Nýtt í bíó: Pathfinder (2007) 1/2

PathfinderPoster

Ghost (Karl Urban) er víkingastrákur sem ættbálkur frumbyggja í Bandaríkjunum finna innan í víkingaskipi sem einhvern veginn hefur strandað á þeirra slóðum. Inniheldur skipið fullt af líkum sem hlekkjuð eru við skipið. Með drengnum kemur sverð með fagurskreyttu hylti, rúnum á blaðinu og egg sem virðist geta sneitt gegnum hvað sem er.

Ættbálkurinn tekur drenginn að sér. Ég vil taka strax fram að þeir tala bandaríska ensku, svona til að viðhalda sögulegri nákvæmni. Ghost vex úr grasi án þess að fá fulla viðurkenningu sem einn hinna 'hugdjörfu' í hópnum. Það er vegna litarháttar hans, og einmitt vegna hvíta hörundsins er hann kallaður 'vofan'. Hann er gífurlega vel vaxinn og fimur með sverð, enda er hann alltaf skilinn útundan og æfir sig þá í sverðfimi. Allt hljómar þetta næstum því ágætlega og sagan virðist hugsanlega hafa eitthvað innihald.

Pathfinder01

En þá birtast víkingar undir forystu Gunnars (Clancy Brown) og drepa allar þær persónur sem mynduðust nokkuð vel og virtust hugsanlega geta orðið góðar, eins og fósturforeldra og Ghost. Það er sorglegt hversu misnotaður Clancy Brown er í þessari mynd, en hann hefur oft sýnt snilldartakta, eins og sem Victor Kruger í Highlander (1986) og fangavörðurinn Byron T. Hadley í The Shawshank Redemption (1994). Hérna er hann óþekkjanlegur á bakvið mikið og úfið skegg, drulluskítugur og með hjálm sem hylur það litla af andlitinu sem annars væri sýnilegt, og þar að auki er hans frábæra rödd misnotuð hrikalega til að flytja setningar á næstum-íslensku.

Eftir þetta snýst myndin um hefnd Ghost á ættbálki sínum og innri baráttu úlfanna tveggja: ásts og hatur sem bítast um völd í hjarta hans - svo ég noti myndhverfingu sem notuð er í myndinni af Starfire (Moon Bloodgood), stúlkunni sem Ghost er hrifinn af.

Pathfinder02

Víkingarnir tala eitthvað mál sem hljómar stundum eins og þágufallssjúk íslenska eða óskiljanlegt hrafl. Clancy Brown nauðgar okkar ástkæra tungumáli með hverri setningu sem hann reynir að staula út úr sér, en er loks slegið við þegar Karl Urban byrjar allt í einu að tala á þágufallssjúkri íslensku.

Reyndar var mikið hlegið í salnum, og þá yfirleitt með hneykslunarkippum, þegar þessir fagmenn fóru vörum og tungu um okkar ylhýra mál. Íslenskan hefur ekki fengið jafn alvarlega aðförð síðan Sonja Henie lék aðalhlutverkið í skautamyndinni Iceland (1942).

Pathfinder03

Söguþráðurinn snýst um það hvernig Ghost drepur víkingana einn af öðrum, þar til hann er handsamaður, og af einhverjum ástæðum knúinn til að leita uppi ættbálk nágranna sinna, - en hann er svo snjall að honum dettur í hug að tæla heimsku víkingana á slóðir sem þá getur ekki grunað að séu hættulegar, eins og á þunnan ís og mjóar klettasillur þar sem mikill snjór er efst í fjallinu.

Þetta gæti kannski verið ágætur spennutrylilr með þessari sögu ef framkvæmdin væri trúverðug og vel gerð á einhvern hátt. Hún er það ekki. Litrófið í myndinni er flatt og blágrátt. Bardagaatriðin eru hræðilega útfærð. Ghost virðist vera á sjö tímum samtímis og alltaf að drepa sama víkinginn.

Eitt atriði sem sýnir vel gæði myndarinnar er þegar Ghost er á flótta undan víkingunum. Hann leggur undir sig skjöld og rennir sér niður snævi þakið fjall, en taktu eftir; hann var ofarlega í fjallinu þar sem að hann hafði geymt snjósleðann sinn. Áður en varir eru næstum tugur víkinga á eftir honum, tveir á hverjum sleða og renna sér niður brekkuna á eftir honum eins og ólympíumeistarar í íþróttinni; skjóta meira að segja örvum af nokkuð mikilli fimi á fleygiferð niður brekkuna.

Pathfinder04

Ég gæti trúað því að Karl Urban hafi drepið feril sinn sem kvikmyndaleikari með þessari mynd, en þekktastur er hann sjálfsagt fyrir að hafa leikið Eomer í The Lord of The Rings (2002-2003). Þegar ég kíkti yfir höfunda myndarinnar tek ég eftir að handritshöfundurinn er enginn annar en Laeta Kalogridis, en þetta er þriðja myndin sem hann skrifar. Ég hef séð hinar tvær og þótti þær hreint hörmulegar. Sú fyrri var hin rússneska Night Watch (2004) og sú síðari var versta kvikmynd sem Oliver Stone hefur látið frá sér fara: Alexander (2004). Spurning hvort að maður passi sig ekki á þessum handritshöfundi hér eftir.

Ég vildi óska að ég gæti sagt eitthvað jákvætt um þessa mynd, en tæknibrellurnar voru meira að segja frekar slappar. Það versta var hversu leiðinlegt var að sitja í kvikmyndasalnum og bíða eftir að hún kláraðist.

Pathfinder05

Pathfinder er illa leikin mynd, illa kvikmynduð og leiðinleg. Ég tek það fram að oft hef ég mjög gaman af innihaldslausum hasarmyndum, en þessi virkaði einfaldlega engan veginn. Ástæðan liggur fyrst og fremst í handritinu sem er jafn líklegt til þess að gefa listamönnum innblástur og handrit skrifað af tólf öpum á eina ritvél án leiðréttingarbúnaðar, í lokuðu herbergi og á einni viku. Maður þyrfti að vera í mjög sérstöku ástandi til að geta notið þessarar myndar, - fyrir utan íslenskuna sem gaf tilefni til hláturs. Fyrir það fær myndin hálfa stjörnu. Sko! Ég fann eitthvað jákvætt, og svo var poppið líka fínt.

Spurning hvort að Íslendingar skuli ekki gera sig að algerum fíflum með því að fylgja fordæmi Írana og reyna að fá myndina bannaða um allan heim vegna þess að hún gefur skakka mynd af víkingum og íslenskunni, eins og kom fram í þessu bloggi hérna: Ættu Íslendingar þá ekki að láta banna Pathfinder?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

haha, bara banna þetta! mögulega lélegasta mynd sem þú hefur séð?

Oddur Ingi (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 10:52

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Battlefield Earth er verri. Einnig finnst mér Night Watch og Alexander álíka lélegar.

Hrannar Baldursson, 2.5.2007 kl. 16:03

3 identicon

Samála um að Batlefield Earth sé léleg. Er pottþétt á lista yfir lélegustu myndir sem ég hef séð.
Ekki nightwatch samt, persónulega fannst mér hún öðruvísi....

!!!Spoiler warning!!!! Ekki lesa lengra ef þú ætlar að sjá hana...

Þar er á ferðinni mynd sem er ekki föst i hollywood stílnum...
Á hana uppí hillu bara af því að góðu karlarnir vinna EKKI!!!!

MaxGaurin (IP-tala skráð) 5.5.2007 kl. 19:22

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

MaxGaurin: gaman að fá athugasemdir frá þér eftir samtal okkar fyrr í dag

Hrannar Baldursson, 5.5.2007 kl. 20:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband