Útópía Slands

Einu sinni fyrir langa löngu í fjarlægu landi, Lýðveldinu Slandi, voru skattaálögur svo háar að allir urðu að svíkjast undan til að eiga fyrir mat, drykk, húsnæði, fötum, menntun og heilsu. 99% af launum fólksins átti einmitt að byggja upp land þar sem öllum væru tryggður matur, drykkur, húsnæði, föt, menntun og heilsa.

Því miður var ekki hægt að halda uppi neinni stofnun í þessu ríki, því að enginn vildi þiggja opinber störf þar sem 99% launanna fóru beint í ríkissjóð, og þar sem ríkissjóður var svo smár að hann átti ekki einu sinni fyrir launum þessara ríkisstarfsmanna.

Hugtakið spilling var ekki til í þessu samfélagi, að minnsta kosti ekki í hugum þegnanna, því þeir litu á skattsvik sem sjálfsagðan hlut, og höfðu í raun engan áhuga á að breyta neinu, því það sem er orðið að eðlilegum hlut getur verið óþægilegt að breyta. Það ruglar öllu.

Í þessum heimi var einn heiðarlegur maður. Hann hét Jón. Sem barn hafði hann fengið þá flugu í höfuðið að hann ætti alltaf að segja satt og vera samkvæmur sjálfum sér, gera hið rétta og setja sér siðferðileg viðmið. Hann gat ekki hugsað sér að gera öðrum eitthvað sem hann vildi ekki að aðrir gerðu honum, né gat hann hugsað sér að gera ekki einhverjum eitthvað sem hann vildi ekki að aðrir gerðu honum ekki.

Þannig þótti Jón hið mesta viðrini.

Dag nokkurn fór Jón inn í sjoppu og keypti sér ís. 

"Mig langar í ís," sagði Jón. "Með dýfu," bætti hann við.

Afgreiðslustúlka með stórt brauðform úr hólki og setti undir dynjandi ísvelina. Síðan dýfði hún ísnum í súkkulaðisósu án þess að líta af Jóni.

"Það gera 75 krónur,"  sagði hún.

"En það stendur á glugganum að ís með dýfu kosti 100 krónur. Á ég ekki að borga 100 krónur fyrir ísinn?"

"Ekki nema þú viljir borga virðisaukaskatt," sagði stúlkan svolítið hvasst.

"Auðvitað vil ég borga virðisaukaskatt," sagði Jón. 

"Ertu eitthvað verri?" sagði stúlkan. Hún henti ísnum í ruslið og skipaði Jóni að hypja sig.

"Út með þig, gerpið þitt," sagði stúlkan.

"Gerði ég eitthvað vitlaust?" spurði Jón.

"Gerðirðu eitthvað vitlaust?" endurtók stúlkan.

Jón kinkaði kolli.

"Veistu hvaða afleiðingar það myndi hafa ef við færum að rukka virðisaukaskatt á hvítu?"

Jón hristi höfuðið.

"Þá þyrftum við annað hvort að borga 25% í ríkissjóð eða sleppa því. Ef við sleppum því væri hægt að ákæra okkur fyrir þjófnað og skattsvik, þar sem að við erum ekki að skila skattpeningum á réttan stað. Ef við borguðum  þennan pening, þá kæmist starfsmaður ríkisins á bragðið og færi að búast við að við borguðum honum oftar, og ekki nóg með það, hann færi að krefja aðra um það sama, og þá gæti ríkisstjórnin ráðið fleira fólk til starfa sem hefði ekki bara eftirlit með skattinum, heldur gæti innheimt hann, og ráðið síðan fleira fólk til að reka réttarkerfi og lögreglu. Þá værum við ekki lengi í Paradís, Adam minn."

"Jón heiti ég. Ég vil kaupa ís á hundraðkall. Og ég vil borga hundraðkall. Þú getur ekki bannað mér að kaupa ís á uppgefnu verði."

"Ertu snarvitlaus? Hlustaðirðu ekki á eitt einasta orð sem ég sagði? Við værum að byrja á fordæmi sem hefði alvarlegar afleiðingar. Af hverju í ósköpunum viltu taka slíka áhættu?" spurði stúlkan forviða.

"Tja, Helena, ef það er þitt raunverulega nafn," en það var nafn ísbúðarinnar, "það er ein góð ástæða fyrir því að ég vil borga rétt verð fyrir ísinn. Það er heiðarleiki. Ég vil geta sofið rólegur í nótt og horft á saklaust andlit í speglinum þegar ég vakna á morgnana?"

"Heiðarleiki? Sakleysi?" skrækti hún. "Veistu hvað þú ert að segja maður? Þú ert að tala um siðferðileg hugtök sem hafa nákvæmlega enga merkingu og bara til að halda í þessar barnalegu hugmyndir ertu til í að hella yfir þig lögregluríki með skriffinnsku og guðmávitahverju sem myndi hellast yfir okkur. Veistu ekki að það er gott að geta leyst hlutina í vináttu? Veistu ekki að það er gott að gera hverju öðru greiða? Veistu ekki hvernig lífið væri ef allir neyddust til að vera heiðarlegir?"

"Jú," sagði Jón. "Ég reikna með að heimurinn yrði töluvert betri. Ég held að minna yrði um þjófnað og svik, að fólk stæði við orð sín, að fólk héldi eigum sínum."

"Þú ert að tala um eitthvað sem þú hefur ekki hundsvit á," sagði afgreiðslustúlkan sem hét ekki Helena þó að Jón hafi haldið það. "Þú ert að tala um þunglamalegt ríki þar sem allt þarf að vera nákvæmt og rétt. Liðlegheit væru bönnuð. Það væru búnar til reglur bara af því að það virkar að hafa reglur og reglurnar yrðu settar á hluti sem þér þætti allt í lagi að gera."

"Hvað er að lög og reglum?" spurði Jón.

"Hvað ef reglurnar sem yrðu settar segðu að það væri bannað að kaupa sér ís, bannað að rassskella börn, bannað fyrir konur að stofna fyrirtæki án karla, bannað að lesa dagblöð með róttækar skoðanir, bannað að skrifa 'helvítis fokkin fokk' og önnur slík orð. Ertu til í að gefa frelsi þitt bara til að geta verið heiðarlegur og saklaus?"

"Já," sagði Jón. 

"Þá ertu heimskur," sagði stúlkan.

"Fæ ég þá engan ís?" sagði Jón.

"Viltu einn gefins?" spurði hún.

"Fyrir hundraðkall," sagði Jón.

"Hypjaðu þig út," sagði stúlkan, stökk yfir afgreiðsluborðið og sparkaði svo fast í afturenda Jóns að hann hrökklaðist út um dyrnar og út á götu. Hún skellti hurðinni það harkalega á eftir honum að síðustu þrír stafirnir úr nafni ísbúðarinnar duttu með glamrandi brothljóði að fótum Jóns.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Hilmir Helgason

Þetta er svo grátlega rétt staðreynd í Slandi, það sem mér þykir verst er að stjórnvöld þrýsta fólki út í þetta með sínum aðgerðum í dag.

Enn grátlegra að stjórnvöld Slands hafi ekki meiri gáfur til að bera en þetta!

Halldór Hilmir Helgason, 14.3.2010 kl. 12:28

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ja, ríkisstjórn Slands getur reyndar engum um kennt öðrum en forverum sínum. Þeir höfðu nefnilega 1% í launaskatt.

Hrannar Baldursson, 14.3.2010 kl. 14:23

3 identicon

thanks for your good topic

mbt shoes (IP-tala skráð) 26.3.2010 kl. 07:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband