Letters From Iwo Jima (2006) ****

photo_02_hiresLetters From Iwo Jima er stórgóð kvikmynd með djúpum og áhugaverðum persónum sem allar spretta fram ljóslifandi og maður getur ekki annað en haft mikla samúð með eða andúð á.

Sögusviðið er það sama og í Flags Of Our Fathers mynd sem gerð var samhliða, af sama leikstjóra, en mörgum gæðaflokkum fyrir neðan Letters From Iwo Jima.

Sagan fylgir óbreytta hermanninum (og fyrrum bakara) Saigo. Hann er ekki hrifinn af þessu stríðsbrölti og hugsar um fátt annað en að komast heim til eiginkonu sinnar og nýfæddrar dóttur. En yfirvofandi er gífurlega öflug árás frá flota Bandaríkjamanna og frekar ólíklegt að nokkur Japani muni komast lífs af eftir þau átök, enda hafa japönsku hermennirnir fengið þau fyrirmæli að þeir skuli vernda eyjuna eða deyja. Hvað á maður sem þykir vænt um lífið að gera við svona aðstæður?

Hann er í óþægilegri stöðu í upphafi sögunnar, en yfirmenn hans sýna grimmd og hörku þegar betur hefði verið að beita visku - og oft er þessari grimmd beint gegn honum, þar sem hann liggur vel við höggi og er ekki sáttur við ástandið. En þá kemur til eyjunnar hershöfðinginn Kuribayashi, sem umturnar hvernig komið er fram við óbreytta hermenn á eyjunni og tekur upp á því að skipuleggja snilldarlega hannaðar varnir, til að verja eyjuna í sem lengstu lög - þar sem að hann grunar að hann muni seint eða aldrei fá liðsauka.

Þessir menn sem berjast af innri sannfæringu eru hetjur myndarinnar, en hinir sem berjast aðeins vegna heiðursins eru að uppfylla innantóm loforð sem á endanum skila engu, en myndin fjallar einmitt fyrst og fremst um mikilvægi þess að hugsa sjálfstætt, komast að eigin sannfæringu og breyta samkvæmt henni. Hún fjallar um mannlegan breyskleika, hugrekki og heiður, bræðralag og fórnir, heimsku og visku. Hún tekur allan skalann.

Sagan um þá Ninomiya og Kuribayashi er gífurlega áhrifarík. Fleiri einstaklingar koma við sögu, og er saga þeirra ekkert síður vel sögð, en ég mun ekki fjalla nánar um þá hér. Það er óhætt að mæla hiklaust með þessari mynd, sem er að mínu mati ein best leikna mynd sem gerð hefur verið, enda er hún trúverðug og ekki eitt einasta feilspor tekið af þeim fagmönnum sem að verkinu komu.

Ótrúlegt að sami leikstjóri hafi gert Letters From Iwo Jima og Flags Of Our Fathers, þar sem að sú síðarnefnda er bara meðalmynd en sú fyrrnefnda hreint meistarastykki.

Smelltu hér til að lesa kvikmyndagagnrýni fyrir fleiri myndir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband