Sagan sem hófst þegar fólkið hvarf

Einu sinni var Konungur í ríki sínu. Hann var frekar einmana því að allir sögðu alltaf já við hann. Hins vegar hafði hann ekki hugmynd um að þessar tilfinningar sem sóttu á hann voru einmanaleiki og þunglyndi, og taldi sig einfaldlega vera hamingjusaman, þar sem að hann átti allt sem hugur hans girntist og allir hlýddu óskum hans skilyrðislaust. Fólkið í hirðinni hélt að það gæti lækkað í tign fyrir að mótmæla honum. Almúginn hélt að hausar fengju að fjúka ef það vogaði sér að ávarpa hann.

Helsti ráðgjafi hans var slóttugur, en það var hann sem kom þeim orðrómi af stað að Konungur vildi ekki heyra nein mótrök, enga neikvæðni, engar fyrirstöður. Og hann var allra manna bestur í að skjalla Konung og eigna honum hugmyndir sem njósnarar hans hleruðu víða um borg og bý. Það var því ráðgjafinn sem fór með hin raunverulegu völd, ekki Konungur.

Dag einn var Konungur á gangi úti í garði, einn með hugsunum sínum, að velta fyrir sér hvort hann ætti að láta mála herbergið sitt grátt, eða hvort hann ætti að fá bestu listamenn landsins til að keppast um verkefni við að mála herbergið hans, grátt. 

Hann fór til ráðgjafa síns og sagði honum frá ósk sinni, að hann vildi að færasti listamaður landsins málaði herbergið hans grátt. Ráðgjafinn var eitthvað illa upp lagður þennan dag og gerði þau mistök að spyrja Konung spurningar: "Hvernig eigum við að finna slíkan mann?"

Konungur var ekki lengi að svara. "Við getum haldið samkeppni, og sá sem málar fegursta gráa flötinn á striga, fær þann heiður að mála herbergið mitt."

"Og hvernig, minn hávirti, eigum við að meta hvaða verk er fegurst?"

"Ég met það," sagði Konungur.

Samkeppnin var haldin. Þúsund og eitt málverk fóru í keppnina. Fyrir óvön augu litu þau öll eins út, grár flötur með ramma. Hins vegar hafði Konungur undirbúið sig vel, skoðað vandlega alla þá hluti náttúrunnar sem voru gráir, hvort sem það var steypa, steinar, eða litur augna hans eins og hann kom fyrir í spegli. Hann ætlaði að nota útilokunaraðferð til að finna rétta listamanninn. Sá þyrfti að hafa vit á að finna rétta konunglega tóninn, með þessu bliki sem hann kannaðist svo vel við, sérstaklega þegar hann hugsaði djúpt um litatóna.

Málverkin voru af öllum stærðum og gerðum. Sum voru jafnlítil og barnslófi, og önnur jafnvel stærri en hallarveggirnir. Flestir listamennirnir lögðu líka mikla vinnu í rammana, og sumir þeirra skreyttir demöntum og aðrir gulli. 

Það var á laugardagsmorgni að Konungur gekk af stað til að skoða málverkin, en listamenn stóðu við hlið þeirra um alla borg. Konungur þurfti að þræða alla stíga og allar götur og öll öngstræti borgarinnar ásamt ráðgjafa og lífvörðum. Við hvert einasta málverk spurði hann ráðgjafa sinn og lífverði, "Hvernig finnst ykkur?" 

Einhvern veginn tókst þeim hverjum og einum að svara engu fyrr en Konungur var búinn að segja sitt álit. En öll þessi gráu málverk voru listilega vel gerð, og var Konungur afar hrifinn af góðum smekk þegna sinna. 

Þá kom hann að verki sem var öðru vísi en öll hin. Fyrir miðri mynd var gulur hringur og inn í honum brúnn kjarni. Neðri hluti bakgrunnsins var grænn, sá efri blár. Það var ekkert grátt að finna í myndinni. Enginn rammi. 

Konungur nam staðar og starði á gripinn. Ráðgjafi hans var fljótur á sér og tók upp svipu, en gamall maður sat við hlið verksins, og hafði ekki einu sinni staðið upp Konungi til dýrðar. 

"Hvað á þetta að þýða," þrumaði ráðgjafinn út úr sér. "Sýnir þú ekki konungi vorum tilhlýðilega virðingu? Myndin stenst ekki kröfur og þú situr eins og þú værir jafningi hans."

"En ég er jafningi hans," sagði gamli maðurinn og gerði sig ekki líklegan til að standa á fætur. Hann leit á svipuna í hendi ráðgjafans. "Ætlarðu að nota þetta?"

Þegar Konungur sá ráðgjafann reiða svipuna til höggs benti hann lífvörðum sínum að stöðva hann. Þeir stukku á ráðgjafann sem átti þar ekki von á slíkri útreið. Konungur hins vegar settist á götuna við hlið gamla mannsins. Hann hafði aldrei áður hitt manneskju sem fór ekki algjörlega eftir óskum hans. Þetta vakti forvitni hans.

"Sæll," sagði Konungur og rétti manninum hönd sína. "Konungur heiti ég." 

"Blessaður," sagði gamli maðurinn. "Vilhjálmur." 

"Hvernig stendur á, ef ég má spyrja, að þú stendur ekki upp fyrir konungi þínum og sýnir verk sem er alls ekki í samræmi við óskir hans?"

"Jú," svaraði Vilhjálmur. "Ég hef þá trú að allir menn séu fæddir jafnir og ættu að lifa jafnir. Til að jöfnuður sé mögulegur þarf fólk að geta rætt hlutina, og það er ekki hægt að ræða hlutina án þess að skiptast á skoðunum, og þar sem við höfum öll ólíka reynslu og höfum íhugað ólíka hluti erum við misjafnlega á veg komin með að móta þekkingu okkar. Ég geri ráð fyrir að jafnvel konungur þroskist frá því að vera barn í að vera eitthvað annað, ekki satt?"

Konungur varð ringlaður á þessum óvæntu upplýsingum. Að allir væru jafnir? Að hann væri ekki æðri en allir hinir? Að hann vissi ekki betur en allir hinir? Hann langaði til að segja 'hvernig vogarðu þér?' en þess í stað varð forvitnin honum yfirsterkari, og hann spurði: "Hvernig vogarðu þér, vinur?"

Vilhjálmur stóð á fætur og hneigði sig fyrir Konungi. 

"Þú ert ekki fyrsti konungurinn sem verður á vegi mínum, og hef ég fundið á ferðalögum mínum fleiri menn sem hafa talið sig æðri öðrum og endað lægri öllum, ég hef komist í kynni við furðuverur og vætti á mínum ferðum, fundið fjársjóði og tapað þeim, barist við hóp hermenna jafnvel vígalegri en þessara sem standa þér við hlið. Ég er kominn til að flytja þér fréttir, og hafði reynt að ná samskiptum við þig í fáeina mánuði, án árangurs vegna þess hversu vel þú ert verndaður af þínum góðu ráðgjöfum og lífvörðum. Þegar þessi keppni var auglýst vissi ég hvernig ég gæti náð sambandi við þig. Og það hef ég nú gert."

"Áhugavert," sagði Konungur. "Nú hefurðu náð sambandi við mig. Hvað viltu fá að vita?"

"Það er ekki hvað ég vil fá að vita," sagði Vilhjálmur. "Heldur hvort að þú sért tilbúinn til að lifa áður en þú deyrð? Ofvernduð manneskja sem á allt sem hún vill, heyrir engan mótmæla sér, lærir ekki neitt sem er þess virði að læra í lífinu. Þú þarft að kynnast sjálfum þér, og ég er hér kominn til að benda þér á þessa einföldu staðreynd."

Ráðgjafinn hafði stigið á fætur. "Ekki hlusta á hann, yðar hágöfgi," hvæsti hann út úr sér. En það var of seint. Fræjunum hafði verið sáð í frjóa jörð. Athygli Konungs var vakin. Hann bað verðina að þagga niður í ráðgjafanum.

"Hvað þarf ég að vita?" spurði Konungur. 

"Það er margt," sagði Vilhjálmur. "Í fyrsta lagi þarftu að vita að allir hafi ólíkar skoðanir. Í öðru lagi að þú ert ekki vinsæll, að þú ert í raun með hötuðustu konungum sem uppi hafa verið, einfaldlega vegna þess að þú ert ekki í sambandi við fólkið þitt?"

"Er þetta satt?" spurði Konungur og leit í kringum sig og reyndi að ná augnsambandi við verði sína og þá þegna sem fylgdust með. Allir sem einn litu þeir undan, allir nema ráðgjafinn sem stóð fastur á milli tveggja varða. 

"Af hverju lítið þið undan?" spurði Konungur. Eina svarið sem hann heyrði var skrækjandi kráka einhvers staðar í fjarska. Þá rann upp fyrir honum ljós. Hann fann að þessi einmanaleiki og þetta þunglyndi sem hann vissi ekki hvað var, að það var raunverulegt, og hann vildi finna leið til að takast á við þetta merkilega vandamál.

"Getur þú hjálpað mér," spurði hann Vilhjálm. 

Vilhjálmur kinkaði kolli. "Það verður hættulegt. Þú munt lenda í ævintýrum, berjast við skrímsli og aðra óvætti, upplifa svik og pretti, sorg og meiri depurð en þú hefur nokkurn tíma fundið, þú munt finna nokkuð sem er þess virði að lifa fyrir og jafnvel deyja fyrir, ef þú aðeins kemur með mér."

Konungur klappaði á öxl Vilhjálms og hló. "Þú ert ekki bara öðruvísi, þú ert fyndinn. Þú hefur unnið keppnina."

"Þú munt ekki sjá eftir þessu," sagði Vilhjálmur og hvarf. Augnabliki síðar hvarf Konungur með honum, rétt eftir að hafa starað inn í ekkertið sem Vilhjálmur hafði horfið í, því að einmitt í ekkertinu var þetta gráa og heillandi blik sem hann kannaðist svo vel við og þótti svo eftirsóknarvert.

 

Framhald síðar...

 

Þessi saga er skrifuð til heiðurs þeim bloggurum sem gufað hafa upp af Moggablogginu undanfarið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Bíð framhaldsins spenntur.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 1.11.2009 kl. 15:42

2 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Áhugavert.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 1.11.2009 kl. 15:58

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Spennandi lesning, ég bíð framhaldsins. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 2.11.2009 kl. 00:54

4 Smámynd: Offari

Tek undir með ofanrituðum.

Offari, 2.11.2009 kl. 01:35

5 identicon

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 2.11.2009 kl. 08:55

6 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Ég bíð líka.

Tómas Ibsen Halldórsson, 2.11.2009 kl. 10:19

7 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Þetta er góð saga og hefur merkingu....ég bíð eftir framhaldinu.

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 3.11.2009 kl. 09:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband