Bolt 3D (2008) ****

Árið 2008 hefur verið gott fyrir teiknimyndir. Þær bestu sem ég hef séð á árinu eru Kung-Fu Panda, Wall-E og Bolt.  Mér finnst Bolt sú besta af þeim þremur, þó að erfitt geti verið að bera þær saman. Bolt hefur nefnilega hjartað á réttum stað, í sögu með ógleymanlegum persónum. Aðeins tvisvar áður hef ég séð teiknimyndir sem mér finnst algjörlega frábærar. Það eru Lion King (1994) og Toy Story (1995). Þetta eru sams konar sögur, persóna týnist, leitar að sjálfum sér og lærir nýjan tilgang með lífinu.

Ég vil taka það sérstaklega fram að ég sá myndina í þrívídd og með íslenskri talsetningu sem var frábærlega unnin.

Bolt er fimm ára gamall hvutti sem heldur að hann sé ofurhundur, en sannleikurinn er sá að hann er sjónvarpsstjarna sem veit ekki að allt í kringum hann er tilbúningur, rétt eins og Jim Carrey sem Truman  í The Truman Show (1999). Reyndar á Bolt sér eina sanna fótfestu í lífinu, en það er skilyrðislaust ást hans á eiganda sínum, stúlkunni Penny. Hann trúir að illmenni séu stöðugt á eftir henni og leggur sig allan fram við að bjarga henni úr vandræðum. Á nóttinni er hann skilinn eftir í hjólhýsi á sviðinu, og komið er í veg fyrir að hann fái nokkurn tíma að sjá hinn raunverulega heim.

Framleiðendur þáttanna óska eftir að einhverjir þættir endi illa. Í lok þáttar er látið sem að Penny hafi verið rænt og Bolt komið fyrir í hundakassa. Allir þættir höfðu endað vel til þessa, þannig að Bolt er virkilega pirraður þegar hann losnar úr kassanum, og tekst að flýja úr hjólhýsinu en þegar hann ætlar að stökkva í gegnum glugga rotast hann og dettur ofan í kassa sem póstsendur er til New York.

Þegar út úr kassanum er komið þarf Bolt að komast aftur til Hollywood og bjarga Penny frá illmenninu með græna augað. Hann fær óvænta hjálp frá kettinum Mittens og hamstrinum Rhino. Hamsturinn Rhino kom mér til að hlæja upphátt nokkrum sinnum, en það hefur ekki gerst síðan ég sá Get Smart (2008) síðasta sumar. Smám saman uppgötvar Bolt að hann hefur lifað í draumaheimi, uppgötvar mikilvægi vináttu og gefst ekki upp í leit að Penny, fyrr en að hann sér að hún hefur fengið annan hund, alveg eins og hann. Þá fyrst þarf hann á sannri vináttu að halda.

Sagan er í raun afar einföld, en framsetningin og persónusköpunin er fyrsta flokks. John Lasseter, frumkvöðull Pixar Studios sá um framleiðsluna á myndinni og má greinilega skynja handverk hans, enda leggur hann alltaf mikla áhersluna á að sagan sé frumleg og skemmtileg, áður en hann fer út í tæknilegri hluti, sem eru samt líka óaðfinnanlegir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Óaðfinnaleg færsla

og maður spyr sig  AF HVERJU ER EKKI SVONA RÝNI NOTUÐ Á MBL !!!!!!

Lesið dæmið og .......

Ómar Ingi, 31.12.2008 kl. 01:39

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Segðu... það væri náttúrulega ekki verra ef hægt væri að koma svona rýnipistlum á enn víðlesnari staði en Moggabloggið.

Hrannar Baldursson, 31.12.2008 kl. 02:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband