Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Iron Man 2 (2010) ***1/2

 

iron-man-2-poster

"Iron Man 2" hefði getað verið ofurhlaðin steypa eins og "Spider-Man 3" eða "Batman and Robin". Þess í stað fáum við skemmtilega mynd með hressum leikurum. 

Tony Stark (Robert Downey Jr.) hefur uppljóstrað að hann og Járnkallinn séu eina og sama veran, og ekki nóg með það, heldur óaðskiljanleg eining. Bandaríski herinn sættir sig ekki við það og vill fá að kaupa tæknina sem Stark hefur þróað, en hann hafnar þeim og telur sjálfan sig vera það mikla hetju og sómamann að engin þörf sé á að dreifa ábyrgðinni. Hann hefur rangt fyrir sér.

Ivan Vanko (Mickey Rourke) á harma að hefnda og er engu síðri snillingur en Stark. Hann hannar svipur úr hreinni orku sem hann ætlar að nota til að losa heiminn við Tony Stark. Þegar það mistekst lendir Vanko bakvið lás og slá en er bjargað úr prísundinni af hinum misheppnaða auðjöfri Justin Hammer (Sam Rockwell), en hann þráir ekkert heitar en að finna upp eitthvað sem er flottara en allar uppfinningar Tony Stark.

Inn í fléttuna blandast ritarinn ómissandi Pepper Potts (Gwyneth Paltrow sýnir óvenju góðan leik og tekst að skapa skemmtilegan karakter), en Stark hækkar hana í tign og gerir hana að forseta Stark Enterprices. Einnig kemur til starfa ungur og dularfullur lögfræðingur að nafni Natalie Rushman (Scarlett Johansson) sem reynist ekki öll þar sem hún er séð. Einnig kemur til aðstoðar John Rhodes (Don Cheadle) sem stelur frá Stark brynju og kemur til hersins, en allt í góðri meiningu að sjálfsögðu, enda Rhodes og Stark bestu vinir. Einhvers staðar á bakvið plottið lurar svo hershöfðinginn dularfulli Nick Fury (Samuel L. Jackson)

Allir leikararnir skila framúrskarandi verki miðað við aðstæður, fyrir utan kannski Samuel L. Jackson, sem tekur hlutverk sitt ekki nógu alvarlega og reynir að vera fyndinn á meðan hann ætti að vera alvarlegri en gröfin. Robert Downey Jr. gerir Tony Stark hæfilega hrokafullan og upptekinn af sjálfum sér, Sam Rockwell er stórskemmtilegur sem hinn púkalegi Hammer, og Mickey Rourke stelur senunni með því einfaldlega að vera á skjánum í hlutverki þessa brjálaða rússneska vísindamanns. Scarlett Johansson er flott í bardagasenum sínum og laumar inn skemmtilegum húmor, sem og sjálfur leikstjóri myndarinnar Jon Favreau í litlu en mikilvægu hlutverki lífvarðar Stark.

Plottið er algjört aukaatriði. Það virkar samt einhvern veginn. Það sem er óvenjulegt við "Iron Man 2" er hvað persónurnar skipta miklu máli, hvernig sagan fjallar um þær frekar en heimsyfirráð og gjöreyðingu, sem verður að aukaatriði. Það er eiginlega það frumlegasta við þessa mynd. Loks er komin ofurhetjumynd þar sem að bjarga heiminum verður aukaatriði, og aðalmálið verður fyrst og fremst að hetjan bjargi sjálfum sér frá sjálfum sér, og heiminum í leiðinni. 

Þú skalt alls ekki fara alltof snemma út af sýningunni. Það er stutt atriði í lok myndarinnar sem var fullkomið fyrir nördinn í mér. Það voru allir farnir úr salnum nema ég, rétt eins og þegar ég sá "Iron Man" í Smárabíó um árið. Þetta atriði birtist eftir að ALLUR textinn hefur skrollað og öll tónlistin búin og var þess virði fyrir mig. Að minnsta kosti get ég sagst hafa séð þetta örstutta atriði sem gefur tilefni til enn meiri tilhlökkunar fyrir nána framtíð.

Ég skemmti mér vel á "Iron Man 2" og fannst gaman að skrifa um hana.

Ég bið ekki um meira.

 

E.S. Ég ætti kannski ekki að minnast á það, en það er búið að velja leikstjóra fyrir "Avangers", mynd sem á að tengja saman einhverjar af ofurhetjunum frá Marvel, en þar mun enginn annar en Josh Whedon taka við taumunum, sem loksins mun fá stóra tækifærið í Hollywood sem hann hefur verðskuldað í mörg ár.


Sunset Blvd. (1950) ****

 

Poster%20-%20Sunset%20Boulevard_02

 

"Sunset Blvd." er ein af þessum myndum þar sem hver einasti rammi er frammúrskarandi. Handritið er hrein snilld og leikurinn afbragð.

Handritshöfundinum Joe Gillis (William Holden) hefur ekki tekist að skrifa almennilegt handrit í langan tíma, og ræður því ekki lengur við að lifa í þeim stíl sem hann hefur vanist. Hann skuldar leigu bæði fyrir íbúð og bíl, og innheimtumenn eru á eftir honum. Á flótta undan innheimtumönnum springur á dekki hjá honum og honum tekst að renna bílnum inn að heimreið fyrrverandi stórstjörnu, á meðan innheimtumennirnir missa af honum og keyra fram hjá.

Hann leggur bílnum í opnum bílskúr og er boðið inn af þjóninum Max (Erich von Stroheim) sem hefur beðið eftir einhverjum til að kistuleggja dauðan apa. Eigandi apans og hallarinnar er engin önnur en Norma Desmond (Gloria Swanson), fyrrum stórstjarna þöglu myndanna sem getur ekki sætt sig við að aldurinn hefur færst yfir hana.

Þegar hún kemst að því að Joe er handritshöfundur, en ekki kistulagningamaður fyrir dauð gæludýr, býður hún honum starf; að endurskrifa handrit hennar um Salóme, sem á að vera leið fyrir endurkomu hennar inn í heim kvikmyndanna, því hún þráir ekkert annað en að vera í skotlínu athyglinnar, fyrir framan myndavélarnar, að lifa þykjustulífi sem þarf ekki að vera tengt veruleikanum.

Joe lætur til leiðast og fær laust herbergi til umráða, en fljótt áttar hann sig á að hún vill eitthvað meira en hann er tilbúinn að gefa. Á sama tíma stelst hann á næturnar og helgar til að skrifa sitt eigið handrit með hinni ungu og fögru Betty Schaefer (Nancy Olson), en hún er trúlofuð besta vini hans Artie Green (Jack Webb).

Dramað er trúverðugt og samtölin full af tilfinningu og dýpt. Þau augnablik sem gera persónurnar djúpar og áhugaverðar eru augnablikin þegar þær velja hlutverk sitt í lífinu, og maður áttar sig á að þetta er raunverulegt val sem fjöldi fólks hefur gert og staðið við, sjálfsagt vegna þess að auðvelt er að trúa því að ríkidæmi og frægð skapi umgjörð sem er mikilvægari en hamingjan og lífið. Þessar aðstæður leiða til morðs.

Spurningar sem koma upp í myndinni sem hverjum manni væri hollt að spyrja sjálfan sig einhvern tíma á lífsleiðinni:

  • Hvað gerist þegar stórstjörnur geta ekki lengur gert greinarmun á draumnum sem þau fengu uppfylltan og veruleikanum?
  • Hvað ef draumurinn verður veruleikanum sterkari, þrátt fyrir að frægðarsólin dofni?
  • Ef þú gætir valið um hamingjusamt og fátækt líf með manneskju sem þú elskar, eða glamúr og flott föt; hvað myndir þú velja?

"Sunset Blvd." var tilnefnd til 13 Óskarsverðlauna árið 1950 og vann aðeins ein af þeim stóru, fyrir besta handritið. Hún var einnig tilnefnd sem besta kvikmynd ársins, en "All About Eve" sigraði það árið, önnur mynd um klikkaða kvikmyndastjörnu. Mér finnst "Sunset Bldv." mun betri en "All About Eve" og að hún hafi elst mun betur.

Allir helstu leikarar myndarinnar voru líka tilnefndir til Óskarsverðlauna, þau William Holden, Gloria Swanson, Erich von Stroheim og Nancy Olson, en ekkert þeirra vann.

Frábær mynd.


7 leiðir til að höndla einelti á netinu

Þessar leiðir eiga ekki bara við um bloggið. Þetta eru ráð sem hægt er að nota í lífinu, bæði innan og utan netsins. 

Hvernig höndlarðu það þegar einhver skrifar neikvæða athugasemd undir grein sem þú hefur skrifað? Hvernig höndlarðu það ef einhver böggar þig stöðugt með rugl athugasemdum. 

Sumir fjarlægja athugasemdirnar og aðrir loka á IP númer þess sem sendi hana. Þessar aðferðir virka, en eru eins fasískar og hugsast getur séu þær notaðar af reglusemi. 

Á vafri mínu um vefinn fann ég ágæta grein sem fjallar um þetta mál: 7 Great Principles for Dealing with Haters eftir Tim Ferriss. Hérna fyrir neðan er listinn hans.

  1. Það skiptir ekki máli hversu margir skilja þig ekki. Það sem skiptir máli er hversu margir skilja þig.
  2. 10% fólks finnur leiðir til að taka hvað sem er persónulega. Reiknaðu með því.
  3. "Að leita vinsælda frá öllum er merki um meðalmennsku." (Colin Powell)
  4. "Ef þú hefur veruleg áhrif, mun 95% af því sem er sagt um þig vera neikvætt." (Scott Boras)
  5. "Ef þú vilt bæta þig, sættu þig við að vera álitinn kjánalegur og heimskur." (Epíktet)
  6. "Að lifa góðu lífi er besta hefndin." (George Herbert)
  7. Haltu ró þinni og haltu áfram.

Það er hægt að læra af þessum lista.

Síðan ég byrjaði að blogga á blog.is hef ég einu sinni lokað á athugasemdir eins einstaklings, og hálfpartinn sé eftir því í dag. Þó að athugasemdirnar hafi verið hatursfullar og dónalegar, er hugsanlega betra að leyfa þeim að hanga inni til merkis um sögu viðkomandi manneskju, og einnig til að maður átti sig betur á hvernig fólk hugsar ólíkt um það sem manni dettur í hug að blaðra um á netinu.

Mig langar að velta fyrir mér hvort ég geti verið sammála þessum 7 leiðum Tim Ferriss. 

1. Ég hef til þessa gert ráð fyrir að maður geti ómögulega náð til allra þegar maður skrifar greinar. Þess vegna verður maður að ímynda sér lesanda. Minn ímyndaði lesandi er ég sjálfur einhvers staðar í framtíðinni, jafnvel eftir hundrað ár. Ef einhver annar lesandi skilur ekki hvað ég er að fara, þá þarf ég hugsanlega að endurmeta eigin skrif, og jafnvel eigin hugmyndir, sem er bara jákvætt, og stundum missir gagnrýnin marks, en maður verður bara að meta það sjálfur hafi maður á annað borð áhuga á að bæta sig.

2. Ég hef rekist á það, sérstaklega í skrifum um trúmál eða stjórnmál, ekki endilega eigin skrifum, að á netinu hafa bæði stjórnlausir og trúlausir gífurlega sterkar raddir. Þetta er yfirleitt frekar gáfað fólk sem hugsanlega er félagslega einangrað af einhverju leyti og leitar því á náðir vefsins til að tjá sig. Eftir því sem vefurinn verður vinsælli, verða raddir þeirra háværari. Undanfarið hef ég verið að velta fyrir mér: ef Biblían er orð Guðs, er hann þá ekki líka með einhverja IP tölu og kemur visku sinni fyrir einhvern veginn eða einhvers staðar á Netinu?

3. Ég játa mig sekan um slíka meðalmennsku. Mér hefur þótt gaman að skrifa greinar sem eiga að henta öllum. En það er ekki vegna þess að ég vil að öllum líki við mig eða það sem ég skrifa, heldur geri ég mitt besta til að átta mig á sem flestum sjónarhornum sérhvers máls, og reyni að setja mig í spor þeirra sem eru með ólíkar skoðanir en ég sjálfur. Þannig getur litið út fyrir að ég sé stundum skoðanalaus, en í raun er ég bara að dýpka eigin skilning með því að ganga um í skóm frá hinum og þessum. Þetta hefur síðan áhrif á þær ákvarðanir sem ég tek í lífinu sjálfu, hvort ég sé hugrakkur þegar þess er þörf, hvort ég geti tekið erfiðar ákvarðanir af visku frekar en eigingirni, og þar fram eftir götunum. Bloggið er þannig ákveðinn skóli.

4. Mér dettur í hug stjórnmálamenn sem eru stöðugt á milli tanna fólks. Þeir eru milli tanna fólks vegna þess að þeir hafa áhrif. Hins vegar sýnist mér þeir hunsa algjörlega gagnrýni á þeirra störf og halda áfram sína leið sama hvað hver segir. Þetta er þrjóskuleið. Hún er öruggust allra leiða. En ég er viss um að hún er röng, því hún útilokar meðtöku á gagnrýni og þeim möguleika að viðkomandi hafi hugsanlega rangt fyrir sér. Þarna verður mikilvægara að sýnast meiri en aðrir með því að þykjast alltaf hafa rétt fyrir sér og skipta aldrei um skoðun, á meðan raunveruleg stórmenni eru þeir sem geta viðurkennt að hafa haft rangt fyrir sér, og geta skipt um skoðun þegar þeir sjá að þeir hafa málað sig út í horn.

5. Það elska allir trúða, en það tekur þá enginn alvarlega þegar þeir hafa eitthvað mikilvægt að segja, er það sem mér dettur í hug núna, og verður hugsað til nokkurra blogga á vefnum þar sem bloggari gerir grín að öllum sköpuðum hlutum og skrifar síðan einhverja grein sem skiptir hann miklu máli. Hann áttar sig ekki á að hann hefur safnað að sér húmoristum sem í athugasemdum geta ekki stillt sig um að skrifa eitthvað fyndið um hans hjartans mál. Móðgast viðkomandi? Að sjálfsögðu. 

Ég hef þá stefnu í eigin bloggi að þegar ég skrifa um hluti, þá er ég að skrifa til að læra af þeim. Ég safna mér eins mikillar þekkingar og ég get um viðkomandi málefni, og með þá vitneskju í farteskinu að ég er ekki alvitur einstaklingur, geri ég ráð fyrir að hafa misst af einhverju, og þá hugsanlega mikilvægum þáttum, misskilið einhverja merkingu eða túlkun, hugsað ekki nógu djúpt eða verið þjakaður af eigin fordómum, sem eðlis þeirra vegna er eitthvað sem maður getur ekki séð auðveldlega í eigin ranni. Ég skrifa til að læra. Það að aðrir læri á því sem ég skrifa er bara launauppbót.

6. Ég átti samtal við föður minn um daginn, um útrásarvíkinga og hvernig þeim hlýtur að líða þessa dagana. Hann telur að þeir séu bara sáttir við lífið og tilveruna, njóti þess að vera ennþá ríkir og haldi áfram, en ég er svo einfaldur að telja þá vera það samviskulausa að þeir geti lifað sáttir einfaldlega vegna þess að þeir hafa ekki lengur samvisku. Þegar manneskja er samviskulaus er hún orðin að dýri, slík manneskja er ekki lengur manneskja. Þannig að þeir sem geta lifað sáttir við eigin glæpi, hljóta að hafa tapað því dýrmætasta sem ég hef sjálfur fundið í þessu jarðlífi, það að vera mennskur. Það má lengi deila um þetta.

En þetta er satt. Ef einhver vill skaða þig og þú sýnir merki um að þú hafir tekið illa við högginu, liggur á gólfinu með glóðarauga á eftir að hafa dottið yfir skrifborð í fallinu, þá fær sá sem höggið veitti miklu meira út úr því heldur en ef þér tekst að standa á sama stað og gera högg viðkomandi að vindhöggi einu og hlæja jafnvel góðlátlega að viðkomandi fyrir að reyna.

7. Það er ágætt að horfa fram á veginn með jafnvægisgeði. Að bæta mig stöðugt og vinna vel, og hafa góð áhrif út á við er mikilvægt fyrir mig, og ég veit að ef ég færi að sökkva mér í hatursfullar athugasemdir, þá myndi það hindra mig frá því. Það er betra að þoka sig áfram á veginum gegnum lífið en að horfa stöðugt um öxl.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband