Viltu heyra sannleikann?

1984

Ég var aldrei góður í Morfís, hvorki sem keppandi né þjálfari. Af sömu ástæðu yrði ég aldrei góður stjórnmálamaður innan íslenskrar umræðuhefðar. Ég ber of mikla virðingu fyrir sannleikanum og hversu erfitt er að nálgast hann, til þess að ég geti gert lítið úr öllu því ferli með þeim hætti sem gerður er í þing- og hátíðarsölum.

Reyndar þjálfaði ég sæmilega sigursælt lið til ræðukeppni þegar ég kenndi við mexíkóskan framhaldsskóla, en í þeirri keppni voru reglurnar svolítið öðruvísi en í Morfís og dómararnir afar harðir og þekktu vel flestar rökvillubrellurnar í bókinni. Keppendur voru dregnir niður fyrir að nota sannfærandi áherslur frekar en staðreyndir eða góð rök.

Það var lögð mest áhersla á að koma raunverulegri þekkingu til skila og undantekningarlaust voru málefnin sem rætt var um byggð á raunverulegum málefnum í nútímasamfélagi, og þurfti að ræða málin af dýpt. Ég man að eitt umræðuefnið var "Morðin í Juarez" þar sem keppendur þurftu að grafast fyrir um hverjar orsakirnar voru fyrir því að mikill fjöldi kvenna hafði verið myrtur í Juarez. Þetta var ekki með eða á móti, heldur þurftu liðin að rannsaka málið, koma með kenningu og standa við hana sem hópur. Reyndar var passað upp á að ólík lið væru ekki með sömu kenningu.

Einnig var lögð áhersla á að keppni og alvara væru tvennt ólíkt, að þessi ræðuhöld voru fyrst og fremst gerð til leiks og þjálfunar á rökhugsun, og góður undirbúningur fyrir leiðtogastörf.

Morfís er keppni í ræðuhöldum. Stjórnmálaumræðan á Íslandi er í kappræðustíl. Alls ekki ósanngjarn samanburður. Kappræður snúast um að taka afstöðu og nota öll tiltæk rök til að standa við þá afstöðu, óháð því hvort afstaðan sé í raun heilbrigð, góð eða rétt. Sá vinnur sem rökstyður betur, ekki endilega sá sem hefur rétt fyrir sér.

Vandamálið vex þegar fólk hættir að greina muninn á kappræðu og samræðum, en í samræðum er niðurstaðan ekki gefin fyrirfram, frekar en hún ætti að vera þegar leitað er góðra markmiða út frá sanngjörnum kröfum, og unnar lausnir út frá markmiðunum með því að átta sig á veruleikanum, en ekki þeim sýndarveruleika sem kappræðustíllinn skapar.

Þegar þú ræðir málin út frá fyrirfram gefinni skoðun ertu dæmd(ur) til að standa við þá skoðun og berjast við að fylla upp í rökholur með öllu tiltæku. Þar sem ekkert rökvillueftirlit er til á Íslandi, þá er ofgnótt af slíkri notkun í umræðunni. Algengastar virðast vera þær villur þegar málefni er dæmt fyrirfram útfrá skoðunum á einstaklingi eða hópi. Tilfinningarnar í slíkri umræðu yfirgnæfa alltaf hina hógværu og hljóðlátu skynsemi, sem fæstir virðast sjá, enda á umræðan til að gruggast eftir stöðugt skítkast.

Mælskulist er að sjálfsögðu ekki illt fyrirbæri þegar henni er tekið sem leik. Hún verður hins vegar að afar öflugu tæki í höndum þeirra sem eru færir að nota það, og sérstaklega þegar áheyrendur kunna ekki að greina rök frá rökvillu, gilda röksemdafærslu frá ógildri, áreiðanlegar heimildir frá óáreiðanlegum, sannsögli frá lygum, heilindi frá klækjum, kjarna frá hismi.

Þetta fyrirbæri er þekkt meðal vísindamanna sem kannast vel við að vísindalegar kenningar eru opnar fyrir stöðugri gagnrýni, og reyndar er þörf á slíkri harðri gagnrýni til að sannreyna vísindalega þekkingu, sem þó telst aldrei fullkomlega örugg. Þegar fræðimenn koma hins vegar fram með kenningar sem þeir eru sannfærðir um að séu 100% öruggar, sannar og réttar, það er einmitt þá sem rétt er að hafa varann á og kanna vel rökin sem liggja á bakvið, hverjar forsendurnar eru og af hverju þeim er haldið fram. 

Ef þú heyrir einhvern fullyrða að eitthvað sé staðreynd sem vísindin hafa endanlega sannað, þá þarftu að hlusta vandlega og velta fyrir þér hvort það geti verið rétt. Ég hef ekki enn rekist á þá vísindalegu kenningu sem allir fræðimenn viðkomandi sviðs eru sammála um. Og þó þeir væru það, hvernig gætu þeir vitað með fullvissu að kenningin sé sönn?

Það virðist lítið ekkert pláss fyrir efasemdir í íslenskri stjórnmálaumræðu. Það virðist vera lítið umburðarlyndi gagnvart óvissu og sannleiksleit. Ef viðkomandi hefur ekki öll svör tilbúin, helst í gær, þá fellur viðkomandi hratt í áliti og verður ekki hlustað á hann. Því verður hinn athyglisþurfandi stjórnmálamaður að vera fljótur að sjóða saman svör, hvort sem þau innihalda þekkingu eða bara sannfæringu, því eitthvað er betra en ekkert í þeim heimi.

Það þarf ekki bara að breyta stjórnmálamönnum og ræðutækni þeirra, heldur þurfum við að læra virka hlustun og taka þátt í umræðunni. Eigin skoðanir þroskast betur með þátttöku í heldur en með hljóðlátri hlustun.

Kannski fjölmiðlar hafi ýtt undir menningu þar sem fáir útvaldir eru þjálfaðir til ræðumennsku og tjáningar, en gífurlegur meirihluti situr þögull heima í stofu og tekur við skilaboðum frá þessum þjálfuðu einstaklingum í formi frétta eða skoðanaskipta, án þess að taka sjálfir virkan þátt í umræðunni. Ætli múgurinn og margmennið sem situr heima í stofu átti sig á hversu mikið vald getur falist í því að láta eigin rödd heyrast, þó ekki sé nema með athugasemd á bloggsíðu, eða kjósa með veskinu?

Fyrir hvert andlit sem birtist á sjónvarpsskjá og tjáir eigin skoðun eða flokksins sitja þúsund manns þögulir heima í stofu og koma eigin rödd aldrei út til þjóðfélagsins, nema kannski á óbeinan hátt með kaffistofurabbi og öðru spjalli. Þannig er íslenskur veruleiki í dag. Þannig er þetta um allan heim. Kerfið er til staðar og við látum stjórnast af því án þess að hafa val um hvaða áhrif það hefur á líf okkar og ákvarðanir, framtíð þjóðar okkar og sjálfsmynd. 

Mér hefur oft blöskrað, sérstaklega þegar flokksfélagar flykkjast fyrir framan sjónvarpsmyndavélar til að réttlæta glötuð málefni með orðskrúði og bulli, og komast upp með það.


mbl.is Íslensk umræðuhefð líkist Morfís-keppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Þetta er einmitt kjarni málsins. Það er hellingur af fólk hér á landi sem er búið að vera óánægt í áratugi en það þorir ekki að kvarta af ótta við að vera talaðir í kaf, vera álitið heimskt eða þá að sjónvarpsmyndavélar nái að festa heimsku sína endanlega á mynd fyrir framan alþjóð. Þannig er búið að spila með íslensk stjórnmál í gegnum okkar unga lýðveldi (núverandi).

Steingrímur J. Sigfússon er mjög gott dæmi um þetta. Hann getur ekki svarað spurningum efnislega og æpir hreinlega yfir fólk - gefur til kynna óbeint að viðkomandi sé heimskur og skilji ekki neitt - sérstaklega ef aðrir eru að fylgjast með. Steingrímur er bara eitt mjög alvarlegt dæmi, en það eru margir svona sem eru ennþá sitjandi á þingi.

Sumarliði Einar Daðason, 30.4.2010 kl. 08:34

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk fyrir góðan pistil Hrannar

Það er nauðsynlegt að benda á muninn á rökræðum og kappræðum.

Einnig finnst mér skorta töluvert upp á að fólk skilji eðli vísinda, og því miður örlar á því hjá þér.

Þegar fræðimenn koma hins vegar fram með kenningar sem þeir eru sannfærðir um að séu 100% öruggar, sannar og réttar, það er einmitt þá sem rétt er að hafa varann á og kanna vel rökin sem liggja á bakvið, hverjar forsendurnar eru og af hverju þeim er haldið fram. 

Ef þú heyrir einhvern fullyrða að eitthvað sé staðreynd sem vísindin hafa endanlega sannað, þá þarftu að hlusta vandlega og velta fyrir þér hvort það geti verið rétt. Ég hef ekki enn rekist á þá vísindalegu kenningu sem allir fræðimenn viðkomandi sviðs eru sammála um. Og þó þeir væru það, hvernig gætu þeir vitað með fullvissu að kenningin sé sönn?

Hérna hefðir þú getað rætt stuttlega aðferð vísinda. Í vísindum getur þú verið 100% viss um að tilgáta sé ósönn, en aldrei 100% um að hún sé sönn!

En tilgátur verða að lögmálum og vísindakenningum þegar þær hafa staðist endurteknar prófanir. Þess vegna tölum við um þyngdalögmál Newtons, gaslögmálið, afstæðiskenningu Einsteins og þróunarkenningu Darwins.

Annar punktur. Þú segir:

Þar sem ekkert rökvillueftirlit er til á Íslandi, þá er ofgnótt af slíkri notkun í umræðunni. 

Vandamálið er lika það að fréttamiðlar athuga ekki staðreyndir,"fact checking" er stór hluti af alvöru fréttamiðlum erlendis en því miður virðist þetta ekki vera stundað af neinni festu hér. Nákvæmlega þess vegna geta fréttamennirnir ekki rekið bullið niður í kok á stjórnmálamönnunum eða viðskiptajöfrunum.

Arnar Pálsson, 4.5.2010 kl. 11:47

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir þetta Arnar. Sérstaklega finnst mér góð þessi setning þín: "Í vísindum getur þú verið 100% viss um að tilgáta sé ósönn, en aldrei 100% um að hún sé sönn!" og þætti áhugavert að vita meira um af hverju allar vísindalegar tilgátur séu ósannar.

Hrannar Baldursson, 4.5.2010 kl. 12:38

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Hrannar

Reyndar var orðalagið mitt ónákvæmt þarna.

Þegar ég átti við að maður gæti verið 100% viss um að tilgáta væri ósönn þá meinti ég:

Ef þú prófar ákveðna tilgátu 100 sinnum, og afsannar hana í öllum tilfellum, þá eru yfirgnæfandi líkur á því að hún sé ósönn. En þær eru aldrei alveg 100%, því það er möguleiki á því að ef þú framkvæmir eina miljón prófanna, að fyrstu 100 prófin hafi fallið tilgátunni í óhag af hreinni tilviljun!

Möguleikinn er reyndar afskaplega, afskaplega lítill! Og því leyfum við okkur að segja að tilgáta, eins og sú að smáskammta"lyf" dugi til lækninga, sé endanlega afsönnuð.

Reyndar skil ég ekki alveg hvað þú ert að fara með:

...af hverju allar vísindalegar tilgátur séu ósannar.

Það er búið að afsanna fullt af vísindalegum tilgátum, en margar þeirra hafa staðist ítrekaðar prófanir og verða þannig að lögmálum og kenningum.

Arnar Pálsson, 5.5.2010 kl. 09:15

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég var að velta þessari setningu þinni fyrir mér: "Í vísindum getur þú verið 100% viss um að tilgáta sé ósönn," en þú ert búinn að útskýra ágætlega hvað þú meintir.

Var það ekki Wittgenstein sem hélt því fram að uppruni alls heimspekilegs ágreinings felist í misskilningi vegna orðalags? Mér sýnist eitthvað slíkt vera í gangi hjá okkur.

Hrannar Baldursson, 5.5.2010 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband