Uppeldi, fræðsla og menntun

William-Adolphe_Bouguereau_%281825-1905%29_-_A_Calling_%281896%29Hafsteinn Karlsson skrifar frábæra grein í dag, Á skólinn að sinna uppeldi eða menntun? Mig langar nánast til að vísa í hverja einustu málsgrein sem hann skrifar, en það gengur víst ekki. Spurningin hvort að skóli eigi að vera fræðslustofnun, menntastofnun eða uppeldisstofnun, (eða allt þetta) og hvaða merkingu beri að leggja í þessi hugtök finnst mér gífurlega spennandi og ætla að gera tilraun til að ráða aðeins í þessi hugtök, og þá vonandi án þess að tapa sjóninni á veruleikanum. 

Til þess að komast dýpra er kannski ágætt að byrja á einföldum spurningum. Ég mun ekki kíkja í aðrar heimildir, en svara þessum spurningum eftir mínu höfði. Síðan mun ég reyna að finna leiðir til að dýpka minn eigin skilning á hvað þessi hugtök þýða. Þó að ég hafi unnið sem kennari og heimspekingur í 14 ár, og hef nægan bakgrunn til að hafa sterka skoðun á þessu, geri ég mér grein fyrir að það er alltaf hægt að finna nýja vinkla á öllum hugtökum og hvað þau merkja fyrir okkur.

1) Hvað er menntun?

 Menntun er áætlun og framkvæmd sem snýr að því að gera einstakling að meira manneskju, en ekki nauðsynlega að meiri manneskju. Menntunarhugtakið er að vissu marki regnhlífarhugtak yfir uppeldi og fræðslu.

2) Hvað er uppeldi?

 Uppeldi snýst um að kenna einstaklingi á þau viðmið sem ríkja í viðkomandi samfélagi, útskýra hvers konar athafnir eru réttar eða rangar og ræða við viðkomandi ástæðurnar fyrir því. Kennarar tel ég að geti stjórnað samræðum um það sem er rétt og rangt, en foreldrar barnanna eru yfirvaldið sem verður að setja þeim reglurnar. Ástæðan er einföld: börnin fylgja frekar siðferðilegum ráðum foreldra sinna en kennara. Hlutverk kennara er að leiðbeina og upplýsa, og vera góð fyrirmynd sem sýnir í verki hvernig hegðun er ásættanleg; en valdsvið kennarans er einfaldlega takmarkað hérna. 

3) Hvað er fræðsla? 

 Áður fyrr snerist fræðsla um það að auka hæfni í reikningi, skrift og lestri, leggja staðreyndir á munnið og kunna að koma þeim til skila á prófi. Ef kennarinn var mjög hæfur gat hann hjálpað börnum til að ná góðu valdi á námsaðferðum til að ná góðum árangri á prófum. Það sama á við um dag. Nema hvað að aðstæður hafa breyst. Internetið og farsímatæknin hafa gjörbreytt aðgangi okkar að ólíklegustu upplýsingum. Á einni mínútu er hægt að öðlast yfirborðskennda þekkingu um nánast hvað sem er með því að googla eða wikka viðkomandi hugtök. Og ef áhugi er fyrir hendi er hægt að kafa dýpra. Möguleikum til landafræðikennslu hefur til að mynda verið gjörbreytt með GoogleEarth. Stuðningur við stærðfræðikennslu er til að mynda mikill með notkun rasmus.is. Og þannig má lengi telja. Við búum í allt öðru umhverfi en áður - upplýsingamagnið er margfalt. Það sem við þurfum að kenna, eru ekki upplýsingarnar sjálfar, heldur hvernig hægt er að nálgast þær og vinna með þær á gagnlegan hátt, og einnig finna þeim stað í okkar heimi. Ég trúi því að heimspekileg samræða um allan þennan hrærigraut upplýsinga sem við höfum aðgang að geti hjálpað börnum við að finna skynsamlegar leiðir til að átta sig á þeim, skýra þau og leiðrétta, og jafnvel nýta.

 Þegar litið er á heildarmyndina er mér ljóst að fræðsla, uppeldi og menntun er nokkuð sem að skólar þurfa að leggja áherslu á fyrir nemendur; en alls ekki má gleyma því að uppeldið er samt fyrst og fremst á höndum foreldra. Þannig séð er misskilningur að kalla skóla uppeldisstofnanir, þar sem að skólar gegna einungis stuðningshlutverki þar við heimilin, sem eru hinar raunverulegu uppeldisstofnanir. Menntun fyrir hvern einstakling er markmiðið sem að bæði heimili og skólar ættu að stefna að, að viðkomandi geti orðið meira manneskja, vaxið út frá eigin áhugamálum og getu - í  stað þess að fylgja stöðluðum formúlum sem eiga betur við hluti en fólk, það er það sem menntun þarf að snúast um í dag.

Því miður eru háværar raddir sem sífellt krefjast þess að nemendur fái háar einkunnir og ef það gengur ekki eftir séu kennarar einfaldlega latir og lélegir. Spurningin er sú hvort að hlutverk kennara í dag sé að sjá nemendum fyrir háum einkunnum, eða hvort að hlutverk þeirra sé að mennta börnin.

Hvert sem maður fer heyrir maður talað illa um kennara, sagt að þeir vinni stuttan vinnudag, séu alltof lengi í sumarfrí, og séu alltaf að krefjast hærri launa og oft þarf ég að stappa í mig stálinu til að segja á mannamótum: "en ég er kennari", þó að ég starfi ekki lengur sem slíkur, en ég ákvað að skipta um starfsvettvang eftir kennaraverkfallið 2004. Sú dæmisaga sem hjálpar mér að muna það að standa við hlið annarra kennara er sagan um afneitun Péturs postula á Jesú þegar hann var spurður hvort að hann hafi ekki verið í hópi með honum. Hann afneitaði þrisvar til þess að vernda eigið skinn. Það vil ég ekki gera.

John_DeweyAð lokum smá hugarfæði úr verki John Dewey, Lýðræði og menntun (Democracy and Education), úr kaflanum Menntun sem þroski (Education as Growth): "Þróun, þegar hún er túlkuð með samanburðarhugtökum, það er að segja, með tillitil til sérstakra eiginleika barns og fullorðins, þýðir stýringu hæfileika í sérstakar rásir: mótun vana sem felur í sér hæfileika til að taka ákvarðanir, skýr áhugasvið, og ákveðin markmið eftirtektarsemi og hugsunar. En sjónarhorn samanburðarins er ekki endanlegt. Barnið hefur sérstaka hæfileika; það að hunsa þá staðreynd er að hamla eða afvegaleiða þau líffæri sem það þarfnast til að þroskast á eðlilegan hátt. Hinn fullorðni notar hæfileika sína til að breyta umhverfi sínu, og með því býr hann til nýjan hvata sem hann getur beint hæfileikum sínum að og haldið áfram að þróa þá. Það að hunsa þessa staðreynd er að handsama þróun, aðgerðarlaus ráðstöfun. Bæði eðlilegt barn og eðlilegur fullorðinn einstaklingur taka þátt í því að þroskast. Munurinn á þeim er ekki munurinn á milli þroska og ekki þroska, heldur á milli þroskahátta sem eru viðeigandi við ólíkar aðstæður. Með tilliti til þróunar hæfileika sem beint er að því að ná tökum á sérstökum vísindalegum og hagfræðilegum verkefnum, gætum við sagt að barnið sé að þroskast í fullorðinn einstakling. Með tilliti til viðkunnalegrar forvitni, fordómalausra viðbragða og opins hugarfars, gætum við sagt að hinn fullorðni ætti að þroskast í átt að hinu barnslega. Ein fullyrðingin er jafnsön hinni"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafsteinn Karlsson

Sæll Hrannar

Já þetta eru skemmtilegar vangaveltur. Menntun, uppeldi, fræðsla, kennsla - hvað þýða þessi hugtök?  Hvað meina menn þegar þeir segja að skólinn eigi ekki að sinna uppeldi? Ég held að þeir eigi við að skólinn eigi ekki að taka ábyrgðina á uppeldi barna. 

Hafsteinn Karlsson, 24.2.2007 kl. 18:09

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir athugasemdina Hafsteinn. Ég held að þú hittir naglann á höfuðið. Það er mikilvægur greinarmunur þarna sem er alls ekki augljós. Þó að skólarnir taki vissulega virkan þátt með foreldrum í uppeldi barna, þá eru það fyrst og fremst foreldrarnir sem bera ábyrgðina. Stóra spurningin er þessi: bera skólarnir einhverja ábyrgð á uppeldi barna, eða sinna þeir þessu hlutverki einfaldlega vegna þess að það er skylda hvers einstaklings að hlúa að hverju barni?

Reyndar mætti spyrja hverjir það eru þá sem bera ábyrgð á uppeldi fullorðna. Er það fjölskyldan eða heimilið, fyrirtækin sem við störfum hjá, bankarnir sem halda utan um peningana okkar, ríkið sem hefur vit fyrir okkur eða kannski fangelsisstofnanir sem leiðrétta okkur ef við högum okkur ekki skikkanlega? 

Hrannar Baldursson, 24.2.2007 kl. 18:27

3 Smámynd: Hafsteinn Karlsson

Góður maður sagði við mig:

„Það er ekki barnið eitt sem er að ganga í skólann. Foreldrarnir og reyndar öll fjölskyldan eru með því.“

Þetta hefur setið svolítið í mér.

Hafsteinn Karlsson, 24.2.2007 kl. 19:08

4 identicon

Börn nú til dags er jú alin upp í skólanum að einhverju leyti. Á virkum dögum þá eru foreldrarnir jú oftast í vinnu frá 8-16 eða 9-17. Þau eyða í raun öllum deginum án barnsins síns og þegar þau koma loks heim þá er foreldrið og barnið þreytt og svefn á næsta leyti, þannig að barnið og foreldrið eyða þannig séð ekki miklum tíma saman. Þannig mér finnst eðlilegt að stofnanir eins og skólinn eigi stóran part í uppeldi nú til dags.

Oddur Ingi (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 00:46

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Góður puntkur hjá þér Oddur Ingi, en þó að skólinn taki þátt í uppeldinu megum við aldrei gleyma því að uppeldið er samt á ábyrgð foreldranna. Ég trúi því einfaldlega ekki að skólinn sem stofnun geti nokkurn tíma jafnast á við heimilið sem stofnun þegar um uppeldishlutverkið er að ræða.

Hrannar Baldursson, 25.2.2007 kl. 01:07

6 identicon

Það er alveg rétt. Ef krakkarnir fá ekki almennilegt uppeldi heima hjá sér þá leiðir það til vandræða í skólanum, þeir eiga erfitt með að haga sér og svo framvegis.

Oddur (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 01:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband