Hverjir eru sökudólgarnir? Ert það kannski þú?

 


Margir hafa þegar verið stimplaðir (hengdir af fjölmiðlum án dóms og laga): Davíð Oddsson, Hannes Hólmsteinn, Jón Ásgeir, Björgúlfsfeðgar, Darling og Brown, Árni Matt, Pétur Blöndal, og þannig heldur runan endalaust áfram.

Ég hef heyrt að ekki sé rétt að leita uppi sökudólgana vegna hruns fjármálaundursins, og velti fyrir mér hvers vegna ekki. Á meðan hinir raunverulegu sökudólgar hafa ekki verið dregnir til saka, verða áberandi embættismenn og heiðarlegt fólk stimpluð sem sökudólgar, á meðan hinir seku fá góðan tíma til að fela slóðina og koma sér undan.

Væri ekki skynsamlegt að hafa upp á raunverulegum sökudólgum til þess að hlífa þeim saklausu? Og þá meina ég fólk sem sannarlega hefur verið að selja sjálfu sér eignir til þess eins að blása upp verð þeirra, fólk sem hefur leikið sér að íslenska hagkerfinu til að láta ársfjórðungsútkomu líta vel út á kostnað gengis og verðbólgu? Fólk sem hefur haft alvarleg áhrif á heildina til eigin hagnaðar?

Ef ekki er rétti tíminn til að hafa uppi á sökudólgunum núna, hvenær er þá rétti tíminn til þess?

  • Þegar þjófur hefur farið um er best að hafa sem fyrst upp á honum til að hann steli ekki meiru eða komi sér ekki undan.
  • Þegar brennuvargur hefur brennt nokkur hús þarf að stöðva hann. Ef honum hefur tekist að brenna heila borg, þarf þá ekki að refsa honum?

Getur samt verið að sökudólgurinn sé ekki persóna, heldur hugmyndafræði? Að við höfum lifað í útópíu og hún einfaldlega ekki gengið upp frekar en aðrar útópíur, þrátt fyrir að okkur hafi virkilega langað til að hún væri sönn? Er sökudólgurinn þá við sjálf fyrir skort á gagnrýnni hugsun og viðeigandi aðgerðum?


Bloggfærslur 12. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband