir að vegurinn til heljar sé lagður í góðum tilgangi. Þessi hugmynd er rakin til abbotans heilags Bernarðs frá Clairvaux.

Stundum lendum við í aðstæðum þar sem við þurfum að taka ákvörðun um hvernig við eigum að haga okkur. Hvort við eigum við að einbeita okkur að siðferðilega réttri hegðun eða einbeita okkur að afleiðingum þess sem við ætlum okkur að gera, einbeita okkur að markmiðinu?

Ef við erum of markmiðamiðuð, þá getum við villst af leið og malbikað okkur til helvítis, sem þá væntanlega flestir mundu einhvern tíma vilja heimsækja, svo framarlega sem vegurinn er góður. Besti mögulegi heimurinn verður ekki til þegar fólk nær markmiðum sínum, heldur þegar það gerir það sem er rétt og í samræmi við það sem er réttlátt og dyggðugt. 

Markmið okkar eru takmörkuð og sum eru illa hugsuð, og sum jafnvel illviljuð. Markmið tengjast siðferði með engum hætti, það er jafnt hægt að setja sér markmið um að eyðileggja manneskju og að byggja hana upp. Það er nokkuð augljóst fyrir velviljaða manneskju hvort markmiðið er betra, en það krefst þess þó að manneskjan sé velviljuð.

Þessi góði vilji er nefnilega tengdur inn í siðferðilega hegðun, og er í raun mælikvarði á hvað er gott og hvað er illt, sem þýðir reyndar að viðkomandi þarf að hafa djúpan skilning á hvað er gott, hvað er illt, hvað er rétt, hvað er rangt, hvernig við byggjum upp dyggðuga hegðun og hvernig lestir brjótast fram, og sem hefur byggt eigin persónuleika á réttlæti, hugrekki og visku frekar en ranglæti, hugleysi og fávisku.

Samt þurfa þeir sem hafa góðan vilja að velta fyrir sér afleiðingum hegðunar sinnar. Segjum að þeir viti að það að berjast fyrir réttlæti gæti kostað þá og fjölskyldu þeirra lífið, vegna þess að ranglátt fólk fer með völdin. Hvað væri rétt að gera fyrir slíka manneskju, bíta í skjaldarendurnar, vera hugrökk og gera það sem er rétt, eða leyfa ranglætinu að halda áfram ferð sinni?

 


Um gagnrýni og traust

Show a confused cowboy sitting at an old wooden table being blamed by some and praised by others. Photorealism.

Það er mikilvægt að treysta þeirri manneskju sem gefur þér lof að skammir, og þetta samband vex ef þú getur leitað til hennar og spurt hvað það var sérstaklega sem henni fannst lofsvert eða hvað var svona illa gert. Gefi manneskjan ekki færi á slíkum samskiptum, þá er henni því miður ekki treystandi, og þá væri réttast fyrir þig, því miður, að hlusta ekki lengur á það sem hún hefur að segja.

Á endanum getum við aðeins gert það sem við gerum, eins vel og við getum það. Stundum verður okkur á, eins og tónlistarmanni á sviði sem slær á falska nótu. Sumir gætu rokið út í fússi og sagt að tónlistarmaðurinn sé ómögulegur. Þetta fólk má eiga sig. Aðrir gætu staldrað við áfram og samþykkt að tónlistarmaðurinn sé mannlegur, fyrirgefa honum feilnótuna og halda áfram að njóta þeirrar góðu listar sem hann stundar. 

Í lok tónleikanna munu sumir skamma hann fyrir þessi einu mistök og aðrir lofa hann fyrir að halda áfram þrátt fyrir mistökin. Sérstaklega ef hann viðurkennir þau, ypptir öxlum brosandi, og segir eitthvað eins og ‘obbossí’ og síðan mætti hann syngja:

 

“Því stundum verður mönnum á

styrka hönd þeir þurfa þá

þegar lífið, allt í einu, sýnist einskisvert.

Gott er að geta talað við

einhvern sem að skilur þig.

Traustur vinur getur gert kraftaverk.” 

 

(Texti eftir Jóhann G. Jóhannsson)

 


Um lygar og veruleikann

Show a tired cowboy surrounded by bandits. Photorealism.

Hver kannast ekki við að fólk sjái veruleikann á afar ólíkan hátt, og jafnvel að einn atburður sé túlkaður með harðri dómgreind sem á sér engar stoðir í veruleikanum? Síðan þegar sönnunargögn eru skoðuð kemur í ljós að það var eitthvað annað sem réð för hjá viðkomandi en sannleiksleit. Í kjölfarið geta fylgt eftirmálar sem skaða alla þá sem að málinu koma.

Fyrir löngu síðan, einhvern tíma sem barn, tók ég þá ákvörðun að ljúga ekki. Ástæðan var byggð á tvennu, annars vegar að þegar það getur verið nógu erfitt að vera með sannleikann á hreinu, af hverju þá að flækja hann með lygum; og í öðru lagi mamma sagði mér að það væri ósiður að ljúga. Eftir að hafa pælt í þeirri staðhæfingu stundarkorn, var ég henni sammála. 

Samt viðurkenni ég að það er til ákveðin þörf fyrir ósannindi, og þeirri þörf veiti ég sjálfur í skáldskap, þegar ég skrifa sögur - en það er skýr rammi og leikreglur sem fylgja því að segja sögur og láta ekki eins og þær séu hluti af veruleikanum, en þegar kemur að því að átta mig á heiminum og því sem er, þá byggi ég aðeins á því sem ég veit að er satt og rétt. Ef mér verður á og ég byggi það sem ég trúi á einhverju ósönnu, þá geri ég mitt bestu til að uppræta þá trú í sjálfum mér, það er að segja, þegar ég átta mig á hvað hefur verið í gangi. Við þurfum nefnilega að uppræta eigin fordóma, annars grassera þeir.

 


Um hið góða og illa

Show a good cowboy reflecting on all the evils and good of the universe. Photorealism.

Við getum verið dugleg að fordæma hluti og manneskjur sem hafa ekkert með okkur að gera. Einhver er með lélegan fatasmekk, einhver tekur fáránlegar ákvarðanir, einhver annar fíkill, annar glæpamaður, hinn lygari, og annað verra. Við getum í huga okkar ákveðið að það sem þetta fólk hefur gert sé illt, en það sem sú ákvörðun þýðir, er að við munum sjálf forðast að taka slíkar ákvarðanir eða hegða okkur með slíkum hætti. Ekkert annað og ekkert meira.

Þegar við reiðumst annarri manneskju fyrir að gera eitthvað sem við teljum illt, þá ættu einu áhrifin að vera þau að við ákveðum að haga okkur ekki með sama hætti. Rétt eins og þegar einhver hefur gert eitthvað virkilega gott, þá getum við notað tækifærið og æft okkur að haga okkur með svipuðum hætti. 

Í gangi hafa verið upphróp um hinsegin mál sem hluti af fræðslu í skólum. Ég forðast að taka þátt í slíkum upphrópunum, því ég held að upphrópunin sem slík skili hvorki sjálfum mér né samfélaginu neinu góðu. Síðan les ég grein eftir Dr. Davíð Þór Björgvinsson, prófessor, Hinseginfræðsla og baráttan um barnsálina, og þarna sé ég grein sem ég get tekið mér til fyrirmyndar. Það má læra ýmislegt af henni. Í stað þess að hrópa og væla, veltir hann fyrir sér hliðum málsins út frá lagalegu og siðferðilegu samhengi, en kjarninn í greininni fjallar ekki um hans skoðun eða hvað okkur ætti að finnast um þetta mál, heldur atriði í Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem segir “að tillit sé tekið til trúar- og heimspekilegrar sannfæringar þeirra (foreldra - innskot HB) við skipulag og framkvæmd þessarar færslu. Kjarni málsins er sá að ef fræðsla býðst börnum sem stríðir gegn siðferðiskennd eða trú foreldris, þá er slík fræðsla ekki réttmæt. 

Það sem ég tek hins vegar með mér, er hversu gott er að rökræða málin heldur en að bera tilfinningar sínar á torg, og það er eitthvað sem ég tek til mín sjálfur. Ég vil frekar vanda mig þegar ég skrifa um vandasama hluti en að segja bara hvað mér finnst, það er meira upplýsandi og fróðlegt.

 


Um fangelsi hugans

 Show a cowboy locked inside a prison of his own stubborn mind. Photorealism.

Vandamálið með þrjósku er að hún lokar úti nýjar hugmyndir og upplýsingar, sem virkar þannig eins og manneskja sem hefur lent í fangelsi og þarf að dúsa þar, en þrjósan er ennþá meiri harmleikur, því það er manneskjan sjálf sem dæmir sig í fangelsi, stingur sér inn, er eigin fangavörður og er vís til að gleyma lyklunum til dauðadags.

Það er stundum talað um að heimska sé ólæknandi sjúkdómur. Helsti eiginleiki heimsku er þrjóska. Hugsanlega er þrjóska einnig sjúkdómur, en varla ólæknandi, því við höfum í hendi okkar að geta lært nýja hluti, hlustað á annað fólk, meðtekið nýjar upplýsingar, áttað okkur á að heimurinn er kannski ekki nákvæmlega það sem við höldum að hann sé, og þannig leyft okkur að stækka okkar eigin vitund um heiminn. 

Eftir því sem við skoðum heiminn betur, förum lengra og leyfum okkur að upplifa hvernig hann er og getur verið, þá sjáum við að hann er með einhverjum hætti öðruvísi en við ímynduðum okkur.


Um þrjósku og stöðnun

 Show a stubborn cowboy head to head with a bull. Photorealism.

Hver þekkir ekki þrjósku týpuna, einhvern sem hefur tekið ákvörðun og stendur síðan við hana sama hvað, nema kannski þegar það hentar honum ekki prívat og persónulega? Ég vil halda því fram að á meðan þrjóska getur gefið okkur ákveðinn skýrleika, því hún einfaldar heiminn og takmarkar hann við okkar eigin ákvarðanir, þá er hún í eðli sínu afar óskynsamleg leið til að lifa lífinu.

Málið er að ef þú tekur ákvörðun sem þú ætlar alltaf að standa við þarftu að vera viss um að hún byggi á réttum upplýsingum og að niðurstaða þín út frá þessum upplýsingum sé ekki aðeins rétt í dag, heldur einnig um ókomna tíð.

Þrjóskan er afar almennt fyrirbæri, og sjálfsagt helsta ástæðan fyrir því að framfarir mannkyns taka afar langan tíma, því þegar spurt er um réttmæti þrjóskra ákvarðana, þá verður þeim ekki haggað fyrr en þrjóska manneskjan er fallin frá eða hefur misst völd sín. 

Það segir sig sjálft að eftir því sem þrjóska manneskjan hefur meiri völd í samfélaginu, því meira mun hún halda aftur af æskilegum breytingum, þróun og nýjum leiðum. Hún er fulltrúi stöðnunar, að heimurinn skuli vera í samræmi við hennar eigin heimsmynd, frekar en að þróast í eitthvað nýtt sem gæti verið erfitt að stjórna.

 


Um manneskjur og hluti

May be an image of 2 people

 

Þegar við flokkum manneskjur, þá erum við að merkja þær eins og hluti. Þegar við merkjum fólk eftir litarhætti, trúarbrögðum, þjóðfélagsstöðu, eða hverju sem er; þá erum við ekki að koma fram við viðkomandi eins og manneskju, heldur eins og viðkomandi sé ekkert annað en hlutur eða tölustafur. 

Hlutir og tölustafir eru viljalaus og í eðli sínu gagnleg fyrirbæri, en manneskja hefur eigin vilja, og er í eðli sínu sjálfstætt fyrirbæri sem gerir sjálfri sér gagn með einum eða öðrum hætti. 

Við þurfum að koma fram við aðrar manneskjur með virðingu, því sambandið við aðra manneskju er alltaf gagnkvæmt, það snýst bæði um að gefa og taka. Þegar kemur að hlutum, þá er ekkert að því að taka þá og nota. Þú þarft ekki samþykki þeirra. Ef þú kemur þannig fram við manneskju þá ertu kominn á hálan ís, því það er ekki á okkar færi að dæma aðrar manneskjur, því í eðli okkur er virði okkar allra jafnt, hvort sem við erum kóngar eða rónar, prinsessor eða dræsur. 

Komdu fram við fólk af virðingu, og gerðu þitt besta til að hvetja það til dáða. Komdu fram við manneskjuna í speglinum með sama hætti.

 


Um tilvist okkar

Show a female cowboy wondering while sitting in a pickup car the meaning of life. Photorealism.

Um daginn ræddum við konan mín um tilgang lífsins, og henni var einhvern veginn þannig að orði: “Ég neita að trúa því að við séum bara til, til þess eins að búa til börn og koma þeim á fót.”

Mér finnst afar vænt um þessa pælingu hennar, því hvernig getur verið að við séum í þessum heimi bara til þess að fæðast, éta og drekka, og deyja? Út frá því sjónarhorni er mannkyn ekkert annað en risastór drullupollur.

Sjálfur hef ég fundið heim í þessum heimi, allt það sem gerist í mínum eigin huga, bæði finnst mér áhugavert hvernig hugurinn endurspeglar veröldina og hvernig hann getur stöðugt búið til eitthvað nýtt. Mér finnst fátt skemmtilegra en að velta fyrir mér hvað býr í þessum huga, hvernig hann tengist veruleikanum og síðan gefa öðru fólki einhverja innsýn í hann, hafi það áhuga og vilja til þess.

Það má segja að við fæðumst og deyjum sem lífverur, sem verða að halda sér við með fæði og æti. Það er eins og mörg okkar setji samasemmerki á milli gæði = fæði, og þá getur fæðið verið ýmislegt annað en matur, til dæmis staða í samfélaginu, peningar, alls konar efnislegt ríkidæmi.

Mér verður ansi oft starsýnt á hið andlega ríkidæmi sem tengist traustum böndum hinu siðferðilega ríkidæmi. Ég hef óbilandi trú á að það sé skylda mín að vera besta útgáfan af sjálfum mér, og að leiðin sé að skilja muninn á hvað sé gott og hvað illt, og velja þá dygðir og góða siði sem ég vil rækta með sjálfum mér þannig að þeir endurspeglist í hegðun minni. Ég vil ekki að aðrir velji fyrir mig, því ég trúi ekki að við séum öll eins, þegar kemur að andlegu atferli. Efnislega erum við öll steypt í sama mót, en formið er eitthvað sem við mótum sjálf, ekki bara líkamlega formið, heldur einnig það andlega og siðferðilega. 

Ég elska bækur. Ein ástæðan fyrir því er að þær hafa reynst mér afar ríkt andlegt fæði. Ég get opnað eina af þeim fjölmörgu bókum sem ég hef keypt mér, eftir því í hvernig skapi ég er, lesið eina málsgrein, og það sem gerist er að hugur minn fer á flug, neistaflug. Ég sé hluti sem standa ekki í bókinni, heldur tengingar sem minn eigin hugur gerir við allar þær hugmyndir sem ég hef pælt í og tengir í alla þá reynslu sem ég lent í, og með hverju árinu verða þessar tengingar traustari, dýpri og áhugaverðari. Þar sem hugurinn er svo gríðarlega magnaður væri ég alveg til í að vera til miklu lengur en ég fæ að lifa heilbrigðu lífi.

Ég er ekki einn um það. Trúarbrögð hafa orðið til í kringum þessa hugmynd, að það geti ekki verið að heimurinn okkar sé bara eitthvað efnislegt, að þetta andlega form sem við höfum mótað, að það geti á einhvern hátt lifað af líkama okkar. Og þetta form okkar, sem við köllum sum sálir, er eitthvað sem sum trúarbrögð predika að geti lifað að eilífu, en svo eru aðrir sem telja það háð líkamanum og einfaldlega hverfa þegar tími okkar rennur út.

Sjálfur veit ég ekki svarið við þessari spurningu, en hins vegar veit ég að ekki þætti mér lífið merkilegt ef ég gæti ekki kafað í þessa andlegu vídd og mótað sjálfan mig á einhvern hátt. Það dugar mér að ég sé til í þessu augnabliki, og hafi þessa sýn á veruleikann sem sífellt er í mótun. Ég man þá tíð þegar ég gat ekki einu sinni hugsað heila hugsun. Það var heimspeki og skáldskap að þakka að mér tókst að fá innsýn inn í víddir míns eigin huga. Heimspeki og skáldskapur annarra hafa reynst huga mínum afar góður stökkpallur inn í mína eigin heimspeki og skáldskap, sem mig langar óstjórnlega mikið til að deila með öðru fólki.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband