Meira en bara hugsun: áhrif heimspekinnar á hversdagslífið

Ég á það til að gleyma mér í daglegu tali og velta fyrir mér af hverju fólk heldur fram einhverju sem það heldur fram, og frekar en að halda aftur af mér, fer ég út í það að spyrja nánar út í hlutina, af hverju það heldur það sem það heldur, og ég reyni að skilja hvað verið er að meina.

Oft gerist það að einhver vinur ypptir öxlum og segir að ég sé bara svona heimspekingur, og þá brosir fólk góðlátlega að mér eins og það sé einhvers konar galli sem hægt væri að vinna á, og tekur þessum spurningum ekkert endilega alvarlega.

Svo hefur það gerst að þegar ég spyr slíkra spurninga að mér er tjáð að heimspekin sé vita gagnslaus. Og mér finnst áhugavert að heyra af hverju viðkomandi finnst það, en þá fæ ég vitaskuld ekki að heyra mikið af rökum.

Hins vegar get ég fullyrt að heimspekin hefur ekki verið gagnslaus fyrir mig. Hún hefur hjálpað mér að sjá heiminn út frá allt öðrum forsendum en áður en ég kynntist henni, og hún hefur bætt dýpt í líf mitt, þó að ég geti ekki sagt að hún hafi breytt hvernig manneskja ég er, ekki frekar en ferðalanginum þegar hann kemur heim eftir langt ferðalag, þá er hann ennþá sama manneskjan, en kannski með aðeins meiri reynslu á bakinu.

Þannig sé ég heimspekina, sem ferðalag aftur í tímann og inn í hug fjölda manns, sem geta hugsað um nánast hvert einasta viðfangsefni á spennandi máta. Ég hef áhuga á skák af svipuðum ástæðum, þar er hægt að sjá hugmyndir spretta fram hjá miklum skákmeisturum sem hafa áhrif á hvernig skákir eru tefldar og hvernig þeim er lokið. Heimspeki er frekar lík skák, fyrir utan að hún er meira samvinna og víðtækari, en skákin er meiri samkeppni og nákvæmari. Heimspekin á aðeins betur við mig en skák, þó að mér finnist skákin oft skemmtileg.

En til er fullt af fólki sem finnst skák og heimspeki vita gagnslaus fyrirbæri, rétt eins og mér finnst öll þau lyf sem ég þarf ekki að taka sem til eru í apótekinu vita gagnslaus, kannski þar til ég þarf sjálfur á þeim að halda. 

Heimspekin er verkfæri sem ekki allir kunna að nota, og þeir sem kunna eitthvað á það eru sífellt að læra eitthvað nýtt, um hvernig hægt er að beita henni, um hugmyndir sem spretta fram, um hvernig við getum unnið með þær, um hvernig við getum notað hana nánast sem hreinlætisvöru sem hreinsar burt ranghugmyndir og fordóma, en sem síðan, eins og ryk, sækja aftur á hugann. Þannig að heimspekin verður sífellt að vera virk til að hjálpa okkur að hugsa betur.

Mér þykir vænt um að hugsa vel og sífellt betur, sé mikið gildi í því. Og ég veit að það er ferðalag sem ekki er lokið, og að þetta ferðalag er ævilangt. 

Eftir að hafa lært heimspeki í mörg ár, sífellt kynnst nýjum hugmyndum og unnið með þær, þá finn ég hvernig hún styrkir mig alhliða sem manneskju, einhvern sem getur áttað sig hratt og vel á aðstæðum, einhvern sem getur unnið vinnuna sína vel, einhvern sem áttar sig á hvernig markmið og lausnir vinna saman, og hvernig heimurinn er sífellt að breytast og við með.

En heimspekin er samt eitthvað sem við notum öll þegar við veltum fyrir okkur hvað það er sem gerir okkur og þau sem við elskum hamingjusöm, þegar við veltum fyrir okkur hvernig best væri að ala upp börnin okkar, hvernig við getum gert það rétta við ólíkar aðstæður, hvernig við getum bætt ákvarðanatöku okkar, hvernig við getum fundið leiðir til að bæta hæfni okkar með einhverjum hætti, og hvernig við getum hugsað betur um lífið og tilveruna. 

Við gerum þetta öll, en sumir hafa bara viðað að sér meiri upplýsingum og unnið með þær yfir langan tíma, sem hefur vissulega áhrif á hvernig maður lifur lífinu og hvernig maður bregst við erfiðum atburðum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dominus Sanctus.

KJARNI MÁLSINS: 

"Þannig að heimspekin verður sífellt að vera virk

til að hjálpa okkur að hugsa betur.

Mér þykir vænt um að hugsa vel og sífellt betur,

sé mikið gildi í því og ég veit að það

er ferðalag sem ekki er lokið,

og að þetta ferðalag er ævilangt." 

Dominus Sanctus., 17.12.2023 kl. 12:45

2 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Ég held bara að þú haldir að við höldum 

eitthvað sem þú haldir.

Held samt ekki.

Annars held ég við öll höldum eitthvað

sama hvað aðrir halda.

En ég held að það sem ég held, held ég að

flestum haldi alveg sama.😎😎😎

Sigurður Kristján Hjaltested, 18.12.2023 kl. 01:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband