Shutter Island (2010) *1/2

 

photo_01_hires

 

Leikararnir eru fínir. Leikstjórinn töff. Kvikmyndatakan flott. Tónlistin magnþrungin. Sagan slök. Gengur ekki upp. Oft fannst mér "Shutter Island" virka eins og tilgerðarlegur gjörningur og átti alveg eins von á að einhver leikaranna færi að dansa ballet upp úr þurru, bara af því að slíkt gæti verið svo þrungið merkingu og einhvern veginn passað.

Ég skil hvað Martin Scorcese reyndi að gera. Ég ætla samt ekki að segja það. Það gæti eyðilagt fyrir einhverjum sem hefði eftir allt gaman af því að sjá þessa kvikmynd. Gaman að Scorcese skuli gera tilrauninr. Fyrir hann. Leiðinlegt fyrir mig.

FBI lögreglufulltrúinn Teddy Daniels (Leonardo DiCaprio) siglir ásamt nýjum félaga sínum Chuck Aule (Mark Ruffalo) að eyju fyrir geðsjúka glæpamenn til að rannsaka hvarf konu að nafni Rachel (Patricia Clarkson og Emily Mortimer). Þeir koma á ferjubát gegnum þykka þoku og eyjan birtist þeim undir alltof dramatískri tónlist, í stíl við tónlistina úr "Cape Fear".

Í fangelsinu eru Max von Sydow og Ben Kingsley geðlæknaparið sem sinnir "sjúklingunum" með vafasömum aðferðum að mati Daniels, og ætlar hann að koma upp um þá, en það lítur hins vegar út fyrir að hann sé í erfiðri aðstöðu, vopnlaus, gefin "höfuðverkjalyf" á fyrsta degi og farinn að sjá sýnir sem hafa djúp áhrif á hann. Loks fer hann að spyrja hvort hann sé í raun sá sem hann heldur að hann sé.

Þessi söguþráður hljómar vel og hefði getað verið gerður ansi spennandi, en Scorcese klikkar illa í frásagnartækninni, þar sem hann beitir óáreiðanlegum sögumanni. Áhugaverð tilraun, en ekki tveggja tíma virði. Þessi saga hefði getað virkað ágætlega sem hálftíma "Twilight Zone" þáttur, og kæmi mér reyndar ekki á óvart þó það kæmi í ljós að svipaður þáttur hafi einhvern tíma verið settur saman.

Til að vera sanngjarn. Það er spennandi og flott atriði í myndinni þar sem Teddy leitar að fanga á hættulegustu geðdeild spítalans, og það atriði jafnast á við heila hrollvekju. Því miður tókst ekki að halda slíkum dampi alla myndina.

Tilfinningin sem ég sat uppi með eftir myndina kallaði á svona orð: tilgerðarleg, alltof löng, skildi hvað þá langaði að gera, hálf misheppnað. Mér leið nokkurn veginn eins eftir síðustu mynd sem ég sá eftir David Lynch "Inland Empire", en sú var reyndar enn steiktari en þessi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Blade Runner all over again, þú sérð hana textalausa og skilur ekkert

Hrannar, Shutter island er snilld.

Loksins ósammála um kvikmynd í langan tíma hlaut að koma að þessu

Ómar Ingi, 11.3.2010 kl. 22:33

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Jamm, ekki minn tebolli.

Ég gaf nú Blade Runner *** eða ***1/2. Hafði gaman af henni en finnst hún ofmetin. Rétt eins og þessi, nema hvað það var ekkert sérstaklega gaman að horfa á Shutter Island. 

Hrannar Baldursson, 11.3.2010 kl. 23:08

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Óáræðanlegur sögumaður?  Hmmm? Er þetta svona Usual suspects dæmi? Memento kannski?  Hljómar þannig.

Hefurðu lesið bókina "Í meðferð"?  Er þetta svoleiðis sálfræðitryllir, þar sem maður skilur ekki upp né niður í neinu fyrr en í blálokin? Mörkin milli veruleika og hugaróra renna saman.

Annars ætla ég nú að kíkja á hana þessa.  Hún er allavega fýsilegri en heimsendamyndirnar úr smiðju fundamentalistanna í USA, sem virðast öllu ætla að tröllríða nú.  

Jón Steinar Ragnarsson, 12.3.2010 kl. 01:31

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Manni heyrist reyndar að þetta sé mynd, sem Christopher Nolan hefði kannski átt að taka fyrir.

Ég sá annars Parnassus Imaginarium um daginn og er í vonbrigðaloti. Þvílíkt krapp sem sú mynd er.  Raunar dó aðalleikarinn í miðjum tökum og einnig framleiðandinn, svo kannski hafði það áhrif, en þetta var samt sama mónótón ruglið frá upphafi til enda, einhverskonar hrærigrautur af öllu sem Gilliam hefur gert fram að þessu og það án nokkurrar vitrænu. Svona time bandits meets Fear and loathing / Jabberwoky meets Fisherking / 12 monkeys meet holy grail. Ef þú fattar hvað ég meina.

Jón Steinar Ragnarsson, 12.3.2010 kl. 01:38

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Já, Jón Steinar. Nolan hefði líklega hentað betur sem leikstjóri. Scorcese er ekki beinlínis þekktur fyrir næm efnistök. Þetta er svona svipað og Usual Suspects. Ég áttaði mig alltof snemma á því hver óáreiðanlegi sögumaðurinn var í þeirri mynd, og því kom endirinn á henni mér alls ekkert á óvart. Þetta er svona svipað. Hins vegar var Usual Suspects frekar skemmtileg fyrir utan ráðgátuna. Shutter Island er það ekki.

Memento var náttúrulega snilld sem gekk fullkomlega upp. Hún var spennandi allan tímann. Ég hafði gífurlega gaman af Parnassus, þar sem mér fannst súrrealisminn eðlilegur (ef það er mögulegt) og skemmtilegur. 

Ég hef ekki lesið bókina "Í meðferð", en vissulega er þetta ein af þeim myndum þar sem hugarórar og veruleikinn eiga að renna saman. Ég játa að sjálfsagt er ég fullharður við "Shutter Island", en mér fannst hún hefði getað verið svo miklu betri.

Hrannar Baldursson, 12.3.2010 kl. 06:55

6 identicon

Mér fannst myndin byrja vel, en hún pirraði mig þegar á leið. Ég labbaði síðan hugsandi heim yfir endi myndarinnar. Það var ekki fyrr en daginn eftir sem mér fannst svo myndin vera hrein snilld.

Loori (IP-tala skráð) 12.3.2010 kl. 22:04

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

Loori: þú hefur fullan rétt á að hafa slíka skoðun, og ég get vel skilið að fólki finnst þetta flott. Ég átta mig hvað á Scorcese ætlaði að gera, fannst grunnhugmyndin góð en það virkaði einfaldlega ekki á mig.

Scorcese er margfalt öflugri þegar hann lýsir hráum veruleika, en reyndar má túlka þessa mynd þannig að hann hafi verið að lýsa hráum veruleika út frá sjónarhorni manns sem er ekki með öllum mjalla. Þar er hann meðal allra bestu leikstjóra samtímans, eins og mátti sjá í Goodfellas, Taxi Driver og Raging Bull. En þar var hann hins vegar með snillinginn Robert DeNiro sér til halds og trausts, en Leonardo kallinn kemst því miður ekki með tærnar þar sem DeNiro hefur hælana þegar túlka skal einhvers konar sturlun.

Hrannar Baldursson, 13.3.2010 kl. 08:21

8 identicon

Sammála Hrannari . . . vonbrigði ársins :( !!

Ekki hætta að blogga, Hrannar ... kveðja frá Íslandi, Egill:)

Egill Þór Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 19.3.2010 kl. 05:07

9 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir hvatninguna Egill.

Árið 1998 bloggaði ég á ensku því ég fékk borgað fyrir það með Amazon.com peningum. Aldrei að vita nema maður snúi sér aftur að ensku bloggi, þar sem öll mín atvinna er á ensku. Hins vegar ætti blog.is að hjálpa mér að viðhalda íslenskunni.

Kveðjur á klakann.

Hrannar Baldursson, 19.3.2010 kl. 07:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband