Quantum of Solace (2008) **


Quantum of Solace er því miður frekar mislukkuð Bond mynd. Af þeim 22 kvikmyndum sem gerðar hafa verið um kappann, finnst mér þessi ein sú slakasta. Sumar þeirra hafa verið frekar slappar, eins og You Only Live Twice, með Sean Connery og sumar orðið frekar langdregnar vegna endalausra slagsmálaatriða, eins og síðasta Brosnan myndin, Die Another Day.

Bond (Daniel Craig) hefur handsamað einn af þrjótunum sem kallaður er Mr. White (Jesper Christensen) sem fengu unnustu hans Vesper Lynd til að svíkja hann í síðustu mynd. Við yfirheyrslurnar kemur í ljós að Mr. White tilheyrir leynisamtökum sem hafa komið fyrir fólki nánast hvar sem er, líka innan bresku leyniþjónustunnar. Lífvörður M (Judy Dench) er einn af þessum svikurum og hjálpar Mr. White að flýja. Bond ákveður að finna frekari upplýsingar um þessi leynisamtök og uppræta þau, ekki bara af faglegum ástæðum, heldur til að hefna dauða konunnar sem hann elskaði.

Slóðin leiðir hann til erkiskúrksins Mr. Greene, Dominic Greene (Mathieu Amatric) sem ætlar sér að steypa ríkisstjórn Bólivíu með hjálp CIA og tryggja sér 60% af vatnsbólum landsins, til þess að selja aðgang að vatni á uppsprengdu verði. Á leið sinni að Greene kynnist Bond Camille (Olga Kurylenko), bólivískum njósnara sem þráir ekkert heitar en að myrða hershöfðingjann sem Greene ætlar að koma til valda, en sá hafði misþyrmt og myrt fjölskyldu hennar.


Sagan lofar góðu og Daniel Craig er flottur Bond, sem hann sýndi og sannaði í Casino Royale, sem er ein af bestu Bond myndum sem gerðar hafa verið. Það sem klikkar í Quantum of Solace er ekki bara slök leikstjórn, heldur klisjukennt handrit þar sem vantar algjörlega smellnar línur fyrir Bond og skúrkana. Einnig er myndin svo hrikalega illa klippt að eitt atriði sem sýnir andlitssvip getur innihaldið þrjú snöggklippt skot. Klippingin er svo snögg að fá atriði öðlast eigið líf.

Hasaratriðin, sem oftast er aðalsmerki Bond ásamt frekar köldum húmor, eru því miður flest illa samsett þar sem erfitt getur verið að greina hvað er að gerast á skjánum, og hasarinn oft búinn án þess að maður hafi hugmynd um hvað var að gerast, og húmorinn því miður víðs fjarri.

Í upphafsatriðinu er Bond á bílaflótta undan vélbyssukjöftum, en maður hefur ekki hugmynd um hver er að á eftir honum, hvernig staðan er í eltingarleiknum og hvað Bond er að gera rétt til að losna við þrjótana.

Eitt verst útfærða atriði nokkurn tíma í Bond mynd á sér stað í óperuhúsi, en þar eltir Bond uppi fólk sem hann grunar að séu í einhverju samkrulli við aðalglæponinn, og drepur það á flótta þeirra út úr húsinu. Maður veit ekki hver fórnarlömbin eru og hugsanlega er það versta sem þau unnu sér til sakar að þau nenntu ekki að hlusta á óperuna.


Samt er eitt og eitt gott atriði inn á milli. Eina atriðið sem mér fannst verulega gott var þegar Bond er á flótta í flutningaflugvél undan herþotu í Bólivíu - en samt hafði það atriði ákveðna galla.

Þetta er óvenju slakur Bond, en samt skylduáhorf fyrir alla aðdáendur myndaflokksins. Það má segja að þessi Bondari sé að apa eftir Bourne myndunum með hröðum klippingum og fullt af hasarmyndum Jason Statham, sem reyndar hafa margar hverjar betri hasarútfærslu og snjallari handrit heldur en Quantum of Solace.

Það er náttúrulega líka ófyrirgefanlegt að myndin gefi ekki tóninn í upphafi með hinu klassíska Bond stefi þar sem við sjáum hann frá sjónarhorni byssuhlaups. Þar að auki er enginn Q, ekkert "Bond, James Bond" augnablik, og ekkert "Vodka Martini, Shaken not stirred" - þó að við kynninguna á Bond stúlkunni Strawberry Fields fáum við að heyra hið klassíska "Of course you are," en það hittir bara ekki í mark.

Quantum of Solace er því miður þunnur þrettándi, bæði sem Bond mynd og sem hasarmynd.

 

Leikstjóri: Marc Forster

Einkunn: 5 af 10


Bloggfærslur 9. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband