Ritskoðun: réttlætanlegt stjórntæki?

censorship.sized

 
Ritskoðun er þegar upplýsingar eru fjarlægðar eða þeim haldið frá almenningi af einhverjum sem hefur stjórnunarvald; og þá til að halda fólki óupplýstu um ákveðin atriði sem henta stjórnvaldinu ekki.

Samkvæmt Alfræðinetbókinni Wikipedia eru fimm gerðir af upplýsingum ritskoðaðar: 

  • Siðferðilegar - (t.d. klám)
  • Herfræðilegar - (t.d. innrásin í Írak)
  • Stjórnmálalegar - (t.d. útilokun andstæðra skoðanna á bloggsíðum)
  • Trúarbragðalegar - (t.d. bókabrennur á ritum annarra trúarbragða)
  • Rekstrarlegar - (t.d. þagnarskylda starfsmanna)

Ritskoðun á sér stað þegar persóna sem hefur völd yfir ákveðnu umdæmi vill hafa áhrif á þekkingu þeirra sem lúta valdsvæði hennar, með því að loka á raddir sem annað hvort eru óþægilegar eða ósammála hennar eigin skoðunum. Hvaða máli skiptir hvort að einhver ein manneskja ritskoði aðra?

Ritskoðun hefur lengi tíðkast og eitt öfgafyllsta dæmi slíkrar hegðunar eru bókabrennur. Þeir sem leggja stund á bókabrennur og hvetja til þeirra virðast hafa eitthvað að óttast. Oftar en ekki tengjast þessar bækur trúarbrögðum, stjórnmálum og vísindum á einhvern hátt. Ég ætla ekki að telja upp allar þær bækur sem brenndar hafa verið á báli, en ég hef áhuga á að upplýsa um nokkrar þeirra:

Harry Potter bækurnar voru brenndar víða um Bandaríkin fyrir fáum árum síðan þar sem að þær þóttu stríða gegn kenningum kristninnar, þar sem að nornir og galdrakarlar voru aðalhetjur bókanna og gátu verið góðu gæjarnir. Í hugarheimi sumra geta nornir eða galdrakarlar ekki verið af hinu góða, og því þykir betra að útrýma slíkum mögulegum hugarheimi en að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn.

Árið 1624 lét páfi brenna þýðingar Martin Luthers á Biblíunni.

kc0011_3s

Árið 1562 lét Diego de Landa, biskup yfir Yucatan, brenna helgar bækur Maya. Einnig lögðu Kirkjunnar menn fjölmargar fornar borgir og pýramída í rúst sem pössuðu ekki við þeirra heimsmynd.

Öll ritskoðun stefnir að einu ákveðnu marki. Að útiloka skoðanir eða þekkingu sem viðkomandi hentar ekki, þekkingu eða skoðun sem passar ekki inn í þeirra eigin heimsmynd - það getur nefnilega verið ansi óþægilegt og pirrandi ef maður hefur rangt fyrir sér í einhverju máli og einhver valdalaus gaur steypir hugmyndunum með rökhugsun einni saman.

Það má hugsa sér stjórnmálaafl sem kæmist til valda á Íslandi sem vildi banna almenningi aðgang og persónuleg not af Internetinu, og hægt væri að réttlæta þetta bann með því að segjast vera að vernda almenning og börn okkar gegn einelti, klámi, spilafýkn og öðru illu sem blómstrar á Internetinu.

Nokkrar spurningar í lokin: 

  • Hvort er ritskoðun réttlætanleg sem verndun eða óréttlætanleg sem kúgun?
  • Er málið kannski ekki svona svart og hvítt?
  • Er sum ritskoðun kannski réttlætanlega á meðann önnur er það ekki?
  • Og ef svo er, hvernig getum við greint réttlætanlega ritskoðun frá óréttlætanlegri?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki aðeins bækur hafa verið brenndar. 

Plötur Bítlanna voru brenndar götum úti víðs vegar um heiminn þegar John Lennon sagði í forðum að Bítlarnir væru vinsælli en Jesús sjálfur.

Oddur Ingi (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 10:54

2 identicon

Málið er auðvitað ekki eins svart og hvítt eins og þú segir. Ég held að ritskoðun eigi ekki að eiga sér stað í siðuðu þjóðfélagi. 

 En það er ein ritskoðun sem ég tek undir og það er ritskoðun til þess að vernda börn og ungmenni. Ef ég banna bíómynd og segi að hún sé bönnuð börnum.. er það ekki ritskoðun.

 Ritskoðun er réttlætanleg ef hún er gerð til að vernda börn og ungmenni. Það þarf að sýna fram á það með góðum rökum og rannsóknum  á áhrifum til þess að banna hlut.

Jens Ívar (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 11:01

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Oddur: rétt að plötur Bítlanna voru einmitt brenndar vegna þessara ummæla Lennon's. Var plötubrennan réttlætanleg að þínum dómi?

Jens: Ritskoðun til að vernda börn og ungmenni er ekkert síður viðkvæmt mál en önnur ritskoðun. Ekki er réttlætanlegt að banna hvað sem er. Til dæmis var reynt að banna Harry Potter bækurnar víða á skólabókasöfnum í Bandaríkjunum, svo og hefur heimspekiritum oft verið úthýst af slíkum stofnunum - er slík ritskoðun réttlætanleg? Hvaða viðmið þarf til að hægt sé að réttlæta slíka ritskoðun?

Það er ekki auðvelt að segja til um hvaða áhrif listaverk, málefni eða hugverk geta haft á börn og ungmenni, frekar en á annað fólk.  Þetta vekur spurningar:

  • Hvaða hugtök á að banna í návist barna og ungmenna?
  • Hversu langt skal ganga?
  • Hvaða áhrif hefur ritskoðun önnur en að vekja áhuga á efninu sem hefur verið útilokað?

Hrannar Baldursson, 14.3.2007 kl. 13:19

4 Smámynd: Ómar Örn Hauksson

Það er náttúrulega erfitt að toppa Bandaríkja menn í ritskoðunar vitleysu. Nýlega vildi hópur fólks banna barnabók í skólum landsins af því að orðið "pungur" (scrotum, sem er tæknilega heitið yfir pung) var í texta bókarinnar. Þarna var farið að sjá klám í textanum út af þessu eina orði. Krakkar mega náttúrulega ekki vita hvað pungur er því að þá verða þau kynferðislega brengluð.

Mér finnst að ritskoðun eigi ekki rétt á sér þótt að manni svíði við það að þá fá rasistar og því um líkt pakk að halda sínum heimskulega málflutningi gangandi. Krakkar eiga ekki að komast í klám vegna þess að það er ekki framleitt fyrir þau. Það eru foreldranir sem eiga að hafa augun með því hvað börnin okkar mega sjá og hvað ekki. Stjórnvöld eiga ekki að leika barnapíu.

Hér á landi hefur Krossinn verið aktívur í því að brenna Harry Potter bækur og þungarokks diska.  

Ómar Örn Hauksson, 14.3.2007 kl. 17:12

5 Smámynd: Púkinn

Hvað með ritskoðun vegna höfundarréttarbrota? T.d. þegar efni er fjarlægt af YouTube sem var sett þangað án leyfis framleiðanda? 

Púkinn, 14.3.2007 kl. 17:37

6 Smámynd: Ómar Örn Hauksson

Það er ekki ritskoðun. Það er verið að verna höfundarrétt. 

Ómar Örn Hauksson, 14.3.2007 kl. 18:40

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ómar: Blessaður, ég vissi ekki þetta með Krossinn, en finnst það áhugavert. Ég er sammála þér um mikilvægi þess að halda klámi frá börnum, og einnig mikilvægi þess að foreldrar hafi stjórn á slíku frekar en ríkið.  

Hrannar Baldursson, 14.3.2007 kl. 21:08

8 identicon

Á ríkið ekki að vera parnapía?

 Sjit? Ef foreldrar standa sig ekki? Í mínum huga er það akkúrat það sem ríkið snýst um.. það á að vera lögregla og miðlari. Sjá til þess að allir þegar njóti sín og dafni.

Við hljótum að þurfa að vernda börn. Er það ekki? Sjá til þess að fara ekki halloka í daglegu lífi?

Jens Ívar (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 22:10

9 identicon

Mér finnst nú plötubrennan ekki vera réttlætanleg, hvað þá að banna fólki að hlusta á tónlist Bítlanna. Þeir voru m.a. bannaðir í Sovétríkjunum, Kúbu og Fillpseyjum.

Að banna fólki að hlusta á tónlist eða tjá sig í gegnum skrif, list eða annað slíkt er fáránlegt og verið er að hylja yfir sannleikann. 

Oddur Ingi (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 22:59

10 identicon

Það er ótrúlegt hve líkir bible-belt Repúblikaanar eru Vinstri grænum í öllum sínum málflutningi. Þeir eru komnir á sömu bylgjulengd og hörðustu andstæðingar frelsins í USA sem þykjast þó verja þ.að með öllum látum.   Nefni Moral Majority svo lið sem þolir illa alla þá sem dettur í hug að fá sér gistiungu á Sögu. VG ættu bara að kalal Pepúblikana systra-flokk a.m.k. hvað varðar klám ritskoðun og siðferðismál. Ekki gleyma að siðferði VG er á allt öðru og hærra plani en okkar hinna. Oj, bjak þvílíkt rugllið sem ætlar að taka að sér stjórn á okkur næstu árin.   Ég meika það ekki, hjálp!

Tek skýrt fram að ég kann vel við flest í Bandaríkjunum, auðvitað ekki allt,  svo þetta er ekki skrifað út frá klassíku kana-hatri a la VG og fleirri.   Demókratar eru fínir upp til hópa og mildari armurinn af Repúblikunum og svo in á milli svartir sauðir.  

kær kveðja

Sveinn

Sveinn V. Ólafsson (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 01:24

11 Smámynd: Hrannar Baldursson

Blessaður Sveinn: ég viðurkenni að tilfinning gagnvart VG síðustu daga er svipuð og þín. Þess vegna skil ég ekki hvað skynsöm og góð manneskja eins og Guðfríður Lilja er að gera í þessum flokki. Það er eins og hugmyndafræðin og einstaklingarnir passi ekki alveg saman.

Oddur Ingi: Sammála þér 100%. 

Jens: Spurningin er líklega: hverjir eru þessi 'við' sem eigum að vernda börnin? Reynslan sýnir að þegar Ríkið gerir það, þá er það vanhæft því að kærleikinn vantar. Foreldrar og aðstandendur eru líflínan í þessu máli. Ríkið þarf hins vegar að skapa umhverfi sem gerir fjölskyldum unnt að vera alvöru fjölskyldur en ekki bara útivinnandi hugtök.

Hrannar Baldursson, 16.3.2007 kl. 08:31

12 Smámynd: Birna Dís

En ef að fólk hvetur til ólöglegra aðgerða með skrifum sínum? T.d. þá hryðjuverkamenn sem safna liði á vefsíðum víða um heim. Eða vefsíður sem hvetja til ýmissa átröskunarsjúkdóma. Mín skoðun er sú að í sumum tilfellum sé í lagi að ritskoða en það verði að vera að mjög vel ígrunduðu máli og það verður að vera hægt að sýna fram á að skrifin séu sérstaklega til þess fallin að skaða aðra.  

Birna Dís , 19.3.2007 kl. 15:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband