Ögmundur Jónasson og Davíð Oddsson sammála?

don-quixote

Ögmundur Jónasson ræðir í þessari færslu um mikilvægi þess að ana ekki út í óvissuna af ótta við einhverja grýlu sem hótar öllu illu. Skrifar hann þetta skömmu eftir að Davíð Oddsson hefur enn og aftur varað við því að láta þjóðina taka á sig ábyrgð á fjármunum sem töpuðust í rekstri einkafyrirtækja, sem reyndar voru bankar og undirstaða hins íslenska hagkerfis, sem á svo að einkavæða aftur - sem þýðir að bankar með nýjum eigendum munu hafa völdin yfir íslenska hagkerfinu á næstu árum, og ekkert sem sýnir að ekki verði hægt að tefla eins skák aftur, bara með öðru leikjavali.

Það er rétt að margar viðvörunarbjöllur hljóma. Ofurstyrkir til einstakra stjórnmálamanna og flokka frá hagsmunaaðilum, einkavæðing á ríkisbönkum sem greiddir voru með lánum úr öðrum ríkisbönkum sem nýbúið var að selja. Sjálfsagt var lánað á víxl. Það er ekki eins og þessi peningur hafi nokkurn tíma verið til. 

Það er reynt að reka þjóðina út í IceSave samninginn sem er bæði vafasamur að innihaldi og forsendum. Einnig lítur út fyrir að hann sé til kominn vegna gífurlega öflugrar alþjóðlegrar glæpastarfsemi þar sem einstaklingar í stórum stíl rændu eigin fyrirtæki eignum sem keyptar höfðu verið með lánsfé frá bönkum, fyrirtækin sett á hausinn og ekkert greitt til baka af láninu, og þessir aðilar virðast hafa komist upp með þetta eins og ekkert væri eðlilegra. Pappír er hvort eð er bara pappír og peningar eru bara draumar, að minnsta kosti fyrir þá sem þurfa ekki á slíku að halda til að borga lúxus eins og mat, föt, fararskjóta og húsnæði. 

Alltof margir stjórnmálamenn hafa lagt ofuráherslu á að vernda fjármagnseigendur á kostnað skuldara, og jafnvel fyrirtæki á kostnað heimila, hugsanlega vegna þess að skuldarar geta varla hönd við reist, hafa engin völd, geta ekki mótmælt, geta engu hótað, er auðveldara að kúga en þá sem eru vanir að komast upp með það sem þeim sýnist. Þó eru til undantekningar. Ögmundur virðist vera slík undantekning. Hann virðist jafnvel vera hugrakkur og göfugur. Hafnar ráðherralaunum vegna kreppunnar og virðist gefa sig af heilindum í sitt starf. Mér er sama í hvaða flokki slíkt fólk er, hugrakt fólk er ómetanlegt.

Ögmundur vogar sér að hugsa út fyrir kassann. Hann sér að verið er að gera árás á þjóðina. Árásin er ekki augljós, þar sem engum sprengjum er varpað eða kúlum skotið úr fallbyssum eða skammbyssum. Það er enginn skorinn á háls eða stunginn í bakið. Stríðið er háð með pappírum og tölustöfum sem reiknaðir eru á óskiljanlegan hátt af tölvukerfum sem framfylgja réttlæti markaðarins, sem er einfaldlega það að þeir sem eiga mikið vaxa hratt og þeir sem eiga lítið vaxa hægar, en þó með þeirri skekkju að óvart vaxa hinir ríku á kostnað hinna fátæku þannig að á endanum eiga hinir fátæku ekki bara ekkert eins og í gamladaga, heldur skulda þeir ógurlegar upphæðir sem ómögulegt er að ráða við í einu mannslífi - að minnsta kosti á launa- og lánataxta eftir kreppu.

Það ber að fagna því þegar stjórnmálamenn, eins og Davíð (sem tók reyndar hliðarspor sem Seðlabankastjóri) og Ögmundur hafa gert, ræða um þjóðarheill, krefjast gagnrýnnar hugsunar og að notaður sé góður tími til rökræðu og hugsunar, í stað þessarar endalausu kappræðupólitík sem einkennir íslenska þingsali. Það er eins og samræðutækni hafi aldrei verið kennd í skólum þeim sem þingmenn sóttu, bara mælskulist, - og þessu tvennu ruglað saman.

CalvinHobbesAbe

Það er mikilvægt að skilja að þetta reddast ekki, nema við reddum þessu sjálf. Ef við gefumst upp og segjumst ekki vera sjálfbært ríki, og með þeim rökum samþykkjum við IceSave, þá höfum við glatað þjóðarsálinni sjálfri og viðurkennum með því ósjálfstæði íslensku þjóðarinnar. Sjálfstæði snýst einmitt um það að geta haldið höfði og látið engan kúga sig, sama hversu stór og feitur ruddinn kann að vera.

 

Nokkrar viðeigandi tilvitnanir:

"Ekki spyrja hvað land þitt getur gert fyrir þig, spurðu hvað þú getur gert fyrir land þitt." (John F. Kennedy)

"Þjóðin mun eiga mjög erfitt með að líta upp til leiðtoga sem halda eyrum við jörðina." (Winston Churchill)

"Land manneskju er ekki ákveðið landsvæði, fjöll, ár, skógar, heldur er landið lögmál; og baráttan fyrir þjóðarheill er tryggð við þetta lögmál." (George William Curtis)

 

IceSave samningurinn samkvæmt Dilbert?


mbl.is Ögmundur: Hugsum um þjóðarhag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband