Hver verður næsti forseti Skáksambands Íslands?

Æsilegur slagur er í uppsiglingu. Kosningar á morgun. Tveir öflugir frambjóðendur stíga í pontu og bjóða sig fram ásamt hópi valinna félaga til forseta Skáksambands Íslands. Ég styð þá báða heilshugar og vona að annar þeirra verði forseti og hinn varaforseti, sama hvernig kosningarnar fara. Ég blæs á það slúður sem segir að einhverjar annarlegar hvatir aðrar en brennandi áhugi á velferð skákarinnar sé þeim báðum efstur í huga.

Ég hef þekkt Björn Þorfinnsson frá því að hann var smágutti og veit að þar fer heill einstaklingur. Einnig þekki ég Óttar Felix ágætlega, en við sátum saman í stjórn Taflfélags Reykjavíkur þegar ég var enn unglingur. Óttar Felix er mikið ljúfmenni og eins góður vinur minn sem kallar sig Sancho í Bloggheimum hefur sagt um hann Óttar, þá fer þar toppmaður.

Framboðsræður þeirra fóru fram á Skákhorninu, þar sem helstu samræður íslenskra skákmanna fara fram. Þetta skákhorn hefur tekið þeim sérstöku framförum nýlega að dónum og ruddum var vikið frá í 20-60 daga, til að viðhalda almennri háttsemi. Í fyrstu var ég í vafa um réttmæti þess, en eftir að hafa séð gáfulegri samræður á Skákhorninu nú en nokkurn tíma áður, er ég sannfærður um að rétt leið var farin.

4104

Guðfríður Lilja vann gott og óeigingjarnt starf sem forseti Skáksambands Íslands. Ég þakka henni fyrir mína hönd, og sérstaklega stuðninginn sem hún og hennar sýndu okkur úr Salaskóla fyrir ferðina á heimsmeistaramótið, meðal annars með tíðum heimsóknum í skólann þegar við óskuðum eftir því, og eftir þá ferð, þegar við höfðum hampað titlinum. Ég hef ekki sömu pólitísku skoðanir og Lilja, en kann vel að meta hana bæði sem persóna og framkvæmdagleði. Kærar þakkir Lilja! 

Stefnuræður þeirra félaga eru báðar svolítið langar, en ég ætla að birta þær hér í heilu lagi.

 

Stefnumál, eftir Björn Þorfinnsson 

 hunninn

Eins og fram hefur komið á skak.is og fjörugum umræðum hér á skákhorninu þá hef ég ákveðið að bjóða mig fram til embættis forseta Skáksambands Íslands. Í þessu skeyti vil ég koma því á framfæri hverjar ástæðurnar fyrir þessari ákvörðun minni eru.

1. Persónulegar aðstæður
Eins og margoft hefur komið fram þá tekur Skákakademía Reykjavíkur brátt til starfa og hef ég verið beðinn um að vera í forsvari fyrir það frábæra framtak. Markmið Skákakademíunnar verður að halda utan um og efla skákkennslu í grunnskólum Reykjavíkurborgar sem og að skipuleggja athyglisverða alþjóðlega viðburði í borginni. Þetta þýðir það að ég verð í fullu starfi við að þjóna duttlungum Caissu og okkar á milli þá held ég að menn verði ekki heppnari með starfsvettvang. Óneitanlega verða gríðarlega samlegðaráhrif af því að sinna þessu starfi sem og að sinna forsetaembætti SÍ og ég held að sjaldan myndi forseti hafa verið í jafn góðri aðstöðu til að sinna skyldum embættisins. Forsetar Skáksambandsins hafa ætíð verið í krefjandi starfi meðfram embættinu og þótt að það sama muni gilda um mig þá er ég svo heppinn að bæði störfin hafa sameiginlegt markmið, eflingu skáklistarinnar. Ég hef einna helst velt því fyrir mér hvort um hagsmunaárekstur væri að ræða og ég væri að tylla mér "beggja vegna borðsins". Ég hef þó komist að þeirri niðurstöðu að slíkt sé af og frá. Skákakademía Reykjavíkur mun, eins og áður segir, snúast um aukna skákkennslu innan grunnskólanna í Reykjavík og hið metnaðarfulla markmið að gera Reykjavík að skákhöfuðborg heimsins. (Síðar skal ég útskýra þetta markmið nánar enda hvá menn yfirleitt við!). Akademían og SÍ munu því fyrst og fremst hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta en vinna að því markmiði úr afar ólíkum áttum. Það að vera forseti Skáksambandsins mun einnig gera mér kleift að beina sjónum mínum í vaxandi mæli að eflingu skáklistarinnar á landsbyggðinni. Það er málefni sem ég hef mikinn áhuga á en hef því miður ekki getað sinnt að ráði. Ég reikna með að sinna þessu starfi í 2-3 ár og á þessum 2-3 árum get ég liðsinnt skákhreyfingunni sem best. Áhugi minn á að sitja í stóli forseta er takmarkaður ef ég verð í hefðbundinni 9-5 vinnu því þá mun ég ekki geta sinnt embættinu eins vel og mig langar til.

2. Framtíðarsýn og stefnumál
Allir sem starfa að félagsmálum í skákhreyfingunni leiðast út í þau af mismunandi ástæðum. Áhugi minn á skákmótahaldi, jafnt innlendu sem alþjóðlegu, og stuðningur við þá íslensku skákmenn sem hyggjast ná alþjóðlegum metorðum eru þau málefni sem ég hef helst starfað að.  Ég neita því ekki að þessi áhugamál eru frekar sjálfhverf! Hér fyrir neðan ætla ég að nefna þau mál sem ég hyggst berjast fyrir innan stjórnar Skáksambands Íslands, hljóti ég brautargengi í kosningunum: 

a) Alþjóðlegt skákmótahald
Eitt stærsta verkefni á næsta ári, sem og næstu ár á eftir, verður skipulagning árlegs alþjóðlegs Reykjavíkurskákmóts. Árlegt mót af slíkum styrkleika er mikil lyftistöng fyrir íslenskt skáklíf enda hlýtur enginn innlendur viðburður jafnmikla athygli og þessi. Þetta er atburður sem á að vera haldinn af slíkri reisn að ungir skákmenn hugsi: "Á þessu móti vil ég tefla". Það tel ég hafa tekist síðustu ár. Vinnan á bak við þetta mót er hinsvegar gífurleg og það er afar mikilvægt að vinnan verði samræmd og kerfisbundin svo að þekkingin verði
til staðar þegar aðrir taka við keflinu. Það hefur ekki verið raunin þegar að mótið hefur verið haldið á tveggja ára fresti og það þýðir að sífellt er verið að finna upp hjólið.
Uppbygging tengsla við alþjóðlega skáksamfélagið (tölvupóstlistar o.s.frv.) og helstu skákfjölmiðla er mikilvægur þáttur í undirbúningnum sem og ráðleggingar vegna fjáröflunar mótsins sem að núverandi forseti hefur sinnt með ótrúlegum árangri og ekki síst áður óþekktum vinnubrögðum innan okkar hreyfingar. 

Að auki tel ég að skoða eigi þá möguleika að halda alþjóðlegar skákhátíðir á landsbyggðinni og þá helst í samvinnu við Skákskóla Íslands. Keppendur í slíku móti geta komið að kennslu, ásamt fulltrúum Skákskóla Íslands og sinnt hinum ýmsu kynningarstörfum (fjöltefli, fyrirlestrar o.s.frv.). Slíkar hátíðir geta staðið í viku og sé vel að þeim staðið er ég viss um að slíkt yrði mikil innspýting í skáklíf viðkomandi bæjarfélaga. Sé áhugi heimamanna til staðar þá getur Skáksambandið séð um skipulagningu slíkra viðburða, gert fjárhagsáætlun, útvegað reynda menn til að sinna skákstjórn og netútsendingum og hjálpað til eins og mögulegt er. Að minnsta kosti mun ég leggja ríka áherslu á það að metnaðarfull skákfélög eða skákáhugamenn á landinu öllu geti óhikað ráðfært sig við Skáksambandið varðandi útfærslu hinna ýmsu hugmynda. Skáksambandið á að vera þekkingarbrunnur fyrir slíkt starf sem að auðvelt á að vera fyrir öll taflfélög að leita í.

b) Barna- og unglingastarf
Það eru blikur á lofti varðandi barna- og unglingastarf í Reykjavík þegar skákkennsla í skólum verður gerð markvissari með tilkomu Skákakademíu Reykjavíkur. Órjúfanlegur hluti af því starfi verður að beina þeim allra áhugasömustu inná æfingar taflfélaganna í Reykjavík (nú eða í nágrannabæjarfélögum) sem og á námskeið Skákskóla Íslands. Ég tel það hlutverk Skáksambandsins að sjá til þess að unglingamótin á vegum sambandsins verði haldin af áframhaldandi glæsibrag, víðsvegar á landinu, og að kröftum sambandsins verði í auknum mæli beint að því að aðstoða taflfélögin á landsbyggðinni við að halda úti öflugu barna- og unglingastarfi. Ég held að einn mikilvægasti þátturinn sé að kenna krökkum á notkun skákgagnagrunna og skákforrita – þannig getur hver sem er bætt sig verulega að sjálfsdáðum. Öfluga andstæðinga er svo hægt að nálgast á hinum ýmsu skákklúbbum á netinu. Í dag er það líka orðin viðtekin venja erlendis að kennarar sinni þjálfun í gegnum netið. T.d. sér sænskur vinur minn, IM Emil Hermansson, um þjálfun Nils Grandelius, sem er sænskur strákur sem er á fleygiferð upp fyrir 2400 FIDE-stig og náði IM-áfanga á nýafstöðnu Reykjavik Open. Þrátt fyrir að fjarlægðin á milli heimila þeirra í Svíþjóð sé innan við 1 klukkustund þá fer þjálfunin að mestu leyti fram á ICC og með netsímanum Skype. Ég myndi vilja sjá SÍ halda námskeið í að kenna þessa tækni og beita sér fyrir því að hún fái aukið vægi innan Skákskóla Íslands ef mögulegt er. Aðgengið að hæfum þjálfurum myndi líka stóraukast því ógrynni erlendra titilhafa sinna slíkri kennslu t.d. á ICC gegn vægu gjaldi.

c) Þjálfun og uppbygging afreksmanna
Þetta er það atriði sem að verið hefur í sem mestum lamasessi í íslensku skáklífi. Íslenskir skákmenn í fremstu röð kunna einfaldlega ekki vinnubrögðin sem að aðrir kollegar þeirra hafa jafnvel alist upp við.  Þessari þróun verður að snúa við og að mínu mati hafa þegar verið stigin skref í þessa átt, t.d. með nýlegum heimsóknum GM Kveinys og GM Lazarev (sem þó komu ekki á vegum SÍ til landsins) en betur má ef duga skal. Allar lausnir á þessu vandamáli munu hinsvegar kosta peninga og það er algjör forsenda fyrir framförum að þeirra verði aflað.  Þær hugmyndir og vonir sem ég el í brjósti eru í stuttu máli þessar:
- Athugað verði með áhuga FIDE á að halda hér þjálfunarnámskeið sem lýkur með útnefningu þátttakenda sem FIDE Trainer. 
- Erlendur þjálfari sem kæmi að undirbúningi íslensku ÓL-liðanna fyrir mót og myndi jafnframt fylgja liðunum á mótið.
- Erlendur þjálfari sem myndi dveljast hérlendis í nokkra mánuði í senn og starfa að kennslu efnilegustu unglinga og sterkustu skákmeistara landsins í fullu samstarfi við Skákskóla Íslands. 

d) Kvennaskák
Kvennaborðstillagan svokallaða verður lögð fyrir komandi aðalfund eins og skáksamfélagið hefur ekki farið varhluta af. Ég tel rétt að útskýra mína afstöðu og ég held að ég geri það best með þessari setningu: "Ég styð stríðið en ekki þessa tilteknu orrustu." Þökk sé frábæru starfi er skákhreyfingin svo farsæl að loksins er komin upp kjarni af stúlkum sem að tefla af miklum krafti og t.d. má benda á nýlega ferð ungra valkyrja á Ladies Open-mótið í Stokkhólmi og þegar þessi orð eru skrifuð eru hvorki fleiri né færri en 9 stúlkur að ljúka þátttöku á NM stúlkna í Noregi. Það er gríðarlega mikilvægt að þessar stúlkur hljóti allan þann stuðning sem að við getum mögulega veitt þeim og þær virkilega finni hversu mikilvægar þær eru hreyfingunni. Þessi mót sem stúlkurnar hafa sótt nýverið efla án efa áhuga þeirra og ekki síður eflir þetta án nokkurs vafa vináttuna og samkenndina innan hópsins. Þannig eru þær líklegri til að halda áfram taflmennsku og sé stór virkur hópur skákkvenna til staðar mun það hafa keðjuverkandi áhrif á fjölda kvenkynsiðkenda. Ég hef margoft haft orð á því að það sem hélt mér mest í skákinni á unglingsárunum var félagsskapurinn og umgjörðin sem Taflfélag Reykjavíkur og Ólafur H. Ólafsson sköpuðu í kringum skákina og það er þessi félagsþáttur sem að íslensk skákhreyfing má bæta og á það við um bæði kynin. Kvennaborðstillöguna á þó íslensk skákhreyfing að hafa í huga og ég tel það skynsamlegt að starfa að tillögunni sem markmiði innan einhvers tiltekins tíma en hana á ekki að festa í bindandi lög.  Mikilvægast er þó að íslensk skákhreyfing hlusti á hvað stúlkurnar sjálfar vilja og frekara starf verði unnið í samráði við þær.

e) Hinn almenni skákáhugamaður
Að mínu mati vantar hinn almenna skákáhugamann á innlendu skákmótin og hef ég gríðarlegar áhyggjur af því að þeim fari fækkandi. Við þurfum að hjálpast að til að komast að því hvernig sé hægt að gera þessum hóp til hæfis. Fjölbreytnin skiptir öllu á skákmótum og að þátttakendur hafi tækifæri til að tefla við skákmenn á víðu styrkleikabili. Öðlingamótin, sem eru haldin af frumkvæði Taflfélags Reykjavíkur og Ólafs Ásgrímssonar, er dæmi um frábæra hugmynd sem að hefur skilað sér í því að margir skákmenn sem hafa verið svo gott sem óvirkir lengi láta loksins sjá sig á skákmóti. Fyrirkomulagið er líka sérstakt – ein skák í viku og auðvitað enginn yngri en 40 ára! Kannski er þessi árangur með öðlingamótið dæmi um að mót annarra taflfélaga séu of einsleit?  En hvað sem öðru líður þá þurfum við að fá fleiri slíkar hugmyndir og hugsanlega er svarið að finna hjá sjálfum skákmönnunum.

f) Útgáfumál
Núverandi stjórn Skáksambandsins hefur ákveðið að taka frá ákveðna upphæð á næsta starfsári til þess að koma Tímaritinu Skák aftur á laggirnar. Íslenska skáksögu þarf að varðveita og ég mun beita mér fyrir því. Brýnasta verkefið er að ráða öflugan ritstjóra sem að hefur tíma og þekkingu til að inna verkefnið vel af hendi.

f) Fjáröflun
Þetta er án efa langmikilvægasta verkefnið á næsta starfsári. Skv. fjárhagsáætlun núverandi stjórnar fyrir næsta kjörtímabil þá er reiknað með að næsta stjórn SÍ þurfi að brúa um 2 mkr. bil með sérstakri fjáröflun en þá hefur verið gert ráð fyrir kostnaðarsömum liðum eins og "Þjálfun" og "Tímaritið Skák" sem og þátttaka íslenskra keppenda í fjölda móta erlendis. Allt aukalegt mun kosta peninga sem ekki eru til staðar og þeirra þarf að afla. Ástandið í efnahagslífinu gerir það að verkum að fjáröflunin verður enn meira krefjandi en áður og þarfnast mikillar vinnu af hálfu forseta og stjórnar.  

3. Um meinta vanhæfni
Skáksamfélagið á Íslandi er afar lítið og það væri mikil firring að halda að úr okkar röðum væri hægt að kjósa aðila sem væri laus við öll hagsmunatengsl. Hjá þeim verður ekki komist en að mikilvægast er að láta þau ekki hafa áhrif á sig. Síðan ég byrjaði í stjórn Skáksambands Íslands þá hefur það verið ófrávíkjanleg regla að meðlimir stjórnarinnar víki af fundi þegar að eitthvað sem tengist þeim sérstaklega ber á góma. Þannig vík ég alltaf ef bróðir minn, Bragi Þorfinnsson, er til umræðu útaf einhverju máli og aðrir gera slíkt hið sama. Einnig hef ég heyrt það sem rök gegn kjöri mínu að ég megi ekki hætta eða minnka eigin taflmennsku. Það er best að koma því algjörlega á hreint ég hyggst ekki minnka taflmennsku nema að litlu leyti hljóti ég kjörgengi til að sinna þessu embætti. Helst myndi ég draga úr taflmennsku á minni innlendum mótum en ég mun aldrei sleppa alþjóðlegum skákmótum hérlendis né Skákþingi Íslands – ef ég uppfylli skilyrði um þátttöku. Að auki myndi ég undir öllum kringumstæðum gefa kost á mér í Ólympíulið Íslands enda velur forseti ekki einn og sér í liðið. Núverandi forseti tefldi til dæmis á Ólympíumótinu í Tórínó! Ég treysti fulltrúum á aðalfundi til að meta hvort að slíkt sé merki um vanhæfni eða ekki.

4. Um félagaríginn
Undanfarin ár hafa raddir gerst háværari um að "valdajafnvægið" innan stjórnar SÍ sé óeðlilegt og að alltof margir fulltrúar í stjórn SÍ komi frá einu og sama taflfélaginu. Ég kýs að kalla þetta annarlegar raddir því að þessi málflutningur er í allt í senn móðgandi og hreinlega skemmandi fyrir íslenskt skáklíf. Það er algjör firra að horfa á félagsskírteini stjórnarmanna – það sem mestu máli skiptir er að viðkomandi sé tilbúinn til að leggja á sig mikla vinnu fyrir íslenskt skáklíf og ekki skemmir fyrir ef viðkomandi getur komið með aðra sýn á hlutina innan stjórnarinnar. Núverandi stjórn hefur á að skipa, fyrir utan öflugasta forseta í seinni tíð og frambjóðendurna tvo, tveimur foreldrum efnilegustu skákkrakka landsins, stúlku og stráks, skólastjóra í öflugasta "skákskóla" landsins sem hefur veitt stjórninni mikilvæga innsýn í skólastarfið,  duglegasta skákstjóra landsins sem hefur varla átt fría helgi á árinu, tveir fulltrúar landsbyggðarinnar, annar virkur skákmaður en hinn æskulýðsfrömuður sem með dyggri hjálp félaga sinna er án efa  að vinna eitt mesta þrekvirki seinna ára hvað varðar barna- og unglingastarf á landsbyggðinni  og að endingu fulltrúa hins almenna skákáhugamanns sem er hagyrtur að auki! Það má aldrei fórna því að hafa á að skipa virkri og öflugri stjórn til þess eins að uppfylla einhvern félagskvóta – slíkt væru herfileg mistök sem íslenskt skáklíf þyrfti að borga fyrir. Stjórnarmenn í skáksambandi Íslands eiga ekki að sitja í stjórninni til þess eins að verja hagsmuni síns félags en slíkt hefur alltof oft verið raunin. Ef að menn ætla að halda áfram þessum málflutningi þá bið ég gjarnan um eitt dæmi um það að taflfélagið sem hefur átt flesta fulltrúa í stjórn undanfarin ár hafi verið hyglað umfram önnur taflfélög. Eitt dæmi um slíkt ætti nú að vera auðvelt eftir alla þessa valdatíð og þann skandal sem hefur viðgengist að bróðurpartur fulltrúanna kemur frá einu taflfélagi. Kaldhæðnistónninn skín því miður í gegn en ég er einfaldlega búinn að fá algjörlega nóg af þessum ólíðandi málflutningi.

Að því sögðu þá vil ég ítreka þá ósk mína að kosningabaráttan haldi áfram að vera  málaefnaleg og drengileg. Umræðurnar og sú naflaskoðun sem íslenskt skáksamfélag er að fara í gegnum útaf væntanlegum kosningum verður án efa hreyfingunni til hagsbóta í framtíðinni. Ég hvet alla sem hafa áhuga á málefnum skákhreyfingarinnar til að velta þessum atriðum fyrir sér og taka afstöðu eftir eigin sannfæringu. Sjáumst á aðalfundi Skáksambands Íslands þann 3.maí!

 

 

Verkefni íslenskrar skákforystu, eftir Óttar Felix Hauksson

_ttar_felix_hauksson_2005_bor_i
1. Samsetning skáksambandsstjórnarinnar
Framundan eru kosningar til stjórnar Skáksambands Íslands. Fyrst skal kosið um embætti forseta, síðan sex meðstjórnanda og fjögurra í varastjórn. Einhvern hefur það æxlast svo á síðustu áratugum að samsetning stjórnar hefur ekki nægjanlega náð að að endurspegla  félagaaðild að Skáksambandinu. Þó er það svo, að lögum samkvæmt er Skáksamband Íslands landsamband íslenskra skákfélaga. Fyrsta markmið skáksambandsins er að vera samtakaheild og yfirstjórn allra skákfélaga á Íslandi. Stjórn Skáksambands Íslands má ekki með neinu móti missa sjónar af þessu meginatriði og kjörinn forseti verður að líta á sig sem þjón skákfélaganna en ekki ríkjandi yfir þeim.

Í ljósi framangreinds hef ég ákveðið, nái ég kjöri í embætti forseta, að bjóða sterkustu og virkustu skákfélögunum að eiga aðild að stjórn og varastjórn SÍ. Aðeins með þeim hætti tel ég að lögbundnum markmiðum skáksambandsins verði náð, þ.e. að efla íslenska skáklist og og standa vörð um hagsmuni íslenskra skákmanna innan lands og utan, ásamt því að efla og treysta samskipti sambandsfélaganna innbyrðis. Ég mun fara þess á leit við forystumenn taflfélaga/skákfélaga (í stafrófsröð) Akureyrar, Bolungarvíkur, Fjölnis, Hauka og Hellis að þeir auk TR skipi fulltrúa í aðalstjórn Skáksambandsins, en í varastjórn verði fulltrúar Austurlands og Norð-Austurlands, Garðabæjar, skákdeildar KR, Sunnlendinga og Vestmannaeyinga. Með slíkri breidd á landsmælikvarða tel ég að SÍ nái því með réttu að vera það landssamband, sem kveður á um í lögum þess.

2. Skákþing Íslands
Það er deginum ljósara að Skákþing Íslands hefur sett verulega niður á síðustu tveimur áratugum. Deildakeppnin gamla, sem ég, í stjórnarsetu minni í SÍ í byrjun níunda áratugarins, og Garðar Guðmundsson komum í það skipulag sem hún býr enn við. Íslandsmót skákfélaga er, eins og Jón Torfason benti á í grein í lok síðustu aldar, orðin „sterkasta innanlandsmótið og, eins og einhver hafði á orði á dögunum, eiginlega Íslandsmótið í skák.”  Enn í dag eru þetta orð að sönnu. Þó er það nú svo, að Skákþing Íslands er framar í skáklögum SÍ. Þar eru Íslandsmeistarar í öllum flokkum krýndir og ber skákforystunni að sýna Skákþinginu, þessu elsta landsmóti skákhreyfingarinnar, tilhlýðilega virðingu. Ég gef Jóni Torfasyni aftur orðið úr grein hans í tímaritinu Skák: “ Í gamla daga var Íslandsmótið veisla allra skákmanna, bæði þeirra sterkustu og þeirra sem minna máttu sín. Það kemst ekki aftur í lag fyrr en landsliðskeppnin verður tefld um leið og keppni í öðrum flokkum mótsins”. Þetta er kjarni málsins.

Undanlátssemi við þrýsting vegna persónulegra einkahagsmuna frá einstökum skákmönnum hefur aðeins haft það í för með sér að los komst á Skákþingið og hefur vegur þess farið minnkandi með árunum. Á Norðurlöndum eins og lengst af á Íslandi hefur skákgyðjan Cassia verið dýrkuð um páska. Þá hafa Skákþing landanna verið haldin í öllum flokkum og ekki brugðið út af. Danir voru með u.þ.b. 400 keppendur nú um páskana og Færeyingar milli 30-40 (svarar til 200 manna móts hér). Það á ekki að hlaupa á eftir duttlungum iðkenda heldur að halda öllu í horfinu í hofi skákgyðjunnar Cassiu. Á árinu 1983 var ákveðið að færa landsliðsflokkinn að ósk keppenda. Tókst vel til með þátttöku en strax næsta ár, þrátt fyrir góðan aðbúnað og verðlaunafé voru vonbrigði með þátttökuna! Páskarnir eru einnig mun betri tími en síðsumar hvað getuna varðar. Skákmenn eru oftast í mun betri æfingu um þetta leyti ársins og ætti því Skákþingið að vera hápunktur vetrarstarfsins. Skákforystan á að stefna að gera veg Skákþings Íslands um páska að stórhátíð skákmanna á nýjan leik þar sem teflt er í öllum flokkum.

3. Skákfélögin, skólaskákin og Skákskóli Íslands
Í upphafi formannsferils míns í Taflfélagi Reykjavíkur kom ég á fundi forystumanna þeirra taflfélaga í Reykjavík er höfðu barna- og unglingaæfingar á sinni könnu og kastaði þeirri hugmynd fram, að félögin stofnuðu með sér Skákráð Reykjavíkur. Innan þess ráðs myndu félögin, í samvinnu við Íþrótta- og tómstndaráð Reykjavíkur, skipuleggja skákkennslu í skólum og skipta bróðurlega á milli sín bæjarhlutunum og beina börnunum í félögin til æfinga eftir búsetu þeirra. Þeir sem sátu fundinn auk mín voru Gunnar Björnsson frá Helli, Helgi Árnason úr Fjölni og Hrafn Jökulsson frá Hróknum. Ágætlega var tekið í þessar hugmyndir á fundinum en ekki var þeim fylgt neitt eftir við borgaryfirvöld á þessu stigi og lá þetta því allt í láginni þangað til Hrafn Jökulsson tók þetta mál á upp aftur upp á eigin spýtur fyrir rúmu ári síðan. Fékk til liðs við sig borgarstjórnarmeirihlutann og nokkur stór atvinnufyrirtæki, klæddi málið í nýjan búning og  jók verulega við verksviðið. Hér er á ferðinni Skákakademía Reykjavíkur.

Það er ljóst að Reykjavíkurfélögin hafa nú þegar notið þessara umsvifa Hrafns í auknum fjárstyrk frá Reykjavíkurborg og er það mikið gleðiefni. Skákakademían, mun ætla að ráða Björn Þorfinnsson sem framkvæmdastjóra og mun að öllum líkindum koma að skipulagningu skólaskákarinnar í Reykjavík í samvinnu við við taflfélögin og skákskólann, auk annarra verkefna sem heyrst hefur að séu á verkefnaskrá Skákakademíunnar (árlegt Reykjavíkurskákmót og Reykjavík-skákhöfuðborg heimsins!)

Skákakademían hefur ekki enn hafið störf og ekki hafa enn borist nein drög að lögum eða stefnuskrá, en vonandi rætist fljótlega úr því og að Skákademían finni sér fljótlega réttan farveg í skáklífi höfuðborgarinnar. Hvað varðar verkefnin almennt í skólunum þá er heppilegast að skákfélögin (Skákakademían hvað Reykjavík viðkemur) í samvinnu við skólayfirvöld (skólastjóra) í hverjum skóla skipuleggi skákkennslu og æfingar í skólum og beini börnum í til æfinga í félögum eftir búsetu. Úti á landsbyggðinni þar sem oftast er aðeins eitt taflfélag til staðar skal sami háttur hafður á . Stuðningur öflugs atvinnufyrirtækis eða fleiri auk stuðnings sveitafélagsins er nauðsynlegur til að fjárhagslegur grundvöllur kennslunnar sé tryggður.

Skákskóli Íslands á að vera í nánum tengslum við þetta skipulag og sjá um samhæft þjálfunarprógram fyrir leiðbeinendur taflfélaganna og styðja við þau með því að senda erindreka sína út á land.

Skólaskákmótin öll þ.e. landmót og héraðsmót í sveita- og einstaklingskeppni eiga að vera undir Skólaskáknefnd og hafa sérstaka reglugerð og fjárreiður.    

4. Tengslin við landsbyggðina – landsbyggðasjóður.
Í anda eins af meginmarkmiðum Skáksambandsins, sem er að efla og treysta samskipti sambandsfélaganna innbyrðis, er á döfinni hjá Taflfélagi Reykjavíkur að fara með ungmennasveit félagsins í helgarferð til Akureyrar, þar sem att verður kappi við sterka sveit Skákfélags Akureyrar á átta borðum. Taflfélag Garðabæjar hefur um hríð haldið úti árlegri bikarkeppni, Hellir séð um hraðskákkeppni og svo mætti lengi telja.  Skákmenn á Snæfellsnesi efna til árlegrar skákveislu, sem félagar úr hinum ýmsu félögum vilja helst ekki missa af- aldrei! Skákmót eru nú haldin með glæsilbrag á Bolungarvík, í Þingeyjarsýslu, Skagafirði og víðar. Þetta þarf að efla, ekki síst úti á landsbyggðinni.

Í gamla daga var það oftar en einu sinni að reykvískir skákmenn fóru um helgi í bíltúr austur á Stokkseyri og tefldu við heimamenn. Það er ekki langt í dag fyrir okkur á höfuðborgarsvæðinu að aka austur fyrir fjall og tefla við Sunnlendinga á Selfossi,  Stokkseyri eða Hvolsvelli. Akureyringar gætu skipulagt heimsókn til Goðans eða á Sauðárkrók og svona mætti lengi telja og þetta er allt fyrir utan Íslandsmót skákfélaga.

Eitt mál sem mjög er brýnt og lagt er fram í fjárhagsáætlun nýrrar stjórnar, en það er landsbyggðarsjóður - ferðasjóður til að jafna að aðstöðu landsbyggðarmanna á að sækja skákmót. Þetta er löngu tímabært og verður verkefni nýrrar stjórnar að smíða sjóðnum reglur. Þær þurfa að vera bæði skýrar og sanngjarnar. Sérstaklega ber að hafa skólaskákina í huga því þar hefur oft farið svo að skólar hafa ekki getað sent sveitir til keppni á landsmóti í Reykljavík vegna kostnaðar. Það þarf að reyna að koma til móts við landsbyggðina  með ýmsum hætti og einnig huga að því að færa mót út á land og efla með því móti skáklífið á staðnum. Landsbyggðarsjóðurinn er eitt skref og í rétta átt.

5.  Samheldni og samstaða
Verkefni skákhreyfingarinnar eru ærin. Mikilvægast er að koma á góðu skipulagi í skákkennslu og þjálfun barna og unglinga. Samhæfa þá vinnu með sveitarfélögum, skólayfirvöldum og atvinnulífinu og tryggja með þeim hætti grundvöll skákiðkunar í landinu til lengri tíma litið. Við sem skipum forystu SÍ eigum að hlúa að lögbundnum skákmótum SÍ, s.s. Skákþingi Íslands og Íslandsmóti skákfélaga,  gera þau að árvissum stórviðburðum í islensku menningarlífi. Til þess að svo megi verða þarf samstöðu og samheldni aðildarfélaga Skáksambandsins og forystumanna þeirra.

Tap eða sigur í komandi forsetakosningum skiptir engu annar hvor verður undir. Tap eða sigur skákhreyfingarinnar felst í hvernig við bregðumst við úrslitunum. Ég lýsi mig reiðubúinn til að starfa heilshugar með Birni Þorfinnssyni, ef hann reynist sigurvegari komandi kosninga og kjósi að notast við krafta mína, og vonast til að hann sé sama sinnis, ef kosningar fara á hinn veginn.

Gens una sumus – Við erum ein fjölskylda.

 

Það kæmi mér ekki á óvart þó að Björn kysi Óttar og að Óttar kysi Björn. 


mbl.is Guðfríður Lilja lætur af embætti forseta Skáksambandsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Kann Óttar mannganginn ?

Ómar Ingi, 2.5.2008 kl. 20:41

2 identicon

Látum oss nú sjá ... hvor þeirra vil ég sjá *geisp* sem forseta Skáksambandsins ... *geisp* ...

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 20:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband