Gætu óverðtryggð lán á föstum 7% vöxtum bjargað fjölskyldum frá gjaldþroti?

 

 

 

 

BLEKKING

Venjulegt fólk sem ekkert vit hefur á fjármálaheiminum og treyst hefur 'sérfræðingum' í bönkum er allt í einu komið í þá stöðu að það hefur málað sig út í horn. Þrátt fyrir að fylgja eftir áætlun um afborganir á lánum hækkar höfuðstóllinn margfalt á við það sem þeim var lofað í upphafi.

Á áætlunum er yfirleitt reiknað með 2.5% verðbólgu, sem þýðir að lán upp á 5% vexti verður að 7.5% láni. Þar sem verðbólgan verður líkast til 14% um áramót eða meiri, þýðir það að vextir á húsnæðislánum verða að minnsta kosti 19% og munu þessi 19% leggjast á höfuðstól lánsins.

Þar sem að fólk fékk lán í samræmi við greiðslugetu, þýðir þetta að greiðslubyrðin verður um 19% meiri á næsta ári ef hlutirnir ganga eðlilega fyrir sig. Þetta gerist án þess að laun hækki, og á meðan flestallar vörur og þjónusta hafa hækkað um 30%.

Úr bönkunum heyrast gáfuleg ummæli eins og "Hver er sinnar gæfu smiður," og maður hefur á tilfinningunni að mönnum standi nokkuð á sama um þessa greiðsluerfiðleika. Því það sem gerist ef fólk getur ekki borgað lánin, þá eignast bankinn húsnæðið, sem á endanum verður hægt að selja aftur eða leigja út, þannig að sá gróði verður einfaldlega tvöfaldur. Hugsanlega lítur þetta svona út í reiknilíkani, en veruleikinn getur orðið allt annar ef fjöldi fólks fer á höfuðið vegna skulda sinna og áttar sig á að aleigan hefur verið hafin af þeim með blekkingum.

 

RÍKI

Þegar svona er komið, að skrímsli hefur tekið á sig mynd og ógnar undirstöðum fólks, þá leitar það hjálpar. Helst er litið til ríkisins, en því miður virðist hefðin á Íslandi vera sú að ekkert er gert fyrir fólkið nema það muni líta vel út fyrir næstu kosningar. Fólk á Íslandi er nefnilega svo fljótt að gleyma. Það er nefnilega snjallt að bíða með bestu útspilin þar til á síðustu stundu. Það er svosem allt í lagi að fjöldi fjölskylda fari á hausinn, bara að útspilið komi þegar allir skilja að neyð sé í gangi þannig að það verði ekki gagnrýnt af hörku.

Þessi hugsanagangur gengur því miður upp, sé farið eftir leiðbeiningum Machiavelli um hvernig halda skal völdum, en er þetta það sem gera skal fyrir fólkið á 21. öldinni? Af hverju ekki að bregðast við áður en Titanic skellur á ísjakann? Af hverju auka hraðann og sýna veikasta punktinn? Hafa stjórnvöld virkilega efni á því?

Stærsti veikleiki ríkisstjórnarinnar virðist felast í mesta styrk hennar. Hún situr nokkuð örugg í sessi, með mikinn meirihluta sem erfitt er að rjúfa. Þetta þýðir að allir eru öruggir í sínum sætum og enginn vill rugga bátnum. Hins vegar er sá möguleiki í stöðunni að stjórnin verði rofin af öðrum flokkinum og henni komið saman undir mörgum flokkum, en það er einfaldlega enn verri staða, því að duttlungar fárra gætu þá ráðið framtíð þjóðarinnar, rétt eins og gerst hefur hjá Reykvíkingum í borgarstjórnarmálum síðustu misseri. Að slíta samstarfi væri að fara úr öskunni í eldinn. 

Það er samt augljóst að mikil spilling ríkir hjá ríkisstjórninni. Menn eru frýjaðir ábyrgð af glæpum, tengdu fólki er komið í þægilegar stöður, þingmenn og ráðherrar eiga jafnvel stóra hluti í bönkunum, og vilja því ekkert gera gegn þeim. Ríkisstjórnin gerir ekkert af viti þegar á reynir, og virðist ekki skilja að fólkið þurfi á henni að halda - að hún sé ekki bara stöður upp á punt, heldur úrræði til að setja góð lög og leysa vandamál þjóðarinnar þegar þau knýja dyra. 

 

SÖNN DÆMISAGA

Ríkisstjórnin minnir mig á skák sem ég tefldi eitt sinn við einn af núverandi ráðherrum hennar. Þegar ég hafði unnið skákina  nokkuð auðveldlega vegna passívrar taflmennsku ráðherrans, þá rauk hann á dyr og hætti í skákmótinu. Hann tefldi illa og var tapsár, en hefur sjálfsagt verið sagt af vinum sínum að hann tefldi ágætlega, og hann virðist hafa trúað því. Ég er hræddur um að sami einstaklingur sé einmitt að tefla pólitíska skák sína jafn illa, og muni einfaldlega gefast upp í stað þess að berjast til þrautar og ganga á dyr. Skákin á það til að opinbera innri karakter fólks á skemmtilegan hátt. Mér var ekki skemmt þegar ég sá hinn sama komast til valda á Íslandi. Gott stjórnmálavit kemur ekki að sjálfu sér frekar en góð taflmennska.

Staðan er semsagt þannig: ríkisstjórnin er í þægilegri stöðu. Þarf ekkert að óttast. Ráðamenn eru á nógu góðum launum til að vera skuldlausir, og sjá því varla ástandið eins og það er í raun og veru. Þeir eru vanir gagnrýnisröddum og vita að þær líða hjá, enda hafa þær alltaf gert það, og helsti vandinn sem steðjar að þjóðinni er fallandi króna og há verðbólga. Alltof fáir ráðherrar og þingmenn virðast skilja hvað það þýðir til lengri tíma litið.

 

VANDAMÁL

Ég held að stærsta vandamálið í dag sé það að ríkisstjórnin sér ekkert vandamál. Hún sér bara fullt af fólki blogga af krafti um málin og stjórnarandstöðuna kvarta. Sama hvernig staðan er, það eru alltaf einhverjir að kvarta. 

Jæja. Ég er ekki að kvarta.

Það er stórt vandamál í uppsiglingu og því fyrr sem gripið er inn í af ríkisvaldinu, því betra fyrir fólkið. En það verður að viðurkennast að ríkið mun fá miklu meira kredit ef það bregst ekki við vandamálinu fyrr en það er orðið nánast óviðráðanlegt, og gerir eins og Bush ætlaði að gera núna rétt fyrir kosningar, að grípa ekki inn í fyrr en á elleftu stundu og sjá þannig til að repúblikanar vinni kosningarnar þar sem fólk verður honum svo þakklátt. Þetta er vel útreiknað plan, sem getur reyndar snúist í höndunum á honum. Ég vona bara að ráðamenn okkar séu ekki að hugsa á þessum nótum.

 

ÚRRÆÐI

Við höfum úrræði til staðar, en erum ekki að nýta þau. Úrræðið felst meðal annars í íbúðalánasjóði og gífurlega öflugri stöðu ríkisins, sem er algjörlega skuldlaust. Í stað þess að eyða á hefðbundinn hátt í fleiri störf og stofnanir, auk sendiherrabústaða í fjarlægum löndum upp á einhverja milljarða, gæti Ríkið brugðist við vandanum áður en hann verður raunverulegur, og hjálpa þeim sem vilja hjálpa sér sjálfir?

Ég er ekki að benda á neina töfralausn, heldur raunverulega von og möguleika fyrir skuldsetta Íslendinga. Okkar mesti styrkur gegnum aldirnar hefur falist í samvinnu og stuðningi hvert við annað, en þessi gildi eru í hættu.

Hvernig væri að gefa fólki tækifæri á að borga upp bankalánin og fá hagstæðari lán hjá ríkissjóði í staðinn, helst án verðtryggingar og á föstum vöxtum, eins og 7%? Og tryggja það í leiðinni að fjármálahákarlarnir misnoti ekki úrræðin til að finna fleiri smugur í kerfinu til að hagnast enn frekar, heldur gefa raunverulegum fjölskyldum sem hafa keypt sitt fyrsta húsnæði þetta tækifæri, því að þetta fólk er fólkið sem þarf hjálpina fyrst.

Síðar væri hægt að færa úrræðin til fólks sem hefur verið að stækka við sig húsnæði, en þó koma þeim einnig til aðstoðar ef stærð húsnæðis er í samræmi við stærð kjarnafjölskyldunnar, en reynslan sýnir að hafa skal ofarlega í huga ráðstafanir til að koma í veg fyrir að húsnæðisbraskarar og aðrir fjármálasnillingar sem virðast geta nýtt sér minnstu breytingar í eigin hag á kostnað þeirra sem þörfina hafa, geti misnotað þetta úrræði.

 

GRUNNÞARFIR

Það er nú þannig að eign á húsnæði er ekki lúxus.

Það er þrennt sem allir þjóðfélagsþegnar ættu að geta gengið jafnt að: húsnæði, klæðum og fæði. Aðrar þarfir eru til staðar, en þessum grunnþörfum þarf að fullnægja áður en farið er út í aðrar þarfir.

Það ættu allir þjóðfélagsþegnar að geta átt húsnæði án þess að þurfa í áratugi að hafa áhyggjur af síhækkandi afborgunum. Því miður hefur þessi grunnþörf fyrir húsnæði verið misnotuð á Íslandi, og ætlast er til þess af komandi kynslóðum að þær eigi ekki sitt húsnæði, heldur leigi það bara. Þegar fólk er ekki öruggt um grunnþarfir sínar er stutt í óhamingju og böl.

 

VON

Skuldlaus ríkisstjórn hlýtur að geta hjálpað fólki að eignast eigið húsnæði skuldlaust.

Eftir að hafa fylgst náið með ríkisstjórninni síðan hún tók við völdum, fær sjálfstæðisflokkurinn eins og hann leggur sig falleinkunn, sérstaklega fyrir að taka þátt í mörgum spillingarmálum fyrir opnum tjöldum og reyna svo að fela gjörninginn með orðskrúði jámanna. Samfylkingin fær líka falleinkunn, en henni til vorkunnar, ekki fyrir spillingarmál sem ekkert hefur borið á hjá þeim til þessa, heldur fyrir agaleysi æðstu stjórnenda.

Hins vegar eru tveir einstaklingar í ríkisstjórninni sem ég bind vonir við, en sérstaklega þau Jóhanna félagsmálaráðherra og Björgvin viðskiptaráðherra hafa verið að gera góða og sýnilega hluti, á meðan formaður flokksins hefur verið á vappi um allan heim sem utanríkisráðherra, í stað þess að einbeita sér að mikilvægum málum heima fyrir.

Mér sýnist reyndar að Ingibjörg Sólrún taki starf sitt sem utanríkisráðherra mjög alvarlega og að hún sé frábær utanríkisráðherra, en því miður er það starf að fá alla athygli hennar og hún virðist hafa gleymt öðrum skyldum sínum, þar sem að hennar mikilvægasta starf er sem formaður stjórnmálaflokks sem þarf nauðsynlega á styrkri stjórn að halda, frekar en veraldarvafri.

Ég bind von mína við alþingismenn og ráðherrar sem vilja vinna fyrir kaupi sínu og er ekki sama um þjóðina sem kaus þau, og hvet þau til að finna leiðir til úrlausna, og vonandi í anda þeirra sem ég mæli með í þessum stutta pistli.


Bloggfærslur 28. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband