Unglingadeild Leikfélags Kópavogs: Viltu vera vinur minn á Facebook?

 

facebook_front

 

Í kvöld fór ég á þriðju sýningu Unglingadeildar Leikfélags Kópavogs, sem tólf stúlkur og leikstjórinn sömdu og settu upp á aðeins fimm vikum. Það var uppselt á sýninguna og bæta þurfti við stólum til að allir kæmust að.

Sýningin sjálf er afar skemmtileg, með eftirminnilegum söngvum og dansi, góðri notkun á hátækni sem fléttað er vel inn í sýninguna, miklum og góðum húmor og smá melódrama.

Sagan fjallar um BootCamp þjálfarann Diljá (María Björt Ármannsdóttir) og vinkonur hennar, um hvernig hún verður háð Facebook eftir að hafa fengið þá hugdettu að leita föður síns á þessu ágæta tenglaneti. Það vill ekki betur til en svo að hún ánetjast leikjum og vinasöfnum á síðunni. Vinkonur hennar og námsráðgjafi hafa áhyggjur, skvísuklíka slúðrar, og líf hennar endar í mikilli óreglu.

Það er eins og himnarnir séu að hrynja yfir Diljá, og eina von hennar til að ná aftur tökum á lífinu er að vinir hennar standi við hlið hennar þrátt fyrir stöðuga höfnun af hennar hendi. Og svo er það spurningin um hvort henni takist að finna föður sinn.

Þarna er afar vel að verki staðið og ljóst að þeir sem hafa áhuga á leiklist ættu að óska eftir fleiri sýningum, en ég veit að þetta átti að vera lokasýningin. 

Sýningin byrjar reyndar strax og áhorfendur koma inn í leikhúsið, þar sem leikarar taka vel á móti þeim á frumlegan og skemmtilegan máta. 

Anna Brynja Baldursdóttir leikstýrir.

Leikarar:

  • Agnes Engilráð Scheving
  • Alda Björk Harðardóttir
  • Anna Kristjana Ó. Hjaltested
  • Dagbjört Rós Kristinsdóttir
  • Elísabet Skagfjörð
  • Hulda Hvönn Kristinsdóttir
  • Helga Þórðardóttir
  • Júlíanna Ósk Einarsdóttir
  • Lovísa Þorsteinsdóttir
  • María Björt Ármannsdóttir
  • Sigrún Gyða Sveinsdóttir 

Afar flott og skemmtileg sýning, og það að uppsetning hennar með ritun handrits og öllu skipulagi hafi aðeins tekið fimm vikur, þarf ekki að nota sem réttlætingu, heldur stendur sýningin á eigin fótum sem góð skemmtun þrátt fyrir stuttan undirbúning.

Það verður spennandi að fylgjast með hvort að hópurinn muni bæta við sýningum. Það verður reyndar aukasýning 9. maí í tengslum við Kópavogsdaga. Um að gera fyrir fólk að hafa samband við leikhúsið og panta miða. Það kostar ekki nema kr. 1000 á sýninguna, og gaman jafnvel að taka börn með.

Áhugasamir geta haft samband við Leikfélag Kópavogs á midasala@kopleik.is eða í síma 823 9700.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband