Hvar kennum við siðferðileg viðmið, ef ekki með trúarbrögðum?

 

443909a-i1.0

 

Ég læt ekki uppi hver mín skoðun er á þessum málum, enda reynslan sýnt mér að þá er maður bara flokkaður í annan hópinn og útilokaður af hinum, og því nennir helmingurinn ekki að hlusta á mann. Því reyni ég að skilja þá báða og setja mig í skó þeirra beggja og jafnvel ganga einhverja vegalengd í þeim báðum.

Ég held að við séum að nálgast málið frá svipuðum forsendum, en ég er líka að hugsa um heiminn út frá reynslu minni í öðrum samfélögum en Íslandi, það er þá helst Mexíkó og Bandaríkjunum. Í Bandaríkjunum eru trúarbrögð nokkurs konar söluvara eða viðskipti, þar sem ríkið styrkir ekki trúarbrögð, en samt eru hvergi fleiri kirkjur í hverjum bæ í heiminum heldur en í Bandaríkjunum, enda er þar í flestum ríkjum trúfrelsi, að minnsta kosti á yfirborðinu.

Ég bjó sex ár í Mexíkó. Þar er kaþólsk trú ansi sterk, en einnig mikið af smærri trúarbrögðum meðal ólíkra þjóðfélagshópa. Þar er mikil samanbræðsla menningarheima, en Evrópumenn réðust inn á svæðið fyrir um 500 árum og lögðu fyrri heimsmynd í rúst, en þá tíðkuðust meðal annars mannfórnir á ungmennum til að blíðka guðina.

Það sem Kristnin gerði, hvort sem það er til góðs eða ills, þá sameinaði hún Evrópumenn undir sama hatti, og var tæki til að snúa hinum innfæddu yfir í heimsmynd hinna evrópsku. Mér dettur ekki í hug að réttlæta þetta sem eitthvað góðverk, en svona var þetta.

Á Íslandi var þetta einfaldara árið 1000 þegar Þorgils lagðist undir feld og ákvað að Íslendingar skyldu formlega taka Kristni en mættu blóta í leyni. Það ætti að vera frekar einfalt fyrir einsleita þjóð eins og okkar, ef hún er ennþá jafn einsleit og hún var, að vera trúlaus.

Ég geri ráð fyrir að trúarbrögðin séu til, fyrst og fremst til að varðveita eina menningu gagnvart ytri áhrifum. Það er þessi eining sem fólk finnur í trúnni sem skiptir þarna miklu máli. Og ég er alls ekki að leggja dóm á hvort það sé gott eða slæmt, eða hafi góðar afleiðingar eða slæmar. Hins vegar felst miklu meira vald í trúarbrögðum en í trúleysi.

Þetta vald sameinar þá sem að nenna eða vilja ekki að hugsa djúpt um hlutina án forsendanna sem trúarbrögðin gefa þeim. Samfélag þar sem trúarbrögð eru virk virðast einnig hafa þau áhrif að skilgreining á umfangi hins rétta miðast ekki bara við sérhagsmuni einstaklings, heldur hagsmuni hópsins.

Ég er ekki að segja að þannig eigi þetta að vera. Þannig er þetta bara. Held ég.

Svo eru til nokkrir einstaklingar sem hugsa djúpt, taka siðferðilega góðar ákvarðanir, hafa skýr og heilbrigð viðmið fyrir ákvarðanir og líta heiminn heilbrigðum augum, og fylgja ekki trúarbrögðum. Þessir einstaklingar eru undantekning frekar en regla, held ég, og vissulega væri gaman að vera til í samfélagi þar sem allir væru þannig.

Ég neita því engan veginn að í nafni trúarbragða hafa verið unnin illvirki. Styrjaldir hafa verið háðar í nafni þeirra, og völdin sem fylgja slíkri sameiningu hafa verið misnotuð oft og illa, og er enn gert í dag. Þarna tel ég misviturt fólk hafa misnotað sér mikil völd, en það dæmi ekki trúarbrögðin sjálf sem eitthvað illt, heldur eru þau ógurlegt vald sem hægt er að beita til að bæta heiminn, eða fyrir eigin hagsmuni; rétt eins og tækni, þekkingu, upplýsingar, peninga, stjórnmál.

Ég held að öfgafólk verði áfram til og leiti valda þar sem þau eru tiltæk, hvort sem trúarbrögð eru til staðar eða ekki. 

Hvar varðveitum við og kennum siðferðileg viðmið þjóðarinnar, ef ekki með trúarbrögðum? Á að treysta foreldrum til þess? Hvar finna þeir stuðning fyrir siðferðisdóma sína?

Málið er að það er ekkert mál fyrir einstakling að vera trúlaus og vel upplýstur. Málið flækist hins vegar gífurlega þegar við skoðum það í stærra samhengi, á milli þjóðfélagsbrota, fyrir heilt þjóðfélag, og síðan fyrir sértækar aðstæður.

 

Mynd: Nature.com


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hrannar. Þetta með Ísland er ekki alveg nákvæmt hjá þér. Sá sem undir feldinum lá hét Þorgeir Ljósvetningagoði (heiðinn). Kristnin segir: Þú skalt ekki aðra guði hafa en Þorgeir sagði: Þið megið tilbiðja aðra guði ef það kemst ekki upp. Auk þess éta hrossaket og bera út börn.

Sæmundur Bjarnason, 5.4.2010 kl. 08:36

2 identicon

Já fyrst við erum komin út á hálan ís með því að tala um að trúarbrögð geti kennt siðferði, þið vitið; Þetta með vonda góða karlinn í geimnum.... hvers vegna ekki að fara alla leið og gera Grýlu og Leppalúða að siðferðismarkmiði okkar.
Ef þú svíkur undan skatti þá kemur Leppalúði og setur þig í pottinn hennar Grýlu...

Comon Hrannar, hætta að hjátrúast, það er árið 2010, ekki árið 10.

Trúarbrögðin eru til vegna sjálfs sín og þeirra vitleysinga sem við þau starfa... það er endapunkturinn á þessu; Henda trúarbrögðum á sorphauga heimsku og fáfræði.... fara úr leikgrindinni og kenna alvöru siðferði, alvöru menntun, alvöru málefni.
Allt nema draugasögur með Grýlum og Leppalúðum...

DoctorE (IP-tala skráð) 5.4.2010 kl. 09:52

3 identicon

Sæll Hrannar

Þetta er tiltölulega einfalt, eins og þú reyndar bendir óbeint á sjálfur, trúarbrögðin hafa af fólki hvatann til að spyrja hvaðan það hefur siðferðisviðmið sín og hvatann til að þróa þau viðmið í takt við alla aðra þróun sem verður í veruleikanum.

Án trúarbragðanna er mjög ólíklegt að við myndum öll breytast í froðufellandi villimenn því það er einfaldlega ekki lífvænlegt að lifa lífinu þannig. Alveg eins og það er ekki lífvænlegt fyrir skipulögð trúarbrögð að samþykkja að fólki geti farnast vel án þeirra.

Þú veltir því fyrir þér í öðrum pistli að samfélag án trúarbragða gæti ekki þrifist á heilbrigðan hátt en þar ertu að gera þig sekan um hugsunarháttinn sem trúarbrögðin bjóða upp á svo sterkt, þú telur þig vera með svörin fyrirfram og hefur því ekki einu sinni fyrir því að leita svaranna.

Hvernig fúnkera samfélög án trúarbragða? Hvar finnurðu dæmi um slíkt?

Og já, hvaðan fáum við siðferðisviðmið okkar ef ekki úr trúarbrögðunum?

Geturðu spurt þig þessarra spurninga án þess að vera búinn að gefa þér svarið fyrirfram?

Kristín Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 5.4.2010 kl. 12:03

4 Smámynd: Valgarður Guðjónsson

Fyrir mig, trúlausan manninn, er augljóst að siðferði er frekar augljóst og einfald án trúarbragða, eins og Kristín bendir á. Dettur nokkrum manni virkilega í hug að ef ekki væru trúarbrögð þá myndi fólk fara að haga sér eins og "skepnur" (bið skepnur afsökunar á líkingunni)?

Eins og ég spurði í athugasemd við fyrri færslu, en fékk ekki svar við, eru einhverjar upplýsingar um að trúlausir séu staðnir að fleiri glæpun en trúaðir? Ef ekki - og það er ekki - er þá ekki nokkuð ljóst að trúarbrögðin eru gagnslaus?

Mér finnst líka nokkuð ljóst að trúarbrögðin eru aðferð til að ramma inn siðferðisboðskap - einfeldningsleg aðferið til að kenna hvað er rétt og hvað er rangt. Siðferðið kemur á undan, trúaarbrögðin á eftir.

Valgarður Guðjónsson, 5.4.2010 kl. 12:12

5 identicon

Trúarbrögðin eru ekkert nema pólitískt afl, hafið yfir gagnrýni.

Ég get ekki séð neitt siðferðislegt við það að kaupa svona sögur, tala nú ekki um það ef guðinn er oftar en ekki yfirlýstur fjöldamorðingi og hrotti hinn versti.

Menn hafa nú verið versta skepnan á jarðríki... ekkert annað dýr kemst nálægt okkur í grimmd og illsku... svo koma hér fram menn og lofsama sjálfa sig, að þeir séu skapaðir af master of the universe... menn eru yfir allt annað hafnir....
Ég er nokkuð viss um að ef krabbamein gæti hugsað, þá hugsaði það á trúarlegum nótum, myndi upphefja sjálft sig og smíða sér himnadildóa fyrir yfirnáttúrulega krabbameinið á himnum

DoctorE (IP-tala skráð) 5.4.2010 kl. 12:41

6 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Maðurinn er hjarðdýr og velur meðvitað að haga sér á líkan hátt og hjörðin, getur sett "skóli" "vinnustaður" "félagsstarf og tómstundir" í staðinn fyrir hjörð, en tilgangurinn er að viðhalda einhverjum sess innan hjarðarinnar. Þessvegna er hiklaust hægt að álykta að, "siðgæði" er innrætt en ekki meðfætt. Siðferðisvitund er svo seinni tíma úrvinnsla á þessum siðgæðisviðmiðum. Við sem teljum okkur trúlausa getum ekki þarmeð sagt skilið við þá markvissu innrætingu sem er kjarninn í því samfélagi sem við lifum í. 

Niðurstaða mín er því þessi:

"Trúleysi" er  æðsta stig trúarinnar, því aðeins þannig lyftir maðurinn sér upp úr hjólförum þröngsýni og fordóma

Og þetta held ég eigi við um alla menn, ekki bara kristna vesturlandabúa.  Með sömu rökum  tel ég fjölmenningarþjóðfélög vonda samsuðu.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 5.4.2010 kl. 14:54

7 identicon

Trúin sækir sitt alveg pottþétt í hjarðdýrseðlið..... þar sem áður voru beljakar sem börðu menn undir sig.. þá tóku við menn sem sögðust vera umboðsmenn aðalmannsins, það sem aðalmaðurinn segir verður að vera svo.. það má ekki gagnrýna aðalmanninn, þá tekur margt misjafnt við í NÆSTA lífi.

Þróunin með að trúin sé að deyja út er augljós, um allan heim berjast trúarsöfnuðir í bökkum með að fá fólk inn í ruglið; Það eru happadrættisvinningar sem eru líklegastir í dag til að draga fólk til kirkju.... flest fullorðið fólk veit það ósköp vel að guðir, framhaldslíf og önnur hjátrú er hreinasta heimska... það er núið sem blífur, þetta er eina lífið þitt; Ekki láta trúarbrögðin ræna því eina sem þú átt... lífini þínu

DoctorE (IP-tala skráð) 5.4.2010 kl. 15:12

8 Smámynd: Haraldur Haraldsson

þakka þessar hugleiðnigar/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 5.4.2010 kl. 15:46

9 Smámynd: Óli Jón

Áður en lengra er haldið í þessu máli, þá tel ég nauðsynlegt að skilgreint sé hvað falli undir þetta sk. kristilega siðferði. Þar er ég að tala um það sem er einstakt við kristilegt siðferði, ekki allt það góða í mannlegu samfélagi sem kristnin hefur slegið eignarhaldi á í gegnum árhundruðin.

Það eru til góðir mannasiðir sem gögnuðust t.d. fornum menningarsamfélögum (Súmeríu, Mesópótamíu, Assýríu, Babýlóníu) vel löngu áður en guð kristinna var fundinn upp og þróaður. Þessi samfélög hefur aldrei þrifist og náð þeim hæðum sem raun ber vitni án þess að virðing væri borin fyrir náunganum, að menn virtu eignarrétt, að ekki væri stöðugt verið að sækja í konu náungans, að menn færu ekki um myrðandi o.s.frv.

Því spyr ég Hrannar og aðra sem telja sig þess umkomna að svara, eins og ég hef nokkrum sinnum gert áður og aldrei fengið svar: Hvað er það sem er einstakt við kristilegt siðferði sem heimurinn hefði farið á mis við hefði kristilega siðgæðið ekki komið til? Þegar svar við þessari spurningu liggur fyrir er hægt að ræða og skilgreina hvaða þýðingu kristin trú hefur í þessu tilliti.

PS. Ég sá Guðna Ágústsson í Kastljósi fyrir nokkru síðan og var hann þar að emja yfir því að fella ætti út tilvísanir í kristilegt siðferði í lögum um leik- og grunnskóla. Þáttastjórnandi spurði Guðna nokkrum sinnum hvað fælist í kristilegu siðferði, en Guðni gat aldrei svarað. Loks króaði þáttastjórnandi Guðna af og heimtaði af honum svar og þá svaraði kallinn, sem taldi sig á þeim tíma merkisbera kristinna gilda hérlendis; "Það er eitthvað sem er svo fallegt!"

Merkilegt svar, það!

Óli Jón, 5.4.2010 kl. 16:07

10 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Óli Jón, ekki að ég telji mig þess umkominn að gefa rétt svar, en er ekki kjarninn í gömlu barnatrúnni: Gjör rétt, þol órétt  samanber boðorðin 10?

Heiðingjar breyttu þessu í Gjör rétt þol ei órétt, sem útskýrir ribbaldaskap  forfeðranna. ergo, það sem gerir kristna siðfræði frábrugðna er fyrirgefningin

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 5.4.2010 kl. 17:13

11 Smámynd: Valgarður Guðjónsson

En Jóhannes, ekki ertu að halda því fram að fyrirgefningin þekkist ekki úr öðrum samfélögum en kristnum?

Er fyrirgefningin ríkar í kristnum samfélögum? Mér sýnist - án mikilla rannsókna - að refsigleði fari frekar saman við hátt hlutfall og mikla virkni kristinna...

Valgarður Guðjónsson, 5.4.2010 kl. 17:17

12 Smámynd: Óli Jón

Jóhannes: Ert þú að tala um það þegar hin kinnin er boðin fram? Það eru til mörg dæmi um friðsama ættbálka og þjóðir sem voru við lýði áður en kristnin var fundin up sem lifðu skv. því og forðuðust ofbeldi í allra lengstu lög.

Biblían talar svo líka um auga fyrir auga og tönn fyrir tönn þannig að það má með sama hætti segja að það sé kristilegt siðferði.

Óli Jón, 5.4.2010 kl. 18:15

13 Smámynd: Ari Jósepsson

Ég er trúlaus og fer ekki í einhverjar samkomur til að heilaþvo mig.

Ég fer í jarðafarir og búið. Ég lærði krisnifræði í grunnskóla og mér finnst það alveg nó. Það var gaman að lesa þetta takk fyrir mig.

Ari 

Ari Jósepsson, 5.4.2010 kl. 18:22

14 Smámynd: Hrannar Baldursson

Þetta eru áhugaverðar athugasemdir.

Sæmundur: Takk fyrir nákvæmnina. 

DoctorE: Þú virðist ganga út frá einni ákveðinni skilgreiningu á Guði sem einhverjum kalli á himnunum. Held að það sé til dýpri skilgreining á þessu hugtaki.

Kristín: Ég þykist ekki þekkja svörin við þessum spurningum. Það er þess vegna sem ég spyr.

Valgarður: þessi grein er í raun sprottin úr pælingum sem vöknuðu við athugasemd eftir þig í síðustu grein. Ég held einmitt að fólk hagi sér eins og skepnur þegar kemur að virðingu fyrir siðferði. Lítum bara á viðskiptasiðferðið sem hefur verið í gangi á Íslandi, og þeir sem ásakaðir eru um að hafa gert rangt, viðurkenna kannski að hafa gert eitthvað siðferðilega rangt, en það skiptir svo litlu máli því það er lögfræðilega rétt. Eitthvað virðist vanta upp á siðferðisvitund slíkra einstaklinga. 

Jóhannes Laxdal: þetta má vel vera rétt hja þér, að trúleysi sé æðsta stig trúarinnar. En hvað eru margir sem hafa áhuga og getu til að komast á þetta stig?

DoctorE: Hjarðdýrseðlið er fínt orð og lýsir vel af hverju trúarbrögð hafa verið mikilvæg. Þú ert kominn með þetta.

Halli gamli: Þakka þér.

Óli Jón: Kristið siðferði snýst einmitt um fyrirgefninguna, eins og Jóhannes Laxdal bendir á, og einnig um að mynda sér siðferðileg viðmið með gagnrýnni hugsun: "Gerðu fyrir aðra það sem þú vilt að aðrir geri fyrir þig, ekki gera öðrum það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér." Samkvæmt ásatrúnni var það, leiðréttið mig fari ég með rangt mál, skylda að svara fyrir sig ef maður er beittur órétti, því annars væri heiðurinn að veði.

Íslendingar höfðu reyndar komið sér upp kerfi eins og birtist vel í Íslendingasögum eins og Njálu, að þegar heiðurshefnd hefur komið í óefni þá er aðeins hægt að leysa málið með greiðslu á sumarþingi; annars verður einfaldlega að svara fyrir sig, og þá oftast eitthvað aðeins verr en áður. Íslendingasögurnar tel ég vera góða heimild fyrir þessari hugarfarsbreytingu.

Valgarður: Ekki er ég að átta mig á sambandi refsigleði og Kristninnar, en þó hef ég upplifað það sjálfur að fólk sem telur sig kristið er ekkert sérlega duglegt að fyrirgefa, þó það sé kjarninn í þeirra trú. Það er eins og fyrir sumt fólk verði hugtök eins og fyrirgefning frumspekileg og hafi ekkert með siðferðilega og daglega hegðun að gera. 

Þetta eru skemmtilegar og kjarnyrtar athugasemdir. 

Sérstaklega hef ég gaman af því hvernig mín persónulega skoðun virðist stöðugt misskilin, þar sem ég hef náttúrulega ekki verið að básúna henni, en ég hef samt sterkar skoðanir um hvernig gott er að kenna siðferðileg viðmið. Þessar skoðanir hafa ekki enn birst í mínum greinum, né athugasemdunum. 

Vonandi flýtur þetta fyrr eða síðar upp á yfirborðið.

Hrannar Baldursson, 5.4.2010 kl. 18:26

15 identicon

Hvað segið þið.. voru það kristnir sem fundu upp fyrirgefninguna; Ja hver andskotinn.
Það er soldið merkilegt með hinn kristna guð... sem á víst alltaf að vera að tala um fyrirgefningu og miskunn... hann sjálfur fyrirgefur alls ekki neitt NEMA ef menn leggjast undir hann og segja hann vera frábærastur af öllum, þá HÆTTIR hann við að brenna þig.
Og svo þetta með að senda sjálfan sig í formi sonar síns til að fyrirgefa okkur fyrir það sem við erum saklaus af(Erfðarsyndin), það gerir hann með að láta MYRÐA son sinn(Sjálfan sig)

Sem guð þá hefði hann hæglega getað gert eitthvað viturlegra en að láta gera mannfórn, hvurslags vegarnesti er það fyrir hálfgerða villimenn að fá það uppgefið  að mannfórn sé eitthvað sem guðinum líkar svo vel við að hann gerir slíkt sjálfur.

Nei biblían er klárlega skrifuð af mönnum til að stjórna öðrum mönnum; Ef súpergáfaðundraséní eins og guð á að vera hefði skrifað biblíu, þá hefðum við ekkert að karpa um, bókin væri fullkomin... í stað þess að vera eins og gömul b-mynda saga með svo götóttu plotti að allir myndu hætta að lesa bókin eftir nokkrar blaðsíður.....nema fyrir það að börn eru forrituð til að trúa ruglinu

DoctorE (IP-tala skráð) 5.4.2010 kl. 18:27

16 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Strákar, ég er ekki trúarbragðaheimspekingur   Mér dettur ekki í hug að rífa niður ykkar rök fyrir ykkar skoðunum. Hins vegar fannst mér færslan og athugasemdirnar áhugaverðar. Og gat ekki stillt mig um að leggja orð í belg. Takk Hrannar

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 5.4.2010 kl. 18:47

17 Smámynd: Hrannar Baldursson

DoctorE:

Þó að fyrirgefningin sé í kjarna Kristninnar, þá er hún að sjálfsögðu ekki eingöngu Kristninnar. Hverjum dytti í hug að halda slíku fram?

Þú virðist hafa nokkuð skýra hugmynd, þannig að gaman væri að vita um hvað þú ert eiginlega að tala, út frá þínu sjónarhorni: "Hvað er Guð?" Ég kannast ekki við þennan Kristna Guð sem þú talar um.

Biblían er náttúrulega skrifuð af fjölmörgum einstaklingum í margar aldir, og rit sem einu sinni áttu að vera hluti af henni eru það ekki lengur. Að þér detti í hug að einhver maður að nafni Guð hafi skrifað Biblíuna, þá erum við ekki í sömu veraldarvídd.

Sögurnar í Biblíunni eru alls ekki eins og b-myndir, þarna er fullt af hörkuvel skrifuðum sögum. Í sérstöku uppáhaldi hjá mér eru sögurnar um Davíð, hetjuna ungu sem sigraði Golíat og breyttist síðan sjálfur í einhvers konar skrímsli sem fórnaði eiginmanni sætrar skvísu í næstu höll. Honum hefndist þetta á endanum. Svona "Goes Around, Comes Around" heimspeki, sem einkennir Biblíusögur. Ranglæti hefnist alltaf einhvern veginn, og síðar meir er þeirri speki bætt við að ranglæti þurfi ekki hefndar við sé mögulegt að fyrirgefa ranglætið.

Satt best að segja veit ég ekki hversu áreiðanleg heimild Biblían er fyrir sögulegum heimildum, en hún er full af sögum sem gaman er að pæla í.

Hrannar Baldursson, 5.4.2010 kl. 18:54

18 Smámynd: Valgarður Guðjónsson

Ég held einmitt að fólk hagi sér eins og skepnur þegar kemur að virðingu fyrir siðferði...

En er ekki stór hluti íslendinga kristinn? Eru þeir sem gerðust sekir um slæmt viðskiptasiðferði trúlausari en aðrir.

Það er eiginlega ekki hægt að setja svona fram án þess að eitthvað sé á bak við.

Það hafa jú verið gerðar kannanir sem sýna að enginn munur er á siðferðiskennd trúaðra og trúlausra (Hauser).

Skortur á reglum og eftirliti virðist leiða til að einhver hluti fólks hagi sér illa. En það eru engar upplýsingar um eða líkur til að það eigi frekar við um trúlausa en aðra.

Skortur á þessu veldur því að hluti fólks nýtir sér tækifærið. Trúin  kemur þessu ekki við.

Annað gott dæmi er lögregluverkfallið í Montreal, ekki voru það trúlausir sem gengu af göflunum...

Það að trúin virðist ekki skipta nokkru máli þegar kemur að "réttri" hegðun.

Valgarður Guðjónsson, 5.4.2010 kl. 19:18

19 Smámynd: Óli Jón

Hér kemur gömul, en sígild, lumma sem snertir þetta málefni nokkuð. Árið 1997 sendi Fangelsismálastofnunin í Bandaríkjunum frá sér tölulega greiningu á því hvernig fangar skiptust eftir trúarskoðunum. Þar kom í ljós að 0,21% vistmanna í þarlendum fangelsum sögðust vera trúlausir (e. atheist). Þetta eru sláandi niðurstöður þegar haft er í huga að yfirlýstir trúleysingjar í BNA telja á milli 8-11% þjóðarinnar.

Þarna virðist siðferði trúleysis halda býsna vel meðan trúaðir af öllu tagi virðast ekki halda fast í sín trúarlegu siðferðisgildi. Í ofurtrúaðasta fyrsta heims landi virðist trúleysinginn vera að trompa trúaða þegar kemur að siðferðislegum álitaefnum.

Óli Jón, 5.4.2010 kl. 21:41

20 Smámynd: Valgarður Guðjónsson

Mig rámaði reyndar eitthvað í að hafa séð eitthvað í þessa áttina, Óli Jón, en mundi ekki að þetta hefði verið svona sláandi.

Og jú eitt má ekki gleymast í þessu samhengi. Siðferði trúarbragða er mismunandi, er siðferði gamla testamentisins til dæmis eitthvað sem við vilja horfa á til fyrirmyndar?

Það eru auðvitað góð rök fyrir að trúlausir séu jafnvel siðferðilega sterkari en trúaðir.

Valgarður Guðjónsson, 6.4.2010 kl. 00:57

21 Smámynd: Hrannar Baldursson

Er siðferðisfræðsla kannski bara aukaatriði eða sölutrikk þegar kemur að trúarbrögðum? Þarna safnast saman hópar sem eru afar öflugir í samfélögum vegna vináttutengsla. Þeir hafa starfsmenn til að láta ímynd hópsins líta sem best út, en síðan má spyrja hvernig tengslin eru notuð bakvið tjöldin.

Mér finnst áhugaverð þessi könnun sem sýnir fram á fjölda trúlausra og trúaðra í bandarískum fangelsum. Er nokkuð til tengill í þessa rannsókn sem hægt er að deila hérna.

Takk enn og aftur fyrir góðar athugasemdir og samræður. 

Hrannar Baldursson, 6.4.2010 kl. 05:22

22 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Hrannar,ég hef ekki lesið allar athugasemdir hér að ofan. En ég er undrandi að þú skulir halda því fram að siðferði verði að fylgja trúarbrögðum.

Viltu þá ekki tilnefna Kaþólsku kirkjuna til að leiða siðferðið?

Sigurður Grétar Guðmundsson, 12.4.2010 kl. 14:33

23 Smámynd: Don Hrannar

Sæll Sigurður Grétar. Ég held því hvergi fram, ég bara spyr.

Don Hrannar, 12.4.2010 kl. 15:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband