Annað stærsta bankarán aldarinnar í gangi á Íslandi; hvar er Superman?

superman_kingdom_come

Nú grunar mig að annað rán sé í gangi. Það er svipað í sniðum og stærð. Sama fólkið stendur á bakvið það. Þegar menn komast upp með einn glæp, og græða gríðarlega, hvers vegna ættu þeir ekki að reyna aftur?

Fyrir rúmum þremur árum skrifaði ég greinina: Var stærsta bankarán aldarinnar framið á Íslandi rétt fyrir páska? þar sem ég taldi augljóst að eigendur banka væru að ræna þá innanfrá. Til þess notuðu þeir gjaldeyrissveiflu og veika krónu. Sumum þóttu þessar hugmyndir mínar frekar fjarstæðukenndar, en fyrst hrunið og síðan rannsóknarskýrsla Alþingis staðfesti síðan þennan grun minn með nákvæmum upplýsingum. Enginn hefur verið handtekinn fyrir glæpinn og engum peningum skilað til baka.

Glæpurinn felst í ráni á mismunum í eignarfærslu frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju, eins og Marinó G. Njálsson lýsir vel í færslu sinni: Gott að Arion banka gangi vel, en eru tölurnar ekki eitthvað skrítnar?

Frá árinu 2007 hafa þúsundir íslenskra heimila þjáðst gífurlega vegna ranglætis frá hendi glæpamanna sem rændu og rupluðu banka innanfrá. Ákveðið var að bæta tjónið með því að lækka kröfur á húsnæðislán heimila. Það hefur verið gert að hluta til, en það lítur út fyrir að minnst 200 milljörðum hafi verið komið undan í stað þess að nota þá til að leiðrétta lánin, og þar með stórglæpinn.

Þess í stað eru þessir 200 milljarðar notaðir til að greiða eigendum bónusa vegna mikils hagnaðar, þannig að nú geta glæpamennirnir baðað sig í gullinu á meðan heimilum er viðhaldið sem mjólkurkú, þar sem þau hafa enn greiðsluvilja, vegna veikrar vonar um að réttlætið sigri að lokum.

Hins vegar virðist eina von fólksins gegn þessu bákni, ríkisstjórnin, vera hluti af vandamálinu. Viðskiptaráðherra lætur eins og allt sé í ljómandi lagi, að ekkert athugavert sé í gangi. Rétt eins og flokksbróðir hans í sama hlutverki sagði fyrir þremur árum. Fjármálaráðherra segir allt vera á uppleið. Rétt eins og fjármálaráðherra rétt fyrir hrun. Forsætisráðherra er hljóð eins og gröfin og þegar hún birtist talar hún helst um pólitík eins og hún sé eitthvað í skýjabökkum til vinstri og hægri. 

Ekki gleyma að gríðarleg lán voru tekin til að forða íslenska ríkinu frá gjaldþroti. Slíkar alþjóðlegar skuldir þarf að greiða til baka. Þær eru ekki niðurfelldar.

Með þessu áframhaldi stefnum við að feigðarósi. Með þessu áframhaldi er annað hrun óhjákvæmilegt.

Ég taldi í minni fávisku að vextir á lán í bönkum væru reiknaðir á ársgrundvelli. Síðar sýndist mér að það eina sem gæti útskýrt margföldunaráhrif lána væri að vextirnir séu reiknaðir á mánaðargrundvelli. Nú hefur hins vegar komið á ljós að þessir vextir virðast reiknaðir minnst daglega, þannig að húsnæðislán sem tekið var árið 2005 upp á 19 milljónir stendur í dag í 30 milljónum og með uppreiknaða vaxtavexti upp á allt að 6000 krónur daglega. Og venjulegar fjölskyldur eiga að geta borgað þetta okur!

Ég er rjúkandi reiður yfir þessu. Vildi óska að ég gæti hringt í lögregluna til að stoppa þessa augljósu glæpi, en það er enginn til staðar sem getur hjálpað. Jafnvel Seðlabankinn er hluti af vandanum. Hagsmunasamtök heimilanna sendu ósköp einfalda fyrirspurn um framkvæmd húsnæðislána, þar sem þau virðast ólöglega reiknuð, en sjálfur Seðlabankinn fór undan í flæmingi, svaraði spurningunni með að svara henni ekki í þrettán blaðsíðna skjali um eitthvað allt annað mál.

Sérstakur saksóknari er á kafi í gömlum máli og engar fréttir úr þeim bæ. Fjármálaeftirlitið virðist lamað. Efnahagsbrotadeild lögreglunnar hefur sameinast sérstökum þannig að þar eru starfsmenn sjálfsagt að aðlagast nýjum vinnustað, læra á Word upp á nýtt og svoleiðis, en enginn virðist þess megnugur að bæði sjá ránið sem er í gangi og stoppa það.

Á svona tímum getur maður ekki óskað annars en að eitthvað fyrirbæri eins og Superman væri til, einhver sem gæti stöðvað þetta ógeð og leiðrétt það sem úr skorðum er farið, og stungið glæpamönnunum í steininn þannig að þeir í það minnsta hætti að skoða umheiminn, að minnsta kosti um stundarsakir.

Er ekki komið nóg af taumlausri græðgi og glæpum?

Þarf sagan virkilega að endurtaka sig, aftur og aftur?

Höfum við ekkert lært?

superman_0002

 

 

Myndir: MTV Geek


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sama ruglið er á fullri ferð.. Þessi Superman, það erum við, almenningur, við nennum ekki að berjast fyrir réttlæti, það er búið að ala úr okkur baráttuandann, búið að telja okkur trú um að það sé hægt að gera eggjaköku án þess að brjóta egg, það er okkar Kryptonite.

P.S. Hey framför að taka ekki Gudda inn í málið

DoctorE (IP-tala skráð) 8.9.2011 kl. 07:29

2 Smámynd: Billi bilaði

Og þetta mun allt gleymast þegar stöðugar auglýsingar sjallanna fara að virka og þeir fá rjúkandi kosningu næst og láta brauðmolana hrynja yfir hausana á okkur.

Billi bilaði, 8.9.2011 kl. 10:39

3 identicon

Góð grein, en Arion banki er ekki vandamálið. Það er borgarastyrjöld á Islandi, sem ekki er háð með vopnum heldur á kaupum á auðlindum þjóðarinnar og fyrirtækjum með peningum sem voru blóðpeningar. Við virðumst ekki mega taka upp annan gjaldmiðil til að verjast öllum þessum gengisfellingum sem koma bara ákveðnum aðilum tengdum fiskveiðum til góða. Bjarni er t.d að kaupa N1! Karl Wernersson heldur lyfjafyrirtækinu sínu. Konan sem átti lýsi en fór í þrot er komin þangað aftur og með ofurlaun. Árni Sigfússon situr ennþá, þrátt fyrir að setja Reykjanesbæ í þrot. Björgvin, þorgerður, Bjarni Ben  halda áfram á þingi eins og ekkert hafi gerst. Hermann situr ennþá sem forstjóri situr ennþá sem forstjóri N1, þrátt fyrir milljarða tap.  Bæjarstjórar í flestum bæjarfélögum auglýsa á kostnað almennings um ágætis fiskveiðistjórnunrarkerfisins! Konan sem stýrir Íslansdbanka sem hljóp frá kúluláni er í fínum málum. Skilanefnd Glitnis hefur Ólaf Ólafsson í stjórnum fyrirtækja sem skilanefndin rekur og borgar honum 30milljjónir í laun á mánuði. Þannig er endalaust hægt að telja upp.

Það virðist ekkert þýða að berjast lengur, þegar t.d. Egill Helgason sem stjórnar allri umræðu á íslandi og þóttist hafa voða há samvisku, seldi sálu sína þegar framsóknarmenn og hrunmenn sem stýrðu hruninu keyptu Eyjuna og lokuðu á alla eðlilega umræðu, og stjórnmálamenn halda bara áfram sérhagsmunagæslu eins ekkert hafi gerst. Kennarar í Háskólunum halda einnig áfram sérhagsmunagæslu og hafa ekkert lært. Það er ljótt að segja það en við verðum að fá algjört hrun til að eiga einvherja möguleika.

albert (IP-tala skráð) 8.9.2011 kl. 13:26

4 Smámynd: Starbuck

Takk fyrir góðan pistil

Starbuck, 8.9.2011 kl. 13:36

5 identicon

Ég held að það sé nú að verða nokkuð ljóst, að verðbæta höfuðstólinn, stenst ekki lög.

Þetta dæmi frá 2005 19 miljónir sé komið í 30 miljónir,

og samt er búið að borga af þessu láni í 6 ár, maður á bátt með að trúa þessu, en æskilegt væri ef hægt væri að sjá þetta dæmi lið fyrir lið, þangað til á maður bátt með að trúa þessu.Ef þetta er rétt er hér um rán að ræða um hábjartan daginn.

Jón Sig. (IP-tala skráð) 8.9.2011 kl. 14:27

6 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ætli við Íslendingar séum orðin of innræktuð til þess að bregðast við þessu?  Maður spyr sig...

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 9.9.2011 kl. 03:13

7 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Takk fyrir þennan frábæra pistil.

Ásdís Sigurðardóttir, 9.9.2011 kl. 11:23

8 identicon

http://www.youtube.com/watch?v=cyRqR56aCKc

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 10.9.2011 kl. 11:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband