Hlutverk trúarbragða: að varðveita þekkingu og visku fyrri kynslóða?

DALL·E 2023-12-02 21.08.36 - A mystical and philosophical setting featuring a cowboy as the main protagonist, interacting with a dragon. The scene symbolizes the ancient wisdom an

Nú vil ég aðeins velta fyrir mér hvernig við ekki aðeins komum uppgötvunum okkar til skila, ekki aðeins til einstaklinga heldur til mikils fjölda, og ekki aðeins til mikils fjölda heldur helst til allra, og ekki aðeins allra sem eru á lífi, heldur einnig komandi kynslóða.

Við varðveitum upplýsingar frá kynslóð til kynslóðar í bókum, en vandinn er að ekki allir hafa áhuga eða nennu til að lesa bækur frá fyrri kynslóðum. Því þarf eitthvað öflugra tæki en bara bókasöfn. Skólar hafa verið stofnaðir til að fræða fólk um upplýsingar sem varðveist hafa, en í ljós hefur komið að yfirfærsla upplýsinga og þekkingaröflun er ekki sami hluturinn, nemandinn þarf nefnilega að vera námsfús, og hafa áhuga á að læra, og það sem meira er, hann þarf sjálfsagt líka að lesa þessi rit frá fyrri kynslóðum. Þetta krefst heilmikillar vinnu.

Hugsanlega af þessari ástæðu hefur upplýsingum verið pakkað niður og þeim komið fyrir á auðskiljanlegan hátt með því að setja upp trúarbrögð, þar sem aðeins fáir útvaldir afla sér þekkingu frá fyrri kynslóðum og vinna síðan stöðugt við að dreifa boðskapnum til annarra. Þetta fólk fær stöður sem munkar, prestar, djáknar og alls konar. Þessi aðferð virkar að einhverju leyti, þannig að upplýsingum er haldið við og einhverjir viðhalda þekkingu sinni.

Síðan virðist það gerast einhvern tíma í einhverjum kynslóðaskiptum að upphaflegar upplýsingar festast sem einhvers konar kreddur og taka ekki nýjar upplýsingar með í reikninginn. Þannig staðna trúarbrögðin og upp kemur spenna á milli þeirra sem vilja halda í gömlu viskuna og þeirra sem sjá að eitthvað meira getur verið í pottinn búið. 

En megin ástæðan fyrir stofnun trúarbragða virðist vera að varðveita þá visku sem virkar til að viðhalda góðu samfélagi gangandi, en vandinn er sá að það er ekki jafn auðvelt og virðist að yfirfæra visku, hvorki frá manneskju til manneskju, né frá kynslóð til kynslóðar. 

Þetta getur þýtt að fólk myndar sér skoðanir á þessum upplýsingum sem er á skjön við hina upprunalegu visku sem átti að varðveita, og ekki nóg með það, sumir sem festa sér slíkar skoðanir eru tilbúnir að verja þær með öllu sínu afli, án þess þó að átta sig á að þeir hafa villst af leið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband