Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Eru 89% allra íslenskra fyrirtækja að hruni komin hvað reksturinn varðar?

Af 30.000 fyrirtækjum á landinu standa 11% þeirra sterkt. Nú þekki ég ekki skala Creditinfo, en geri ráð fyrir að einnig sé um að ræða möguleika eins og 'meðal', 'veikt', 'mjög veikt' og hugsanlega 'mjög sterkt'. Þessar upplýsingar vantar í fréttina.

Ég get skilið að sá sem skrifaði þessa frétt vill hugsanlega vera svolítið jákvæður, en fréttin er flutt eftir undarlegum formerkjum. Það er afar auðvelt að misskilja hana þannig að maður gefi sér að andstæða fullyrðingarinnar sé sönn, að fyrst 11% fyrirtækja standi sterkt, þá standi 89% fyrirtækja veikt. Hins vegar leyfi ég mér að efast um að málið sé svo einfalt, og grunar að hérna hafi verið laumað inn falskri neikvæðri frétt í jákvæðu ljósi, eins öfugsnúið og það hljómar.

Langaði bara að velta þessu fyrir mér, en mér finnst merkilegra við þessa 'frétt' hvað hún segir ekki, heldur en hvað hún segir.

 

Um 3.400 fyrirtæki teljast í lagi eftir bankahrunið

Fyrstu niðurstöður úttektar Creditinfo benda til þess að um 3.400 fyrirtæki í landinu standi sterkt hvað reksturinn varðar. Þetta eru um 11% þeirra nærri 30 þúsund fyrirtækja sem eru á hlutafélagaskrá.

Flest þessara fyrirtækja eru á höfuðborgarsvæðinu, eða um 2.400, en miðað við heildarfjölda fyrirtækja á hverju landsvæði virðast hlutfallslega flest fyrirtæki vera í lagi á Norðurlandi eystra, eða 15%.

Athugun Creditinfo náði ekki til stærstu bankanna og þau sem ekki komast í þennan flokk stöndugra fyrirtækja eru félög á vanskilaskrá og svonefnd skúffufyrirtæki, eða eignarhaldsfélög sem ekki eru í neinum rekstri.

Sjá nánar í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag.


mbl.is Um 3.400 fyrirtæki teljast í lagi eftir bankahrunið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úttektir á fyrirtækjum og stofnunum með norskri aðferðafræði og upplýsingatækni

Mér þykir sárt að sjá íslenskar fjölskyldur og fyrirtæki í neyð. Kreppan siglir áfram um allan heim, virðist hafa leitað sér skjóls á Íslandi. Fólk er farið að finna fyrir henni. Ég hef frá því snemma á síðasta ári haft mikinn áhuga á að finna gagnlegar leiðir til að hjálpa þjóðinni á leið úr ástandinu, og bloggað mikið um mínar hugmyndir, stofnað til verkefnis með forseta Íslands og satt best að segja hef ég hugsanlega sett alltof mikla orku í þá leit. Fórnað of miklu. Ég sé samt ekki eftir neinu.

Nú hef ég fengið starf hjá ágætu norsku hátæknifyrirtæki sem býður upp á að gera úttekt á viðskiptaáætlunum, gæða- eða öryggiskerfum, eða strembnum verkefnum.

Nokkuð sem gæti hjálpað til við rannsóknir á Hruninu. Það ætti ekki að vera mikið mál fyrir fólk að þiggja slíka aðstoð, en við ábyrgjumst að hún verði til gagns til að bæta rekstur fyrirtækja og stofnana, og að útkoman verði gagnleg. Það hefur ekkert íslenskt fyrirtæki eða stofnun enn tekið þátt í slíkri könnun, þrátt fyrir kreppuástand, enda þekkja ekki nógu margir til Scope Driven Management og kosti þeirrar aðferðarfræði. Það þora líka fáir að vera fyrstir.

Sendu mér viðskiptaáætlun (business case). Þetta getur líka átt við stjórnunarskema fyrir gæða- eða öryggiskerfi. Ég og félagar mínir hjá Ambitiongroup rannsökum áætlunina, í fullum trúnaði, og setjum hana upp fyrir þig á myndrænan og skiljanlegan hátt, þar sem öll gildi rekstursins eru sett í rökrétt samhengi. Ef þú ert í vanda með slíka áætlun, getum við hjálpað þér að finna út hver vandinn er. 

Við erum staðsett í Noregi, þannig að þú þarft fyrst að hafa samband við mig með góðum fyrirvara. Þú getur gert það með að senda mér tölvupóst á hrannar @ ambitiongroup.com

Ég réð mig til fyrirtækisins Ambitiongroup þar sem það stendur framarlega í að hagnýta gagnrýna hugsun á kerfisbundinn hátt, aðferð sem nýtist ekki bara fyrirtækjum og stofnunum, heldur einnig einstaklingum, þar sem notkun á Scope Map (hægt að sækja 30 daga prufu frítt) tóli fyrirtækisins skerpir rökhugsun á ferskan hátt, gerir þér fært að átta þig betur á heildarmyndinni, eigin rökvillum og hugtakabrenglun. Ekki það að þú hugsir endilega illa, heldur eiga hlutirnir til að flækjast á óvæntan hátt, til dæmis vegna þess að við gleymum einhverju atriði, erum undir mikilli pressu, verðum fyrir truflun, eða þess háttar. 

Við bjóðum ekki lengur upp á ókeypis kynningarpakka eins og við gerðum í síðasta mánuði, en þess í stað ábyrgjumst við að fyrirtækið fái raunveruleg verðmæti út úr könnunni, annars fær viðkomandi þóknunina endurgreidda.

Það væri jafnvel áhugavert að fá tækifæri til að halda fyrirlestur um þessa aðferð í íslenskum háskólum, í tengslum við rökfræði, viðskipti, tölvufræði eða verkfræði. 

Við erum með verkefni í gangi víða um heim. Ég hef mikinn áhuga á að kynna Íslendingum þessa hugmyndafræði, sem passar afar vel inn í heim sprotafyrirtækja, hugmyndir um gagnsæi í stjórnsýslu og getur hentað afar vel til að hagræða fyrirtækjum og stofnunum, og finna aðrar leiðir til hagræðingar en segja upp fólki þó að þrengist að.

Ambitiongroup fékk í nóvember heiðursverðlaun frá Deloitte sem 3. hraðast vaxandi hátæknifyrirtæki Noregs síðustu fimm árin, og hraðast vaxandi upplýsingatæknifyrirtækið. Einnig fékk Ambitiongroup viðurkenningu í síðustu viku við hátíðlega athöfn á Stamford Bridge í Chelsea, þar sem Deloitte veitti 500 hraðast vaxandi fyrirtækjum í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku viðurkenningu, en Ambitiongroup var í 54. sæti meðal þeirra 500 efstu.


Loks vonarglæta fyrir heimili og fjölskyldur á Íslandi?

Ef ég skil þessa frétt frá RÚV rétt, þá eru erlendir kröfuhafar búnir að fella niður kröfur á íslenskar lánastofnanir þannig að þær hafa nú mjög rúmt svigrúm til að slétta úr útblásnum íslenskum lánum, bæði myntkörfulánum og verðtryggðum.

Nú eiga lánastofnanir og ríkisstjórn að bregðast strax við og setja fjölskyldur og heimili lands í forgang, enda eru fram komin merki um fjölskyldur á ystu brún, þegar Fjölskylduhjálp óskar eftir mat frá almenningi, fjölskyldur eru að liðast í sundur, foreldrar íhuga sjálfsvíg, prestar eru að sligast undan álagi og mikil hætta er á fjölgun jarðarfara í kyrrþey.

Einlæg ósk mín er að samviskusamir alþingismann taki forystu í þessu máli og berjist fyrir þessum góða málstað. Viðkomandi mun aldrei falla í gleymsku hjá þjóð sinni.

Hér er frétt RÚV:

Sendinefnd frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum kemur til Íslands í dag til viðræðna við stjórnvöld um aðra endurskoðun á lánveitingu sjóðsins til landsins. Áhersla verður á hvernig gera megi bankana arðvænlega á ný og hvernig lækka megi skuldir og greiðslubyrði lánþega.

Fulltrúar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, undir forystu Marks Flanagans, yfirmanns sendinefndar sjóðsins á Íslandi, koma til landsins í dag til að ræða við fjölmarga fulltrúa stjórnvalda, opinberra stofnana og fjármálafyrirtækja. Fundað verður um aðra endurskoðun á lánveitingu sjóðsins til Íslands næsta hálfa mánuðinn. Í yfirlýsingu sjóðsins segir að helst verði rætt um hvernig endurreisn íslenska bankakerfisins hafi miðað og almennt um fjárhagslegan stöðugleika. Spurningum fjölmiðla verður síðan svarað í lok heimsóknarinnar.

Þegar efnahagsáætlun Íslendinga var samþykkt á fundi stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í lok október sagði Mark Flanagan í viðtali að í næstu endurskoðun lánveitingarinnar yrði rætt um það verk sem enn væri óunnið í endurskipulagningu á rekstri bankanna þannig að þeir gætu skilað hagnaði á ný. Einnig yrði áhersla lögð á að nú þegar tekist hefði að lækka lánsfjárhæðir niður í hæfilegt hlutfall í bókhaldi bankanna yrði það að skila sér til lánþega með lækkun skulda og greiðslubyrði. Það yrði allt til umfjöllunar í endurskoðuninni.

 

E.S. Rauðar merkingar eru frá mér komnar (HB)


Leyndarmál og ekki-málþóf, eða sjónhverfing til að draga athygli frá öðrum málum?

Undarlegt þetta ICESAVE mál.

Steingrímur J. Sigfússon hefur einhverjar upplýsingar sem þurfa að fara leynt, bæði gagnvart Alþingi og gagnvart almenningi í landinu. Hann hefur víst sagt forystumönnum hinna stjórnmálaflokkanna hvert leyndarmálið er. Og ennþá fer það leynt.

Enginn forystumaður stjórnmálaflokks á Íslandi þorir semsagt eða vill segja þjóð eða Alþingi hvað er í gangi.

Viðbrögð Alþingis finnst mér eðlileg. Þar sem að ekki fást rök fyrir málinu og koma skal málinu í gegn án umræðu, geta viðbrögðin ekki kallast málþóf. Kannski væri réttara að kalla þetta ekki-málþóf?

Það að troða máli í gegn án raka flokkast náttúrulega ekki undir lýðræðisleg vinnubrögð, slíkt gerðu reyndar þeir flokkar sem áður voru við völd, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, og nú hafa Vinstri Grænir bæst í þann hóp. Allir virðast vilja vera harðstjórar, og ráða sama hvað hver segir. Furðulegt.

Ekki-málþófið er skiljanlegt. Þetta er eina ráðið til að stoppa þá ákvörðun að samþykkja ICESAVE samninginn án fyrirvara og án réttar til að fara með málið fyrir alþjóðadómstól. Það á semsagt að knýja þjóðina til að greiða að fullu fyrir lántökur og eyðslu einkafyrirtækis, þar sem hagnaðurinn er annað hvort horfinn eða hugsanlega notaður til að kaupa bankann að nýju þegar hann verður einkavæddur á ný.

Hins vegar getur vel verið að þetta sé allt saman ryk sem verið er að þyrla upp til að dreifa athygli þings og landsmanna. Það er ekki bara eitt mál í gangi. Það er fullt annað að gerast. Á meðan stjórnarliðar eru ekki í sölum Alþingis, og stjórnarandstæðingar eyða kröftum sínum í að flytja innihaldslausar tölur, hvað eru ráðamennirnir að gera? Hvar eru þeir? Undir hvaða pappíra er verið að skrifa?

Fyrirgefið grunsemdirnar. Annað mál. Hin nýja einkavæðing Arion banka er náttúrulega annað furðumál, sem gerist á sama tíma og athygli allra beinist að ICESAVE. Ég hélt að reynslan hefði kennt okkur að fara varlega í slíkum málum.

Enn annað mál eru efnahagsleg áhrif Hrunsins í Dubai sem var í síðari hluta síðustu viku. Það mun hafa gífurleg áhrif á efnahagslífið í Englandi og ljóst að athygli Englendinga mun fyrst og fremst beinast að Dubai, enda er ómögulegt að segja hvaða áhrif það hrun mun hafa á heimskreppuna.

Það ætti að fresta ICESAVE málinu vegna þeirrar miklu óvissu sem er í gangi. Það veit enginn hvort íslenska þjóðin geti staðið undir þessum skuldbindingum, sama hvað hver fullyrðir, og að samþykkja þær er í raun það sama og að gefa loforð sem aldrei verður hægt að standa við. 

Ég held að stjórnarandstaðan sé að gera rétt með ekki-málþófi sínu, og að vel íhuguðu máli tel ég rétt að skora á forseta Íslands að beina ICESAVE til þjóðaratkvæðis, enda held ég að ýmislegt kraumi undir sem hefur ekki náð upp á yfirborðið enn og skiptir miklu máli fyrir þá takmörkuðu heildarsýn sem við búum yfir í dag.

Það er ekkert endilega eitthvað samsæri í gangi hérna innanlands, og hugsanlega er verið að draga leiðtoga okkar á asnaeyrum, og því mikilvægt að hlutirnir séu ræddir á opnum vettvangi. Við munum hvað gerðist þegar Bush tókst að sannfæra Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson um að fara leynt með ástæður um að koma Íslandi á lista yfir viljugar þjóðir í stríðinu gegn Írak, en þar fengu Davíð og Halldór rangar upplýsingar sem hefði verið hægt að stinga niður með opinni umræðu. Í raun reyndist þessi ákvörðun þeirra pólitískt sjálfsmorð, og mig grunar að eitthvað svipað sé nú í uppsiglingu hjá Steingrími og Jóhönnu.

Það er nefnilega ekki nóg að þjóðin treysti Steingrími eða Jóhönnu. Þau verða líka að treysta þjóðinni. Annað er ekki-lýðræði.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband