Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Dóttir mín um lífið eftir dauðann

Dóttir mín sagði svolítið skemmtilegt í gær:

"Ég hef kenningu um hvað gerist þegar við deyjum. Það erum ekki við sem förum til himna, heldur aðeins það góða í okkur. Þess vegna er mikilvægt að við séum eins góð í þessu lífi og mögulegt er. Þá förum við vonandi sem heild til himna."


Sjálfsmark Sigurðar Einarssonar?

 

own-goal

Þetta eru eðlilegar tafir sé maðurinn sekur. Sigurður ræður stjörnulögmann á kolvitlausum tíma og í stað þess að almenningur nú gruni hann um að hafa kannski eitthvað gruggugt að fela, trúir almenningur að hann hafi eitthvað gruggugt að fela. Eðlilegra væri fyrir saklausan mann að ráða lögfræðing eftir að ákærur hafa verið birtar, ekki á meðan rannsókn stendur enn yfir.

Pressan er öll á þeim sem þurfa að verja sig gegn þungum sökum. Pressan er verri fyrir þá sem vita upp á sig sökina. Það má búast við að sérstaklega þeir sem hafa mest að fela og versta samvisku, munu gera allt sem þeir geta til að tefja og gera saksókn tortryggilegra.

Með þessu skoti er Sigurður að skora sjálfsmark, enda hefur hann fengið íslensku þjóðina upp á móti sér með því að hindra framsókn mikilvægustu rannsóknar Íslandssögunnar.


mbl.is Sigurður ræður breskan lögmann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

The Incredible Shrinking Man (1957) ***1/2

 

IncredibleShrinkingMan

 

 

"The Incredible Shrinking Man" er vísindafantasía eins og þær gerast bestar.

Hjónin Scott og Louise Carey eru á skemmtisiglingu á skútu þegar undarleg þoka læðist yfir þau á meðan Louise er inni í káetu að sækja bjór fyrir Scott. Þessi þoka hjúpar hann einhverju undarlegu efni.

Sex mánuðum síðar telur Scott að föt hans fari víkkandi, en gerir sér fljótt grein fyrir að það er hann sem fer smækkandi. Hann leitar læknishjálpar. Í fyrstu trúir læknirinn ekki að þetta sé að gerast, en getur síðan ekki litið framhjá staðreyndum þegar ljóst er að Scott smækkar töluvert í hverri viku. Vísindamenn fá hann í prófanir og gera sitt besta til að redda honum lyfjum. En ekkert virkar. Scott heldur áfram að smækka.

Loks þarf hann að flytja inn í dúkkuhús og uppgötvar þá að hans eigið heimili getur verið ansi hættulegt fyrir smávaxnar verur, sérstaklega þegar heimiliskötturinn samþykkir hann ekki lengur sem húsbónda heimilisins. Kötturinn hrekur Scott niður í kjallara þar sem hann hittir fyrir enn ógurlegri óvini ásamt því að halda áfram að smækka. 

Nú þarf Scott að aðlagast þessum nýja heimi til að komast af.

Hugmyndin er stórgóð og aðstæðurnar spennandi. Það er hægt að bæta heilmikið bæði dramað og tæknibrellurnar, en myndin er barn síns tíma, þó að hún sé mjög skemmtileg enn í dag. 

Það hefði til dæmis verið áhugavert ef fleiri persónur hefðu lent í þessari dularfullu þoku, og mönnum tækist að stofna nýtt samfélag sísmækkandi fólks, sem þyrftu í sameiningu að takast á við ógnir úr hversdagslífinu sem versna eftir því sem maður er smærri. Svona eins og síhækkandi skuldir þeirra sem skulda gagnvart þeim sem stöðugt græða meira á þessum skuldum. Halo

Ég man eftir atriðum úr þessari mynd síðan ég sá brot úr henni sem barn. Sérstaklega þótti mér bardaginn við kóngulóna vel útfærður og spennandi. Jafnvel flóttinn undan heimiliskettinum er spennandi og sannfærandi.


Date Night (2010) **1/2

 

date-night-poster

 

"Date Night" er gamanmynd sem er stundum svolítið fyndin, enda aðalleikararnir frekar góðir, en söguþráðurinn svo mikil vitleysa og allar aukapersónur svo flatar að myndin í heild er engan veginn eftirminnileg.

Steve Carrell er einn af mínum eftirlætis húmoristum. Mér fannst hann frábær bæði í "Get Smart" og "The 40 Year Old Virgin". Hann var líka góður í "The Daily Show" með Jon Stewart. Nú er hann góður, ásamt ágætri Tina Fey, en í stað þess að ná taki á mér fannst mér eins og leikararnir væru einfaldlega á vappi gegnum kvikmyndastúdíó, þar sem allt er fyrirfram ákveðið og öruggt. Frekar klisjukennt.

Hjónin Phil (Steve Carrell) og Claire (Tina Fey) lifa hversdagslegu lífi, en vikulega fara þau út saman til að krydda tilveruna. Eitt kvöldið skreppa þau á veitingastað í New York án þess að hafa pantað sér borð, og taka borð sem annað par var búið að panta. 

Skuggalegir gaurar reka þau frá borðinu og draga þau út í skuggastund, draga upp skammbyssur og halda að þau séu glæpapar sem stolið hefur minnislykli. Að sjálfsögðu rugla skúrkarnir saman hjónum og þjófum, en hjónin þurfa einhvern veginn að sleppa lifandi frá þessum gaurum og leysa glæpamál sem tengir saman mafíuforingann Ray Liotta og saksóknara New York borgar leikinn af William Fichtner í pervertaskapi. Einnig blandast inn í söguna Mark Wahlberg sem skyrtulaus ofurnjósnari.

Sagan er algjört aukaatriði, leikurinn líka, sem og allt annað fyrir utan þau Steve Carrell og Tina Fey. Þannig að spurningin verður, eru brandaranir þess virði að borga í bíó með barnapössun og öllu því sem fylgir. Svar mitt er nei. Leigðu frekar "Get Smart" og horfðu á hana aftur, eða það sem er enn betra, leigðu þér "Life of Brian" og horfðu á hana þrisvar sama kvöld.

Kíktu á "Date Night" þegar hún kemur á vídeó eða birtist í sjónvarpi. Ekki þess virði að sjá í bíó.


Barnaskóli brennur

EldurIBaerum

Ég tók þessa mynd úr stofuglugganum fyrir nokkrum mínútum, en Lysaker barnaskólinn hérna í Noregi brennur. Svartur reykur stígur upp frá byggingunni. Slökkvilið og lögregla eru á staðnum, og samkvæmt þeim fréttum sem ég hef lesið er enginn slasaður.

Nánar:


Verður Íslendingum einhvern tíma bættur skaðinn?

 

atlas

 


Nú þegar vel rökstuddar saksóknir eru farnar í gang gegn bankamönnum og auðmönnum sem misnotuðu aðstöðu sína til að ryksuga peninga landsmanna úr bönkunum, og meira að segja mynda fjandsamlega gjá á milli lántakenda og fjármagnseigenda; hvað verður gert til að bæta Íslendingum allan þann stórskaða sem skollið hefur yfir þjóðinni.

Það hafa margir tapað gífurlegum fjármunum. Aðallega lántakendur húsnæðislána og bílalána.

Verður þeim skaðinn einhvern tíma bættur eða verður ætlast til að þeir staulist um á mjóum fótum og beri fjöll á herðum sínum út ævina og komi smám saman þunganum yfir á börn sín?

 

Mynd: The Peace, Freedom & Prosperity Movement


Borga glæpir sig?

 

6a00e553c82f3b8833010536d32fb5970b-800wi

 

Mér finnst þetta stórmerkileg frétt, enda hef ég aldrei áður séð jafn skýra skilgreiningu á skipulagðri glæpastarfsemi. Feitletraði textinn eru vangaveltur mínar. Ég þykist ekki vita þessa hluti með vissu, enda ekki með aðgang að sömu upplýsingum og sérstakur saksóknari. Sannleikurinn mun vonandi koma í ljós og réttlætinu framfylgt samkvæmt íslenskum lögum, og vonandi fær það fólk sem hefur tapað fjármunum vegna þessara glæpa skaðabætur, en allir Íslendingar sem búa á Íslandi eða hafa þurft að flytja úr landi eru fórnarlömb þessara glæpa.

  • Til þarf að koma samvinna fleiri en tveggja einstaklinga.
    JÁ - stjórnendur í efstu lögum virðast hafa unnið saman að þessu

  • Starfsemin þarf að standa yfir í langan eða óskilgreindan tíma.
    JÁ -hugsanlega hafa allir bankarnir eftir einkavæðingu hagað sér eins

  • Grunur þarf að liggja fyrir um alvarlegt afbrot.
    JÁ - einnig þarf að rökstyðja gruninn

  • Markmið viðkomandi eru auðgun og/eða völd.
    JÁ -markmiðin voru auðgun
Auk allra ofangreindra liða þurfa einhverjir tveir af eftirtöldum liðum að eiga við til að unnt sé að ræða um afbrot sem „skipulagða glæpastarfsemi“ samkvæmt skilgreiningu Europol.
  • Hver þátttakandi þarf að hafa fyrirfram ákveðið verkefni.
    Hef ekki hugmynd. Starfsmenn hljóta að fá starfslýsingu og þar af leiðandi verkefni.

  • Starfsemin lúti einhvers konar skipulagi og stjórnun.
    JÁ - enginn vafi.
  • Starfsemin þarf að vera alþjóðleg.
    JÁ - enginn vafi.
  • Þátttakendur þurfa að beita ofbeldi eða öðrum aðferðum sem henta þykja til ógnunar.
    KANNSKI - spurning hvort að hótanir lögfræðinga gagnvart skuldurum um að upptöku eigna eða annað verra teljist til andlegs ofbeldis?
  • Skipulag starfseminnar þarf að vera svipað því og þekkist í viðskiptum og rekstri.
    JÁ - þetta var heldur betur svipað, þar sem fæstir gerðu sér grein fyrir að þetta voru ekki eðlileg viðskipti og rekstur.
  • Viðkomandi þurfa að stunda peningaþvætti.
    LÍKLEGA - sjálfsagt flokkast það undir peningaþvætti að lána gífurlegar upphæðir til valdra aðila sem síðan nota peninginn til að kaupa gervieignir án þess að borga lánin til baka, og út á gervieignirnar fá þeir enn meiri lán.
  • Viðkomandi leitist við að hafa áhrif á stjórnmál, fjölmiðla, opinbera stjórnsýslu, réttarkerfið eða hagkerfið.
    JÁ - greiningardeildirnar höfðu mikil áhrif á fjölmiðla, stjórnmálamenn fengu styrki sem útilokað er að réttlæta og þessi banki var einn af þremur sem taldir voru til undirstöðu íslenska hagkerfisins.

Já, þetta virðast sannarlega vera banksterar. Nú er það hlutverk réttarkerfisins að finna sönnunargögn og sanna þennan grun án vafa. Saksóknari, lögfræðingar og dómkerfið eru með stærsta mál Íslandssögunnar í höndunum, og það er sjálfsagt ekki bara tengt einum banka, heldur hugsanlega miklu fleirum.

Verði hámarksrefsing eitt ár fyrir sakfellingu, munu sakborningar þjást eitthvað í eitt ár, en uppskera svo ríkuleg laun eftir afplánun þar sem þýfið verður grafið upp úr skattaskjólum. 

Kostnaður: æran, samviskan og eitt ár í fangelsi, hamingjan, smánarblettur á fjölskylduna

Laun: óteljandi milljarðar, áhyggjulaus elli, marklaust líf

 

Spurningin sem alþjóð spyr: borga glæpir sig?

 





Mynd: Surf Nation
mbl.is „Skipulögð glæpastarfsemi“ Kaupþingsmanna?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölgum ráðuneytum?

Þulur: Á fundi ráðherra þar sem til stóð að fækka ráðuneytum gerðust óvæntir hlutir. Ákveðið var að fjölga ráðuneytum í stað þess að fækka þeim. Við höfum náð tali af nýjasta ráðherra íslensku ríkisstjórnarinnar, Jóni Hreggviðssyni, en það snilldarbragð var farið að fá vinsæla skáldsagnapersónu til að stjórna hinu nýja "Kreppuráðuneyti". Til að leysa það vandamál að Jón Hreggviðsson er ekki til, var ákveðið að gera samning við Þjóðleikhúsið sem mun semja við hæfustu leikara þjóðarinnar í hlutverkið. Stefnt er að því að hver leikari hafi hlutverkið einn mánuð í senn og að kynjakvóti verði virtur.

Fréttamaður: "Til hamingju með nýja starfið Jón."

Jón Hreggviðsson: "Ingvar heiti ég, Jón er karakterinn, en takk fyrir."

Fréttamaður: "Má ég tala við Jón."

Jón Hreggviðsson: "Nú er ég Jón."

Fréttamaður: "Geturðu sagt okkur frá hvers vegna ákveðið var að fjölga ráðuneytum?"

Jón Hreggviðsson: "Það er eldgos í Eyjafjallajökli ef þú hefur ekki tekið eftir því. Sérðu ekki öskuna í skýjunum yfir okkur? Ef við horfum beint upp í loftið með munninn opinn og tunguna út úr okkur fáum við öskubragð í munninn og sjálfsagt öskuslikju í augun."

Fréttamaður: "Af hverju var ákveðið að fjölga ráðuneytum?"

Jón Hreggviðsson: "Ég bara veit það ekki. Ég var ekki á fundinum."

Fréttamaður: "Nú?"

Jón Hreggviðsson: "Ég var bara pantaður hingað til að mæta í viðtalið, fæ fínt borgað fyrir þetta gigg."

Fréttamaður: "Hvað á hið nýja ráðuneyti að gera?"

Jón Hreggviðsson: "Skipuleggja sumarfrí. Hafa þetta skemmtilegt. Koma með hugmyndir að fleiri ráðuneytum. Og stoppa eldgosið."

Fréttamaður: "Fleiri ráðuneyti?"

Jón Hreggviðsson: "Já, það er mikilvægt á þessum krepputímum að vera skapandi. Væri til dæmis ekki frábært að stofna Atvinnuleysisráðuneyti, þar sem öllum atvinnulausum er reddað starfi og yrði þannig að stærsta ráðuneyti landsins. Það þarf að leysa atvinnuleysið. Og við erum jú öll skyld, ekki satt, og þú verður að gera vel við þína, eða hvað?"

Fréttamaður: "Hvernig ætlar ríkisstjórnin að borga fyrir fjölgun ráðuneyta?"

Jón Hreggviðsson: "Við ráðum alla til starfa sem tókst að stækka bankana margfalt á örfáum árum. Hugsaðu þér hvað þeir geta gert fyrir Ríkið. Þessir menn kunna að taka hagstæð lán og fá þau út um allan heim. Hugsaðu þér veislurnar sem hægt verður að halda."

Fréttamaður: "En komu þeir ekki þjóðinni á hausinn?"

Jón Hreggviðsson: "Nei, nei. Það er misskilningur. Fólk keypti stóra flatskjái. Svo keypti það bíla. Líka íbúðir. Sumir jafnvel hús. Við höfum ákveðið að banna kaup á efnislegum hlutum og viljum bara leyfa kaup á andlegum hlutum hér eftir."

Fréttamaður: "Eins og?"

Jón Hreggviðsson: "Til dæmis bænum. Það hefur mikið vantað að Íslendingar fari í kirkju og biðji bænir. Við höfum ákveðið að gefa út bænabók ríkisstjórnarinnar og koma henni í sölu, og skylda fólk til að kaupa hana, annars gæti það lent í gæsluvarðhaldi."

Fréttamaður: "Það hljómar eins og það sé ekki heil brú í þessari ríkisstjórn."

Jón Hreggviðsson: "Það þarf enga brú. Við reddum okkur með þyrlu."

Fréttamaður (myndavélin hverfur af Jóni Hreggviðssyni, en Jón eltir rammann og stillir sér upp við hlið fréttamanns, og brosir svartlituðum tönnum framan í myndavélina, með góðlátu augnaráði): "Þetta er lafði Macbeth, með nýjustu fréttir frá Ráðherrabústaðnum."

 

Að alvöru málsins:


Pixar leikstjóri "The Incredibles" og "Ratatouille" mun leikstýra Tom Cruise í Mission Impossible IV

 

brad-bird-mission-impossible_300

 

Skrítin frétt um Mission Impossible IV:

Sagt er að Brad Bird, leikstjóri "Monster" muni leikstýra myndinni. Þetta gæti varla verið fjær sannleikanum.

Brad Birt leikstýrði ekki "Monster", sem er þungt drama um konu sem er fjöldamorðingi. Charlize Theron fékk Óskarinn fyrir hlutverk sitt í þeirri mynd.

Brad Bird er einn af mínum uppáhalds leikstjórum, en bestu myndir hans eru teiknimyndirnar "The Iron Giant", "Ratatouille" og "The Incredibles".

 

EW.com


mbl.is Brad Bird leikstýrir fjórðu Mission: Impossible myndinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beowulf & Grendel (2005) ***

 

362861.1020.A

 

"Beowulf & Grendel" er áhugaverð nálgun á söguna um baráttu hetjunnar Beowulf við tröllið Grendel. Í þetta skiptið fær Grendel mannlega vídd og góða ástæðu til að tæta óvini sína í sundur.

Þegar hinn ungi Grendel (Hringur Ingvarsson) upplifir morð hins danska konungs Hrothgar (Stellan Skarsgård) á föður sínum, heitir hann hefnda. Mörgum árum síðar ræðst hinn fullorðni Grendel (Ingvar E. Sigurðsson) á hermenn Hrothgars í bjórskála konungs og drepur alla þá sem lyfta vopni gegn honum.

Hrothgar konungur verður nánast viti sínu fjær, hugsanlega vegna sektarkenndar fyrir að hafa drepið föður Grendel fyrir litlar sakir, hugsanlega vegna þess að hann upplifir sig ósjálfbjarga gegn skrímslinu.

Beowulf (Gerard Butler áður en hann lék í "300" og varð samstundis stórstjarna í kvikmyndaheiminum) siglir að ströndum Danalands með 12 menn og lofar Hrothgar að drepa skrímslið. Grendel hefur hins vegar engan áhuga á að drepa útlendinga. Hann vill aðeins drepa vel vopnaða Dana og hefna föður síns. Smám saman áttar Beowulf sig á að eitthvað meira liggur að baki, og öðlast smám saman aukna virðingu fyrir skrímslinu.

Inn í þetta blandast svolítið sérstakur ástarþríhyrningur milli nornarinnar Selmu (Sarah Polley), Grendels og Beowulf. Að sjálfsögðu stefnir í lokauppgjör, en með þeim öfugu formerkjum að kannski er Grendel eftir allt hetjan í þessari sögu, ekki Beowulf, og Beowulf áttar sig á þessu smám saman.

Það er gaman að sjá marga íslenska leikara og íslenskt landslag njóta sín almennilega í þessari mynd. Líklega er þetta sú kvikmynd sem sýnir fegurð íslenskrar náttúru betur en nokkur önnur kvikmynd, en íslenskt landslag leikur í raun eitt af aðalhlutverkunum. Það er sérstaklega gaman að Gunnari Eyjólfssyni og Ólafi Darra Ólafssyni. Báðir eiga þeir góða spretta.

"Beowulf & Grendel" er fín skemmtun. Aðeins eitt atriði í upphafi myndar hefði mátt missa sig, en þá kemur Beowulf að landi einhvers staðar og fær að borða hjá fiskimanni. Það atriði hefði mátt hverfa þar sem það gerir ekkert fyrir heildarmyndina, og maður veltir stöðugt fyrir sér, hvernig í ósköpunum tengist þetta atriði því sem gerist seinna? Og ég velti jafnvel fyrir mér hvort að leikstjórinn Sturla Gunnarsson hafi verið að leika sér með tímann, að þetta væri atriði sem átti að gerast seinna í myndinni, en það kom aldrei. 

Það hefði mátt bæta klippinguna og ná fram betri hrynjanda í myndina. Fyrir utan það er "Beowulf & Grendel" ágætis skemmtun.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband