Er "Guð" persónugerving siðferðis?

“Siðferðið er algjört, og sem slíkt er það líka hið guðlega.” - Sören Kierkegaard

 

Veltum þessu aðeins fyrir okkur. Hver einasti menningarhópur hefur sitt eigið siðferði. Það er frekar auðvelt að skilja hvernig siðferði þróast hjá okkur, út frá væntingum, reynslu og sögum sem ganga kynslóð frá kynslóð. En hvað ef við persónugerðum siðferðið, væri þá ekki eðlilegt að persónugerva það sem "Guð"?

Hver einasti menningarhópur virðist leggja ólíkan skilning í hugtakið Guð, bæði þeir sem trúa og ekki trúa á Guð, og nú er ég ekki að tala um fjölgyðistrú, aðeins eingyðistrú, og þeir gefa honum ólík nöfn, og telja hann heilagan, vegna þess að siðferðið er hverju samfélagi heilagt, því það gefur lífinu djúpa merkingu. 

Stofnað er félag utan um siðferðið, sem verður síðan að trúarbrögðum, einfaldlega vegna þess að það nenna ekki allir að pæla í svona hlutum, kynslóð eftir kynslóð, og einhver verður því að fá það verkefni, og einhvern veginn gleymist sumum okkar að þetta raunverulega fyrirbæri sem siðferðið er, hefur verið persónugert yfir í "Guð", og athyglin beinist stöðugt meira að fyrirbærinu Guði en siðferðinu, rétt eins og stundum gleymist að Mikki Mús er ekki alvöru mús eða hugsandi vera.

Þegar þessir menningarhópar rekast svo á aðra menningarhópa, gegnum ferðalög, fólksflutninga, og á síðari tímum betri fjarskipti, kemur skýrt og greinilega í ljós að fólk er víða ósammála um hvað “Guð” merkir, og sumir berjast fyrir eigin túlkun á hugtakinu, jafnvel af heift og ofbeldi sem er í andstöðu við upprunalega merkingu þess. En okkur manneskjunum er tamt að berjast fyrir því sem við teljum okkar.

Við búum í svolítið merkilegum heimi í dag, þar sem samskiptatæknin, og kannski sérstaklega Facebook, er að brúa bilið milli gjörólíkra menningarhópa gegnum Internetið, sem verður til þess að sum okkar byrjum að hugsa hlutina í aðeins stærra samhengi, förum út fyrir okkar eigin þægindaramma, sjáum að hugsanlega hafa margar af skoðunum okkar, sem við trúum í dag, verið byggðar á röngum forsendum.

Sum okkar hrista kannski hausinn og finnst þetta ekki skipta máli og segja að ef við höfum skoðun, þá höfum við hana bara, og að hún er okkar. En þannig er það ekki. Þeir sem skipta aldrei um skoðun dæma sjálfa sig út úr mannsandanum. Þeir hætta að skipta máli fyrir umræðuna. Kannski skipta þeir máli hér og nú, í lokuðum hópi, en skoðanir þeirra eru fastar í núinu og fortíðinni, en munu ekki ná inn í framtíðina.

Breytir Internetið því hvernig við upplifum okkar eigið siðferði? Og ef svo er, sjáum við fram á að ný persónugerving verði til úr þessu nýja siðferði? Munum við skapa nýjan Guð, sem er kannski ennþá víðsýnni en þeir sem hafa verið skapaðir eða uppgötvaðir áður, eða kannski þröngsýnni og þrjóskaðri? Eða áttum við okkur á að Guð er ekkert endilega viðeigandi fyrirbæri lengur, þar sem við vitum sífellt meira um hversu lítið við vitum um heiminn, sjálf okkur og mannlegt siðferði?


Bloggfærslur 13. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband