Virka silfurkúlur?

Talað er um "silfurkúlur" í viðskiptaheiminum þegar talað er um að leysa mörg mál með einni lausn. Hjá öflugri fyrirtækjum er ekki aðeins litið á silfurkúlur með efasemdaraugum, heldur djúpri tortryggni, því að stjórnendur vita að silfurkúlur eru stórhættuleg fyrirbæri sem eiga til að springa í byssunni. Það er líka talað um að silfurkúlur geti drepið varúlfa og önnur skrímsli. Verðtryggingin er slíkt skrímsli og ESB er silfurkúla. Silfurkúlur eru því miður skáldskapur. Ekkert annað. Innantóm von. Einhvers konar trúarbrögð. Jafnvel gervivísindi.

Öðru hverju birtist svona silfurkúlulausn við öllum vandamálum ákveðins mengis. Stundum samþykkja stjórnendur að láta reyna á hana, en á endanum reynist hún ekki áhættunnar virði, bæði virkar hún ekki eins og hún átti að virka og var þar að auki margfalt dýrari en gert var ráð fyrir. Og eftirá sjá allir hvað hugmyndin var absúrd og sjá eftir að hafa ekki farið hófsamari og skynsamlegri leiðir að markmiðunum, leiðir sem hefðu kannski kostað meiri vinnu en upphafleg áætlun, en skilað árangri.

Þetta er þekkt. Þetta er vitað. Þetta er alltaf að gerast. Og gerist enn.

Hin íslenska ríkisstjórn boðar lausn allra vandamála með inngöngu í ESB. Innganga í ESB á ekki bara að uppræta alla spillingu á Íslandi, hún á líka að breyta krónunni í evrur og uppgufun krónunnar á að leysa verðtryggingarbölið. Þetta hljómar eins og draumur. Sannfærandi draumur. En trúðu mér, þetta er lítið annað en blekking sem heldur að hún sé draumur.

Því miður er inngöngumiðinn í ESB farin að hljóma eins og silfurkúla, og er ég hræddur um að ríkisstjórnin, vegna síns afar takmarkaða og þrönga hugsunarhátts, muni sitja með hendur í skauti alla tíð og kenna síðan einhverju tilfallandi um þegar vandamálin leysast ekki af sjálfu sér hvort sem að innganga í ESB verður að veruleika eða ekki. Hugsanlega verður Davíð kennt um. Það hefur virkað ágætlega undanfarið að kenna Dabba um allt sem farið hefur úrskeiðis. Davíð og sjálfstæðisflokkurinn eru nefnilega svona andsilfurkúlur, það sem skapað hefur öll vandamál nútímans. Þannig hugsa einfeldingar. Þannig líður þeim vel. Reikna ég með.

Það er sorglegt að sjá hvernig lýðskrumarar og pólitíkusar tala í skyndilausnum, en virðast gleyma að velta fyrir sér raunhæfum markmiðum og hvernig ólíkar lausnir geta tekið á þeim. Það er fáránlegt að festa sig við eina lausn þegar hugsanlegar lausnir eru fjölmargar, og margar sjálfsagt betri og auðveldari en þessi eina stóra. 

Allt sem þarf til er vilji, skynsemi og smá mannúð. Frá fólkinu sem ræður. Og að þau fatti að silfurkúlur eru skáldskapur sem ekki virka í veruleikanum og að ESB er silfurkúla sem mun aldrei virka til að leysa öll vandamál.

Aftur á móti er ég ekki á móti ESB. Ég tel skynsamlegt fyrir Íslendinga að ganga í ESB, einfaldlega vegna þess að verðmætum og auðlindum er ekki skipt á réttlátan hátt heima fyrir, og tel að með veru í ESB hefðum við fleiri verkfæri til að taka á vandamálum - en það þýðir ekki að þessi verkfæri séu ekki til staðar í dag, bara í öðru formi. Þessi verkfæri eru falin eða hunsuð til þess að þvinga þjóðina til að samþykkja ESB umsókn.

Það er ranglát leið, sviksamleg og fölsk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Silfurkúlur virka á Varúlfa og Vampírur.

Eins og allir vita eru það persónur úr þjóðsögum.

Alveg eins og sú mýta að ESB-aðild sé einhver "lausn" á efnahagsvanda.

Guðmundur Ásgeirsson, 23.8.2011 kl. 21:12

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ESB er engin lausn fyrir íslendinga því engin lausn finnst fyrir þessa voluðu þjóð..

Óskar Þorkelsson, 26.8.2011 kl. 08:22

3 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Hmm... segjum við ætluðum að nota silfurkúlu á eitthvað - ref, td.

Fyrst þurfum við almennilegan riffil, vegna þess að silfur er töluvert harðara efni en blý, og við viljum síður að það festist í linum mámi í lélegu hlauði og allt draslið springi í loft upp.

Það ku vera sársaukafullt.

Við skjótum refinn.  Refurinn fær kúluna í sig, og hún fer beint í gegn og gerir mest lítið.  Svo rebbi labbar í burt, án þess að fatta nokkuð, og deyr einhverntíma seinna í vikunni úr innvortis blæðingum, eða bara alls ekkert.

Vegna þess að silfurkúlan er of hörð.  Ef við þá á annað borð hittum refinn, því silfur er miklu léttara en blý, og verður þess vegna aldrei jafn markvisst.

Svo... nei.  Notaðu blý.  Til þess er það.

Ásgrímur Hartmannsson, 28.8.2011 kl. 02:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband