Sagan um bankaránið

Einu sinni, ekki fyrir langa löngu, á fjarlægri eyju úti á hafi réðist stór hópur bankaræningja inn í ekki bara einn banka, heldur alla banka og öll útibú eyjunnar. Allir afgreiðslukassar, peningaskápar og vörsluhólf voru tæmd.

Bankastjórinn, afgreiðslufólkið, millistjórnendur, viðskiptavinir og öryggisverðirnir vildu sporna við en var skipað að leggjast á magann með hendur yfir höfuð. Þeim var skipað að horfa í gólfið. Samt tóku sum þeirra eftir að einhverjir starfsmanna og viðskiptavina voru með í ráðum.

Bankaræningjarnir komust undan með þvílík auðævi að eyjan var skilin eftir gjaldþrota. Í stað þess að tilkynna viðskiptavinum um ránið, ákveða bankastjórnendur að halda fundi og stofna nefndir.

Þegar þeir átta sig á að það var ekki bara ráðist á eitt útibú, heldur öll, ákveða þeir að hafa samband við yfirvöld. Haldnir eru fundir yfir helgina með yfirvöldum, og kemur þá í ljós hversu alvarlegt ástandið er. Á mánudegi er tilkynnt að ríkisstjórnin muni taka yfir hluta af einum bankanna. Þeir segja ekki frá bankaráninu, enda trúa þeir ekki sjálfir að bankarnir hafi verið rændir, þeim finnst líklegra að kerfið allt í kringum þá hafi verið gallað. 

Þegar það spyrst út að hagkerfið sé gallað og bankar á eyjunni séu að fara á hausinn, sjá aðilar í fjarlægu landi sé leik á borði. Þeir vita að framið hefur verið bankarán á eyjunni, og vita að sjóðirnir eru tómir. Það er líka vitað að fjöldi manns hefur geymt peninga í þessum bönkum. Þar sem að eyjan er að taka vitlaust á þessum málum er um að gera að leggja í viðskiptastríð við hana. Best að loka öllum höfnum hennar og útiloka að hún geti fjármagnað sig upp á nýtt með því að stoppa allt peningaflæði til og frá henni, og ekki nóg með það - krefjast þess líka að allt verði borgað til baka - svona rétt eins og sanngjarnt er að gera við ótýndan glæpamann sem stolið hefur brauðsneið, stinga honum í fangelsi og hleypa honum ekki út fyrr en hann er búinn að borga fyrir allar þær brauðsneiðar sem horfið hafa án skýringa síðustu fimm árin.

Ástæða rangrar upplýsingagjafar eyjunnar eru náttúrulega þær að sumir bankaræningjanna eru meðal stjórnenda og þeim finnst betra að flækja málin með því að strá lygum hér og þar heldur en að eiga á hættu að upp um þá komist.

Þegar viðskiptavinir bankans átta sig á að þeir geta ekki tekið peninginn sinn út eða skipt gjaldeyri, fara þeir að spyrja hvað sé eiginlega í gangi. Þau fá svör, jafnloðin og ræsisrottur, um að nú þurfi allir að standa saman, allir séu á sama báti, og að bankinn þeirra sé gjaldþrota, og eitthvað af ævisparnaði þeirra hafi horfið.

Fólk trompast allt í einu innan í sér og ákveður að spjalla bara um þetta mál á kaffitímum og í hádegismat, blogga eitthvað um þetta líka og ákveða í framhaldinu að brenna nornina og hengja nautgripaþjófinn. Þau vita bara ekki almennilega hver nornin er og hver nautgripaþjófurinn. Það liggur beint við að ásaka bankastjórann fyrir að passa ekki nógu vel upp á peninginn, segja ekki strax satt frá og leyfa ræningjunum að komast undan. Bankastjórinn hefur verið stimplaður sem nautgripanorn.

Þar sem að allir bankastarfsmenn eru nú grunaðir um græsku fer ekki ein opinber rannsókn fram, heldur margar litlar sjálfstæðar rannsóknir, og Gróa blandar sér í rannsóknarhópinn, sem þýðir að uppgötvanir verða ansi svakalegar. Sífellt verður erfiðara að greina á milli sannleika og blekkinga, en í augnablikinu heldur alheimur allur að um tæknileg mistök hafi verið að ræða, á meðan sumir glotta í kampinn og sjá að á meðan fólk trúir að um tæknileg mistök hafi verið að ræða sér það ekki sannleikann. 

Framhald síðar...

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er frábær saga og gott ef hún er ekki bara dagsönn

Guðrún (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 10:29

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sagan gæti verið sönn, en eitt finnst mér vanta.  Það er að stjórnvöld á eyjunni ákváðu að ræna rændu bankana og segja aðilunum í fjarlæga landinu sem höfðu lánað þeim að þeir fengju hvorki endurgreitt né ættu aðkomu að því að kanna hvort öllu hefði verið rænt í fyrra ráninu.  Þar að auki höfðu sömu ræningjar verið á ferð í fjarlæga landinu ásamt stjórnvöldum til að afla innlána fyrir rændu bankana hjá gömlum konum þar með gilliboðum.

Spurningin gæti verið þessi; hefði verið betra fyrir stjórnvöld að hleypa fleirum að rændu bönkunum frekar en að eigna sér þá?  og verður við það að sniðganga aðra ekki annað bankarán óumflýjanlegt? og verða þá íbúar eyjarinnar í enn verri stöðu því þeir eru allir taldir samsekir með aðgerðaleysi sínu?

Magnús Sigurðsson, 7.11.2008 kl. 12:03

3 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Segi það nú. Hef heyrt þetta áður!

Rut Sumarliðadóttir, 7.11.2008 kl. 16:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband