Klám og siðgæði

"Sakleysi er svo sannarlega dásamlegur hlutur. Annars vegar er mjög sorglegt að það geti ekki viðhaldið sjálfu sér og auðvelt er að draga það á tálar. Jafnvel viska - sem samanstendur meira af hegðun en þekkingu - hefur þörf á vísindum, ekki til að læra frá þeim, heldur til að tryggja viðurkenningu og stöðugleika á lífsreglum. Gegn yfirráðum skyldurækninnar sem skynsemin tjáir manninum að verðskuldi virðingu, finnur hann í sjálfum sér mótvægi gegn þeim í löngunum sínum og tilhneigingum, alla ánægjuna sem hann síðan nefnir hamingju. Skynsemin gefur skipanir sínar með mikilli staðfestu, án þess að lofa tilhneigingum nokkur loforð, og jafnvel með skeytingarleysi og fyrirlitningu gagnvart þeim, sem eru svo hvatvísar, og á sama tíma svo sannfærandi, og sem vilja ekki leyfa sjálfum sér að vera þvingaðar undir nokkur yfirráð. Hér verður til náttúruleg togstreita, það er tilhneiging til að mótmæla þessum ströngu lögum um skyldu okkar og til að efast um gildi þeirra, eða í það minnsta hreinleika þeirra og hörku; og ef mögulegt er, að samræma þau óskum okkar og tilhneigingum, það er að segja, spilla þeim við rætur þeirra, og eyðileggja gjörsamlega virði þeirra - nokkuð sem heilbrigð og almenn skynsemi getur ekki sagt að sé gott." (Úr Undirstöðulögmálum frumspeki siðferðis, eftir Immanuel Kant, þýðing HB.)

klamHvað er klám og af hverju er vinsælt að vera annað hvort með eða á móti því?

Hvað er klám? Samkvæmt skilgreiningu á wikipedia.org er klám skilgreint sem afdráttarlaus framsetning á mannslíkamanum eða kynferðislegum athöfnum með það markmið að örva kynhvöt áhorfanda. Klámiðnaðurinn hefur vaxið hratt með tilkomu vídeóspólunnar, DVD og síðast en ekki síst Internetsins.

Ef sagt er að klám sé siðferðilega rangt, hlýtur það að vera vegna þess að það skaðar einhvern? Hvern skaðar klám?

Ljóst er að fólk almennt er mjög svo á móti barnaklámi. Við setjum strax samasemmerki á milli barnakláms og kynferðislegrar misnotkunar á börnum. Af hverju setjum við ekki sams konar samasemmerki á milli kláms og kynferðislegrar misnotkunar á konum eða körlum? Jú, svarið er ósköp einfalt. Börnin hafa ekkert val enda eru þau ekki sjálfráða fyrr en þau hafa náð ákveðnum aldri, en hinir fullorðnu hafa þetta val, er það ekki?

Það fer sjálfsagt eftir því hver spurður er, hvert svarið verður. Það að vera komið í slíkar aðstæður að þátttaka í klámi er orðið að valkosti, hvort sem um þátttakendur í kynferðislegum athöfnum eða tæknimenn sem festa athafnirnar á filmu, - þá er ljóst að þetta er hluti af veruleikanum í dag. Þetta er fyrirbæri sem fylgir flestum samfélögum, ef ekki öllum, og það er mikil eftirspurn eftir þessu og miklir peningar í spilinu.

Þeir sem meta mannvirðingu mikils eru oftast þeir sem snúa sér gegn klámi. Þeim býður við því að fólk sé að gera lítið úr því undri sem falist getur í heilbrigðu kynlífi. Trúarbrögðin standa oftast gegn klámi á þessum forsendum.

421343ASumir femínistar gagnrýna klámið á þeim forsendum að það geri lítið úr konum og að litið sé á konur (af körlum) sem hluti. Þetta geri að verkum að þessar konur munu sjálfar líta á sig sem hluti og glata þeim tækifærum sem felast í því að vera heilstæð manneskja. Aðrir femínistar hafa mótmælt og sagt að þetta hljóti að snúast um val hjá viðkomandi einstaklingum.

Þegar snýr að lögum, þá er málfrelsi settar skorður til verndar siðgæði manna og mannorðs, þar sem að litið er á það sem undirstöður lýðræðissamfélags að allar manneskjur séu virtar að verðleikum.

Í 73. grein íslensku stjórnarskráarinnar stendur: "Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum."

Stóra spurningin í sambandi við klám og bann á klámi er hvort að það skaði heilsu, siðgæði, réttindi, mannorð, mannvirðingu eða sjálfsvirðingu einstaklinga í lýðræðisþjóðfélagi? Hugsanlega snertir þessi spurning grundvallarspurningar um það í hvernig þjóðfélagi við viljum lifa.

Ef við viljum lifa í lýðræðissamfélagi, hvað þýðir það fyrir samskipti okkar og tengsl við annað fólk? Snýst lýðræði um frelsi til að gera það sem manni sýnist? Er klám afturhvarf til einveldishugsunarinnar þar sem að karlinn réð yfir þegnum sínum, rétt eins og karlmaðurinn í klámmyndböndum hefur algjöra stjórn á konunni?

Ljóst er að klám snertir okkur djúpt, hvort sem við erum því fylgjandi eða mótfallin. Hvers vegna? Er það vegna þess að fólk skiptist í tvo hópa: verndara og gerendur? Þá sem hafa íhugað þessi mál og komist að niðurstöðu og þá sem ekki hafa íhugað þetta?

Hvaða rök eru það sem styðja klám?

  • Tjáningarfrelsi?
  • Athafnafrelsi?
  • Skemmtanagildi?

Hvaða rök eru á móti klámi?

  • Skaðlegt mannvirðingu?
  • Sakleysi?
  • Siðgæði?
  • Þrælkun?
  • Ógeðslegt?

Hvaða rök vega mest á endanum? Er það ekki spurning sem hver og einn verður að svara, ef hann eða hún nennir að standa í því?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband