Eigum við að fórna lífeyrissparnaði síðustu áratuga til að bjarga bönkunum?

 

 

 

Einkareknir bankar riða til falls. Kreppa er í sjónmáli. Þeir vilja fá pening til að bjarga sér á þessum gjalddaga í dag. 

Góðu fréttirnar eru að lífeyri þjóðarinnar er borgið í erlendri mynt. Vondu fréttirnar eru þær að þessu síðasta hálmstrái hins venjulega launamanns er ógnað, þar sem stjórnendur og stjórnmálamenn vilja skipta einhverju af þessum sjóði yfir í krónur á tíma þegar enginn kaupir krónur, til að redda bönkunum út úr krísu sem þeir bjuggu til sjálfir með alltof miklum tengslum og hreinni græðgi.

Ég treysti ekki stjórnmálamönnum Íslands í dag til að vera réttlátir gagnvart lífeyrissjóðum.

Þeir hafa:

  1. Veitt uppreist æru manni sem var dæmdur fyrir brot í opinberu embætti, til að hann geti komist aftur á þing.
  2. Veitt einstaklingum dómaraembætti með afar vafasömum hætti.
  3. Veitt laun fyrir opinber störf á meðan viðkomandi er erlendis í námi.
  4. Sjálfur fjármálaráðherra er eigandi í bankastofnun og sér ekkert athugavert við það.

Ég treysti heldur ekki stjórnendum í bönkum sem:

  1. Eru ráðnir til starfa fyrir mörg hundruð milljóna í eingreiðslu, sem er náttúrulega meiri peningur en nokkur hefur þörf fyrir og hærri en ævitekjur flestra Íslendinga.
  2. Eru á mánaðarlaunum sem jafnast á við eða eru hærri en árslaun verkamanna.
  3. Eru á árangurstengdum launum þegar árangurinn getur snúist um að hafa sem mest fé að lánþegum og koma í eigin vasa.
  4. Eiga inni starfslokasamning sama hversu vel eða illa þeir stjórna.

Hins vegar treysti ég á að fólkið í landinu reyni að rífa sig upp. Það sem getur bjargað okkur núna er öflugt siðferðisþrek. Það er nokkuð sem við getum lært af forfeðrum okkar og við teljum kannski úrelt fræði, en menning okkar geymir hins vegar mun dýpri fjársjóði en nokkuð gull og glingur hefur upp á að bjóða - sanna reisn við hvaða aðstæður sem er, sama þó að aðstæðurnar séu þær að laun standi í stað á meðan vöruverð hækkar um helming, sama þó að erlend lán hækki um helming og verðtryggð lán um fimmtung eða fjórðung. Við verðum að standa saman.

Það sem þarf að heyrast:

  • Samstaða gegn spillingu.
  • Samstaða með fólkinu í landinu.
  • Lausn undan vaxtafangelsi vegna heimiliskaupa.
  • Ríkidæmi er ekki virðingarvert í sjálfu sér.
  • Búum til betri heim.
  • Við erum undir, en leikurinn er ekki búinn.

Mynd: Town of Beloit

Bloggfærslur 5. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband