Hver tekur mark á nafnlausum bloggurum?

bloggers

Getur verið að bloggið sé orðið að ógn í huga spillingarafla og þeim sem vilja tjóðra málefnin niður þannig að skoðanir sem fólk myndar sér verði á þeirra nótum? Getur verið að sá hluti þjóðarinnar, eða jafnvel heimsins, sem er ekki farinn að lesa og skrifa blogg, sé njörvaður niður í skoðanir sem mataðar eru ofan í þau af skipulögðum fréttamiðlum?

Reiði þeirra sem hafa greitt himinháar fjárhæðir til að stjórna umræðunni í fjölmiðlum er skiljanleg, en ekki réttlát. Bloggið er orðið að byltingarkenndu fyrirbæri, frjáls skoðanaskipti, útgangspunktur lýðræðisins. Með slíkum skoðanaskiptum og umræðu verður lýðræði fyrst mögulegt.

Einræði þolir ekki frjálsa þjóðfélagslega umræðu. Verði takmarkanir settar á bloggið er það einungis vísbending um einræðistilburði. Aftur á móti geta frjáls skoðanaskipti og umræða, og þá jafnvel nafnlaus, leitt til virkari þátttöku lýðsins í lýðræðinu, því að án þátttöku lýðsins er ekkert lýðræði. Það þurfti mann að nafni Lýður til að kveikja þessar pælingar hjá mér.

Þar til í gær, hafði ég þá vanhugsuðu skoðun að ekkert mark væri takandi á nafnlausum bloggurum og að þeir hefðu samansem engin áhrif á þjóðfélagsumræðuna. Ég hafði ekki hugsað þetta dýpra, og þar af leiðandi má kalla þetta fordóma um nafnlausa bloggara. Til að koma í veg fyrir að ég verði hins vegar fordómafullur til framtíðar um nafnlausa bloggara er ég tilbúinn að endurskoða hug minn, viðurkenna að ég hafði rangt fyrir mér, og skoða málið betur áður en ég felli nýjan vanhugsaðan dóm.

Þess vegna stuðaði það mig þegar Lýður Guðmundsson fjallaði um það í Kastljósviðtali að nafnlausir bloggarar væru farnir að stjórna þjóðfélagsumræðunni. Mér fannst þetta kjánaleg skoðun, og skrifaði grein um hana: Stunda bloggarar nornaveiðar?

Hins vegar vöktu pælingar mínar nokkuð hörð viðbrögð og mér var bent á að ég hefði einfaldlega rangt fyrir mér, þar sem að tekið væri mark á gagnrýni og vangaveltum nafnlausra bloggara, sem byggðu á áreiðanlegum upplýsingum. Ég velti þessu fyrir mér og komst að þeirri niðurstöðu að skoðun mín um þetta mál hafi ekki verið byggð á nógu góðri umhugsun, og játa því að ég hafði sjálfsagt rangt fyrir mér í þessu máli, og að ég hef þar af leiðandi tilefni til að læra eitthvað nýtt, ekki bara um hugmyndina, heldur um sjálfan mig - því að ef eitthvað hefur klikkað í ferlinu við að móta eigin þekkingu, þá er það eitthvað sem er vert að skoða nánar.

Reiði þeirra sem hafa greitt himinháar fjárhæðir til að stjórna umræðunni í fjölmiðlum er skiljanleg, en ekki réttlát. Bloggið er orðið að byltingarkenndu fyrirbæri, frjáls skoðanaskipti, útgangspunktur lýðræðisins. Með slíkum skoðanaskiptum og umræðu verður lýðræði fyrst mögulegt.

Hver veit hvernig óþokkum þeim sem hafa komið þjóðinni á hné dettur í hug að hefna sín á bloggurum. Það er sjálfsagt auðvelt þegar menn blogga undir nafni, eins og ég, en skiljanlega getur það pirrað óstöðugan þegar ekki er hægt að ná tökum á hinum nafnlausa bloggara.

Ég vil lifa í samfélagi þar sem skoðanir eru virtar, séu þær vel ígrundaðar og rökstuddar, en ekki hafnað vegna hentisemi. Ég vil geta lifað í samfélagi þar sem maður getur skrifað sínar skoðanir undir nafni, og hafi maður rangt fyrir sér, geti fólk sent inn athugasemdir og aðstoðað viðkomandi við að leiðrétta slíkar skoðanir. Ég stóð í þeirri trú að Ísland væri þannig samfélag.

Kannski hafði ég rangt fyrir mér þar líka?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nafnleysið er bara svo erfiður kross að bera.  Nafnlaust blogg verður að vera þeim mun betra eigi það að hafa einhverja vigt.  Hnakkus kemur t.d með frábær innlegg öðru hvoru.  Sama má segja um Dr.E.  Báðir tveir bráðnauðsynlegir.

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 07:37

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég þekki vel til nafnlausra spjallverja.  Og ég veit að nafnið eitt hefur sáralítið að segja um gæði viðkomandi.  Það gerist að sumir misnota þetta og kasta skít í allar áttir, en það er misjafn sauður í mörgu fé, og þessir aðilar setja svartan blett á alla hina málefnalegu og góðu penna sem skrifa undir nafnleynd. 

Það geta legið margar ástæður fyrir því að fólk vill ekki skrifa undir nafni.  Þetta átti sérstaklega við meðan Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur voru við völd og það ríkti nánast ritskoðun, fólk missti vinnuna fyrir að taka á óvinsælum málum, sem snertu stjórnvöld.  Þetta er því miður staðreynd.  Þetta er eitthvað skárra í dag sem betur fer.  En sporin hræða. 

Oft hafa menn undir höndum upplýsingar sem eiga erindi við landsmenn alla, en menn eru bundnir af því að segja ekki frá því opinberlega.  Það sem ég hef tekið eftir er að þegar slíkt gerist, það sem kallað er deep throat, og viðurkennt í mörgum löndum sem nauðsynlegt aðhald, er ekki virkt hér á landi.  Og það er alltaf byrjað á því að reyna að finna þann sem uppljóstrar, skjóta sendiboðan en ekki taka á spillingunni.  Þetta er eitt af vandamálum okkar í dag. 

Ég skrifa alltaf undir nafni, en ég skil alveg og viðurkenni þá sem kjósa að gera það ekki.  Það er hins vegar svo að skrif manna dæma sig sjálf og fólk sem les er ekki fífl.  Það greinir fljótt á milli hvort menn eru einungis að nota nafnleysið til að kasta skít í allar áttir, eða eru að koma með málefnalegar athugasemdir. 

Þakka þér fyrir þennan góða pistill.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.9.2009 kl. 08:31

3 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Þetta eru áhugaverðar pælingar, það fer ekki á milli mála að netið hefur aukið lýðræði svo um munar. Lýðræði á þann hátt að nú komast stjórnmálamenn ekki upp með sama blekkingarleikinn og áður. Það hefur komið vel í ljós undanfarið. Þeir hefðu eflaust komið Icesave afglapasamningnum óbreyttum í gengum þingið ef ekki hefði verið fyrir netið. Það er svo skondið að allar forsendur fyrir ríkisreknum fjölmiðlum eru brostnar. Rökin fyrir þeim eru að það þurfi að sinna öllum vel, en raunveruleg ástæða er tilraun til að stjórna umræðunni. Nú er það ekki lengur hægt og því alveg eins gott að pakka saman og fara heim.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 1.9.2009 kl. 09:05

4 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Það er ekkert athugavert við það ef fólk kýs að halda nafni sínu og persónu fyrir utan argaþrasið... eiginlega bara skiljanlegt í þessu samfélagi okkar.

Pirrandi þegar fólk felur sig á bak við nafnleysið til að ráðast persónulega að fólki... en við verðum bara að taka því sem hverju öðru hundsbiti.

Við þurfum á því að halda að sem flest sjónarmið sjáist og heyrist

Heiða B. Heiðars, 1.9.2009 kl. 13:36

5 identicon

Góður pistill. Þrátt fyrir mín mismunandi nöfn (nafnleysur) hér á blogginu finnst mér ég hreinlega stundum verða að "grípa inní" umræðuna, ef mér finnst hún snúast um lygi (yfirleitt peningaleg og pólitísk), heimsku (almennt :-) ) og sögubrenglun (mjög í tísku akkúrat núna). Mér er jú annt um mína íslensku þjóð, og nýt þess að vera gjörsamlega óbundinn hvað flokka-, fjárhags- og fjölskyldutengsl varðar. Býð í staðinn uppá háskólamenntun í viðskipta- og hagfræði sem og áralanga reynslu við að búa og vinna á Íslandi sem og í öðrum þjóðfélögum. Ég tel mig ekki alfróðan, vil bara benda á punkta sem hægt væri að skoða nánar. Sem betur fer eru samt margir nafngreindir bloggarar (sem frekar er tekið mark á) sem halda uppi góðum umræðum. Takk

áhugasamur (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 15:12

6 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sæll Hrannar, aftur áhugaverður pistill um áhugavert málefni.

Þú veltir fyrir þér:

"Getur verið að sá hluti þjóðarinnar, eða jafnvel heimsins, sem er ekki farinn að lesa og skrifa blogg, sé njörvaður niður í skoðanir sem mataðar eru ofan í þau af skipulögðum fréttamiðlum? "

Þetta tel ég einmitt vera málið, og skrifaði reyndar smá pistil um það í april  s.l.     http://jennystefania.blog.is/blog/jennystefania/entry/853174  eftir stutta páskaheimsókn.

Fannst þá og finnst en þjóðin skiptast í nokkra hópa, sem virðast vera mismunandi vel eða illa upplýstir um alvarleika og ástand mála.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 1.9.2009 kl. 16:36

7 identicon

Er ekki mergurinn málsins að hvort sem blogg sé nafnlaust eða undir nafni þá sé innihald textans það sem skiptir máli? Sama hver segir eða skrifar? Dæmi: Ég fæ verkefni að leysa mjög erfitt samfélagslegt vandamál sem snertir gríðarlega marga. Ég leyta mér upplýsinga víða og tala við marga sérfræðinga og fróða menn um hvernig sé best að leysa málið en ég á samt í gríðarlegum erfiðleikum með að leysa það. Allt í einu kemur maður til mín sem heitir Hannes Gissurarson og segist vera með lausnina fyrir mig. En ég veit að vandamálið sem ég er að leysa sé einmitt Hannesi að kenna og skoðanir hans og hugmyndir eru mjög brenglaðar og hættulegar. Hannes Gissurarson hafði áður valdið gríðarlegu tjóni í þjóðfélaginu og valdið óbærilegum skaða. Fyrir vikið er afar ólíklegt að ég myndi nokkurn tímann hlusta á Hannes Gissurarson og því ekki taka mark á þeirri lausn sem hann hefði upp á að bjóða. En hvernig hefði ég brugðist við ef Hannes Gissurarson hefði sent mér nafnlaust bréf þar sem hann útlistaði hvernig leysa bæri málið og að lestri þess loknum væri ég kominn með lausnina? Án þess að vita hver hefði skrifað mér bréfið...

Kristbjörn (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 17:43

8 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Fróðleg pæling Kristbjörn, 

hins vegar er þessi nefndi Hannes með svo sérstakan ritstíl og skoðanir að hvenær sem hann geisist fram undir dulnefni, má þekkja stílinn langar leiðir.  Pælingin gæti kannski gilt um alla aðra en "Hannes".   ;)

Jenný Stefanía Jensdóttir, 1.9.2009 kl. 18:40

9 identicon

Mér finnst Kristbjörn hitta naglann á höfuðið. Það er innihaldið sem skiptir máli. Fjölmargar ástæður geta legið fyrir því að fólk kýs að skrifa ekki undir fullu nafni. Ég er farinn að hafa það þannig að lesa blogg þar til ég sé fúkyrði eða rakalaust bull, þá hætti ég að lesa viðkomandi færslu og fer að lesa næstu. Fjölmargt áhugavert og skynsamlegt hefur komið frá nafnlausum bloggurum síðan í hruni.

Í mörgum tilvikum gæti mönnum orðið nánast ólíft t.d. í vinnunni ef þeir kæmu fram undir fullu nafni.

Hinrik (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 21:23

10 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Flestir eru sammála um að það er textinn sem skiptir máli. Umræðan fjallar ekki um það, heldur hvort hægt sé að rekja textann til ákveðins aðila sé textinn hugsanlega í bága við landslög.

Skens sem getur verið leiðinlegt en er ekki ólöglegt er jafn algengt meðal þeirra sem skrifa undir nafni og þeirra sem gera það ekki.

Það sem menn eru líka að væla út af eru ekki hvað bloggararnir sjálfir skrifa heldur út af grófum athugasemdum sem birtast á síðum þeirra. Að rekja sumar þeirra getur verið flókið mál en er þó hægt eins og dæmin sanna, jafnvel af eiganda bloggsins.

Nýlega var Google gert af dómara að uppljóstra hver stæði á bak við blogg þar sem höfundur hafði vegið var að orðstír einhverrar smá-stjörnu í USA. Stjarnan höfðaði mál og svo höfðaði bloggarinn mál gegn google fyrir að ljóstra upp nafninu.

Hér á Íslandi gilda svipuð lög, þ.e. að hægt er að fá réttarúrskurð til að blogghýsilinn gefi upp nafn eða knt. viðkomandi ef vegið er að einhverjum nógu alvarlega.

Svanur Gísli Þorkelsson, 2.9.2009 kl. 00:40

11 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Nafnleyndin í sjálfu sér skiptir ekki máli heldur kannski að menn misnoti ekki nafnleyndina. En nafnlaust blogg fær vara mikla athygli ef það er óvandað.

En þetta er ágætis umhugsunarefni.

Það er alltaf ábyrgð að setja skoðanir sínar fram á bloggi og sérstaklega skoðanir á einstaklingum.

Nafnleyndin er eiginlega tvíbent. Hún getur t.d. verið vopn gegn valdhöfum sem misbeita sínu valdi og eykur þá vald viðkomandi einstaklings.

Þöggun er versti óvinur þeirra sem valdið beitir ofríki. Hún vinnur með valdinu.

Íslendingar eru dálítið ruglaðir þegar kemur að árásum á valdið og rugla því gjarnan saman við árás á einstaklinginn sem er að misbeita því. (þá verður valdhafinn gjarnan góður drengur, t.d. af því að hann er góður við ömmu sína) En baráttuna við valdið er erfitt að aðskilja frá þeim sem er að misbeita því.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 2.9.2009 kl. 01:09

12 Smámynd: Kama Sutra

Myndin af okkur nafnlausu gungunum og bleyðunum sem fylgir pistlinum er meiriháttar.

Einhver hefur húmor fyrir okkur, þótt flestir vilji sparka okkur út í hafsauga...

Kama Sutra, 2.9.2009 kl. 03:27

13 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Eftir að hafa fylgst með þessari umræðu hér hjá Hrannari og hjá Agli í Silfrinu s.l. 2 daga, er niðurstaðan nokkurn veginn þessi:

Nafnlaus blogg eiga skýlausan rétt á sér og ástæður fyrir nafnleysi er margvíslegur og yfirleitt réttmætur.

Nikkin skapa sér persónuleika, rétt eins og bloggað væri undir fullu nafni. Það hef ég sjálf fundið, enda ber ég rétt eins mikla virðingu fyrir "nikkum" eins og fullum nöfnum ef umræðan er málefnaleg.

Svörtu sauðirnir í "nafnlausu" nikkunum kunna ekki almenna háttvísi, eru ritsóðar, og gera lítið annað en að sverta þennan öfluga miðil. Þess vegna finnst mér óþarfi fyrir bloggara yfirleitt, sem vita betur, að taka þessum alhæfingum grátkórs útrásarvíkinga og sumra pólitíkusa persónulega eða alvarlega.

Baráttukveðjur

Jenný Stefanía Jensdóttir, 2.9.2009 kl. 04:34

14 Smámynd: Hrannar Baldursson

Kærar þakkir fyrir afar góðar athugasemdir og pælingar.

Hrannar Baldursson, 2.9.2009 kl. 06:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband