Færsluflokkur: Kvikmyndir

Barnaskóli brennur

EldurIBaerum

Ég tók þessa mynd úr stofuglugganum fyrir nokkrum mínútum, en Lysaker barnaskólinn hérna í Noregi brennur. Svartur reykur stígur upp frá byggingunni. Slökkvilið og lögregla eru á staðnum, og samkvæmt þeim fréttum sem ég hef lesið er enginn slasaður.

Nánar:


Pixar leikstjóri "The Incredibles" og "Ratatouille" mun leikstýra Tom Cruise í Mission Impossible IV

 

brad-bird-mission-impossible_300

 

Skrítin frétt um Mission Impossible IV:

Sagt er að Brad Bird, leikstjóri "Monster" muni leikstýra myndinni. Þetta gæti varla verið fjær sannleikanum.

Brad Birt leikstýrði ekki "Monster", sem er þungt drama um konu sem er fjöldamorðingi. Charlize Theron fékk Óskarinn fyrir hlutverk sitt í þeirri mynd.

Brad Bird er einn af mínum uppáhalds leikstjórum, en bestu myndir hans eru teiknimyndirnar "The Iron Giant", "Ratatouille" og "The Incredibles".

 

EW.com


mbl.is Brad Bird leikstýrir fjórðu Mission: Impossible myndinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beowulf & Grendel (2005) ***

 

362861.1020.A

 

"Beowulf & Grendel" er áhugaverð nálgun á söguna um baráttu hetjunnar Beowulf við tröllið Grendel. Í þetta skiptið fær Grendel mannlega vídd og góða ástæðu til að tæta óvini sína í sundur.

Þegar hinn ungi Grendel (Hringur Ingvarsson) upplifir morð hins danska konungs Hrothgar (Stellan Skarsgård) á föður sínum, heitir hann hefnda. Mörgum árum síðar ræðst hinn fullorðni Grendel (Ingvar E. Sigurðsson) á hermenn Hrothgars í bjórskála konungs og drepur alla þá sem lyfta vopni gegn honum.

Hrothgar konungur verður nánast viti sínu fjær, hugsanlega vegna sektarkenndar fyrir að hafa drepið föður Grendel fyrir litlar sakir, hugsanlega vegna þess að hann upplifir sig ósjálfbjarga gegn skrímslinu.

Beowulf (Gerard Butler áður en hann lék í "300" og varð samstundis stórstjarna í kvikmyndaheiminum) siglir að ströndum Danalands með 12 menn og lofar Hrothgar að drepa skrímslið. Grendel hefur hins vegar engan áhuga á að drepa útlendinga. Hann vill aðeins drepa vel vopnaða Dana og hefna föður síns. Smám saman áttar Beowulf sig á að eitthvað meira liggur að baki, og öðlast smám saman aukna virðingu fyrir skrímslinu.

Inn í þetta blandast svolítið sérstakur ástarþríhyrningur milli nornarinnar Selmu (Sarah Polley), Grendels og Beowulf. Að sjálfsögðu stefnir í lokauppgjör, en með þeim öfugu formerkjum að kannski er Grendel eftir allt hetjan í þessari sögu, ekki Beowulf, og Beowulf áttar sig á þessu smám saman.

Það er gaman að sjá marga íslenska leikara og íslenskt landslag njóta sín almennilega í þessari mynd. Líklega er þetta sú kvikmynd sem sýnir fegurð íslenskrar náttúru betur en nokkur önnur kvikmynd, en íslenskt landslag leikur í raun eitt af aðalhlutverkunum. Það er sérstaklega gaman að Gunnari Eyjólfssyni og Ólafi Darra Ólafssyni. Báðir eiga þeir góða spretta.

"Beowulf & Grendel" er fín skemmtun. Aðeins eitt atriði í upphafi myndar hefði mátt missa sig, en þá kemur Beowulf að landi einhvers staðar og fær að borða hjá fiskimanni. Það atriði hefði mátt hverfa þar sem það gerir ekkert fyrir heildarmyndina, og maður veltir stöðugt fyrir sér, hvernig í ósköpunum tengist þetta atriði því sem gerist seinna? Og ég velti jafnvel fyrir mér hvort að leikstjórinn Sturla Gunnarsson hafi verið að leika sér með tímann, að þetta væri atriði sem átti að gerast seinna í myndinni, en það kom aldrei. 

Það hefði mátt bæta klippinguna og ná fram betri hrynjanda í myndina. Fyrir utan það er "Beowulf & Grendel" ágætis skemmtun.


Iron Man 2 (2010) ***1/2

 

iron-man-2-poster

"Iron Man 2" hefði getað verið ofurhlaðin steypa eins og "Spider-Man 3" eða "Batman and Robin". Þess í stað fáum við skemmtilega mynd með hressum leikurum. 

Tony Stark (Robert Downey Jr.) hefur uppljóstrað að hann og Járnkallinn séu eina og sama veran, og ekki nóg með það, heldur óaðskiljanleg eining. Bandaríski herinn sættir sig ekki við það og vill fá að kaupa tæknina sem Stark hefur þróað, en hann hafnar þeim og telur sjálfan sig vera það mikla hetju og sómamann að engin þörf sé á að dreifa ábyrgðinni. Hann hefur rangt fyrir sér.

Ivan Vanko (Mickey Rourke) á harma að hefnda og er engu síðri snillingur en Stark. Hann hannar svipur úr hreinni orku sem hann ætlar að nota til að losa heiminn við Tony Stark. Þegar það mistekst lendir Vanko bakvið lás og slá en er bjargað úr prísundinni af hinum misheppnaða auðjöfri Justin Hammer (Sam Rockwell), en hann þráir ekkert heitar en að finna upp eitthvað sem er flottara en allar uppfinningar Tony Stark.

Inn í fléttuna blandast ritarinn ómissandi Pepper Potts (Gwyneth Paltrow sýnir óvenju góðan leik og tekst að skapa skemmtilegan karakter), en Stark hækkar hana í tign og gerir hana að forseta Stark Enterprices. Einnig kemur til starfa ungur og dularfullur lögfræðingur að nafni Natalie Rushman (Scarlett Johansson) sem reynist ekki öll þar sem hún er séð. Einnig kemur til aðstoðar John Rhodes (Don Cheadle) sem stelur frá Stark brynju og kemur til hersins, en allt í góðri meiningu að sjálfsögðu, enda Rhodes og Stark bestu vinir. Einhvers staðar á bakvið plottið lurar svo hershöfðinginn dularfulli Nick Fury (Samuel L. Jackson)

Allir leikararnir skila framúrskarandi verki miðað við aðstæður, fyrir utan kannski Samuel L. Jackson, sem tekur hlutverk sitt ekki nógu alvarlega og reynir að vera fyndinn á meðan hann ætti að vera alvarlegri en gröfin. Robert Downey Jr. gerir Tony Stark hæfilega hrokafullan og upptekinn af sjálfum sér, Sam Rockwell er stórskemmtilegur sem hinn púkalegi Hammer, og Mickey Rourke stelur senunni með því einfaldlega að vera á skjánum í hlutverki þessa brjálaða rússneska vísindamanns. Scarlett Johansson er flott í bardagasenum sínum og laumar inn skemmtilegum húmor, sem og sjálfur leikstjóri myndarinnar Jon Favreau í litlu en mikilvægu hlutverki lífvarðar Stark.

Plottið er algjört aukaatriði. Það virkar samt einhvern veginn. Það sem er óvenjulegt við "Iron Man 2" er hvað persónurnar skipta miklu máli, hvernig sagan fjallar um þær frekar en heimsyfirráð og gjöreyðingu, sem verður að aukaatriði. Það er eiginlega það frumlegasta við þessa mynd. Loks er komin ofurhetjumynd þar sem að bjarga heiminum verður aukaatriði, og aðalmálið verður fyrst og fremst að hetjan bjargi sjálfum sér frá sjálfum sér, og heiminum í leiðinni. 

Þú skalt alls ekki fara alltof snemma út af sýningunni. Það er stutt atriði í lok myndarinnar sem var fullkomið fyrir nördinn í mér. Það voru allir farnir úr salnum nema ég, rétt eins og þegar ég sá "Iron Man" í Smárabíó um árið. Þetta atriði birtist eftir að ALLUR textinn hefur skrollað og öll tónlistin búin og var þess virði fyrir mig. Að minnsta kosti get ég sagst hafa séð þetta örstutta atriði sem gefur tilefni til enn meiri tilhlökkunar fyrir nána framtíð.

Ég skemmti mér vel á "Iron Man 2" og fannst gaman að skrifa um hana.

Ég bið ekki um meira.

 

E.S. Ég ætti kannski ekki að minnast á það, en það er búið að velja leikstjóra fyrir "Avangers", mynd sem á að tengja saman einhverjar af ofurhetjunum frá Marvel, en þar mun enginn annar en Josh Whedon taka við taumunum, sem loksins mun fá stóra tækifærið í Hollywood sem hann hefur verðskuldað í mörg ár.


Sunset Blvd. (1950) ****

 

Poster%20-%20Sunset%20Boulevard_02

 

"Sunset Blvd." er ein af þessum myndum þar sem hver einasti rammi er frammúrskarandi. Handritið er hrein snilld og leikurinn afbragð.

Handritshöfundinum Joe Gillis (William Holden) hefur ekki tekist að skrifa almennilegt handrit í langan tíma, og ræður því ekki lengur við að lifa í þeim stíl sem hann hefur vanist. Hann skuldar leigu bæði fyrir íbúð og bíl, og innheimtumenn eru á eftir honum. Á flótta undan innheimtumönnum springur á dekki hjá honum og honum tekst að renna bílnum inn að heimreið fyrrverandi stórstjörnu, á meðan innheimtumennirnir missa af honum og keyra fram hjá.

Hann leggur bílnum í opnum bílskúr og er boðið inn af þjóninum Max (Erich von Stroheim) sem hefur beðið eftir einhverjum til að kistuleggja dauðan apa. Eigandi apans og hallarinnar er engin önnur en Norma Desmond (Gloria Swanson), fyrrum stórstjarna þöglu myndanna sem getur ekki sætt sig við að aldurinn hefur færst yfir hana.

Þegar hún kemst að því að Joe er handritshöfundur, en ekki kistulagningamaður fyrir dauð gæludýr, býður hún honum starf; að endurskrifa handrit hennar um Salóme, sem á að vera leið fyrir endurkomu hennar inn í heim kvikmyndanna, því hún þráir ekkert annað en að vera í skotlínu athyglinnar, fyrir framan myndavélarnar, að lifa þykjustulífi sem þarf ekki að vera tengt veruleikanum.

Joe lætur til leiðast og fær laust herbergi til umráða, en fljótt áttar hann sig á að hún vill eitthvað meira en hann er tilbúinn að gefa. Á sama tíma stelst hann á næturnar og helgar til að skrifa sitt eigið handrit með hinni ungu og fögru Betty Schaefer (Nancy Olson), en hún er trúlofuð besta vini hans Artie Green (Jack Webb).

Dramað er trúverðugt og samtölin full af tilfinningu og dýpt. Þau augnablik sem gera persónurnar djúpar og áhugaverðar eru augnablikin þegar þær velja hlutverk sitt í lífinu, og maður áttar sig á að þetta er raunverulegt val sem fjöldi fólks hefur gert og staðið við, sjálfsagt vegna þess að auðvelt er að trúa því að ríkidæmi og frægð skapi umgjörð sem er mikilvægari en hamingjan og lífið. Þessar aðstæður leiða til morðs.

Spurningar sem koma upp í myndinni sem hverjum manni væri hollt að spyrja sjálfan sig einhvern tíma á lífsleiðinni:

  • Hvað gerist þegar stórstjörnur geta ekki lengur gert greinarmun á draumnum sem þau fengu uppfylltan og veruleikanum?
  • Hvað ef draumurinn verður veruleikanum sterkari, þrátt fyrir að frægðarsólin dofni?
  • Ef þú gætir valið um hamingjusamt og fátækt líf með manneskju sem þú elskar, eða glamúr og flott föt; hvað myndir þú velja?

"Sunset Blvd." var tilnefnd til 13 Óskarsverðlauna árið 1950 og vann aðeins ein af þeim stóru, fyrir besta handritið. Hún var einnig tilnefnd sem besta kvikmynd ársins, en "All About Eve" sigraði það árið, önnur mynd um klikkaða kvikmyndastjörnu. Mér finnst "Sunset Bldv." mun betri en "All About Eve" og að hún hafi elst mun betur.

Allir helstu leikarar myndarinnar voru líka tilnefndir til Óskarsverðlauna, þau William Holden, Gloria Swanson, Erich von Stroheim og Nancy Olson, en ekkert þeirra vann.

Frábær mynd.


Edge of Darkness (2010) **1/2

photo_01_hires

Hvern langar til að sjá Mel Gibson í hefndarhug og sálarangist? Hvern langar ekki til þess?

Mel Gibson snýr loks aftur á hvíta tjaldið. Í þetta skiptið fyrir framan myndavélina, en undanfarin ár hefur hann sýnt afar góða takta sem leikstjóri. Hann gerir sitt besta til að túlka Thomas Craven, sem Bob Peck hafði gert á snilldarlegan hátt árið 1985 í samnefndum sjónvarpsþáttum á BBC. Gibson nær því miður ekki að bæta neinu við þann karakter sem Peck náði að skapa.

Vísindamaðurinn Emma Craven (Bojana Novakovic) er myrt með haglabyssuskoti í magann í dyragætt föður hennar, lögreglumannsins Thomas Craven (Mel Gibson). Ákveður Craven að rannsaka málið upp á eigin spýtur, en á í mestu erfiðleikum með að takast á við sorgina, og kemst hann lítt áleiðis, fyrr en hann finnur skammbyssu í náttborðsskúffu dóttur sinnar og fer að gruna að eitthvað plott hafi verið í gangi.

Þegar Craven kemst á fund með forstjóranum Jack Bennett (Danny Huston) finnur hann strax að eitthvað gruggugt felst í fyrirtæki hans, en starfsemi þess felst í framleiðslu kjarnavopna fyrir Bandaríkjaher, og kannski eitthvað meira. Það er þetta "kannski-eitthvað-meira" sem kostaði Emmu lífið.

Inn í söguna fléttast CIA hreingerningamaðurinn Jedburgh (Ray Winstone) sem fær allt í einu samvisku þegar hann áttar sig á að hann mun sjálfsagt ekki lifa til eilífðar. Hann fær nóg af spillingu og ákveður að gera eitthvað í sínum málum.

Því miður tekst ekki að flétta sögum þeirra Craven og Jedburgh jafn vel saman og í BBC þáttaröðinnni, þar sem þeir lentu saman í spennandi ævintýrum, fóru saman inn í námu sem stjórnað var af fyrirtækinu ógurlega og lentu í æsilegum skotbardaga. Í þessari útgáfu verður þessi kjarnaþáttur nánast að engu. Og það eru mikil vonbrigði, enda hefði maður haldið að reynt yrði að bæta á einhvern hátt þessa snilldarþætti. 

Það er sjálfsagt ekki hægt, enda BBC serían í flokki með langbesta sjónvarpsefni sem ég hef séð.

"Edge of Darkness" er einfaldlega farartæki fyrir Mel Gibson. Hann hefur alla tíð sérhæft sig í að leika menn með djúp sár á sálinni sem leita hefnda sér til lækninga. Þannig var hann í sínum frægustu hlutverkum sem "Mad Max" í samnefndri seríu, Martin Riggs í "Lethal Weapon" myndunum og sem William Wallace í "Braveheart". Gibson er bestur þegar hann er bandbrjálaður í skapinu og þjakaður af þjáningum, svona yfirleitt. Í þetta skiptið er hann samt óvenju stóískur og ósennilegt að þetta hlutverk fari hátt á frægðarferli vandræðagemlingsins og snillingsins Gibson.

"Edge of Darkness" er engin snilld, en ég gat reyndar ekki annað en glottað þegar Gibson segir í einu atriðinu: 

Well you had better decide whether you're hanging on the cross or banging in the nails.


Les Vacances de Monsieur Hulot (1953) ****

 

FV015~Les-Vacances-de-M-Hulot-Posters

 

"Les Vacances de Monsieur Hulot" er klassísk gamanmynd. Ég naut hvers einasta ramma.

Herra Hulot (Jacques Tati) keyrir um á litlum bíl sem gefur stöðugt frá sér skothvelli með pústinu, partar hrynja úr honum við hverja ójöfnu, og hann þarf stöðugt að víkja fyrir stærri bifreiðum og fer hægt yfir, en kemst þó alltaf einhvern veginn á leiðarenda. 

Hulot sjálfur er sérstakur karakter. Oftast er hann með pípu milli tannanna og hatt á höfðinu. Hatturinn og pípan eiga það til að fara í ferðalög án eigandans.

Hulot er snillingur í að skapa vandamál hvert sem hann fer. Á meðan hann reynir að laga eitt, geturðu verið viss um að fleiri hlutir fara úrskeiðis á sama tíma sem afleiðing af lagfæringum hans. Hann er algjörlega huglaus og verulega tilfinningasamur, og á í verulegum erfiðleikum með mannleg samskipti.

Flestum er illa við Hulot vegna undarlegrar hegðunar hans, ótillitssemi og vandamálanna sem hann býr til, en sumir eru fullkomlega sáttir við hann og kunna vel að meta þennan undarlega karakter sem hvergi virðist passa inn. Í því felst hjarta myndarinnar.

Uppáhalds atriðið mitt í myndinni virðist svo látlaust og einfalt, en er virkilega vel útfært. Smástrákur heldur á ís í brauðformi í sitt hvorri hendi. Hann þarf að klífa virkilega háar tröppur og opna hurð með hurðarhúni, og þú veist að eitthvað skondið á eftir að gerast með þennan ís. Ímyndunaraflið fer í gang og maður reynir að spá fyrir hvað mun gerast. Atriðið endar á fullkominn hátt, langt frá öllu því sem maður hafði ímyndað sér. Og það hafði merkingu. Það líkaði mér.

Í heimi Hulot hafa allar persónur dýpt og margt fyndið er að finna í ólíkum karakterum. Hulot er ekki eini fókus myndarinnar eins og vill oft verða þegar einhver ógeðslega fyndinn einstaklingur leikur aðalhlutverkið, eins og þegar Chaplin leikur flækinginn, Rowan Atkinson leikur Hr. Bean og Cantinflas leikur ólíkar útgáfur af sjálfum sér.

Ólíkir persónuleikar er það sem gerir "Les Vacances de Monsieur Hulot" bæði fyndna og mannlega. Það er til dæmis svolítið sérstakt par í myndinni. Eldri hjón. Konan gengur alltaf þremur skrefum á undan manni hennar sem eltir hana algjörlega áhugalaus um nokkuð sem vekur áhuga hennar, nema þegar hann verður vitni að prakkarastrikum Hr. Hulot. Gullfalleg stúlka fær mikla athygli frá myndarlegum strákum, en hún hrífst aðeins af hinum undarlega Hr. Hulot, sem hefur ekki hugmynd um hrifningu hennar, né um nokkuð eða nokkurn.

"Les Vacances de Monsieur Hulot" er einföld og hugljúf. Án ofbeldis en full af asnastrikum. Síendurtekið lag keyrir í gegnum myndina, sem maður fær leið á meðan myndin rennur í gegn, en hálfsaknar þegar henni er lokið. Tónlistin passar einhvern veginn.

Öll fjölskyldan getur skemmt sér yfir þessari frekar gamaldags en jafnframt klassísku gamanmynd, og manni líður á meðan myndin rúllar áfram eins og maður sé staddur einhvers staðar fjarri öllum áhyggjum og stressi á fjarlægri sólarströnd þar sem maður getur notið þess að fylgjast með hinu sérstaka í fari annars fólks.


Reservation Road (2007) **1/2

 photo_01_hires

"Reservation Road" er bílslysadrama um hvernig tilfinningar getið tekið völdin þegar réttlætinu er ekki fullnægt.

Ethan (Joaquin Phoenix) og Grace (Jennifer Connelly) missa son sinn Josh (Sean Curley) í bílslysi. Ökumaðurinn, lögmaðurinn Dwight Arno (Mark Ruffalo) keyrir í burt án þess að gefa upp hver hann er, og með því breytir hann slysinu í glæp. Ethan sá bílstjórann eitt augnablik, en tekst ekki að framkalla minninguna á nógu nákvæman hátt til að greina bílstjórann.

Hjónin og dóttir þeirra Emma (Ella Fanning) eru harmi slegin, og enn erfiðara finnst Ethan að skilja hvernig manneskja geti verið svo grimm að keyra í burtu eftir að hafa drepið 10 ára barn. Ethan heitir að finna morðingjann, er í virkum samskiptum við lögregluna, leitar sjálfur að sökudólginum og trúir að um einhverja yfirhylmingu sé að ræða. Hann ræður lögfræðing sér til aðstoðar, en verður á að ráða Dwight í starfið.

Dwight er fráskilinn faðir, sem hafði verið á hafnarboltaleik með syni sínum Lucas (Eddie Alderson), en þurfti að flýta sér heim vegna framlengingar leiksins og stöðugra símhringinga fyrri eiginkonu hans, Ruth (Mira Sorvino). Við áreksturinn rekst Lucas í mælaborðið, en hann hafði verið sofandi án öryggisbeltis og því ekki séð fórnarlamb árekstursins.

Dwight þjáist af djúpri sektarkennd og langar að gefa sig fram, ætlar að gera það, en vill fyrst sjá úrslitaleik hafnarboltaársins með syni sínum, gefa sig síðan fram og lenda í fangelsi. Vandinn eykst hins vegar þegar Ethan áttar sig á að Dwight var bílstjórinn, kaupir sér byssu og ákveður að taka málin í eigin hendur.

"Reservation Road" er ágætlega leikin af fínum leikurum, en kemst hins vegar ekki upp úr hjólförum melódramans. Ég var einfaldlega ekki sannfærður. Það vantaði einhverja dýpt. Hugsanlega í handritinu eða plottinu, hugsanlega í leiknum. Það er erfitt að segja.

"Reservation Road" virkaði einfaldlega ekki á mig, þó að hún sé vel gerð. Hún gæti hins vegar vel virkað á þig.

 

photo_03_hires
Ethan sýnir Dwight hvar glæpurinn átti sér stað. Dwight er sökudólgurinn, Ethan grunar hann um græsku, en Dwight er lögmaður Ethan í máli Ethans gegn Dwight.

 


Waitress (2007) ***1/2

 


Jenna er gift Earl. Jenna hatar Earl. Earl elskar ekkert nema sjálfan sig. Earl á þá ósk heitasta að Jenna muni ekki elska ófætt barn þeirra meira en hún elskar hann.

 

 

"Waitress" er góð mynd með stjörnuleik frá Keri Russell og mjög skemmtilegum aukaleikurum sem gera kvikmyndina þægilega og notalega.

Jenna Hunterson (Keri Russell) bakar ljúffengar tertur. Það er hennar líf og yndi. Allt annað í lífi hennar er ömurlegt. Fyrir utan starfsfélaga hennar og viðskiptavini. 

Eiginmaður hennar Earl (Jeremy Sisto) er svo sjálfselskur og afbrýðisamur að hann sýgur alla lífshamingju út úr henni. Hún þráir ekkert heitar en að losna við hann fyrir fullt og allt, með því að flytja í burtu og hverfa.

Morgun einn uppgötvar hún eigin óléttu og sekkur fyrir vikið enn dýpra í eigið þunglyndi. Hún getur ekki hugsað sér að koma barni inn í þennan ömurlega heim, en ætlar þó að eignast það og gera sitt besta til að það geti fundið sér farveg í lífinu. 

Þegar Jenna verður yfir sig hrifinn af fæðingarlækni sínum, Jim Pomatter (Nathan Fillion), sem reyndar er sjálfur hamingjusamlega giftur, breytast hlutirnir smám saman. Hún áttar sig á að kannski séu fleiri bjartar hliðar á lífinu en bara pertubakstur, þó að öll hennar sköpunargáfa og athygli fari í að semja nýjar uppskriftir tengdum tilfinningalífi hennar.

"Waitress" er saklaus og þægileg mynd með djúpum undirtón, sem felst helst í lífsleiða Jenna og leið hennar út úr honum. Aukapersónurnar eru sérstaklega skemmtilegar, svo sem tvær þernur sem vinna með Jenna, veitingastjórinn, eigandinn og kærasti vinkonu hennar sem getur ekki hætt að semja viðstöðulaus ljóð.


The Treasure of the Sierra Madre (1948) ****

treasure42
 

"Hvernig spillist sæmilega heiðarleg manneskja?"

"The Treasure of the Sierra Madre" er snilldarmynd í leikstjórn John Huston þar sem hann leikstýrir meðal annars föður sínum Walter Huston. Þeir unnu báðir Óskarshlutverk, John fékk tvö verðlaun, bæði sem besti leikstjóri og besti handritshöfundur, en Walter fékk verðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki, þó að auðvelt væri að skilgreina hans hlutverk sem aðalhlutverk. Samt er Humphrey Bogart hið ógleymanlega afl sem keyrir "The Treasure of the Sierra Madre" áfram, hjarta hennar og sál, en án tilnefningar til Óskarsverðlauna það árið. Óskiljanlegt.

Kvikmyndin hefst í Mexíkóborg árið 1925. Charles C. Dobbs (Humphrey Bogart) er bláfátækur Bandaríkjamaður sem betlar peninga frá samlöndum sínum fyrir mat, en notar peninginn sem hann fær í áfengi, vændi og slíkt. Hann er líka algjörlega siðferðilega blankur, fyrir utan að hann telur sig vera heiðarlegan og heldur fast í þá ímynd, þó að hann lifi ekki eftir henni nema til sýndarmennsku.

Þegar Dobbs og félaga hans, Curtin (Tim Holt) er boðin ágætlega launuð vinna af svikahrapp sem borgar þeim ekkert eftir nokkurra vikna þrælerfiða vinnu, og þeir ná að lúskra á gaurnum og ná peningum sínum af honum (ekki umfram það sem hann skuldar þeim), ákveða þeir að nota peninginn til að leggja í ævintýraför og leita að gulli ásamt Howard (Walter Huston), eldri manni sem hefur mikla reynslu af gullgreftri og áhrifum þessa málms á sálarlíf fólks.

Howard minnist á að gullið geti spillt sálum besta fólks, að það þurfi alltaf meira, verði tortryggið, og erfitt að umgangast það. Dobbs veifar þessu frá sér sem tómri vitleysu og segir að sumar manneskjur geti orðið ríkar án þess að umbreytast, og hann sé einn af þeim. Hann hefur rangt fyrir sér.

Dobbs, Curtin og Howard fara í langa ferð upp í Sierra Madre fjöllin, en þau ná alla leið frá Acapulco til Puebla, ná yfir gríðarlega stórt svæði. Á leiðinni þurfa þeir að passa sig á ræningjaflokkum sem þeysast um svæðið og stela öllu léttara, og passa sig á að lögreglan uppgötvi ekki athæfi þeirra, gullgröft, þar sem þeir mega ekki hirða þennan eðalmálm sem með réttu er ein af náttúruauðlindum mexíkósku þjóðarinnar. Þeim stendur á sama um það og telja sig vera í fullum rétti, svo framarlega sem að ekki kemst upp um þá.

Þegar þeir finna loks gull, tekur raunveruleikinn við. Þeir þurfa að vinna hörðum höndum við að ná gullinu úr æð fjallsins, vinna sem tekur marga mánuði, og á sama tíma eykst vantraust þeirra gegn hverjum öðrum og tortryggni þeirra vex með hverjum deginum. Dobbs fer verst út úr þessu, en hann fer að sjá svik og launráð í hverri einustu hugsun og hreyfingu félaga sinna.

"The Treasure of the Sierra Madre" er mögnuð kvikmynd um það hvernig menn geta orðið af aurum apar, þegar þeir eru siðferðilega illa undirbúnir til að treysta félögum sínum, þegar verðmætamat snýst meira um efni frekar en anda.

Dobbs á sér enga drauma aðra en að margfalda allt það sem hann þekkir úr eigin reynslu, en Curtin og Howard reynast báðir vera í leit að einhverju verðmætara en peningum. Charles C. Dobb er útrásarvíkingur eins og þeir gerast bestir, sníkjudýr sem lifa á góðmennsku annarra og átta sig ekki á mikilvægi annarra gæða en þeirra sem þú getur haldið á.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband