Af hverju er mikilvægt að sýna frumkvæði?

 Innovation

Sá sem sýnir frumkvæði er ekki háður aðstæðum eða samstarfsfólki, heldur gerir hann aðstæður og samstarfsfólk smám saman háð hans góða frumkvæði, þar til að viðkomandi verður loks ómissandi.

Fyrsti ávaninn í bók Stephen  R. Covey, The Seven Habits of Highly Effective People fjallar um mikilvægi þess að sýna frumkvæði. Ekki bara endrum og eins, heldur gera þetta að ávana.

Fyrst aðeins um ávana. Við höfum heyrt um ávanabindandi fíkniefni, að reykingar og drykkja sé slæmur ávani, að maður venjist á að bursta tennurnar kvölds og morgna og sleppi maður því líði manni illa. 

Ávani er einmitt það að temja sér einhverja hegðun þar til að óþægilegt verður að framkvæma hana ekki. Þegar reynt er að hætta einhverjum ávana, reynist það flestum gífurlega erfitt nema þeir finni sér einhvern annan ávana í staðinn.

Til eru kenningar um að reykingar séu tengdar þörf okkar frá því við vorum nýfædd til að sjúga brjóstamjólk, að sumir þurfa einfaldlega alltaf eitthvað áreiti við varir sínar. Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti þetta.

Að temja sér nýjan ávana er þannig í raun og veru að skipta út einhverju sem maður gerir af eðlishvöt yfir í eitthvað sem er líklegra til að skila meiri árangri. Ávaninn sem frumkvæðið sprettur úr er sá ávani sem margir tileinka sér, að bregðast við. Þeir sem bregðast ekki við neinu eru einfaldlega óvirkir og þurfa að hugsa sinn gang.

Sá sem bregst vel við orðum, athöfnum og aðstæðum getur verið öflugur starfsmaður og viðbragðsfljótur. Hann hefur vanið sig á góð viðbrögð og hefur áunnið sér þjónustulund. Þjónustulundin snýst um að bregðast við áreiti, og leysa málin með jafnaðargeði. 

En svo kemur að því að einstaklingurinn uppgötvar að til er ávani sem getur skilað meiri árangri en viðbragðsflýtirinn, og það er að venja sig á að sýna frumkvæði.  Sá sem sýnir frumkvæði er uppspretta nýrra hugmynda sem getur skilað miklu til samstarfsfélaga og viðskiptavina þannig að stofnunin eða fyrirtækið sem viðkomandi starfar hjá mun njóta vaxtar í formi nýsköpunar.

Ef við köfum aðeins dýpra í hugmyndina um tengslin á milli viðbragða og frumkvæðis, þá getum við séð að viðbrögðin eru endurvarp hugmynda sem eru gripin og síðan unnið með, á meðan frumkvæðið er uppspretta áreitis sem síðan verður unnið með.  Ekki allar nýjar hugmyndir eru góðar, en ef við fylgjum 80-20 reglunni, má reikna með að ef maður venur sig á frumkvæði og að búa til eitthvað nýtt,  þá munu gullkorn birtast inn á milli sem hægt er að vinna meira með.

En til þess að alvöru gullstöng verði til, þarf viðkomandi einstaklingur að vera heiðarlegur og umhyggjusamur, og tilbúinn til að gefa af sér þrátt fyrir að það geti verið erfitt að horfa á eftir eigin hugmyndum hverfa í annarra hendur. En á endanum skilar þetta sér, því að sá sem sýnir frumkvæði er að framkvæma í samræmi við eigin vilja, og sé viðkomandi heilsteyptur einstaklingur getur ekki annað en gott komið frá þessum vilja, sem á endanum mun skila sér í einhverju nýju og einhverju sem hægt er að byggja á.

Þetta er leiðin í rétta átt, en rétt eins og golfsveifluna þarf að þjálfa þennan hæfileika til að sýna frumkvæði þar til hann verður að ávana. 

Myndband um frjálsan vilja úr einni bestu heimspekilegu kvikmynd sem gerð hefur verið, Waking Life

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

AA

Ómar Ingi, 3.4.2008 kl. 22:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband