Af hverju þurfum við að hugsa betur?

Við lifum á tímum 'annars konar staðreynda' og 'teygjanlegra hugtaka' þar sem skoðanir og sannfæringarkraftur virðist skipta meira máli í daglegri umræðu en staðreyndir og rök.

Stjórnmálamenn eru kosnir til valda á þeirri forsendu að þeir standi við kosningaloforð sín, og þegar þeir gera eða geta það ekki, þurfa þeir að standa eða falla með kjósendum sem virðast standa á sama hvort menn standi við orð sín, og virðast telja mikilvægara að viðkomandi líti vel út, komi vel fyrir sig orði og sé svolítið snyrtileg(ur).

Þetta er ekkert nýtt. 

Sá sem segir alltaf satt, rökstyður mál sitt vel, hugsar skýrt, sýnir auðmýkt, vísar í staðreyndir og áreiðanlegar heimildir, sá virðist hafa lítið roð í þá sem kunna að ljúga og pretta, flækja mál sitt með útúrsnúningum, þykjast vita allt en vita í raun lítið, og vísa í sögusagnir, eigin ímyndun og slúður máli sínu til stuðnings.

Lygarinn kallar hinn sannsögla lygara og hinn sannsögli kallar lygarann lygara, en fyrir þá sem ekki hafa nennu til að hugsa gagnrýnið um málflutninginn, meta áreiðanleika og gæði rökhugsunar á bakvið orðin, mun mögulega trúa lygaranum og efast um áreiðanleika þess sem gerir sitt besta til að segja alltaf satt.

Lygarinn vísar í tilfinningar, sá sannsögli í staðreyndir. Allir skilja tilfinningar, þær eru einfaldar, og eiga samhljóm með okkur öllum, en staðreyndir þurfa að vinna sér sess og hægt er að efast um þær, eins og alla vísindalega þekkingu. Efi kemst ekki fyrir þegar um tilfinningar eru að ræða, annað hvort er eitthvað sorglegt, skammarlegt, gleðilegt, eða eitthvað slíkt, á meðan staðreyndir eru oft umdeildar, eins og hvort hnatthlýnun sé í raun mögnuð upp af mannkyninu, hvort að heimurinn sé einfaldlega til af náttúrunnar hendi, hvort að alheimurinn sé endalaus eða endi, jafnvel hvort að kókosolía sé holl eða ekki.

Hlustum vandlega á þá sem fara með völdin eða vilja fá þau, og þá sem taka mikilvægar ákvarðanir. Nota þeir tilfinningar sem rök, eða staðreyndir? Vísa þeir í rök eða tilfinningar?

Taktu eftir hvað það er miklu auðveldara að mynda sér skoðun um útlit og framkomu einhvers heldur um það sem viðkomandi hefur að segja. Veltu fyrir þér hvort þér finnist viðkomandi traustsins verð(ur) vegna framkomu eða vegna meiningar og merkingar þess sem viðkomandi hefur að segja.

Okkur líkar auðveldlega við þá sem eru fyndnir og orðheppnir, en ekkert endilega við þá sem eru alvarlegir og nákvæmir.

Við erum líklegri til að slást í hóp með lygurum þar sem þeir höfða til tilfinninga okkar, svo framarlega sem við veltum ekki stóra samhenginu fyrir okkur.

Hugsum betur, því þá getur reynst erfitt að blekkja okkur.


Hvað er æra og hvernig er hægt að reisa hana upp?

Undanfarið hefur mikið verið rætt um "uppreist æru", og lagalegan skilning þess hugtaks, en mig langar að velta fyrir mér raunverulegri merkingu hugtaksins í víðum skilningi heilbrigðar skynsemi frekar en hinum þrönga lagalega skilningi. Í stuttu máli er...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband