Bloggfærslur mánaðarins, október 2023

Um nám og fordóma

Það er margt sem við vitum ekki. Eitt af því fyrsta sem við lærum þegar við skoðum eitthvað nýtt, er hversu lítið við í raun vitum um það og skiljum. Ef við losum okkur ekki við fordóma okkar þegar við hefjum nýtt nám, þá munu þessir fordómar lita allt námið og gera það óljóst og erfitt. Ef okkur tekst hins vegar að tæma hugann af okkar eigin fordómum um viðfangsefnið, þá verðum við opnari fyrir nýjum upplýsingu, auðveldara verður að skilja þær og byggja upp áreiðanlega þekkingu.

Ef við fyllum óhreint glas af hreinu vatni, þá fáum við óhreint vatn. Ef við setjum nýeldaðan mat á óhreinan disk, fáum við óhreinan mat. Það sama á við um nám. 

Segjum að við séum að læra um það hvernig við lærum. Þá er ljóst að við hljótum að hafa ákveðnar hugmyndir um nám. Ef við trúum að þessar hugmyndir okkar séu óhagganleg þekking og erum ekki tilbúin að fjarlægja þessar fyrirframgefnu skoðanir, í það minnsta um stund, þá verðum við hvorki tilbúin til að læra um hvernig við lærum, né öðlast djúpan skilning á hvað það þýðir að læra. 

Eitt af því sem margir trúa um nám er að það sé einhvers konar yfirfærsla þekkingar, svona rétt eins og að hella tæru vatni í hreint glas, að manneskja sem hefur þekkingu geti yfirfært hana yfir í aðra manneskju. Það væri sjálfsagt afar þægilegt ef nám virkaði svona, en veruleikinn er annar. 

Nám virkar best þegar við öflum okkur áreiðanlegra upplýsingar frá ýmsum sérfræðingum sem þekkja hugtakið vel, hafa pælt í því og áttað sig á hvað það er, og hvað það er ekki. Þessir sérfræðingar hafa byggt upp eigin þekkingu, og þeir geta sagt frá henni, geta lýst henni og útskýrt, þeir geta líka bent á heimildir og hvernig þeim tókst að öðlast þessa þekkingu; en þessa þekkingu getum við ekki tekið úr sérfræðingnum og sett í aðra manneskju. Það virkar ekki þannig. Þar að auki gæti sérfræðingi, eins og öllu öðru fólki, hafa yfirsést eitthvað sem skiptir máli.

Þegar ein manneskja lærir af annarri, þarf hún að leggja á sig mikla rannsóknarvinnu, grafast fyrir um upplýsingar frá áreiðanlegum heimildum, og byggja upp sín eigin viðhorf, þjálfa sig í notkun þessarar þekkingar og skilja hana. Skilninginn öðlast hún með því að ræða við aðrar manneskjur sem lagt hafa á sig sambærilega vinnu, og þá þarf hún ennþá að halda opnum hug gagnvart þeim möguleika að eitthvað af því sem hún telur vera rétt kunni að vera rangt. 

Samræðan snýst nefnilega ekki bara um það að sýna öðrum fram á að maður hafi réttar fyrir sér en aðrir, eða að hin manneskjan fari villur vegar, heldur  um að dýpka eigin þekkingu, skilning og viðhorf á efninu, fordómalaust.

Þannig þarf fræðimaður stöðugt að gæta sín á eigin fordómum, og reyna að kannast við hvar þeir spretta fram, bæði í eigin fari og annarra, og gera sitt besta til að útrýma þeim sem fyrst, því þeir tefja framfarir, rétt eins og baktal, einelti, ofbeldi og styrjaldir.

Vandinn við fordóma í samfélagi er að þeir geta verið lífseigir, því það er auðvelt fyrir þá sem telja sig vita eitthvað halda í eitthvað sem þeir vita ekki að er rangt; en auðveldara er að takast á við eigin fordóma, því maður þarf að gera lítið annað en spyrja sjálfan sig af einlægni, af hverju held ég að þetta sé satt, finna svar úr eigin huga og spyrja svo aftur, af hverju held ég að þetta sé satt, og halda þannig áfram þar til rökin eru skýr; en samt vera tilbúinn  að endurhugsa málið ef nýjar upplýsingar koma í ljós eða einhver gagnrýnir hugsun þína um eigin hugsun.


Um hamingjuleitina

Engum af þeim sem þekkir mig vel er það launungarmál hversu hrifinn ég er af stóískri heimspeki. Mér finnst nálgun hennar á lífið og tilveruna afar skynsamleg, sérstaklega eftir að ég hef sjálfur gengið í gegnum ýmislegt í þessu lífi sem hefði getað veitt varanlegan skaða. Stóísk heimspeki hefur fylgt mér eins og varnarhjúpur, sem byggir ekki á utanaðkomandi hlutum, heldur á mínum eigin viðhorfum til lífsins og tilverunnar. 

En veltum aðeins fyrir okkur leitinni að hamingjunni, þessu fyrirbæri sem virðist sífellt vera svo nálægt og svo fjarlægt samtímis. Leitin að hamingjunni minnir mig svolítið á fulla manninn sem leitaði að húslyklum sínum undir ljósastaur, ekki vegna þess að þeir týndust nálægt staurnum, heldur vegna þess að þar voru leitarskilyrðin betri en í myrkrinu þar sem þeir týndust.

Þannig virðast mörg okkar leita hamingjunnar í skínandi hlutum, litríkum leikföngum, miklum auð, völdum, fallegu húsi, bíl, orðspori, góðum launum, í vinum okkar og ástvinum og þar fram eftir götunum. En samkvæmt stóuspekinni leynist hamingjan ekki í því sem er fyrir utan okkur, heldur er hún eitthvað sem lifir í okkur, og hún er eitthvað sem við þurfum að næra með þakklæti og dyggðugu lífi.

Ef við veltum fyrir okkur hverju við getum stjórnað og hverju við getum ekki stjórnað, áttum við okkur fljótt á að við getum ekki stjórnað hlutum eins og veðrinu, því sem öðru fólki dettur í hug að gera, því að tíminn líður eða hvað öðrum finnst um okkur. Hins vegar getum við stjórnað því hvernig við sjálf hugsum, við getum stjórnað hegðun okkar og viðbrögðum. Það er eitt af því sem mér finnst svo heillandi við skák, hún styrkir manns innri mann upp að ákveðnu marki, maður áttar sig betur á eigin takmörkunum og getu, hverju maður getur haft áhrif á og hverju maður getur breytt, og hvernig. 

Það er nefnilega ekki það sem við lendum í sem hefur áhrif á okkur, heldur hvernig við bregðumst við þessum atburðum. Með því að stjórna sjónarhorni okkar, getum við stýrt reynslunni til að vera uppbyggjandi frekar en niðurbrjótandi.

Við þurfum að sætta okkur við að lífið gangi sinn vanagang, við eldumst, við veikjumst, á endanum deyjum við, en á leiðinni fáum við tækifæri til að upplifa frábær tækifæri, hvern einasta dag, svo framarlega sem við náum að stilla okkur inn á gott hugarfar. Leiðarljóss slíks hugarfars eru hlutir eins og viska, góðmennska, réttlætiskennd og hugrekki, ásamt fjölmörgum öðrum dyggðum sem við getum ræktað með okkur.

Hamingjan er í stuttu máli ekki eitthvað sem býr annars staðar en innan í þér, og það er þitt val að rækta hana eða skilja eftir í vanrækt. Að lifa góðu og merkingarríku lífi er lykillinn að henni, þó svo að þú týnir honum kannski einhvern tíma í myrkrinu. En mundu að ljósastaurinn ert þú, og birtan í þeim ljósastaur er alltaf nógu skær til að þú finnir lykilinn að nýju.


Um ótta, kvíða, öfund, illgirni og græðgi

Öll upplifum við einhvern tíma í okkar eigin huga ótta, kvíða, öfund, illgirni og græðgi. Við gætum talið þessar tilfinningar óæskilegar, sérstaklega sem lífsreglur, enda sjáum við að afleiðingar þeirra geta verið afar slæmar bæði fyrir okkur sjálf í daglegu lífi, á hamingju okkar og sálarheill og á fólkið sem við umgöngumst, og jafnvel samfélagið allt ef við höfum slík völd. 

Mig langar að velta fyrir mér mögulegum afleiðingum þessara fyrirbæra í venjulegri manneskju innan fjölskyldu annars vegar, og í stjórnmálamanni hins vegar sem hefur vald yfir eigin þjóð, og set þetta fram í einfaldri töflu. 

Hver og einn getur velt fyrir sér hvort að eitthvað sé til í þessu, og þá kannski skilið aðeins betur þann vanda sem birtist í eigin umhverfi af þessum sökum. Annað mál og áhugavert að velta fyrir sér, er hvernig maður nær stjórn á slíkum tilfinningum í eigin huga.

 

Tilfinning

Einstaklingur (Innan fjölskyldu)

Stjórnmálamaður (Yfir þjóð)

Ótti

Forðast að bera ábyrgð

Ofverndar fjölskyldumeðlimi

Óöryggi í persónulegum samböndum

Of varkár

Forðast nauðsynlegar ákvarðanir

Gæti reynt að hræða þegna til að stjórna

Kvíði

Pirringur yfir öðrum fjölskyldumeðlimum

Erfiðleikar við ákvarðanatöku

Heilsubrestur eins og svefnleysi

Fljótfærnislegar eða illa hugsaðar ákvarðanir

Erfiðleiki með að hlusta á aðra

Meiri stjórnandi, minni leiðtogi

Öfund

Erfiðleikar í samböndum

Ósætti við eigin stöðu í lífinu

Löngun eftir því sem aðrir hafa


Fjandskapur gegn öðrum stjórnmálamönnum

Lög sett meira tengd hagsmunum fárra en þörf þegnanna

Spilling og ósanngjörn dreifing á auði

Illgirni

Baktal og lygar um fjölskyldumeðlimi

Vantraust innan fjölskyldunnar

Möguleiki á andlegu eða líkamlegu ofbeldi

Grafið undan eða reynt að eyðileggja mannorð andstæðinga

Dreifing á áróðri og lygum til almennings

Möguleiki á þvingunum, til dæmis efnahagslegum, gagnvart þegnum

Græðgi

Hömstrun á eignum innan fjölskyldunnar

Hunsun á þörfum fjölskyldunnar fyrir persónulegan ávinning

Stíf stjórnun á fjármálum heimilisins

Spilling og auðgunarbrot

Lög sem henta útvöldum hópi betur en öðrum

Illa farið með fjármál landsins





Um hugrekki

Við vitum hvað hugrekki er þegar við sjáum það, og ekki nóg með að við vitum það, við dáumst að því, hvort sem við sjáum hugrakka manneskju að verki eða lesum um hugrakka hetju í sögu.

Hugrekki er ein af dyggðunum, eitt af því góða sem við getum ræktað í okkur sjálfum, en samt getur verið vandasamt að verða hugrakkur í raun og veru, því forsendur hugrekkis eru djúp þekking á hinu góða og réttlæti, og svo þarf að byggja upp dug til að taka réttar ákvarðanir á réttu augnabliki, þegar það skiptir máli, við þurfum að gæta þess að flýta okkur ekki um of og víkja okkur ekki undan að gera það sem er rétt. 

Eftir að hafa ræktað með okkur hugrekki, eykst sjálfstraust okkar gagnvart nánast hvaða aðstæðum sem er, við getum tekist á við þær þar sem við höfum öðlast góða þekkingu og skilning sem mun hjálpa okkur áleiðis, og þegar við áttum okkur á að þekking okkar og skilningur er ekki á því stigi sem við þurfum til að taka góða ákvörðun við þessar aðstæður, þá þurfum við að vera nógu hugrökk til að viðurkenna það, bæði gagnvart sjálfum okkur og þeim sem ætlast til að við tökum ákvörðun á staðnum.

Það krefst nefnilega hugrekkis að geta sagt: “Ég veit ekki, en ég skal komast að því, og höldum svo samræðunni áfram seinna.”

En við ræktum hugrekki fyrst með því að átta okkur á hvað það er, og þjálfa okkur að haga okkur í samræmi við það, sama hverjar aðstæðurnar eru. Þú getur byrjað á því að gera lista yfir allt það sem þú óttast, og byrjað á að takast á við það sem þér þætti auðveldast að sigrast á með hugrekki. Þú þarft að búa þér til æfingar þar sem þú þjálfar þig í að sigrast á eigin ótta, smám saman. Þetta gerist ekki á einum degi.

Þú þarft líkast til stuðning frá öðru fólki, ræða við aðra um hluti sem þú óttast. Því það sem vekur hjá okkur hræðslu er oftast hið óþekkta, eitthvað ókunnuglegt, eitthvað sem okkur finnst ekki vera eins og það ætti að vera. Ef þú óttast kóngulær, reyndu að fræðast um kóngulær, og eftir að hafa fræðst um kóngulær, reyndu þá að nálgast þær. Þér gæti þótt ógeðslegt hvað þær eru með mörg augu, marga fætur og hvernig þær vefa vef til að ráðast á bráð sína, en með auknum skilningi getur þú sigrast á ótta þínum, en þú þarft hugrekki til þess.

Eftir því sem þú sigrast á fleiri hlutum á lista þínum, þá verður eins og slæðu verði lyft frá augum þínum, þú sérð heiminn skýrar og áttar þig á að huga þínum gæti verið betur varið í að velta fyrir þér einhverju sem þú óttast ekki, og þannig hafið rækt á fleiri dyggðum.

 


Um hamingjuna, frelsið og mikla sál

Ég met þrennt jafnvel meira en lífið sjálft. Ég veit samt að mitt eigið líf er forsenda þess að hægt sé að öðlast þessi verðmæti, en ég veit líka að þetta eru ekki verðmæti sem maður eignast einn með sjálfum sér, heldur er þetta það sem maður gefur af sér út fyrir líf og dauða, takist manni að gera þau að veruleika.

Þetta eru hamingjan, frelsið og mikil sál, og þá ekki að hafa slíkt eins og við höfum rafmagnsbíl, hús og pott í garðinum, heldur eru þetta eiginleikar sem við höfum til að gera heiminn sífellt betri, ekki bara fyrir okkur sjálf, heldur einnig samfélagið, jafnvel heiminn.

Veltum aðeins fyrir okkur hvað þessi hugtök þýða. 

Fólk sér hamingjuna með ólíkum hætti, en hamingjuna sé ég núna í morgunsárið sem uppfyllingu á því að manneskja finni djúpa merkingu í lífi sínu, að henni takist að ljúka verðugu verkefni áður en lífinu lýkur, einhverju sem mun skila af sér betri heimi. Hún þarf að koma því áleiðis með einhverjum hætti, veita næstu kynslóð keflið; því verðug verkefni halda sífellt áfram með hverri kynslóð sem verður til og breytist því einnig stöðugt.

Frelsið snýst um að geta verið maður sjálfur innan um fólk sem getur verið það sjálft, að maður geti kannað hvað það þýðir að vera manneskja og síðan beitt sér í samfélaginu, bæði í orði og verki, í samræmi við þessar uppgötvanir. Við getum verið frjáls bæði til að framkvæma og frá því að framkvæma, en þarna þarf stöðugt að gæta jafnvægis. Frelsi fyrir alla er æskilegt, en ekki má gleyma að frelsi fylgir sú ábyrgð að skerða ekki frelsi annarra sem hafa sama rétt á frelsinu. Í lýðræðissamfélagi skiptist frelsið jafnt milli manna, í einræði eða auðræði hafa sumir meira frelsi en aðrir.

Mikil sál er manneskja sem gerir sífellt sitt besta til að gera það sem er rétt og leita sér þekkingar á hvað er gott. Mikil sál getur búið til sinn eigin áttavita sem snýst um hvað er rétt að gera á hverri stundu. Þannig getum við til dæmis séð að hugrekki er eitthvað sem er gott, og ef við æfum okkur í að vera hugrökk, með því að gera hugrakka hluti, þá forðumst við í leiðinni lestina sem tengjast hugrekkinu, en þeir eru heigulsháttur og fljótfærni. Heigullinn frestar sífellt því sem þarf að gera, en hinn fljótfæri gerir hlutina of hratt. Hinn hugrakki framkvæmir þegar hann veit hvað er rétt að gera og á réttri stundu. Alls ekki einfalt að stilla þannig eigin sál, og í raun ævilangt ferðalag, en undirrituðum finnst þetta verðuga ferðalag afar spennandi og áhugavert.

Lífið sjálft er óendanlega dýrmætt, en það er eitthvað sem kemur og fer, hin verðmætin sem ég nefni geta gert lífið þess virði að lifa því, og bætt líf fólks út fyrir takmarkanir okkar eigin lífs.

 


Um nýjar upplýsingar og heildarmyndina

Við fæðumst inn í þennan heim með afar litlar upplýsingar. En það litla sem við höfum notum við til að tjá okkur og nærast, sem verður svo til þess að við vonandi vöxum og döfnum. 

Eftir því sem við lærum meira um heiminn, þá er sífellt eitthvað sem kemur okkur á óvart, en loks kemur að því að við sættum okkur á ákveðna heimsmynd, eitthvað fast í þessum heimi sem við getum haldið okkur við.

En heimurinn heldur áfram að breytast og nýtt fólk bætist í leikinn, og leikreglurnar breytast. Ef við höldum í okkar fyrri heimsmynd og látum ekkert trufla okkur, þá verðum við fljótlega að risaeðlum eða steingervingum, en ef við reynum að halda í við allar breytingarnar, þá má reikna með því að með þeim öllum verðum við stundum ringluð, nokkuð sem getur valdið okkur hugarangri.

Upplýsingarnar sem til eru úti um allt í heiminum, á öllum bókasöfnum heimsins, öllum dagblöðum, háskólum og á netinu, í formi bóka, greina, setninga, ljósmynda, málverka, tónlistar, kvikmynda, gervigreindar og sýndarveruleika, allar eru þær til staðar einhvers staðar, og þegar við öflum okkur þessara upplýsinga, sérstaklega ef þær eru nýjar og um eitthvað sem við höfum ekki hugsað áður, reynum við að átta okkur á hvernig þær passa inn í heildarmyndina og hvort þær hafi einhver áhrif á heildarmyndina sjálfa.

Ef við lærum að læra, þjálfum okkur í notkun tækja sem hjálpa okkur að skipuleggja þær upplýsingar sem við finnum, hvort sem það er með því að skrifa, ræða saman, búa til hugarkort eða yrkja ljóð, þá erum við smám saman að púsla saman nýrri heildarmynd um heiminn. 

Hvort að þessi nýja heildarmynd sé sú eina rétt er erfitt að segja, en vissulega gæti hún verið brot í sameiginlegri heildarmynd okkar allra, hvort sem við náum nokkurn tíma taki á henni eða ekki.

 


Um fegurð og ferðalög

 

Fyrir tveimur vikum flaug ég til Noregs að sækja rafmagnsbíl sem ég hafði keypt þar. Það rigndi nánast látlaust allan tímann, en ég fékk tækifæri til að hitta um skamma stund ættingja mína í Asker sem geymt höfðu bílinn fyrir mig í tvo mánuði eftir að ég keypti hann. Ég keyrði síðan yfir á vesturströndina, en um kvöldið á leiðinni fékk ég gistingu hjá vini mínum sem bauð mér upp á dýrindis romm, og við spjölluðum lengi saman það kvöld. Til dæmis um það hvernig orkufyrirtækin þurftu nú að borga neytendum fyrir rafmagnsnotkun þar sem öll vatnsból voru orðin yfirfull vegna rigninga síðustu daga.

Daginn eftir kom ég til Sola og náði að bjóða syni mínum út að borða og ganga með hundinum okkar. Það voru miklir fagnaðarfundir. Síðan keyrði ég til Kristiansand og tók ferju til Danmerkur, og í Danmörku fór ég á hótel og varði þremur klukkustundum í að leita eftir hleðslustöðum sem virkuðu. Ennþá rigndi. Stöðugt.

Næsta dag fór ég með Norrænu og velktist þar um þar til við lögðum að Þórshöfn í Færeyjum. Þar var líka rigning. Ég fór á borgarbókasafnið og skrifaði aðeins, og svo í skoðunarferð um borgina. Tók strætó, en það kom mér á óvart að í Þórshöfn er ókeypis í strætó, þannig að ég fór í stóran hring, kom við í Bónus og keypti mér eitthvað snakk fyrir restina af ferðalaginu og fór síðan aftur um borð. Það rigndi látlaust.

Þegar Norræna lagði svo að Seyðisfirði klukkan 9 um morguninn reyndist erfitt að koma bílnum gegnum tollinn, því tollafgreiðsla getur aðeins átt sér stað í Reykjavík, og ekki má keyra um á Íslandi á bíl sem ekki hefur verið tollafgreiddur ef maður hefur átt heima á Íslandi í meira en 6 mánuði. Öllum skjölum þarf að skila í Reykjavík, sem er hinumegin á landinu, og ekki má skila þeim stafrænt. Þrátt fyrir að hafa leitað upplýsinga með um 10 símtölum höfðu mér ekki borist þessar upplýsingar áður.

Við tók fjöldi símtala og basl, og á meðan rigndi fyrir utan, en hver einasta manneskja sem ég talaði við var öll af vilja gerð til að hjálpa, og útskýringin var sú að lögin voru bara svona asnaleg og þar að auki vantaði starfstöð á Seyðisfirði til að hægt væri að ganga frá svona mælum samdægurs, frekar en að láta fólk fara með rútu eða flugi til Reykjavíkur og sækja svo sinn tollskylda varning viku síðar. Mér varð hugsað til alþingismanna okkar, löggjafavaldsins, og velti fyrir mér af hverju þau væru ekki að standa sig betur, með þessi ofurlaun og fríðindi. Fyrir hvað erum við að borga þeim?

Þegar ég losnaði úr tollinum nákvæmlega kl. 15:30 tók við löng keyrsla til Egilsstaða, síðan Akureyrar og það var ekki nóg með að það hellirigndi, heldur var líka mikið rok.

Það var svo klukkan 5 að morgni sem ég lagði bílnum við fjárhúsið sem stendur á bóndabæ konunnar minnar. Þar steig ég út úr bílnum og loftið var nístingskalt. En það var hvorki rok né rigning, heldur niðdimmt. Ég horfði til himins og sá þá stjörnubjartari himinn en ég hafði nokkurn tíma á ævinni séð. Hver einasta stjarna glitraði eins og nálægt augnablik. Ég leit yfir fjörðinn og sá stjörnurnar endurspeglast í hafinu. 

Innblásinn af þessari fegurð fór ég inn á bæinn og skreið upp í rúm hjá konunni sem ég elska.

Maður þarf ekki alltaf að ferðast langa vegu til að finna fegurðina. Hún er oft nær en við kunnum að meta.

 


Um sófisma og gagnrýna hugsun

"Besta leiðin til að vera heiðvirður í þessum heimi er með því að vera sá sem við þykjumst vera." - Tilvitnun oft tengd á netinu við Sókrates og Platón, en finnst hvergi í verkum þeirra.

Gagnrýnin hugsun snýst um að leita af einlægni eftir því sem er satt og rétt. Sófismi snýst um að leita allra tiltækra leiða til að sannfæra almenning um að satt sé ósatt og að rangt sé rétt. Sókrates og Platón voru hatrammir andstæðingar sófisma, og það er ég líka, enda er það tæki sem ég vil alls ekki beita sjálfur, því ég tel að það tæri mann sjálfan upp, það er löstur sem gerir mann að verri manneskju.

Sófismi hefur gríðarlegt vopnabúr. Vopn sófismans eru tæki eins og áróður, mælskulist og sannfæringartækni sem gerir mælanda fært að láta veik rök líta út eins og þau séu sterk, og sterk rök líta út fyrir að þau séu veik. Þetta er kennt í ræðukeppnum, þar sem meira máli skiptir að vera sannfærandi heldur en að segja satt. Sá vinnur sem er betri ræðumaður en hinn, og sá þarf alls ekki að segja satt til að sigra. Mér sýnist fjármálaráðherra vera einn besti sófisti landsins, en það væri mikill hagur ef hann hugsaði sig um og færði sig yfir í lið þeirra sem vilja styrkja gagnrýna hugsun, því hann yrði sjálfsagt öflugur þar líka.

Gagnrýnin hugsun aftur á móti er agað ferli sem er rekið áfram með skynsemina að leiðarljósi, þar sem rökhugsun sem leitar sannleika er tekin fram yfir tilraunir til að blekkja.

Það að sófismi skuli vera talinn virka á Íslandi árið 2023 er vissulega áhyggjuefni, en ég vona að fólk hafi fengið nóga mikla æfingu í beitingu gagnrýnnar hugsunar, nokkuð sem opin umræða getur fært okkur, til að sjá í gegnum þetta.

Gagnrýnin hugsun leita sannleikans með því að rannsaka fyrri ákvarðanir og dóma, leita sönnunargagna og meta röksemdarfærslur kalt og hlutlaust. Sófismi hins vegar snýst um að nota aðferðir til að blekkja viðmælendur, eins og rökvilluna strámanninn sem dæmi, til að skapa ósanna mynd af sannleikanum, með því að höfða til tilfinninga fólks, nota rökvillur, reyna að sannfæra frekar en að segja satt. Vandinn við sófisma er að hann virðir ekki þekkingu og skilning, heldur byggir á fyrirframgefnum skoðunum.

Sófisminn reynir að höfða til lægstu samnefnara okkar, fordómanna sem búa í okkur, reita samherja til reiði og ógna þeim frekar en að beita gagnrýnni hugsun, þekkingu og skilningi, eða kýta um vinstri og hægri, eins og það séu einhver eilífðarlögmál sem vert er að deila um. Það gleymist oft í þessum rifrildum að hugsa um það sem skiptir mestu, að hjálpa sem flestum að finna næg tækifæri til að lifa hamingjusömu og farsælu lífi.

Gagnrýnin hugsun er svolítið eins og Spock í Star Trek, setur tilfinningar til hliðar en er samt góðvilja, reynir að uppræta fordóma frekar en misnota þá, og stefnir að rökréttum niðurstöðum frekar en því sem einhverjum finnst henta sér og sínum.

Sófismi virkar aðeins þegar áheyrendur eru latir, þegar þeir nenna ekki að hugsa nógu djúpt um hlutina, nenna ekki að leita sannleikans sjálfir. Kannski kunna þeir það ekki, og hafa aldrei kunnað það, og halda að sannleikurinn sé eitthvað sem felist í bókum eða leiðtogum en ekki eitthvað sem felst í okkar eigin hjarta, eftir töluverða vinnu við að afla okkur þekkingar, skilnings og visku.

Þar sem gagnrýnin hugsun krefst mikillar vinnu og það getur verið erfitt að halda sig á þeirri braut, og aðeins fáir einstaklingar í hverju samfélagi virðast hafa djúpan áhuga á henni frá degi til dags, þá verður hún oftast undir í umræðunni. Málið er að sannleikurinn ferðast hægt á meðan lygin þýtur marga hringi í kringum jörðina.

Þegar við beitum gagnrýnni hugsun þurfum við að hugsa með öðru fólki sem einnig leitar þess sem er satt, sem þýðir að það þarf að hlusta heilmikið og rökræða, það þarf að vega og meta ýmsar hliðar og átta sig á manns eigin takmörkunum. Sófisminn reynir að gera lítið úr þessu ferli og letja fólk frá því að leggja á sig alla þessa vinnu, og í stað þess býður hann upp á einföld svör sem styðja við eigin skoðanir.

Það sem gerist þegar sófisma er beitt er að hann brýtur niður siðferði í samfélaginu, þar sem hann segir að spilling og lygar séu eðlilegur hluti af lífinu. Gagnrýnin hugsun reynir hins vegar að finna hið rétta og sanna í hverju máli, leitar ekki aðeins að því sem er satt, heldur fer dýpra, leitar þess sem er siðferðilega rétt. Eitt af markmiðum þeirra sem beita sófisma er að gera lítið úr siðferðilegum gildum og hugsun.

Sófismi reynir að gera lítið úr umræðu annarra, til dæmis með því að kalla þá sem eru ekki á því að beita sófisma, þeim sem vilja ekki kenna sig við slíka hluti, að kalla þá andstæðinga sína, og búa þannig til lið sem eru með eða á móti. Það er afar ríkt í fólki að velja sér lið og halda með því. Meirihluti landsmanna virðist halda með einhverju ensku knattspyrnumáli eins og það skipti höfuðmáli í lífinu, og með sömu aðferð velja sér stjórnmálaflokk. Bara til að vera í einhverju liði.

Sá sem beitir sófisma reynir að sannfæra um hluti sem henta viðkomandi. Gagnrýnin hugsun gerir það ekki. Fátt er mikilvægara en að fólk þekki muninn á sófisma og gagnrýnni hugsun og af hverju þetta eru andstæðir pólar sem ráða úrslitaáhrifum um hversu vel við lifum lífinu, og þessi litli pistill er veik tilraun til að styðja það ágæta málefni.

 


Um lýðræðið og val á leiðtogum

Image

Á Íslandi veljum við okkur leiðtoga á fjögurra ára fresti, leiðtoga sem setja okkur lög og reglur sem við verðum að fylgja, annars er valdinu að mæta. Þess vegna er mikilvægt að við veljum skynsamar manneskjur í þetta verkefni, einhverja sem hafa djúpan áhuga á almannaheill, þá sem vilja búa til lög og reglur sem gera lífið betra fyrir okkur öll, en ekki bara sum.

Því miður hefur pólitíkin byrjað að snúast um hver er vinsælastur og flottastur, hverjum tekst að ná best til fjöldans með fögrum loforðum og klækjum, frekar en að leggja vinnu í það sem skiptir máli:

Setja skynsamleg lög til að fólk geti lifað sínu lífi nokkuð áhyggjulaust, eigi tækifæri til að vaxa og dafna, þurfi ekki að þola ranglæti í neinu formi, og sjái að þau sem hafa verið valin í hlutverkin sinni vinnu sinni af alúð.

Því miður virðist vera alltof mikil fjarlægð á milli þeirra sem stjórna og þjóðarinnar, því þegar ein manneskja kallar á hjálp, þurfum við að svara henni og hlusta á hana, og þegar stór hópur öskrar á hjálp þar sem það sér gríðarlega ógn yfir sér, þá þarf að setja lög sem hjálpar þessu fólki með flýti, frekar en að hunsa málið. Nú er ég að tala um áhrif stýrivaxta og verðbólgu á fólk með húsnæðislán sem fara brátt að losna. 

Ef þjóðin setur þig í slíka stöðu að gæta hagsmuna okkar allra, þá verður þú vinsamlegast að gera það, annars færð þú ekki að sinna þessu starfi, þó svo að þú beitir blekkingum sem virka á einhvern fjölda, þó að þú haldir í málefni sem eru þér og þínum flokki kær; þá er ekkert forgangsatriði ríkara en að tryggja þjóð þinni öryggi og góðan farveg. Ef þér tekst það, þá gætirðu náð endurkjöri, en samt er það ekki málið þegar kemur að lýðræðinu - að sama fólkið komist alltaf aftur til valda. 

Alvöru lýðræði væri þannig að besta fólkið væri kosið til valda á fjögurra ára fresti, ekki bara það fólk sem hefur nógu mikinn pening til að fjármagna flottar auglýsingar fyrir kosningabaráttu, ekki bara fólk sem kann að setja leikrit á svið, ekki bara fólk sem kann að blekkja. Þurfum við virkilega þannig manneskjur til að setja okkur lög og fylgja þeim eftir?

Af hverju mætti hin leiðinlega en áreiðanlega skynsemi ekki ráða för, frekar en endalaus mælska og framkoma? 

Má ég biðja um skynsamt og heiðarlegt fólk til að fara með völdin, og það þetta fólk sé auðmýkt, sé tilbúið að hlusta, og átti sig á að það þjóni þegnum sínum jafn mikið og þegnarnir þeim? Þannig fólki vil ég fylgja, ekki þeim sem víla ekki fyrir sér að blekkja mig, til þess eins að halda sætum sínum og launum.

 


Um að sýna ábyrgð og leikfléttur

Um daginn sagði formaður sjálfstæðisflokksins af sér embætti fjármálaráðherra eftir þriðju opinberu skýrsluna sem staðfesti að hann gerði ekki skyldu sína í starfi. Við afsögnina virtist hann nota rökvillu sem kallast ‘strámaðurinn’, en með henni er röksemdarfærsla sett upp vísvitandi með röngum forsendum til að láta líta út fyrir að málið snúist um eitthvað annað en það í raun og veru gerði. 

Í þessu tilviki virðist það sett upp sem óþægilegt atvik sem gerðist milli föður og sonar, á meðan sannleikurinn er víðtækari og flóknari en það. Sjálfsagt hefur fjármálaráðherrann vitað að farsælla er að stjórna umræðunni með slíkum hætti, einfalda hlutina til að allir skilji, þannig að þetta líti út sem saklaus afglöp, frekar en skipulögð háttsemi sem ætlað er að deila gæðum almennings til ákveðins hóps ‘fagfjárfesta’, skilgreining sem er á reiki. Þetta þýðir að pabbinn tekur á sig sökina, en sonurinn losnar undan ábyrgð.

Þetta lítur út fyrir að vera afar flott flétta, enda mun ráðherra og flokkur hans geta auglýst hér eftir að þau sýni ábyrgð, og þeim verður sjálfsagt trúað af þeim sem trúa blint á þau, en áfram munu andstæðingar þeirra og hugsandi fólk efast um að þetta sé dæmi um heilindi. Málið er að í leik stjórnmálanna þá þarf ekki að sannfæra þá sem velta hlutunum fyrir sér af dýpt, heldur aðeins þá sem láta tilfinninguna og eigin skoðanir ráða för.

Svona fléttur geta verið hættulegt fordæmi, sérstaklega ef þær ganga upp, því þær ganga á svig við forsendur lýðræðisins, en eru meira merki um popúlíska stjórnsýslu, þar sem reynt er að höfða til lægsta samnefnara milli fólks, frekar en þess sem er satt og rétt. 

Fjármálaráðherra getur sýnt að ég hafi rangt fyrir mér ef hann segir sig algjörlega frá stjórnmálum þar til kosið verður að nýju, og með því getur hann sannfært fólk um að einlægni búi að baki. En ef hann er að nota þetta í pólitískum tilgangi, sem auglýsingabrellu, eins og þetta lítur út frá mínu sjónarhorni, og ætli áfram að beita áhrifum sínum á þingi í nafni almennings, þá má sjá að þetta var ekkert annað en flétta. Og engin virðing eða ábyrg fylgir slíku.

En tíminn mun afhjúpa sannleikann í þessu máli eins og öllum öðrum. Hvort að við sem lifum og hrærumst í þessum tíðaranda séum þau sem sjáum ljósið eða einhverjar manneskjur úr framtíð okkar, það kemur líka í ljós með tíð og tíma.

En þegar allt kemur til alls spyr ég sjálfan mig, og ykkur sem nennið að lesa þessa fátæklegu pisla mína: viljum við lifa fyrir ríkjandi almenningsálit, eða viljum við lifa fyrir eitthvað betra og dýpra?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband