Á að reka Davíð Oddsson, leggja hann í einelti og ásaka hann um ófarir bankanna?

 


 

Eftir að hafa heyrt kröfur frá fólki héðan og þaðan um að reka ætti Davíð Oddsson úr Seðlabankanum fyrir viðtal sem hann tók þátt í á þriðjudaginn var í Kastljósi, og fyrir að standa sig illa í stjórn Seðlabankans, verð ég að viðurkenna að ég tel þessa heift í garð Davíðs á misskilningi byggð.

Reiðin í garð Davíðs virðist byggð upp á sögusögnum og ærumeiðingum sem haldið hefur verið uppi af fyrrum eigendum Glitnis og fjölmiðlum sem þeir hafa undir hælnum, um að Davíð hafi verið að hefna sín á Jóni Ásgeiri með því að þjóðnýta Glitni. Davíð svaraði þessari ásökun á mjög sannfærandi hátt, í Kastljósviðtalinu á þriðjudag þar sem hann segist hafa krafist þess að hinir bankastjórar Seðlabankans væru með í ráðum, og að reynt hefði verið að hjálpa eigendum Glitnis með því þó að taka ekki allan bankann af þeim.

Bankinn var kominn í greiðsluþrot og var þar af leiðandi gjaldþrota. Ef Seðlabankinn hefði lánað 84 milljarða króna, hefði sá peningur sjálfsagt bara gufað upp og verið tapað fé, á meðan þjóðin hefði setið uppi með miklar skuldir. Önnur leið var farin sem við þekkjum vel.

Davíð varaði í mars síðastliðnum við árásum á íslenska hagkerfið, og það var reyndar fyrst þá sem ég fékk mikinn áhuga á að fylgjast með þessum málum, og hef gert það vandlega síðan. Ég sé ekki betur en að Davíð Oddsson hafi komið heiðarlega fram við annað fólk, en að hann hafi verið ataður aur úr öllum áttum, en eins og gefur að skilja er erfitt að hreinsa sig af aur sem aðrir skjóta á mann, nema með mjög traustum karakter. Það eina sem að mínu mati hefur veikt orðspor og trúverðugleika Davíðs var ráðning Þorsteins sonar hans sem dómari fyrir norðan, og þætti mér vænt um að vita hvort að hann hafi komið að því máli, sem mér finnst reyndar afar ólíklegt þar sem slíkt passar einfaldlega ekki við karakter Davíðs.

Öll spjót standa á honum. Það er vinsælt að vera óvinur Davíðs núna. Hann segir nákvæmlega það sem hann meinar og hann virðist segja satt og rétt frá því sem hann má segja frá. 

Ég er sammála þeirri fullyrðingu hans að við stöndum betur í dag en fyrir þremur vikum, einfaldlega vegna þess að í dag þekkjum við betur okkar stöðu. Ef vandamál er til staðar er mun verra að vita ekki af því, en að þekkja það.

Þeir einstaklingar sem vilja nornabrennu vegna Davíðs, ég bið þá að hugsa sig tvisvar um og telja upp að tíu. Hann er ekki í öfundsverðri stöðu, og hefur reyndar varað þjóðina við - oftar en einu sinni, og oftar en tvisvar- það var einfaldlega ekki hlustað á hann, fyrst og fremst vegna þess óorðs sem menn hafa verið að rembast við að hella yfir hann, og þar að auki af því að fólk trúði um of á efnishyggjuna og virðist ekki átta sig á að efni eru ekki endalaus í þessum heimi. 

Ég er hvorki dýrkandi Davíðs né sjálfstæðismaður, en ber mikla virðingu fyrir þeim heilindum sem hann sýnir í sínu framferði. Ég er viss um að sagan mun dæma hann mun betur en nútíminn.

Þó að Davíð hafi komið frjálshyggjunni inn í íslenskt samfélag ásamt Hannesi Hólmsteini og fleiri félögum, þá bera þeir varla ábyrgð á svikunum og prettunum sem fjárglæframenn hafa stundað með því að eigna sér hlutfall af lánum, eins og ef um hreinan hagnað væri að ræða. Það er eins og að ásaka foreldri fyrir að gefa unglingi bíl, sem hann svo notar til að keyra á 150 km hraða með hörmulegum afleiðingum.

Mikilvægasti greinarmunurinn sem fram hefur komið er að bankarnir eru fyrirtæki sem farnir eru á hausinn, og rétt eins og önnur fyrirtæki er gjaldþrot þeirra ekki á ábyrgð fólksins í landinu, eða Ríkisins. 

Mikilvægt er að Davíð Oddsson haldi sínu striki í stjórn Seðlabankans þrátt fyrir stöðugar árásir á hann. Ég vona að honum og hans starfsfélögum verði veittur vinnufriður. Það er verið að ráðast á rangan aðila.

Ef ég leyfi mér að segja það, og án þess að ég telji mig vera að taka djúpt í árinni, þá tel ég Davíð Oddsson satt best að segja vera eina af fáum frelsishetjum íslensku þjóðarinnar gegnum tíðina. Nútíminn er að dæma manninn alltof harkalega.

Kíkið á viðtalið við Davíð Oddsson í Kastljósi 7.10.2008, og hlustið vandlega á það sem hann hefur að segja og hvernig það tengist samhengi sögunnar síðustu fjögur árin, og jafnvel síðustu tuttugu árin, en ekki hugsa bara um síðustu viku. 

Það er erfitt að hugsa um Davíð Oddson án þess að gera sér fordómafulla mynd af manninum. Hann hefur verið það mikilvæg persóna í íslensku samfélagi og það umdeildur af mörgum aðilum, að hann mun sjálfsagt aldei fá sanngjarna meðferð af núlifandi Íslendingum, sérstaklega þegar haft er í huga að hann hefur ekki fyrir því að leggjast á sama plan og þeir sem kasta hann auri.

Frekar en að ásaka Davíð vil ég þakka honum kærlega fyrir að koma hreint fram og segja einfaldlega satt, þó svo að sannleikurinn geti verið mörgum óþægilegur, og fólk muni nota hann til að ýfa upp enn meiri illindum.

Sagan mun dæma. Nú er bara spurningin hver skrifar hana.


mbl.is Samtal við Árna réð úrslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband