I Am Legend (2007) **1/2

Árið 2009 finna vísindamenn upp lyf sem læknar krabbamein. Eins og öllum lyfjum fylgja ákveðnar hliðarverkanir þessu nýja lyfi:

  1. Hárið losnar
  2. Hvíturnar í augunum roðna
  3. Rökhugsun fýkur
  4. Reiði tekur völd
  5. Sjúklingurinn verður  mannæta sem þolir ekki sólarljós

Þetta verður til þess að allar manneskjur í New York annað hvort breytast í skrímsli eða eru drepnar. Vísinda- og hermaðurinn Robert Neville (Will Smith) er ónæmur gagnvart sjúkdómnum og því ákveður hann að staldra við í New York ásamt hundinum sínum Sam og leita eftir leiðum til að þróa mótefni úr eigin blóði.

Þegar sagan hefst hefur Robert Neville verið einn með hundi sínum í þrjú ár. Manhattan eyja hefur verið einöngruð og lögð í eyði. Á daginn heldur Neville rannsóknum sínum áfram í kjallara þar sem hann hefur fjölmargar smitaðar rottur, og fer síðan út með hundinum sínum að veiða antilópur. Hann fær samkeppni þar frá ljónum.

Í einum slíkum veiðitúr hleypur Sam inn í myrkt hús sem er fullt af umbreyttum manneskjum. Þeir félagar sleppa naumlega út og ná að handsama eitt skrímslið. Neville fer með það heim og gerir tilraunir til að snúa henni til mennsku. Á nóttinni sefur Neville ásamt hundi sínum í baðkari á meðan skrímslin ýlfra og góla fyrir utan húsið. Honum hefur tekist að hylja slóð sína að húsinu þannig að skrímslin finna hann ekki.

Ekki fyrr en hann verður fyrir klaufalegu slysi, og hundur hans særist. Þá fer að færast fjör í leikinn, en atburðarrásin verður jafnframt órökrétt í fyrsta sinn og söguþráðurinn verður að gatasigti. Í einu atriði getur hann varla dregið sig að bíl sínum þar sem hann er meiddur á fæti, örstuttu síðar berst hann við skrímslahunda og eftir þann bardaga, þegar sólin er sest, í stað þess að sýna æsilegan eltingaleik þar sem hann flýr helsærður frá skrímslunum, þá er hann allt í einu kominn heim og farinn að hjúkra hundinum. Hitt er þegar kona að nafni Anna (Alice Braga) birtist ásamt syni sínum Ethan (Charlie Tahan) og bjargar honum þegar hann hefur rústað bíl sínum og eitt skrímslið skríður inn um bílgluggann hjá honum, en nokkur hundruð þeirra voru sekúndum áður fyrir utan. Hvernig henni tekst að bjarga honum er ekki sýnt nógu vel.

Fyrsti hluti myndarinnar er þrusugóður. Will Smith á einstaklega góðan leik. Það sem kemur mér mest á óvart er hversu illa hefur tekist til með tæknibrellur. Antilópurnar, ljónin og skrímslin eru það gervileg í hreyfingum að það truflar svolítið flæðið, sem er reyndar ósköp lítið. Annars er atriði þar sem Brooklyn brú er sprengd í tætlur, nokkuð flott, enda dýrasta tæknibrelluatriði kvikmyndasögunnar. En eitt atriði og einn góður leikari gera ekki góða mynd.

I Am Legend er gerð eftir skáldsögu Richard Matheson, sem ég hef reyndar ekki lesið, en hefur gerð að kvikmynd þrisvar sinnum. Í fyrsta skiptið með Vincent Price í aðalhlutverki Last Man on Earth (1964) og í annað skiptið hét hún The Omega Man (1971) og þá lék Charlton Heston aðalhlutverkið. Fróðir segja að engum hafi enn tekist að gera skáldsögunni góð skil.

Ég mæli með I Am Legend, en ekki af neinni gífurlegri sannfæringu, og þá fyrst og fremst fyrir leik Will Smith, en hlutverk hans er keimlíkt Tom Hanks í Cast Away (2000), en aðstæðurnar næstum nákvæmlega eins og í Dawn of the Dead (2004), 28 Days Later (2002) og 28 Weeks Later (2007).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þá bíð ég bara eftir að hún komi á disk. Góða helgi

Ásdís Sigurðardóttir, 11.1.2008 kl. 21:47

2 Smámynd: arnar valgeirsson

ég er sammála flestu sem þú segir hér.  myndin byrjaði afskaplega vel og maður setti sig í gírinn. en svo bara gerðist fjandakornið ekki baun. nokkuð lengi.

sá einhvernstaðar að einhver vildi að þeir veiku, eða zombiarnir, eða hvað við getum kallað þetta, hefðu átt að vera leiknir en ekki teiknaðir og sammála því.

leiðinlegt þegar myndir byrja vel en dala. betra á hinn veginn.

en: var það robert neville sem fann upp lyfið til að byrja með??? ekki viss.

arnar valgeirsson, 11.1.2008 kl. 23:37

3 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Þetta er stimpillinn minn – Gunnar Svíafari

Gunnar Helgi Eysteinsson, 11.1.2008 kl. 23:41

4 identicon

ekki allveg rétt með farið hjá þér að Robert hafi fundið upp lækningu gegn krabba heldur var það konan sem sást á skjánum í byrjun myndar í sjónvarpsviðtali,

bé (IP-tala skráð) 12.1.2008 kl. 00:34

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Góð athugasemd Arnar og Gunnar, ég leiðrétti þetta hér með. Takk. Það var Krippen sem fann upp lyfið, ekki Robert - en hann var hins vegar ónæmur fyrir vírusnum.

Hrannar Baldursson, 12.1.2008 kl. 13:24

6 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Já, sammála, hún byrjaði vel en versnaði til muna þegar á leið.

Guðríður Haraldsdóttir, 12.1.2008 kl. 21:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband