Hvernig væri að gefa Röddum Fólksins raunverulegu rödd fólksins?

 

firring_vinnunnar_modern_times_280402

 

Þegar ég fór í sturtu núna í morgun, en einmitt í morgunsturtunni kvikna góðar hugmyndir, og velti hinum friðsælu mótmælafundum fyrir mér sem haldnir hafa verið í margar vikur, áttaði ég mig á að form þeirra er hliðstætt formi funda í Alþingishúsinu - en það er nákvæmlega það sem er að á þeim bænum. Einn og einn maður stígur í pontu og telur sig vera að tala fyrir hönd einhvers hóps, og í umboði hópsins.

Ég er sjálfur einn þeirra sem hef ekki mætt á mótmælafund, og hef ekki áhuga á því undir þeim formerkjum sem þeir eru haldnir, en styð samt aðgerðirnar og skil þessa reiði, og heyri á fólki í kringum mig, rólyndisfólki, hvernig hvert og eitt þeirra segir nákvæmlega sama hlutinn:

"Ég skil ekki af hverju þetta fólk hefur ekki sagt af sér, hefur það enga sómakennd?"

Jæja, hvað um það. 

Í sturtunni spurði ég sjálfan mig hvað þyrfti til, til þess að ég færi niður á Austurvöll og mótmælti með öðrum Íslendingum. Í fyrsta lagi hef ég ekki áhuga á að mótmæla einu eða neinu. Það sem ég vil gera er að sýna samstöðu með fólkinu - og þá á þeirri forsendu að fólk mæti á svæðið og alls ekki til að kasta eggjum eða veitast gegn lögreglu, heldur setja upp púlt með hljóðnema, og gefa hverjum einasta fundargesti tækifæri til að segja eitthvað í hálfa mínútu, gefa Röddum Fólksins rödd.

 

Rödd þín í 30 sek

 

Eru ræðuhöld eitthvað lögmál? Mér hefur alltaf leiðst ræðuhöld og yfirleitt glaðst meira eftir því sem að ræðurnar eru styttri. Af hverju má ekki gefa fólkinu færi á að segja eins og eina setningu - og biðja það að vanda sig, en það getur samið setningarnar á meðan beðið er í röð eftir míkrófóninum:

Það mætti biðja þau að svara eftirfarandi spurningum, og jafnvel útvega þeim blað og blýant á meðan þau standa í röðinni til að hugsa sig um:

  1. Hvernig líður mér?
  2. Hvað vil ég að sé gert?
  3. Af hverju þarf aðgerðir?
  4. Hvaða afleiðingar mun áframhaldandi aðgerðar- og getuleysi stjórnvalda hafa í för með sér?

Allt þetta má segja á hálfri mínútu.

Ef slíkt tækifæri býðst, á þeirri forsendu að fólk fengi tækifæri að tjá sig með nærveru sinni, og ekki beina mótmælum gegn einum eða neinum á skipulagðan hátt - þó að eðlilegt sé að beita gremjunni að einhverjum manneskjum eða hópum, þá myndi ég mæta.

 

Hvað um þig?

 

Ég er þannig gerður að ég vil ekki bara hlusta á fyrirfram ákveðna ræðumenn. Ég vil hlusta á þig, og þætti gott að fá tækifæri til að segja þér eitthvað líka. Á meðan við höldum ræður yfir fólki er enginn að hlusta í alvöru. Þegar við leyfum öllum að tala, takið eftir, þá verður hlustað. Við munum hlusta hvert á annað - og það er skref í áttina til lýðræðis.

Í dag jukust átökin. Mótmælendur mótmæltu af hörku og tekið var á þeim af hörku. Stál við stál. Ofbeldi. Sagan segir okkur að allir tapi á slíku. Allir. Ég skil þessa reiði og finn hana sjálfur og veit að hún er réttlát, en ég veit líka að ríkisstjórnin hefur málað sig út í horn og að sífellt færri hlusta á hana, sérstaklega þegar hún leyfir sér í neyðarástandi að taka sér mánuð í jólafrí og byrja nýtt þing á að ræða um hvort selja megi áfengi í verslunum. Þetta fólk er langt á eftir sinni samtíð og virðist því miður engan raunverulegan áhuga hafa á þjóðinni, heldur fyrst og fremst á eigin hagsmunum og halda völdum til þess eins að halda völdum.

Þetta er firring

 

Annað mál: Í dag var mér bent á nýja vefsíðu: lydveldisbyltingin.is, en það er ópólitískur og óbaugskur vettvangur fyrir skoðanaskipti um hvernig fólk vill sjá útgáfu númer tvö af lýðveldinu Íslandi. Allir geta tekið þátt og skrifað sínar hugmyndir. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég tek undir það, hálf mínúta er drjúg og hugmyndin er góð.

Berglind Steinsdóttir, 20.1.2009 kl. 21:15

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Vonandi er enn tími til að hlusta á góðar hugmyndir. Ofbeldi leiðir náttúrulega til meira ofbeldis og eykur aðeins á óvissubálið.

Hrannar Baldursson, 21.1.2009 kl. 01:17

3 Smámynd: Héðinn Björnsson

Tíminn er til að framkvæma góðar hugmyndir. Þeir sem bara hlusta á góðar hugmyndir eru litlu nær. Ertu til í að reyna að framkvæma? Eða eigum við kannski bara að halda áfram að blogga :-P

Héðinn Björnsson, 24.1.2009 kl. 17:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband