Góð leið fyrir Íslendinga til að snúa vörn í sókn og sigrast á kreppunni

Ég ræddi við háttsettan nafna minn hjá Forsætisráðuneytinu í gær á Facebook, þar sem ég gagnrýndi hvernig væri verið að rífa niður góðan málstað Íslendinga erlendis af Íslendingum. Svörin fannst mér áhugaverð og alvarlegt umhugsunarefni. Hann lofar þá sem ég tel skaða málstað Íslendinga erlendis, og hann telur að ég hafi rangt fyrir mér, að ég sjái einfaldlega ekki ljósið, um hversu skaðlegt það er að samþykkja ekki ICESAVE 2. Hugsanlega er þessu öfugt farið, en ég þykist ekki hafa undir höndum einhvern allsherjarsannleik, heldur reyni ég að beita heilbrigðri skynsemi, traustum rannsóknaraðferðum og útsjónarsemi, og veit að ég get haft rangt fyrir mér, en þarf ekki bara rök fyrir málefninu, heldur rök sem ég get samþykkt sem góð og gild.

Samkvæmt honum eru markmið ríkisstjórnarinnar með því að fá ICESAVE 2 samþykkt fyrst og fremst efnahagsleg. Ef ICESAVE 2 verður samþykkt opnast strax fyrir lán, sem hægt verður að nota til að dæla peningum í aðra hluti. Koma kerfinu í gang. Ég held að þetta hafi verið reynt. Seðlabankinn gerði þetta með 500 milljörðum. Þessir 500 milljarðar hurfu í eitthvað ósýnilegt hyldýpi. Lausnin felst ekki í samskonar dælingu á ný. Það þarf meira til. Ég velti fyrir mér hvert þessi lán myndu fara, og ef smjörklípur af þeim færu til vina og vandamanna þeirra sem í dag stjórna. Spillingin er nefnilega til staðar.

Þar að auki þyrftum við að borga þetta lán til baka, sem verður afar erfitt fyrir afkomendur okkar, en þeir sem eru við stjórn í dag væru það heppnir að þurfa ekki að vera meðal okkar lengur þegar þarf að borga. Næsta kynslóð á að þrífa upp eftir þá kynslóð sem stjórnar í dag, rétt eins og þessi kynslóð á að taka til eftir þá síðustu. Og þá er ég að tala um stjórnmálakynslóðir, en ekki kynslóðir manna. 

Merkilegt þótti mér að efnahagslega markmið voru einu rökin sem hugsað var til, og þegar ég spurði um lýðræðisleg, siðferðileg eða réttlætismarkmið, þá kom ég að tómum kofanum. Þá rann það upp fyrir mér að ríkisstjórnin hefur einfaldlega ekki hugsað dæmið til enda, hefur ekki yfirsýn yfir málið út frá gildum sem bæði þjóðin og þau sjálf ættu að krefjast.

Þess vegna stakk ég upp á aðstoð frá sérfræðingum sem ég vinn hjá. Sjálfur er ég ekki öflugur greinandi í þessari tækni, að minnsta kosti ekki enn sem komið er. Mitt starf er að koma í útgáfu bók um aðferðafræðina og koma upplýsingum fyrir í hjálparkerfi vefforrits sem styður fræðin. Þetta eru sérfræðingar sem hafa starfað með NASDAQ og tekist að ná yfirsýn yfir þá flóknu starfsemi sem þar á sér stað, og átt viðskipti með fjölda öflugra fyrirtækja um allan heim. Ég hef spurt eigendur fyrirtækisins hvort þeir hefðu áhuga á að kynna þessa aðferðafræði á Íslandi, og þeir hafa verið afar jákvæðir og boðist til að senda sérfræðing á kynningarfundi til Íslands.

Þetta finnst mér frábært boð.

Ástæðan er sú að þessi aðferðarfræði er sniðin að því að taka á stórum stjórnsýslumálum og taka á krísu. Til staðar er myndrænt hugbúnaðarkerfi sem notað er til að tryggja að öll sjónarmið komist að, og úrvinnslan er til þess gerð að allir átti sig á hver sameiginleg markmið eru, hvaða vandamál koma í veg fyrir að þessi markmið verði að veruleika, hvernig ólíkar lausnir geta verið notaðar til að uppfylla þessar kröfur, og þá hugsanlega splæsa saman ólíkum lausnum til að uppfylla sömu kröfur, og loks skila afurð sem uppfyllir markmiðið á fljótlegan og nákvæman hátt. Ég hef séð þessa aðferðarfræði virka og er sannfærður um að ef henni yrði beitt innan íslenskrar stjórnsýslu væri hægt að koma í veg fyrir fjöldauppsagnir með því að samstilla strengi.

Hins vegar voru svör þessa hátt setta einstaklings innan forsætisráðuneytisins ekki til þess gerð að vekja hjá mér bjartsýni. Þar á bæ væri þegar búið að fá fullt af sérfræðiáliti og greiningum, og menn með hlutina á hreinu. Þar sem að mín sérfræði snúast um heimspeki, gagnrýna hugsun og upplýsingatækni, þá veit ég að stærsti veikleiki fólks þegar kemur að þekkingu er að telja sig vita meira en þeir gera. Ég veit að þarna er aðferðarfræði sem getur stutt stjórnun þannig að öll hagkvæmni eykst um að minnsta kosti 30%.

Þessi aðferðarfræði uppfyllir allar kröfur um gagnsæi, og auðvelt verður að birta niðurstöður rannsókna og koma fyrir augu almennings.

Þessi aðferðarfræði er ólík mörgum slíkum, þar sem hún einblínir ekki á hvernig skal gera hlutina, þó að vissulega reikni hún með þeirri hlið, heldur felst helsti styrkur hennar í því að rannsaka af hverju hlutirnir eru gerðir eins og þeir eru gerðir.

Segjum að þú stjórnir heimili. Ef þú hugsar bara um hvernig borga skal reikninga, senda börnin í skóla, finna vinnu, kaupa í matinn, og þar eftir götunum, verður ferðin til lítils. Fólk gerir sér kannski ekki grein fyrir því, en það er að stefna að ákveðnum markmiðum. Þessi markmið eru ástæðan fyrir af hverju allir þessir hlutir eru framkvæmdir. Það er misjafnlega djúpt á þessum ástæðum. Og þær eru ólíkar eftir heimilum.

Sumir vilja einfaldlega græða mikinn pening og skapa þægilegar aðstæður, og trúa að þá verði hlutirnir í lagi. Aðrir vilja einbeita sér að farsæld barna sinna, og gera allt sem í þeirra valdi stendur að hlífa þeim gegn ofbeldi af hvaða tagi sem er og styðja þau í skólagöngu. Aðrir vilja skapa sér sem mestan frítíma til þess einfaldlega að slappa af. Ástæðurnar virðast vera jafn margar og fólkið. Ef fjölskyldan velti þessum markmiðum fyrir sér og kæmi þeim á blað, af hverju verið er að vinna sleitulaust frá morgni til kvölds, af hverju er verið kaupa stærri og betri íbúð, af hverju er verið að uppfæra bílinn, tölvuna og sjónvarpið; þá gæti fjölskyldan samþykkt í sameiningu þau markmið sem skipta þau mestu máli. Út frá því átta þau sig á vandamálum sem þarf að leysa til að gera markmiðin að veruleika, og einbeita sér síðan að lausnum til að leysa þessi vandamál.

Hins vegar er samfélagið uppbyggt af ansi mörgum manneskjum með ansi mörg og ólík markmið í lífinu. Ef markmiðin eru ólík, en starfsmenn halda að þau séu eins, þá er öruggt að vinna þeirra verður ekki samstillt.

Það er ákveðið tækifæri opið í dag, þar sem ég hef aðgang að þessum sérfræðingum og tækni, og get komið með þá til að kynna þessi mál á Íslandi, en til þessa hefur mér ekki tekist að vekja áhuga neins, og það á augnabliki sem ég held að fátt sé mikilvægara en að þjóðin samstilli strengi sína, í stað þess að grafa sig í pólitískar skotgrafir.

Hafir þú lesið þessa grein, og þekkir einhvern sem er í vanda með rekstur, hvort sem það er á fyrirtæki, ríkisstofnun, stjórnmálaflokki, menntastofnun eða ráðuneyti, þar sem þessi tækni er notuð fyrir stærri rekstur en heimili, þó að vissulega sé hægt að nota tæknina í smærri hluti, láttu þá viðkomandi endilega vita af þessu tækifæri. Dyrnar eru opnar í augnablikinu og geta lokast hvenær sem er.

Fyrir þá sem ekki vita, þá starfa ég í Noregi og þessir sérfræðingar eru norskir. Þeir hafa boðist til að fara á kynningarfundi til Íslands eftir að ég hafði frumkvæði um að biðja um hjálp. Hins vegar hefur enginn tekinn þessari aðstoð. Vekur það furðu.

Þeir sem þekkja mig, vita að ég hef fórnað miklu til að geta hjálpað öðrum. Það er hins vegar afar erfitt að hjálpa þeim sem vilja ekki þiggja hjálp, og vilja ekki einu sinni læra um af hverju þessi leið er góð.

Ég veit að sumir þingmenn hafa verið að glugga í greinarnar mínar. Ég væri til í að koma á kynningu fyrir stjórnendur allra stjórnmálaflokka, óháð flokki. Þeir sem ákveða að nota þessa tækni munu fá öflugt forskot. Mín ósk er að ríkisstjórnin noti þessa tækni til að ná forskoti á Hollendinga og Breta, en stjórnmálaflokkar gætu einnig notað þetta til að átta sig betur á eigin málum og ná forskoti á aðra flokka.

 

Vinsamlegast skrifaðu athugasemd ef þú hefur hugmyndir um hvernig ég get komið þessari hjálp á framfæri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Prenta út bloggfærsluna, krumpa hana í kúlu, og biðja Stjána bláa að láta Jóhönnu kyngja henni. Það er eina leiðin. Nei svona í fullri alvöru. Þessi ríkisstjórn er þess fullviss að hún viti allt sem vita þarf og þiggur aldrei ráð frá öðrum. Því miður.

Dagga (IP-tala skráð) 4.2.2010 kl. 07:54

2 identicon

Sæll Hrannar
"þessi aðferðafræði" og "þessi tækni" - ég sé hvergi nafn eða hvar er hægt að nálgast upplýsingar.. vefur?  Er það 'Lunarpages'?

Oddný (IP-tala skráð) 4.2.2010 kl. 12:49

3 Smámynd: Gunnar

Fín grein og alveg sammála með að stjórnin sé á rangri línu, við verðum einmitt að kryfja "afhverju" og átta okkur á gjaldþroti gömlu leiðarinnar.

Þú spyrð um hvernig þú getur komið þessu á framfæri.

Ein leið væri að búa til styttri og hnitmiðaðri útgáfu af þessari færslu, sleppa samtalinu við nafna þinn (sem mun fæla burt einhverja) og fara beint í tilboðið. Möo. þetta er of mikill texti til að grípa fólk, því miður. Og þá skiptir engu hversu góður textinn er :)

Gunnar, 4.2.2010 kl. 13:58

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Dagga: Vandamálið er einmitt þegar fólk heldur að það sé ekki hægt að bæta hlutina, það er einmitt við þau skilyrði sem ekki verður hægt að bæta hlutina, nema með valdi.

Oddný: Fyrirtækið heitir Ambitiongroup og aðferðafræðin heitir Scope Driven Management. Lunarpages er annað, eða vistun og uppsetning á vefsíðum.

Gunnar: Takk fyrir góðar ábendingar Gunnar, og hrósið. :)

Hrannar Baldursson, 4.2.2010 kl. 14:09

5 identicon

Sæll meistari. Væri ekki sniðugt að setja markmið sem felur það í sér að kynna þetta fyrir stjórninni? Það má ekki seinna vera, áður en við rennum út á tíma. Var einmitt að ljúka við að þýða bók sem fjallar um mjög svipað efni en miðaði fyrst og fremst á einstaklinga fremur en stærri heildir... Þetta er mjög áhugavert og ef það er eitthvað sem ég get aðstoðað þig við þá læturðu mig bara vita

Kristbjörn H. (IP-tala skráð) 4.2.2010 kl. 17:38

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Kristbjörn: öll hjálp er vel þegin. Ég er búinn að senda þér skilaboð á Facebook reikninginn þinn.

Hrannar Baldursson, 4.2.2010 kl. 17:58

7 Smámynd: Ómar Ingi

Góður

Ómar Ingi, 4.2.2010 kl. 21:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband