Eru lán skilgreind sem hagnaður það sem valdið hefur Íslandskreppunni árið 2008?

Heimskreppan og Íslandskreppan eru ekki sami hluturinn, en það hentar vel þeim sem bera ábyrgð á Íslandskreppunni að benda á heimskreppuna sem aðal orsakavald. Sú er samt ekki raunin, þó að heimskreppan hafi vissulega einhver áhrif á Íslandskreppuna.

 

greed.jpg

 

Græðgin

Þetta er náttúrulega afar flókið mál allt saman, sem mér finnst reyndar frekar einfalt í eðli sínu, en það er svo mikið af misvísandi upplýsingum á fleygiferð að fólk getur ekki annað en ruglast í rýminu og týnt áttum. Þessi grein fjallar einfaldlega um það hvernig ég sé þetta útfrá bæjardyrum leikmanns sem hefur engra hagsmuna að gæta, en er forvitinn um þessi mál og hef áhuga á að fá skýra mynd af stöðunni, þannig að venjulegt fólk eins og ég geti dregið betri ályktanir.

Ég held að megin orsakavaldurinn felist í óstjórnlegri græðgi og aðstæðum sem hafa verið skapaðar þar sem fáum er gert mögulegt að hafa gífurlegt fé af mörgum, á hátt sem mér sýnist óheiðarlegur, þrátt fyrir að vel geti verið að hann sé löglegur. Það fannst einfaldlega glufa í kerfinu.

Fyrst þurfum við að hafa í huga að hvað gerist þegar viðskiptavinur banka fær lán, en hann þarf að taka á sig ábyrgð til að endurgreiða lánið, ef honum tekst það ekki verða allar eigur hans gerðar upptækar og hann lýstur gjaldþrota. Afarkostir heitir þetta á dramatísku máli.

Þetta þýðir í raun að viðskiptavinur hefur lagt inn ákveðna upphæð, en verður að standa við innlögnina smám saman. Fyrir þessa innlögn gat bankinn, áður en heimskreppan skall á, tekið lán sem er tíu sinnum sú upphæð sem hann lánar sjálfur. Þannig verða meiri peningar til í fjármálakerfinu - og því miður án innistæðu, nema hægt verði að knýja þá sem skulda til að greiða á réttum tíma.

 

home11

 

100% húsnæðislán og ofurlaun 

Ég geri ráð fyrir því að hluti af hagnaðartölum bankans eru af þeim lánum sem hann hefur útistandandi, og að lánin sem bankinn fær inn teljist til hagnaðar. Ég sé ekki hvernig hægt er að borga ofurlaun á öðrum forsendum. Því meira sem bankinn lánar, því meira getur hann fengið lánað. Ekki má gleyma að laun fjölmargra bankamanna eru árangurstengd, þannig að eftir því sem að bankinn fær meiri lán, fá viðkomandi meiri pening í eigin vasa.

Af þessum sökum er varhugavert að treysta greiningardeildum banka, því að starfsmenn þeirra geta haft mikilla hagsmuna að gæta. Þeir eru sjálfsagt líka greiðendur skulda og þurfa sitt.

Þegar 100% lán fóru í gang og leikreglurnar voru svona, þá græddu þeir einstaklingar gríðarlega sem fengu bónus af hagnaði bankans, þó að hægt sé að deila um það hvort að fengið lán sé hagnaður. Viðkomandi starfsmenn gátu tekið út hreinar krónutölur fyrir sinn árangur, án þess að þurfa að hafa nokkrar áhyggjur af endurgreiðslu lánanna.

Viðkomandi geta hætt í sínum störfum eftir að hafa þegið einhverjar milljónir eða hugsanlega milljarða sem prósentur af hagnaðartölum og geta eftir það verið lausir alla mála, og jafnvel flutt erlendis til að þurfa ekki að lifa við óþægilega fortíð. Hins vegar stendur bankinn og skuldarar eftir með þá ábyrgð að greiða upp lánin, og uppgötva þá að það getur verið erfitt vegna þess að peningurinn er farinn úr bankanum með árangurstengdum launum.

Þetta er ennþá í gangi, því að fjölmargir starfsmenn hjá bönkum eru á bónusgreiðslum og fá greitt í samræmi við þann hagnað sem viðskiptaferli þeirra sýna. Þannig getur óbreyttur, og jafnvel ómenntaður bankastarfsmaður verið á kr. 200.000 í grunnlaun en náð yfir milljón í laun á mánuði eða meira ef viðkomandi ferli sýnir nægilegan hagnað.

Það er eins og við föttum ekki hvaðan þessi peningur kemur og hvert hann fer, því að hann fer fyrst og fremst beint í vasa einstaklinga sem eru að maka krókinn, en úr vösum skuldara sem verða sífellt órólegri vegna hækkandi höfuðstóla og reglulegum greiðslum af lánum, og þeir vita að takist þeim ekki að borga, tapa þeir öllu. Það er engin undankomuleið fyrir skuldara.

 


 

Komið að skuldadögum

Nú þarf bankinn að finna leiðir til að borga upp þessi lán, og þeir sjá að vandi stendur fyrir höndum þegar leikreglum hefur verið breytt, og þeir geta ekki lengur fengið tífalt lán fyrir öll lán sem þeir veita. Því neyðast þeir til að hætta að greiða út lán og finna aðrar leiðir í staðinn.

Þessar aðrar leiðir sem farnar hafa verið er það sem valdið hefur kreppunni, því að engin leið jafnast á við þá fyrri. Bankarnir hafa starfsmenn á launum sem eru 10 sinnum klókari í þessum málum en ég get nokkurn tíma vonast til að verða, og þeir verða að finna leiðir til að sýna hagnað á hverjum og einasta ársfjórðungi til að vernda ímynd bankans og greiða eigendum hagnað.

Þeim tekst að finna þessar leiðir, en fólkið í landinu finnur fyrir þeim með sífellt léttari pyngju. Afleiðingar aðgerðanna má finna til dæmis í hærri stýrivöxtum, meiri verðbólgu, lægra gengi; sem veldur hærri afborgunum skuldara mánaðarlega, og stærri höfuðstól um næstu áramót heldur en um þau síðustu, þó að ekki hafi verið tekið frekari lán. Þetta gæti einnig valdið því að verð á húsnæði falli, en ef það gerist, þá verður fjöldi einstaklinga bundinn við að borga lán sem eru miklu hærri en verðmæti eigna þeirra - og þegar sú staða er komin upp gæti fólk valið frekar gjaldþrot en að lifa við þrælkun. Einhvern tíma brestur boginn, sem hefur þegar verið þaninn til ýtrasta.

 


 

Stutt minni

Fáum einstaklingum hefur tekist að hafa mikið af íslensku þjóðinni og komist upp með það. Við eigum þetta líklega skilið, því að minni okkar er frekar stutt og gagnrýnin hugsun okkar frekar lin, og svo hefur okkur bara langað til að vera með í braskinu til að skera okkur væna sneið.

 


 

Það er ennþá von

Eftir stendur þó von sem Íslendingar eiga í öflugum framleiðslufyrirtækjum sem orðin eru ráðandi á heimsmarkaði og afla raunverulegra tekna með því að skapa raunveruleg verðmæti, og sem geta raunverulega komið í veg fyrir hrun. Þetta eru fyrirtæki eins og Össur, Bakkavör, CCP, Actavis, Latibær og Marel Food Systems. Fjármálafyrirtækjum er ætlað að tryggja þann auð sem þessi fyrirtæki skapa, en hafa því miður verið að dreifa sem hagnaði því sem er ekkert annað en lánsfé.

Á endanum er ljóst að við þurfum að standa saman. Það þarf að hjálpa skuldurum að komast á réttu brautina og koma í veg fyrir alltof mikinn áhætturekstur fjárfestingafyrirtækja. Skuldurum er hægt að hjálpa með því að bjóða þeim óverðtryggð lán á lágum vöxtum í stað þeirra verðtryggðu, sem eru að skila af sér lánum upp á 19-25% okurvöxtum í dag, og hægt er að setja reglur um það að starfsmenn banka geti ekki hagnast á lánum sem bankinn tekur án þess að taka þátt í að borga þau til baka.

 

Getur þetta verið rétt hjá mér?

Forsenda þessarar greinar felur í sér þá hugmynd að lán sem banki fær erlendis frá teljist til hagnaðar við ársfjórðungsskýrslu og að af þessum hagnaði fái sumir starfsmenn vænan bónus og eigendur góðan skerf. Ég óska eftir að þessi grunnforsenda þessarar greinar sem rituð er snemma á sunnudagsmorgni verði leiðrétt sé hún röng, og staðfest sé hún rétt.

Reyndar hefur mér þótt áhugavert hversu oft ég hef átt kollgátuna í málum sem þessum þrátt fyrir að vera hvorki sérfræðingur á þessu sviði né þátttakandi í slíkum viðskiptum, og fengið sterkar undirtektir frá fólki sem vinnur við þessa hluti, sem og frá öðrum leikmönnum og aðeins með gagnrýna hugsun, dómgreind og skilning að vopni, auk Google leitarvélarinnar sem er ómetanleg til að finna lykilupplýsingar úr ársskýrslum og fréttum bæði á Íslandi og víðar, sem leiða að forsendum þessarar sunnudagshugvekju.

 

Myndir:

Græðgi: Sheepwaker.tripod.com

Húsnæðislán: Pro Lending Loan

Skuldadagur: Payday Loans

Minnislausi fiskurinn: Wallpaperlink.com

Bjargvætturinn: Sanity, Insanity, and Moi

 

E.S. Ég er annars ennþá í bloggfríi, tók mér bara smá frí frá bloggfríinu á þessum fagra sunnudagsmorgni.


Bloggfærslur 21. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband