Af hverju það er ekki "óheiðarlegt" að vera á móti ICESAVE

Undanfarið hef ég heyrt þau rök fyrir að samþykkja ICESAVE samninginn, að það sé heiðarlegra heldur en að samþykkja hann ekki, að ef við samþykkjum ICESAVE erum við að viðurkenna skuldbindingar sem eru samkvæmt lögum okkar. Þar að auki sé fólk orðið leitt á þessu máli og best að klára það sem fyrst. 

Með fullri virðingu fyrir þeim sem halda því fram að það sé heiðarlegra í málinu að ganga að samningnum, þá eru þeir að gefa í skyn að óheiðarlegt sé að ganga ekki að samningnum. Þetta er rökvilla og þar af leiðandi vitleysa. En ef vitleysa hljómar sannfærandi og er endurtekin nógu oft, þá fer fólk að trúa henni. Það væri alveg eins hægt að segja að öll börn séu ódrepandi vegna þess að þau eru saklaus og að ekkert geti skaðað þá sem eru saklausir, þar sem Guð verndar þá, fordómur sem leiddi reyndar þúsundir barna til dauða á miðöldum og flest í krossferðum.

Heiðarlegt fólk getur verið með eða á móti ICESAVE og óheiðarlegt fólk getur verið með eða á móti ICESAVE. Þetta hefur ekkert með heiðarleika að gera.

Hins vegar greini ég áhugavert siðferðilegt vandamál þarna, og það er hvort að fara skuli að lögum skilyrðislaust, sama hvert málefnið er, eða hvort að fylgja skuli siðferðilegum lögmálum, eins og hugsjóninni um réttlæti.

Lög byggja á siðferði, en ekki öfugt. Það þarf afar sjálfstæða hugsun til að greina það sem er siðferðilega rétt eða rangt út frá ólíkum siðfræðikerfum, en það þarf nánast enga sjálfstæða hugsun til að greina hvað er rétt eða rangt út frá lögum.

Tökum nytjahyggjuna sem siðfræðilega kenningu um rétt og rangt. Meginhugmynd nytjahyggjunnar er að velja skuli það sem er heildinni til heilla. Þetta getur þýtt að einhverjum einstaklingum eða hópum megi fórna, slíkt sé réttlætanlegt til að bjarga heildinni. Þá vakna spurningar um hver þessi heild sé, og hvernig sé hægt að velja á réttlátan hátt hverjum skuli fórna og hverjum hlífa þegar verið er að vernda heildina.

Samkvæmt nytjahyggjunni væri aðeins réttlætanlegt að samþykkja ICESAVE ef það kemur heildinni betur en að samþykki ekki ICESAVE. Gallinn er að fólk á erfitt með að leggja dulu yfir augu sín og blinda sjálf sig gagnvart eigin þjóðfélagsstöðu, og því líklegt að viðkomandi muni telja hópinn sem hann eða hún tilheyrir sem mikilvægan hluta af heildinni. Það sama munu aðrir gera.  Þessum spurningum þyrfti að svara:

  1. Væri ICESAVE samþykkt heildinni til heilla?
  2. Hver er heildin?
  3. Er réttlætanlegt að útskúfa þeim sem minna mega sín?
  4. Er réttlætanlegt að fórna einstaklingum fyrir heildina?
  5. Er réttlætanlegt að fórna hópum fyrir heildina?
  6. Jafnast réttlæting nytjahyggjunnar á við réttlæti?

Tökum aðra siðfræðikenningu, gegnsæishyggju, eða "transcendentalism". Sú kenning snýst um að réttlæti sé þegar hægt er að sjá meginlögmál út frá athöfnum. Samkvæmt þessum hugmyndum er mannlífið yfirleitt talið óendanlega verðmætt, og aldrei réttlætanlegt að fórna einum fyrir fjöldann. Þess vegna er frekar erfitt að sætta nytjahyggjufólk og gegnsæishyggjufólk, grundvallarforsendur stangast á. Hugmyndir eins og þrælkun, fasismi, einræði, nasismi, kapítalismi, má rekja til nytjahyggju, en hugmyndir eins og skoðanafrelsi, kynfrelsi, lýðræði, kommúnismi, og fleiri hugmyndir má hins vegar rekja til gagnsæishyggju. Mér dettur ekki í hug að dæma annað hvort sem gott eða slæmt í sjálfu sér. 

Meginlögmál gagnsæishyggjunnar til að átta sig á hinu rétta og ranga er að spyrja sig: hvað ef allir gerðu svona, eða hvað ef enginn gerði svona? Eða: komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.

Hvað ef allar þjóðir tækju ábyrgð á skuldsetningu óreiðumanna, sem höfðu áður hagnast óheyrilega án þess að deila þeim auð með þjóðinni, og vilja nú í stað þess að missa allar sínar eigur, skuldsetja eigin þjóð til frambúðar, ekki bara þá sem sitja heima í kvöld og horfa á sjónvarpið, heldur líka börn þeirra og barnabörn, og jafnvel barnabarnabörn og barnabarnabarnabörn. Börnin hafa ekki val, en ábyrgðin yrði lögð á þeirra herðar af okkur, og þar með yrðu þau þrælbundin til frambúðar. Hvað myndu Bretar gera ef við myndum skipta um hlutverk?

Ekki segja mér að þrælkun framtíðarinnar sé heiðarlegri en að forða framtíðinni undan þrælkun, nema þú getir rökstutt þá skoðun afar vel.

Aðrar siðfræðilegar kenningar, eins og epíkurismi, sem ég held að sé ríkjandi á Íslandi í dag ásamt nytjahyggjunni, myndu benda á að það þurfi að vera ákveðið jafnvægi í heiminum, jafnvægi á neyslu okkar, og því væri rétt að borga.

Stóuspeki, sem er enn ein siðfræðikenningin, myndi sjálfsagt segja okkur að kyngja þessu eins og hverju öðru meðali, að ytri og efnisleg gæði skipta okkur hvort eð er engu máli, við fáum þau hvort eð er að láni í þessu lífi og þurfum hvort eð er að skila þeim aftur einhvern tíma. Því minni tengingu sem við höfum við efnið, því tilbúnari erum við fyrir dauðann.

Ef við lítum hins vegar á siðferðilega dyggð sem mælikvarða á rétt og rangt, þá er ljóst að við erum í afar vondum málum, því dyggð snýst um að fólk geri skyldu sína, sem er að gera allt sem það getur af heilindum og gera það vel og án sjálfselsku. Ég efast um að hin spillta íslenska þjóð skoraði hátt á dyggðaskalanum, enda virðist sjálfselskan dyggðinni sterkari.

Eins og ég hef vonandi sýnt fram á með þessari stuttu grein, þá er engan veginn nóg að samþykkja ICESAVE vegna þess að það er heiðarlegra en að gera það ekki, eða vegna þess að þetta mál hefur dregist alltof mikið á langinn og er leiðinlegt.

Það er ljóst að það verður að klára þetta mál. Spurningin er ennþá hvernig. Og báðar leiðirnar eru vondar. Önnur leiðir framtíð okkar í vanda, hin leiðir okkur sjálf í vanda. 

Að segja heiðarlegra að setja framtíð okkar í vanda en okkur sjálf, finnst mér svolítið sjálfhverft, og satt best að segja óréttlætanlegt. Við þurfum að hreinsa til. Það er á hreinu. En við þurfum að gera það sjálf. Ekki ýta vandanum undan okkur. Slíkt leiðir varla til góðra lykta.

 

Það sem vakti mig til umhugsunar fyrir þessa grein:

Í gær skrifaði ég athugasemd við eina af mörgum góðum greinum Láru Hönnu, Samhengi hlutanna og sameign þjóðar, um hvernig ég rökstuddi greiningu mína fyrir ICESAVE. Athugasemd minni var svarað af "Ásu", en henni þótti eitt mikilvægt atriði skorta í mínar pælingar. Mér finnst þessi athugasemd sýna góðan hug, en held að hún missi samt marks. Þakka ég henni fyrir þessa athugasemd, og vonandi þyk ég ekki of frakkur að birta hana hér í heild:

 

Sæl Lára Hanna, þetta er góð ábending en ég hef einmitt furðað mig á þvi margfalda lénsveldi sem viðgengst í stjórnkerfinu en þar eru hundruð lítilla klíka sem starfa einar og óháðar hvor annari í stanslausri samkeppni um fé og völd.

Einnig áhugavert innlegg hjá Hrannari en ég hjó eftir því hjá honum að ekki kemur til umræðu grundvallarviðhorf til Icesave og það sem mér persónulega finnst málið snúast um. Hann setur ekki upp aðalútskýringuna á því af hverju fólk vill klára Icesave en aðalástæða mín fyrir því hefur ekkert að gera með hagsmuni heldur er meira í anda þess sem Páll er að ræa um: heiðarleika, að standa við lög og reglur, að virða samninga og hegða sér á ærlegan hátt.

Við erum ekki öll með einhverja ytri hagsmuni að leiðarljósi, það snýst ekki allt um hvað við getum grætt en það virðist vera aðaleinkenni þessararar þjóðar, eiginhagsmunasemi og skortur á samvinnu, samkennd og samheldni sem er einmitt það sem Páll bendir á. Ég vil klára Icesave vegna þess að ég vil tilheyra þjóð sem virðir gerða samninga, virðir lög og reglur og fer eftir þeim á ærlegan máta en hegðar sér ekki eins og útrásarvíkingur eða siðlaus agent sem telur í lagi að hlúa að glæpastofnunum sem vaða uppi undir verndarvæng ríkisins og neita svo að koma heiðarlega fram og standa við samninga, lög og reglur.

Ef við erum ósátt við lög og reglur vinnum við að því að breyta þeim.

Þetta og önnur atriði sem benda til þess að það er ákveðin ,,lögleysa” í sálu þessrar þjóðar, þrjóska við að fara eftir reglum eða lögum og sjálftökuhentisemi sem er ungræðisleg og vanþroskuð. Gott dæmi eru lögin sem banna áfengisauglýsingar. Menn fara í kringu lögin og auglýsa áfengi lon og don og allir vita að um áfengisauglýsingar er að ræða þó að einhverstaðar í horninu standi ,,léttöl”. Við samþykkjum öll þessi lögbrot með því að yppta öxlum og segja að þetta skipti ekki máli, þetta sé allt í lagi því þessi lög séu svo asnaleg. Semsagt á Íslandi má bjróta lög ef fólk almennt telur þau asnaleg og þjóna ekki þeirra hagsmunum. Siðleg þjóð myndi frekar breyta lögunum og fara svo eftir þeim. En ekki á Íslandi, hér hefur engin fyrir því að vinna að því að breyta þessum lögum í þá átt sem samfélagið vill heldur umber brot á þeim því engin nennir að þvargast í að kæra svona ,,smotterí”.

Ef að menn geta valið að brjóta þau lög sem þeim henta með einhverskonar almennum ‘consesus’ eða samþykki, þá er ekki skrýtið að meirihluti þjóðarinnar vilji ekki standa við Icesave skuldbindingar okkar, velji í raun frekar að haga sér eins og útrásarvíkingarnir og taka ekki ábyrgð á þeim samþykktum sem þjóðin hefur gegnist undir, vilja ekki standa við undirrituð lög, ekki standa við skuldbindingar og ekki beina sjónum sínum að þeim sem raunverulega ábyrgð bera í málinu.

Samvinna, samheldni, samhugur, samúð, hluttekning, heiðarleiki, hugrekki, víðsýni og samhengi hlutanna er fórnað á altari sjálfshyggjunnar enn einu sinni.

(Ása)

 Einnig skrifaði minn ágæti bloggvinur, Sæmundur Bjarnason þetta í dag, skáletrun er mín:

Mér leiðast Icesave-umræður. Pældi samt í gegnum umræður um það efni sem Emil Hannes fór af stað með. Er sammála honum um að siðferðislega er ekki hægt annað en samþykkja að greiða þetta. Lagakróka og þessháttar er hægt að nota í báðar áttir. Pólitískir flokkar ráða of miklu um afstöðu fólks í þessu máli og útlendingahatrið er alltof áberandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sæll Hrannar. Þú ert hér með nokkuð djúpar siðferðilegar pælingar sem ég hef í sjálfu sér ekkert við að athuga.

En ef við teljum þetta Icesave mál eingöngu siðferðilegt þá sniðgöngum við fjármálahlið þess - sem er að vísu siðferðileg innan síns sviðs en þó ekki altæk. Því siðferði gerenda í fjármálaheiminum - þar sem Icesave mál allrahanda þrífast - er ekki endilega yfirfæranlegt á alþýðuna sem til skamms tíma vissi ekki einu sinni hvað Icesave er/var. Almennt er fólk; þessir margmærðu máttarstólpar samfélagsins, einmitt of upptekið af eigin lífsbaráttu til þess að elta einhver skyndigróðatækifæri.

Ég held að flestir heiðarlegir íslendingar afneiti Icesave ábyrgð fyrst og fremst vegna þess að þeir vilja alls ekki láta bendla sig við það afbakaða siðferði sem í því fjármálaplotti fólst. Hvað þá að taka á sig skuldbindingar fyrir hina seku.

Kolbrún Hilmars, 16.12.2009 kl. 19:55

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Í mínum huga er siðferðið miklu mikilvægara en íslensk lög sem ekki hefur verið farið eftir nema í tækifærisskyni á Íslandi. Það er komið nóg af laga klókindum svikara á Íslandi.

Alvarlegasta gjaldþrot Íslands er siðferðisleg brenglun, lagabrot og svindl bæði hér heima og erlendis.

Þessu hefur eðlilega fylgt vantraust annara þjóða eins og heimamanna. Svo tala sumir Íslendingar um að aðrar þjóðir hafi svikið Ísland! Ja hérna. Sumum hefur verið gefinn möguleiki á samstarfi sem þeir fatta ekki einu sinni að meta og nota. Græðgin ríður ekki við einteyming hjá gömlu spillingaröflunum, eins og sagt var á Íslensku hér áður fyrr. Gangi okkur öllum sem best.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 16.12.2009 kl. 21:55

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ef við skilgreinum ICESAVE sem skuldir íslenskra óreiðumanna sem ekki fást greiddar og spyrjum á hverjum það ætti að bitna. Þá koma þessir til greina: Innlánseigendur í Icesave, breskur almenningur og íslenskur almenningur. Enginn þessara þriggja hópa getur þó talist sekur í málinu.

Það er reyndar þegar ljóst að þetta mun bitna á breskum almenningi. Siðferðislega erum við ekki í sterkri stöðu ef við tökum ekki að okkur hluta af ábyrgðinni. Burt séð frá lagalegum þáttum.

Emil Hannes Valgeirsson, 16.12.2009 kl. 23:55

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Vissulega hlýtur þjóðin að taka eitthvað af þessari ábyrgð, en eins og staðan er í dag er verið að skrifa undir samkomulag sem þjóðin mun aldrei geta staðið við.

Hrannar Baldursson, 17.12.2009 kl. 06:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband