Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Minning: Þorvaldur Ólafsson (1921-2009)

valdiafi.jpgAfi minn, Þorvaldur Ólafsson, lést á Grund Landakotsspítala föstudagsmorguninn 27. febrúar. Þá var ég staddur á ráðstefnu um barnaheimspeki, en eftir að hafa fengið símtalið frá móður minni fór ég rakleitt til fjölskyldunnar og hætti við allar aðrar fyrirætlanir þá helgi. Við sem höfðum verið hjá honum síðustu dagana fundum flest til gífurlegrar þreytu eftir að hann féll frá, enda tekur andlát af völdum krabbameins mikið á alla aðstandendur, sérstaklega þegar kærleikurinn er jafn ríkur og gagnvart Valda.

Ég skrifaði minningargrein í Morgunblaðið, en þegar kom að sendingu komst ég að því að hún mátti aðeins vera 3000 slög, en mín grein var margfalt lengri. Því klippti ég hana niður og var hún birt í mjög stuttri útgáfu í dag.

Bloggið gefur mér hins vegar færi á að birta greinina alla:

Þorvaldur Ólafsson var sterkur maður. Þrátt fyrir að hafa fengið hjartaáföll og stíflaðar æðar, auk sykursýki á háu stigi, varð loks lungnakrabbamein honum að bana. Þrátt fyrir öll þessi ár og öll þessi veikindi heyrði ég hann aldrei kvarta, heldur lýsti hann stöðugt yfir þakklæti fyrir að eiga sterka og góða fjölskyldu að. Við dánarbeð hans komust færri að en vildu. Slík var gæfa hans.

Sigríður Guðbrandsdóttir og Þorvaldur Ólafsson, 1997

Stóra ástin í lífi afa var amma mín, Sigríður Guðbrandsdóttir, en þau voru saman öllum stundum síðan ég man fyrst eftir þeim til dagsins þegar hún varð bráðkvödd úr þessum heimi, alltof ung, árið 1998.

Amma var mikill fagurkeri, þekkti ótal ljóð utanað, las mikið af góðum skáldsögum og gat rætt heimspekileg málefni löngum stundum. Á meðan fróðleikurinn flæddi um varir ömmu, sat afi oftast nálægt og lagði við hlustir og gaf henni eins hlýtt augnaráð og hægt er að hugsa sér frá þessum ljósbláu augum.  Hans þátttaka í samræðunum snerust yfirleitt að upplýsingum um staðreyndir og fólk sem þurfti að leiðrétta, til að umræðan yrði sem nákvæmust. Það skipti gífurlegu máli þegar vitnað var í manneskju að tilvitnunin var rétt og að gerð væri einhver grein fyrir þeim sem hafði farið með orðin.

Fyrir utan það að vera alltaf með ömmu, auk þess að Oddur bróðir hans bjó heima hjá þeim í fjölda ára, var afi líka svolítill einfari. Hann átti sér tvo hella sem hann gat horfið í tímunum saman. Annar þeirra var bílskúrinn, en hann var gífurlega flinkur vélvirki, og ef einhver bíll í fjölskyldunni bilaði, þá reddaði hann málunum. Ekkert annað kom til greina. Hann rak líka sitt eigið fyrirtæki og sérhæfði sig í að flytja inn aukahluti í þýskar dráttarvélar og önnur landbúnaðartæki. Fórst það honum afar vel, og vann hann við þetta þar til sjónin var orðin of döpur til að hann gæti lengur lesið.

Þegar ég hugsa aftur þá ber hugurinn mig til Korpúlfsstaða, þar sem við ræktuðum kartöflugarða. Þar man ég eftir afa sem af miklum dugnaði setti niður kartöflur að vori og gróf þær upp að hausti. Síðan var kartöflunum komið fyrir í kaldri kompu heima hjá afa og ömmu, sem fjölskyldan sótti síðan smám saman yfir árið.

Hrannar Baldursson, Sigríður Guðbrandsdóttir og Þorvaldur Ólafsson, 1989

Öll fjölskyldan tók virkan þátt í þessari ræktun, og var það í fjölda ára viðburður að fara í kartöflutínslu. Sjálfur kunni ég ekki að meta það sem ungur drengur að grafa holur og setja niður gamlar kartöflur og rífa þær svo upp. Mér fannst skorta fjölbreytni í starfið og leyddist það afar mikið, þó að mér hafi þótt afar vænt um allt það góða fólk sem ætíð tók virkan þátt í þessu starfi, þá læddist ég oft í burtu og lagðist á árbakka Korpu og reyndi að sjá þar bregða fyrir fiskum, stakk fingri í ána eða óð út í hana, og naut þess að finna þrýstinginn frá ánni dynja á Nokia stígvélunum.

Einhverju sinni sem oftar skutlaði afi mér heim af skákmóti, og við sátum saman við heimili mitt og ræddum um fortíðina. Hann hafði ekki dulið það þegar ég valdi að læra heimspeki við Háskóla Íslands að hann varð fyrir ákveðnum vonbrigðum, en hann hélt ég myndi fara í verkfræði, lögfræði eða viðskiptafræði  - fög sem gerðu meira gagn. Hins vegar þegar ég útskýrði fyrir honum þá djúpstæðu þörf sem ég hafði til að skilja heiminn okkar aðeins betur þar sem að á sérhverju andartaki var eitthvað sem kom mér á óvart, og þá sérstaklega sú furða sem fylgdi þeirri vitneskju minni að ég væri hugsandi vera og að ef ég ræktaði það ekki gæti ég hugsanlega hætt að vera hugsandi vera. Því vildi ég leggja rækt við það að vera slík hugsandi vera, því að mér líkaði það, og vildi fyrir alla muni finna leiðir til að halda áfram að vera eins og ég var, en kannski aðeins dýpri.

Þegar ég útskýrði þetta fyrir honum þetta kvöld í bílnum, læddist yfir andlit hans vingjarnlegt bros, og hann trúði mér fyrir því að hann hafði alltaf langað til að vera kennari – en þar sem að lífið tók óvænta stefnu, með tilurð móður minnar, hafði hann ákveðið að fara arðvænlegri leið og gerðist vélstjóri á sjó. Hann tjáði mér að hann bæri virðingu fyrir mínu vali þó að hann hafi ekkert botnað í því, enda er ekki allt fólk mótað í sama formi þó að okkur finnst að við ættum að vera það.

Oddur Ólafsson, Sigríður Guðbrandsdóttir og Þorvaldur Ólafsson á Staðarbakka

Sjómennskan var rík í þessum Eyjapeyja sem meðal annars sigldi um heimshöfin á meðan seinni heimstyrjöldin stóð yfir. Hann sagði frá því að eitt sinn stöðvaði þá þýskur kafbátur, og hann átti þá von á að það væri síðasta sjóferð þeirrar áhafnar. En ekki fór svo.

Þegar ég kom í heimsókn frá Mexíkó árið 2004 veiktist afi alvarlega, og höfðu hans veikindi töluverð áhrif á þá ákvörðun mína að koma heim til Íslands með fjölskyldu mína. Alltaf þegar við kvöddumst og ég hélt eitthvað út í heim sagðist hann halda að þetta væri í síðasta skiptið sem við myndum sjást. En alltaf kom ég aftur í fang hans og hlýju.

Það var gott að vera hjá honum síðustu daga ævi hans. Fyrir rúmri viku sat ég hjá honum eina nótt og við ræddum þá vel saman. Hann sagði mér frá hvernig hann hefði fengið tíðar heimsóknir frá Siggu ömmu, margoft eftir andlát hennar, þar sem að hún hafði oft hlúið að honum þegar hann var einn og hafði liðið illa. Hann sagði frá hvernig hann hafði séð systur sína sem dó ung í æsku, og hversu erfitt það hafði verið þegar hann sem ungur drengur var sendur í fóstur og fjölskyldu hans sundrað þegar móðir hans lést. Hann sagði frá hversu þakklátur hann var að eiga svona góða fjölskyldu, að hvert einasta barn, barnabarn og barnabarnabarn voru heilbrigðar og heilsteyptar manneskjur.

Og hann talaði sérstaklega um hvað hann var heppinn að eiga fjögur yndisleg börn sem öll gættu hans eins og sjáaldur augna sinna eftir að Sigga amma dó, og studdu hann af mikilli tryggð gegnum erfið veikindi.

Afi fékk mikinn og góðan félagsskap um helgar þegar hann horfði á leiki með Manchester United, en undirritaður tók nú aldrei þátt í svoleiðis vegna almenns áhugaleysis á knattspyrnu. Reyndar heimsótti ég hann afar sjaldan þar sem ég var oft með hugann við aðra tímafreka hluti, nokkuð sem ég sé eftir, en dvaldi hins vegar mikið með honum síðustu daga lífs hans.

Eftir að Oddur bróðir hans veiktist alvarlega og leiðir þeirra bræðra skyldu að miklu leiti, fyllti ungur maður vel í það mikla skarð sem Oddur hafði skilið eftir og var traustur vinur afa í gegnum veikindi hans. Hann vék varla frá dánarbeði afa, þó að hann hafi loks þurft þess vegna þreytu. Vinátta hans við afa var djúp, enda fékk hann ómetanlega leiðsögn gegnum erfiða tíma hjá afa og ömmu, sem stóðu eins og klettur við bak Valda frænda.

Ég kveð nú saman þau afa og ömmu og þakka þeim kærlega allar þær góðu stundir sem ekki aðeins ég, heldur fjölskyldan öll átti með þeim, alla jóladagana á Staðarbakkanum og brúðkaup okkar Angeles á heimili þeirra fáeinum mánuðum áður en amma féll frá.

 

Kveðja
Sál mín fylgir þér,
unz hún nær þér að lokum
í skýjum uppi.
Að við séum að skilja,
ástin mín, þar skjátlast þér.


Fúkajabó Kíóvara (908-930), þýð. Helgi Hálfdánarson


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband