Veistu hvað þú átt að kjósa?

 


 

Áðan skrapp ég í bíltúr. Kveikti á útvarpinu. Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Ég hlustaði ekki nema í um hálftíma, en þennan hálftíma fékk ég sterklega á tilfinninguna að kosningarnar á morgun væru einhvers konar sápuópera eða íþróttaleikur með þremur úrvalskeppendum: Samfylkingunni, Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokknum. Hinir væru svolítið leim.

Ég hugsaði með mér. Ef ég hefði þessa síbylju í eyrunum allan daginn og læsi mér ekki til um hluti tengda kosningunum, þá myndi ég kannski trúa þessu - og varla vita um tilvist hinna flokkanna: Framsóknarflokksins, Frjálslynda flokksins, Lýðveldisflokksins og Borgarahreyfingarinnar. Mér leið illa þegar ég hugsaði til þess að svona var þetta fyrir daga Netsins og þá kaus ég sjálfur í samræmi við það sem ég heyrði í útvarpi, sá í sjónvarpi og las í blöðum, án þess að rannsaka hlutina frá grunni. Svona er þetta kannski ennþá í dag fyrir fullt af fólki. Kannski eru Netverjar minni hópur en ég hélt.

 


 

Þessa dagana hef ég heyrt hollræðið "Kjóstu eftir sannfæringu þinni," ansi oft. Kannastu við það? Mér finnst þetta án umhugsunar ágætis ráð. En hvað er sannfæring og hvernig stendur á að við höfum ekki öll sömu sannfæringu? Eftir smá umhugsun fer ég að velta fyrir mér hvort þetta sé nokkuð svo gott ráð, hvort það væri ekki skynsamlegra að ráðleggja: "Kjóstu eftir sannfæringu þinni, ef þú hefur mótað hana af alúð, hugleitt hans og skrifað um hana eða rætt um hana, því að ótjáð hugsun er engin hugsun."

Ef sannfæring þín er byggð á skoðunum einhvers sem vinur þinn ber mikla virðingu fyrir eða ef sannfæring þín stangast á við einhver önnur málefni sannfæringar þinnar, eða þér er nákvæmlega sama - ætlar bara að kjósa það sem þér finnst flottast og mest töff, þá er ástæða til að leggja höfuðið í bleyti.

Það er nefnilega eitt að hafa sannfæringu og annað að hafa mótað hana vel. Skoðanir er hægt að mynda og mata ofan í fjöldann. Það verður til svona múgsefjun. Eins og þegar þér finnst að þú þurfir að halda annað hvort með Manchester United eða Liverpool þó að þér gæti ekki verið meira sama um fótbolta. Það er auðvelda leiðin.

 

 

Markaðsfræðin hefur tæklað þetta vel. Snjallir markaðsfræðingar og grafískir hönnuðir vita nákvæmlega hvernig þeir eiga að ná til fólks og sannfæra þá sem nenna ekki að hugsa, en þegar fólk nennir að hugsa - eins og mér sýnist samfélag bloggara vera vanmetin fyrirmynd um í dag, þá hafa auglýsingarnar ekki sömu áhrif.

Bloggarar nefnilega skrifa sína skoðun um málin, fá viðbrögð við þeim, og komast aðeins dýpra en þeir sem eru óvirkir - hafa kannski vanið sig á mótun upplýsinga með í mesta lagi fjarstýringu í hendinni. Jafnvel þrjóskustu bloggarar virðast þroskast og huXa sig um.

Bloggararnir með lyklaborðin eru kannski ein helsta von lýðræðis, því að þeir eru tilbúnir til að kafa dýpra og sætta sig þegar annað fólk hefur ólíkar skoðanir og lítur ekki á slíkt sem móðgun. Málið er að skrifin móta og þroska hugsun. Ég gæti stutt þá skoðun mína með fræðilegri ritgerð um málið.

 

barack-obama-official-small

 

Sjálfum er mér frekar í nöp við hugtakið "sannfæringu" vegna þess að hún getur átt bæði við um vel mótaðar skoðanir og flöktandi tilfinningar. Þegar við kjósum eigum við ekki að treysta á tilfinningu, heldur rök. Samt mega rökin ekki vera ísköld og óháð tilfinningum. Það þarf að vera jafnvægi þarna á milli. Öfgar í hvora áttina skila engu af viti.

Við erum öll einhvers staðar á milli þess að vera tilfinningarík og tilfinningalaus - og skoðanir okkar virðast oft byggja á hvort við höllumst meira að köldu mati eða einhvers konar hlýrri ást. Það fer svo eftir því hvað verið er að meta og fyrir hverju við höfum umhyggju, að skoðanir okkar fara að mótast - sem verða síðan kannski tímabundið að ákveðinni sannfæringu. Þetta er greinilega flókið mál.

Mig grunar að meirihluti þjóðarinnar og mannkyns nenni einfaldlega ekki að hugsa djúpt, fari frekar í golf, horfir á fótbolta, skellur sér á æfingu, nýtur tímans með vinum og fjölskyldu, og kjósa eftir tilfinningu um eitthvað sem þeim finnst mikilvægt þegar að því kemur, maður kýs hvort eð er alltaf rétt - sama hvað maður kýs. Sumir geta kannski ekki alveg útskýrt forsendur eigin sannfæringar. Þegar viðkomandi á í vandræðum með slíkt er hætt við að viðkomandi hafi ekki hugsað nógu vel um hana - það er gríðarlegur munur á að hugsa vel og að hugsa mikið. 

 

80-20

 

Ég held satt best að segja að 80/20 reglan virki í þessu tilfelli, að aðeins um 20% vinni virkilega vinnuna sína, en hin 80% leiti sér leiðtoga, annað hvort einhverja úr 20% hópnum eða úr 80% hópnum, sem er svolítið skondið þegar maður hugsar til þess. En 80/20 reglan er einfaldlega sú kenning að 20% af öllu sem gert er skipti máli, og að 80% skipti engu máli. Bara pæling um hvernig hlutirnir virka. Hugsanlega mótrök gegn þeirri grundvallarhugmynd íslensks lýðræðis að meirihlutinn ætti að ráða.

Annars langar mig að henda inn nokkrum spurningum um sannfæringu, var að velta fyrir mér að svara þeim í þessari bloggfærslu, en ákvað að leyfa lesendum að glíma við þær á eigin forsendum.

Þær eru svínslega erfiðar spurningar og ekkert eitt rétt svar við neinni þeirra, en glímirðu við þær og skrifar svörin eða ræðir þær við einhvern, færðu eitthvað fyrir þinn snúð, skýrari mynd um það hvað sannfæring er, og þar af leiðandi skýrari mynd af því hver þín sannfæring er og hvort hún sé jafn góð og þú taldir upphaflega. Ef þetta virkar ekki, endurgreiði ég þér upphæðina sem þú greiddir mér fyrir að hala niður þessari grein.

  1. Hvernig get ég gert greinarmuninn á minni eigin sannfæringu og sannfæringu einhvers annars?
  2. Hvernig veit ég hvort að sannfæring mín fylgi skynsamlegum viðmiðum sem eru í takt við það sem skiptir mestu máli?
  3. Hvernig veit ég hvort að sannfæring mín sé byggð á traustum rökum eða tilfinningu sem gæti verið röng?
  4. Hvernig veit ég hvort að sannfæring mín sé reist á góðum dómum eða fordómum?
  5. Hvað hefur það í för með sér að fylgja eftir eigin sannfæringu?
  6. Hvað er sannfæring?
  7. Hvað ætlarðu að kjósa á morgun og af hverju?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Þú veist hvað ég kýs og af hverju við verðum bara að vera sammála um að vera ósammála eins og svo margir aðrir

Ómar Ingi, 24.4.2009 kl. 19:33

2 Smámynd: Heiðrún Klara Johansen

góð grein hjá þér.

fékk mig að minnast kafla í bók sem ég er að lesa.   " kyrrðin talar"

-----

" það er hlutaskipti manneskjunnar að týna sér í hugsun.  Flest okkar eyða ævinni innilokuð í fangaklefa eigin hugsunar. 

óheft hugsunarflæði hrífur okkur auðveldlega með sér. Sérhver hugsun lætur eins og hún  sé svo mikilvæg að hún eigi skilið fullkomna athygli"

Mannhugurinn þráir að vita, skilja og stjórna - og freistast því til að sjá sannleikan í skoðunum sínum og sjónarhornum. " svona er þetta". 

Við þurfum að vera stærri en hugsanirnar til að gera okkur ljóst að sérhver túlkun á lífi okkar og annara, hegðun jafnt sem aðstæðum, getur aldrei verið nema eitt sjórnarhorn af fjölmörgum.  "

-------

og þetta með sannfæringuna, er einungis ein manneskja sem hefur náð að sannfæra aðra í að sín hugsun er sú rétta. 

Heiðrún Klara Johansen, 24.4.2009 kl. 23:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband