Svínin á Alþingi (2. þáttur um Vilhjálm og Konung)

Tímaferðalög eru ekki þægilegur ferðamáti, sama hvað hver segir. Þú sest ekki upp í tímaferðabíl og á næsta augnabliki hefurðu skotist 20 ár aftur eða fram í tíma. Þú sest ekki í þægilegan stól þar sem þú sérð umhverfið breytast og hrörna þegar þú ferðast fram á við, sérð jafnvel styrjaldir rústa umhverfi þínu, og einhvers konar risaeðlur verða til á ný eftir að mannkynið hefur gjöreytt sér og pólarnir bráðnað. Nei, tímaferðalög eru ekki þægileg. Þetta vissi Vilhjálmur ósköp vel og þetta fékk Konungur að reyna í sinni fyrstu ferð, sem var ekki bara nokkur þúsund ár inn í framtíðina, heldur einnig úr fantasíuheimi inn í veruleikann.

Ferðin tók þá um sex daga í rauntíma. Fyrsta daginn þjáðist Konungur af tímaveiki. Honum var stöðugt flökurt og við það að æla, en gerði það ekki. Það var hvergi klósett, en samt þurftu þeir að gera þarfir sínar í þessu síbreytilega tímarúmi sem þeir ferðuðust um. Ég fjalla ekki um það í smáatriðum. Vilhjálmur hafði haft vit á því að taka með sér mat, sem hann deildi með Konungi í litlum skömmtum þessa sex daga sem ferðin tók. 

Umhverfi þeirra var skrítið. Þeir hvorki stóðu, sátu né lágu, heldur flutu um í einhvers konar þyngdarleysi og allan tímann umkringdir jarðvegi sem var sífellt á hreyfingu. Mold, steinar, málmar, vökvi og gufa virtust ekki fylgja neinum reglum. Sumt flaut upp, annað niður, og annað til hliðar, og síðan þversogkross út um allt. Eftir tvo daga fór Konungur þó að greina ákveðna reglu í óreiðunni. Ljós skein úr einni átt gegnum þennan síhrynjandi jarðveg, en ef þú horfir í þetta ljós blindastu fljótt. Skruðningarnir í jarðveginum eru hreint óþolandi. Ef þú ætlast til að ná sæmilegum samræðum við ferðafélaga þinn meðan á tímaferðalagi stendur, þá skjátlast þér hrapalega.

Rýmið var ekki stórt. Það var samt nógu stórt til að breiða út öllum öngum og gera leikfimisæfingar. Hins vegar gætirðu ekki sveiflað ketti í kringum þig án þess að hann færi í jarðveginn, og myndi sjálfsagt hvæsa að þér meira en mjálma upp frá því.

En þetta var sérstök upplifun fyrir Konung, því allt hans líf hafði verið svo þægilegt, og hann  búinn í slíkan bómull, að hann var að reynslu og gáfum eins og tveggja ára barn. Nú máttu ekki vanmeta gáfur tveggja ára barns. Ef hlustað væri meira á þann hóp einstaklinga væri heimurinn hugsanlega betri, hafirðu í huga að meirihluti þeirra nær ekki að hugsa út fyrir eigið sjálf. Hin sem geta það, reynast hins vegar mestu vitringar Jarðar.

Þeir Konungur og Vilhjálmur reyndu að tala saman, en þar sem þetta var fyrsta tímaferðalag Vilhjálms með farþega, vissi hann ekki hvernig þeir gætu bætt tjáskiptin. Hins vegar áttaði Konungur sig á að þegar hann þrýsti á eyrnalokurnar, þá gat hann hlustað á hrópin í Vilhjálmi. Hann hafði ekki heyrt neitt vegna skruðninganna, en loks tókst honum að nema ákveðnar upplýsingar.

"Ekki þægilegt!" hrópaði Vilhjálmur.

Konungur hristi höfuðið og langaði helst til að kirkja Vilhjálm, en þetta var á fyrsta degi og hann var svo máttlaus að hann hefði ekki einu sinni getað löðrungað manninn með hanska.

"Af hverju?" hrópaði Konungur.

Vilhjálmur yppti öxlum og brosti vandræðalega. Hann sagði nokkur orð, en það eina sem Konungur heyrði var, "... við fæðumst..."

Á öðrum degi spurði Konungur hvert ferðinni væri heitið.

Aftur yppti Vilhjálmur öxlum. Hann virtist ekkert vita. Konungur var ekki alveg sáttur. Hann hafði gert ráð fyrir að Vilhjálmur hefði einhverja þekkingu um hvert förinni væri heitið, hver tilgangur ferðarinnar væri, en hafi Vilhjálmur vitað eitthvað, hefur sú þekking verið byggð á reynslu, útreikningum, pælingum, gildum og visku - og lítið haft með staðreyndir að gera. Svona eins og lífið sjálft.

Á fjórða degi voru þeir alveg hættir að reyna samskipti og voru báðir svo skapvondir og pirraðir út í hvorn annan, fyrir það eitt að vera í sama rými svona lengi, og fyrir að lykta af þvagi, svita og skít, og fyrir að vera krímugir í framan og með hárið fullt af jarðvegi. Þeir þurftu líka að anda inn í ermar sínar, og áttu orðið erfitt með andardrátt þegar jarðvegurinn umhverfis þá fór að þynnast, og ljósið að skína skýrar í gegn. 

Það var svo á sjötta degi að jarðvegurinn hvarf og þeir stóðu úti á túni í grenjandi rigningu við styttu á torgi sem umkringt var fallegum byggingum. Vilhjálmur þekkti umhverfið og lýsti því fyrir Konungi. Hann sagði að þeir væru staddir á Íslandi.Styttan að baki þeim væri af Jóni Sigurðssyni forseta, sem hafði verið einn af forystumönnum sjálfstæðisbaráttunnar samkvæmt sögubókum, en það væri svolítil einföldun á lífi hans, og að húsið fyrir framan væri Alþingi, við hlið þess Dómkirkjan, á bakvið tjörnin, og svo lýsti hann öðrum byggingum sem hann hafði komið í, Hótel Borg og Silfrinu, Cafè Paris, og gamla pósthúsinu.

Þar sáu þeir sýn sem þeim þótti ótrúlegri en jafnvel þessi ferð sem hafði tekið þá alltof langan tíma. Út úr Dómkirkjunni streymdi svínahjörð sem fór rakleiðis inn í Alþingishúsið. Konungur reyndi að telja skinkurnar og sýndist þær vera um það bil sextíu talsins. 

"Mig grunar að ég viti hvert verkefni okkar er hérna," sagði Vilhjálmur.

"Hvað meinarðu? Grunar verkefni?" spurði Konungur.

"Ég hef ferðast víða síðustu sextán ár," sagði Vilhjálmur. "Það myndi æra óstöðugan að heyra um öll þau ævintýri sem ég hef lent í frá því þetta byrjaði allt saman, en það eina sem ég hef lært og veit með vissu, er að þegar ég hef fundið raunverulegt vandamál og leyst það, þá kemst ég í annað ferðalag."

"Af hverju viltu komast í fleiri svona ferðalög?" spurði Konungur.

"Ætli ég vilji ekki bara komast heim," sagði Vilhjálmur. "Mig grunar að þú eigir að taka við starfi mínu og ég eigi að kenna þér til verka, og þannig komist ég aftur heim."

"En hvað um mig?" spurði Konungur. 

"Ég veit ekki hvernig þetta virkar, ég veit bara hverju ég trúi," sagði hann. "Ég held að Óðinn hinn eineygði hafi eitthvað með þetta að gera, og að hann sé að fylgja einhverju Guðlegu plani."

"Um hvað ertu að tala?"spurði Konungur.

Vilhjálmur útskýrði fyrir honum hvernig þetta hafði allt saman byrjað með draumum hans um þrjár nornir og ferðir hans í Goðheima, og áður en hann vissi voru draumarnir orðnir að veruleika og veruleikinn að draumi, og hvernig hann hafði leitað að föður sínum heitnum og fundið hann látinn á vígvelli þar sem menn börðust gegn skrímslum, séð hvernig valkyrjurnar höfðu vakið hann aftur til lífsins, og hvernig hann hafði frelsað föður sinn úr þessum álögum. Hvernig þeim hafði tekist að finna látna móður hans í gríðarstóru eldhúsi goðanna, og einnig frelsað hana. Hvernig honum hafði verið refsað af Óðni fyrir afskipti hans með því að vera sendur á vígvöll án reglna, í óræðnum tíma og óræðnu rúmi. Eina verkfærið sem hann hefði með sér væri altækur skilnningur á grunnmálinu, sem er lagið á milli hugsana og tungumáls, þannig að hann skildi tungumál viðkomandi menningar eftir að hafa heyrt um tíu orð.

Hann sagði þetta of langa sögu til að tjá hér og nú, að þegar tími gæfist myndi hann setjast niður og skrifa hana alla. En nú væri nokkuð ljóst hvert næsta verkefni yrði: að reka svínin út úr Alþingishúsinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband