Um ræðu Jóns Baldvins í Silfri Egils: Er samningur við Alþjóða gjaldeyrissjóðin eina leið okkar út úr vandanum?

 

 

Í Silfri Egils átti Egill Helgason samtal við Jón Baldvin Hannibalsson, en Jón heldur því fram að eina skynsama leiðin út úr krísunni sé samningur við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Það myndi þýða að skilyrði væru sett á stjórnsýsluna, að bruðl og agaleysi væri stoppað - og einnig hélt hann að það þýddi að íslenska þjóðin yrði ekki gerð ábyrg fyrir ástandinu, heldur þeir einstaklingar sem græddu hvað mest á útþenslunni. Þeir þyrftu að greiða til baka það sem þeir hafa tekið (ó)frjálsri hendi.

Verkefni dagsins hlýtur að vera rannsókn á því hvort að þetta sé satt og mögulegt, og finna upplýsingar um hvort að þetta sé þýðing slíks samnings.

Annað jafn mikilvægt verkefni sem má ekki bíða með er að rannsaka hvað gerðist í raun og veru, og finna út af hverju það gerðist sem gerðist, og finna hina seku í málinu (en ekki sökudólga sem hengdir eru af dómstólum götunnar). Tvær leiðir til slíkrar rannsóknar komu fram í þættinum: annars vegar sú hugmynd að allir sem upplýstu um hvað gerðist í raun og veru fengju fyrirfram sakaruppgjöf, og hin að fá erlenda og hlutlausa aðila í rannsóknina vegna þeirrar gríðarlegu spillingar og hagsmunatengsla sem lama íslensk stjórnmál. Báðar hugmyndirnar er vert að skoða.

Ef ljóst er að samningur við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn er eina leiðin til að bjarga komandi kynslóðum frá óviðráðanlegum skuldum næstu áratugina, eða koma í veg fyrir að sjálfstæði okkar glatist, þá hlýtur að vera eðlileg krafa að allir Íslendingar standi saman í tiltektinni. Þeir sem standa gegn henni mætti ákæra sem landráðsmenn.

Þjóðin á ekki að bera ábyrgð á einkareknum fyrirtækjum. Ef Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn skilur þetta og er sammála þessu, og mun taka tillit til þjóðarinnar og hjálpa til við að stokka upp hérna heima, er augljóst að rétta skrefið er að ganga að þessum samningum, þó að það þýði sjálfsagt að Ísland þurfi að fara í nánari samstarf við aðrar þjóðir.

Hefur Jón Baldvin rétt fyrir sér?

Hann er fyrrverandi utanríkisráðherra og afar fróður um þessi mál enda með mastersgráðu í hagfræði frá Edinborgarháskóla. Hann ræddi hlutina af skynsemi, og virðist hafa séð leið út.

Hann vill skipta út bankastjórn Seðlabankans og færði góð rök fyrir sínu máli, að stjórnin væri rúin trausti bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi. Þó að ástæður þess að Seðlabankinn hafi tapað traustinu séu líkast til runnar úr harðvítugum árásum frá Baugsmönnum, þá er staðan í dag einfaldlega sú að traustið er horfið. Þess vegna væri rétt að skipta um áhöfn, hvort sem að ástandið er þeim að kenna eða ekki.

Er önnur leið fær?


Bloggfærslur 19. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband