Um illgresið fordóma

Mesti vandinn við fordóma er að við vitum ekki af þeim. Þeir læðast hægt og hljótt inn í líf okkar, og ef við höfum athyglina ekki í nægi, grafa þeir sig niður í svörðinn, eins og illgresi, sem verður til þess að okkur finnst þeir afar eðlilegur hluti af okkur, svo eðlilegur að við viljum jafnvel ekki losna við þá, því okkur finnst þeir jafn dýrmætir og heilbrigðu plönturnar í huga okkar sem þeir koma í veg fyrir að vaxi.

Einn slíkur fordómur, sem virðist festa rætur sínar í sérhverju samfélagi, nokkuð sem hægt er að sjá þegar þú fylgist með alþjóðlegum ráðstefnum æðstu fyrirmenna hverrar þjóðar, að þetta fólk hefur yfirleitt mikla hæfileika til að koma vel fram: það klæðir sig í fín föt, það talar flott mál, og það lítur vel út og virkar sannfærandi. Það er dæmi um fordóm að jafna saman góðri framkomu og góðum gáfum. Þetta vel klædda og sannfærandi fólk getur komið af stað styrjöldum, leitt yfir eigin þjóð fjármálakreppu, getur sýnt gríðarlega grimmd og fáfræði, en aðeins vegna þess að það kemur vel fram og hefur náð völdum yfir eigin þjóð, á það að komast upp með slíka hluti?

Til er fólk sem klæðist ósköp venjulegum fötum, jafnvel með bótum og sem þykja ekkert sérlega flott, sem hafa verðuga vitsmuni sem vert er að hlusta á, en vandinn er að fjöldinn er ekki tilbúinn að hlusta á slíkt fólk, enda kann það ekki að koma nógu vel fram, þó að viska þeirra geti verið djúp og leitt til farsældar fyrir alla sem vilja taka þátt í samræðu þeirra. Af hverju dæmum við þekkingu og visku eftir útliti og framkomu? Og af hverju virðast valdhafar eiga það sameiginlegt að leggja miklar fjárhæðir í að líta sem best út rétt fyrir kosningar? Er það til að leggja rækt við þetta illgresi sem fordómar eru, því þannig er auðveldast að ná völdum?

En fordómar, eins og illgresi, er ekki nauðsynlega eitthvað slæmt í sjálfu sér. Það sem gerist er að þegar þú leyfir aðeins einni tegund gróðurs að vaxa í garðinum þínum, og gefur honum meira pláss en öllum hinum tegundunum, þá fær aðeins þessi eini tækifæri til að vaxa á kostnað allra hinna. Það sem þú tapar með því að leyfa einhverjum fordómum að hreiðra um sig í garðinum þínum er að þú færð ekki fjölbreyttan garð þar sem öll viðhorf fá að blómstra, þú færð aðeins einn lit á meðan þú gætir fengið margbrotið litróf. Það krefst vinnu að uppræta fordóma, sérstaklega manns eigin og þá sérstaklega ef maður áttar sig ekki á að maður hefur þá, til að lifa farsælu lífi og verðskulda hamingju. En þá þurfum við að skilja að hamingjan er ekki eitthvað sem kemur utanfrá, eins og peningar eða völd, heldur eitthvað sem kemur innanfrá, eins og skilningur, viska, hugrekki, réttlæti, hófsemi, og fleira.

Ég hef lengi stundað heimspeki, og reynt að átta mig á hvernig best er að lifa mínu eigin lífi. Víða hef ég leitað, hef flakkað um heiminn og lifað í ólíkum löndum, sem námsfús kennari á lágum launum, hef verið atvinnulaus og þurft að læra tungumál til að fá störf við hæfi, hef þurft að klóra burt mína eigin fordóma til að geta lifað í ólíkum menningarheimum. En það var samt ekki fyrr en ég byrjaði að skrifa heimspekilegar dagbækur upp á hvern einasta dag að ég fór að átta mig á því djúpa gildi sem felst í að þrá dyggðir og forðast lesti, og nú þegar ég hef loks áttað mig á þessari hugmynd, þá finnst mér heimurinn aðeins skýrari fyrir vikið, mér finnst auðveldara að skilja hlutina, og mér finnst þess virði að deila þessum skilningi með öðrum, ræða hann og halda áfram að vera fús til náms. 

Ég sé ennþá fordóma spretta upp í samræðum við annað fólk sem lifir við ólíkar aðstæður, og ég tek eftir mínum eigin tilhneigingum til að meðtaka fordóma og hlúa að þeim, og ég sé þetta við ólíkar aðstæður og í öllum lögum samfélagsins. Mér finnst þetta áhugavert og þykir nauðsynlegt að vera vakandi fyrir þessari ógn sem fordómar eru gagnvart okkar eigin lífsgæðum og hamingju.

Hinn fordómafulli forðast það að læra ef það sem hann ætlar sér að læra er ekki á hans eigin forsendum, og er eitthvað sem getur verið afar erfitt; hafnar hann af fullum krafti öllu því sem ógnar þeim möguleika að einhver önnur sjónarmið nái að festast í garðinum hans.

Það er oft þannig með visku. Hún er sjaldgæf, og þegar hún birtist, þá er ráðist á hana úr öllum áttum. Enda vilja fordómarnir ekki undan láta, þeir vilja halda áfram að eiga garðinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband