Vitum við og skiljum hvað er í gangi?

Rétt eftir Hrun skildu fáir hvað var í gangi og ríkjandi ríkisstjórn kennt um ófarir heimila. Komið hefur í ljós að sú ríkisstjórn var aðeins hluti af vandanum, rétt eins og ríkjandi ríkisstjórn, strengjabrúður í höndum þeirra sem fara með raunveruleg völd í landinu, hinir ósýnilegu kröfuhafar og eigendur banka og fjármálastofnana með her lagatækna, viðskiptatækna og hagtækna að baki sér, sem hafa eina skoðun á hvernig hlutirnir eiga að vera í þjóðfélagi stjórnað af biluðu hagkerfi, annað en sannir lögfræðingar, viðskiptafræðingar og hagfræðingar sem sjá dýpra og víðar.

Hverjir eru í ríkisstjórn er ekki vandinn, heldur sá að ríkiskerfið sem slíkt er sökkvandi skip, og í stað þess að stökkva frá borði er fólk að berjast um að skipa sér í allar stöður eins og allt sé í himnalagi, og reyna að smíða bátinn upp á nýtt meðan hann siglir í strand. Betra væri að setja bátinn í slipp, hvíla hann aðeins og gefa utanþingsstjórn næði til að smíða nýtt og betra skip. Á endanum er dýrara að laga sífellt það sem er orðið gamalt og úr sér gengið, heldur en að byggja eitthvað nýtt sem er lagað að raunverulegum aðstæðum. Þetta virðast stjórnmálamenn við völd ekki sjá. Þeir horfa ekki á skipið, heldur bara út á sjóndeildarhringinn, hvert skal stefna, og ræða um það því erfitt getur verið að ákveða sig, á meðan einhverjir aðstoðarmenn hamra á hripleknum kilinum.

Ég skynja breytingu í viðhorfum hjá fólki sem bloggar. Það er eins og að taka púls þjóðarinnar að hlusta á þessar raddir. Fyrir búsáhaldabyltingu var fólk gífurlega reitt og vildi refsa þeim sem treyst var til að vernda almenning og í aðgerðarleysi og spillingu höfðu valdið gífurlegu tjóni. Nú er sams konar staða að koma upp hjá þessari ríkisstjórn, reiðin er að springa út þegar fólk skynjar stjórnvöld taka stöðu með bönkum og fjármögnunarfyrirtækjum þrátt fyrir dóm hæstaréttar fólkinu í vil. Stóri munurinn á búsáhaldabyltingunni og deginum í dag er að nú er fólk farið að skilja ástandið, og hefur öðlast þekkingu á aðstæðum.

Skýrslan hefur reynst grunnplagg í að byggja upp þessa þekkingu. Styrkir til stjórnmálamanna og viðbrögð stjórnvalda við dómi hæstaréttar hefur komið fólki í skilning um að það sem lýst er í Skýrslunni, er ennþá í gangi, núna.

Búsáhaldabyltingin leiddi til falls ríkisstjórnar og nýrra kosninga. Ég hef á tilfinningu að fólk skilji að vandinn er dýpri, og að lausnir felast ekki í endurkjöri, heldur hugsanlega í stærri hugmynd eins og þeirri sem Njörður P. Njarðvík hefur stungið upp á, að stofna til Lýðveldisins Íslands, útgáfu tvö. Til samanburðar eru Frakkar víst með lýðveldi númer sjö í gangi, enda sú þjóðarsál oftast meira en tilbúin í að laga það sem virkar ekki, annað en við Íslendingar, sem látum bjóða okkur hvað sem er.

Fyrir búsáhaldabyltingu var krafist nýs Íslands. Kom það fram? Svar mitt er neikvætt. Það eina sem gerðist er að hliðrað var sætum á Alþingi og fólk sem hafði setið þar áratugum saman komst til valda. Það er ekki breyting, það er hliðrun. Eitthvað annað og betra en stjórnmálaflokkar með atvinnustjórnmálamönnum þarf að koma til. Við þurfum að virkja þann dugnað, frumleika og kraft sem íslensk þjóð er þekkt fyrir um allan heim, og beita hann á okkur sjálf, í stað þess að horfa stöðugt út í heim og hneykslast á að aðrir séu þó í meiri vanda en við sjálf.

Við þurfum að líta í eigin barm. Taka stöðuna. Snúa bökum saman. Leggja niður kerfið sem er að sliga góða þjóð, og hugsa upp nýtt kerfi sem hefur hljómgrunn í góðum gildum og viðhorfum, áður en þessi gildi og viðhorf glatast í hvítri mykju hugsunarleysis.


mbl.is Í sjálfsvald sett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

sammála þér breiðholt að flestu en hvaða ðjöffuls hálvita ætlar þú að finna í staðin við erum öll snar spilt og rugluð.

gisli (IP-tala skráð) 2.7.2010 kl. 07:29

2 identicon

Verdur ùtràsarvìkingunum thà lìka ì sjàlfsvald sett, hvort their taki ùt refsingu fyrir afbrot sìn? Thad er jù verid ad gefa ì skyn, ad Hæstirèttur sè òmarktækur.

Steini (IP-tala skráð) 2.7.2010 kl. 08:07

3 identicon

Satt, ég þekki ekki lengur land mitt Ísland, en ég er ákveðinn að fá það aftur!

L (IP-tala skráð) 2.7.2010 kl. 08:08

4 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Sammála hverju einasta orði sem þú skrifar hér að ofan.

Sumarliði Einar Daðason, 2.7.2010 kl. 20:13

5 Smámynd: Ómar Ingi

Góður

Ómar Ingi, 2.7.2010 kl. 21:28

6 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Athyglisverður pistill hjá þér Don Hrannar sem ætti að vekja alla til umhugsunar.

Jón Baldur Lorange, 2.7.2010 kl. 21:55

7 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Takk fyrir greinagóða lýsingu á ástandinu hérna. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 2.7.2010 kl. 23:59

8 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Nú er Njörður P Njarðvík komin í Stjórnlaganefnd skipaða af Alþingi eftir að lög um Stjórnlagaþing voru samþykkt nú undir þinglok. Hann vakti stjórnarskrármálið upp frá dauðum í jan 2009 og er nú komin þar sem hans staður er.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 3.7.2010 kl. 01:45

9 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

  • Aðalheiður Ámundadóttir
  • Ágúst Þór Árnason
  • Björg Thorarensen
  • Ellý K. Guðmundsdóttir
  • Guðrún Pétursdóttir
  • Njörður P. Njarðvík
  • Skúli Magnússon.
  • Þetta eru þau sem skipa nefndina.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 3.7.2010 kl. 01:47

10 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Varðandi þitt mat á því að ekki sé verið að byggja nýtt skip, heldur aðeins að gera við það gamla, þá finnst mér það ekki rétt að öllu leiti. Meðan beðið er hins nýja skips sem að mínu álit er í smíðum, verður að halda hinu gamla á floti aðeins lengur. Því verður svo sannarlega lagt um leið og nokkur kostur er.

Það sem helst er að hjá núverandi ríkisstjórn (og stjórnum frá hruni) er að málefnum heimilanna í landinu hefur verið sinnt allt of lítið og alltof seint. Dómur Hæstaréttar hefur rifið það stóra mál úr höndum stjórnvalda með látum og stjórnvöld hafa því miður dregið taum fjármálafyrirtækjanna um of.

Þar er á ferð annar utanþingsráðherra ríkisstjórnarinnar og hefur hann fallið mjög í álit hjá stórum hluta almennings í landinu.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 3.7.2010 kl. 01:58

11 Smámynd: Hrannar Baldursson

Hólmfríður: Eini munurinn á ríkisstjórninni í dag og þeirri sem Geir Haarde leiddi er að gæluverkefnin eru önnur og skattaáherslur ólíkar. Í grunninn er þetta sama ríkisstjórnin.

Það er algjörlega óásættanlegt að Seðlabanki, Fjármálaeftirlitið, viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra taki stöðu með óprúttnum fjármálafyrirtækjum sem valdið hafa þjóð, fyrirtækjum og einstaklingum stórskaða, loks þegar sjálfur hæstaréttur hefur skorið úr um gengismálin á eins skýran hátt og kostur er. Það að einhverjir velji að líta á þetta sem flækju er meira merki um hugarástand þeirra en veruleika.

Hrannar Baldursson, 3.7.2010 kl. 06:26

12 Smámynd: Hrannar Baldursson

Gísli: Það er fullt af góðu fólki til staðar sem getur gert góða hluti. Þetta fólk tekur hins vegar ekki þátt í stjórnkerfinu eins og það er í dag vegna þess hversu mannskemmandi það er. Kerfið er að sliga þjóðina.

Steini: Mér sýnist sú vera raunin í dag. Engin lög virðast ná yfir þá sem hafa nógu mikinn pening til að kaupa sér leið út úr lögbrotum með því að hnýta nokkrar lagaflækjur með klárum lagatæknum.

L: Ég hef kannski farið frá Íslandi, en mun aldrei yfirgefa Ísland.

Sumarliði: Takk.

Hrannar Baldursson, 3.7.2010 kl. 06:26

13 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ómar: Takk

Jón Baldur: Ég held einmitt að fólk sem farið að hugsa um þessi mál á mun virkari hátt en áður. Helsta ógnin við slíka gagnrýna þjóðfélagshugsun á þessari stundu er HM í fótbolti og sumarblíða.

Jóna Kolbrún: Þakka þér.

Hrannar Baldursson, 3.7.2010 kl. 06:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband