Nurse Betty (2000) ***1/2

Nurse Betty er gamanmynd sem inniheldur gróft ofbeldi. Henni mætti helst líkja við Fargo (1996), eftir Coen bræður, þar sem að mannlegri hlýju og húmor er fylgt eftir með kaldrifjuðum morðum og ofbeldisverkum.

Betty Sizemore (Renée Zellweger) er þerna á kaffistofu. Líf hennar snýst um að horfa á og láta taka upp fyrir sig nýjasta þáttinn úr sápuóperunni "A Reason to Live," en þessi þáttur ber nafn með rentu, hann virðist vera það eina góða sem hún fær út úr lífinu. Hún er yfir sig hrifin af aðalleikara þáttanna, George McCord (Greg Kinnear), sem leikur lækninn Dr. David Ravell í þáttunum sem hún dýrkar.

Hún er gift bílasalanum og skíthælnum Del Sizemore (Aaron Eckhart) sem heldur framhjá henni, stundar vafasöm viðskipti og kemur almennt illa fram við hana og alla aðra sem hann kemst í snertingu við. Á afmælisdegi sínum situr Betty ein inni í herbergi og horfir á upptökur af sjónvarpsþættinum þegar Del kemur heim með tvo skuggalega menn í eftirdragi. Annar þeirra er reynsluboltinn Charlie (Morgan Freeman) og hinn er sonur hans Wesley (Chris Rock). Del hefur stolið einhverju frá yfirmanni þeirra og þeim er ætlað að ná því til baka.

Áætlun þeirra fer út um þúfur þegar þeir ganga alltof langt og drepa Del á hrottalegan hátt. Betty verður vitni að morðinu, hallar aftur hurðinni og eitthvað gerist innra með henni. Hún hættir að gera greinarmun á veruleika og ímyndun, og trúir að Dr. David Ravell sé fyrrverandi unnusti hennar. Á meðan morðrannsóknin stendur yfir keyrir Betty úr bænum til móts við Dr. David Ravell. Lögreglustjóri bæjarins, Eldon Ballard (Pruitt Taylor Vince), blaðamaðurinn Roy Ostery (Crispin Glover) og glæpafeðgarnir hefja skipulega leit að henni.

Á meðan nýtur Betty lífsins. Hún fær vinnu sem hjúkrunarkona á spítala þegar henni tekst að bjarga mannslífi með aðferð sem hún lærði úr sjónvarpsþáttunum, enda telur hún sjálfa sig vera hjúkku. Hún eignast góða vinkonu í Rosa Hernandez (Tia Texada) sem býður henni skjól yfir höfuðið, og ákveður að hjálpa henni að hafa uppi á lækninum dularfulla. Áætlun hinnar veruleikafirrtu Betty gengur upp. Hún nær að hitta leikarann sem hún trúir að sé læknirinn Dr. David. Málin þróast áfram á skemmtilegan hátt.

Með leik sínum í Nurse Betty skaust Renée Zellweger upp á stjörnuhiminn Hollywood og á næstu árum lagði hún hann að fótum sér með smellum eins og Bridget Jones's Diary (2001), Chicago (2002) og Cold Mountain (2003). Einnig lék hún í hinni stórgóðu Cinderella Man (2005) ásamt Russell Crowe. Morgan Freeman nær einnig sterkum leik sem Charlie, hans besta hlutverki síðan hann lék Ellis Boyd Redding í Shawshank Redemption (1994).

Nurse Betty fjallar um þá firringu sem verður þegar sjónvarpspersónum er veitt meiri athygli en þeim manneskjum sem maður umgengst í daglegu lífi. Betty lifir það leiðinlegu og hörmulegu lífi að hún leitar stöðugt í sjónvarpsþættina; þar til að þessi þrá til að vera hluti af þeirri veröld breytist í trú. 

Nurse Betty er stórskemmtileg mynd. Tónlistin gefur henni ferskan blæ og kvikmyndatakan er sérstaklega skemmtileg. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: arnar valgeirsson

æi, átti nurse bettý á spólu en gaf hana þegar videoið mitt dó. Horfði aldri á. Hélt að væri algjör steypa. Sé hana seinna....

arnar valgeirsson, 13.4.2007 kl. 17:49

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Hún er vel þess virði að leita uppi aftur. Ég hafði svipaða fordóma um hana og hafði frestað því að horfa á hana í um þrjú ár. En lét mig svo hafa það. Ég held að titlinum sé helst að kenna, finnst hann frekar slakur fyrir svona góða mynd. Hún hefði frekar mátt heita eitthvað eins og (játa að þeir eru kannski ekkert söluvænlegri):

A) The Assasination of Nurse Betty

B) Betty Goes To Hollywood

C) A Desperate Housewife Pops Beyond Desperation

D) The Hitmen, The Housewife and The Hilarious  

Hrannar Baldursson, 14.4.2007 kl. 11:12

3 Smámynd: arnar valgeirsson

mér líst vel á a og d. Eða: The Hitmen and the hilarious housewife... annars veit ég ekki meir, á eftir að sjá ana.

Annars gætu assasinationa og hilarious verið saman í titli, með smá desperation og Hollywood og þá væri ég löngu búinn að sjá helvítið.

arnar valgeirsson, 14.4.2007 kl. 18:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband