Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Er fátækt sjálfsagður hlutur?

Í mínum huga hefur Ísland fyrir sýndargóðæristímann alltaf notið ákveðinnar sérstöðu. Þá var Ísland land þar sem fátækt var í lágmarki og ríkidæmi ekki jafn öfgafullt og í dag. Eftir góðæri hefur ríkidæmi fárra aukist gífurlega og fátækt fjöldans stækkað hratt og er enn að stækka. Margt ríkidæmið hefur einnig reynst orðið til með sýndarmennsku og kerfisbundnum svikamyllum, og er kostnaðurinn hefur þegar étið margar fjölskyldur og byrjað að narta í aðrar.

Þetta er ekki eðlilegt.

Víða um heim verður mikill fjöldi fólks undir í samfélögum, verða fátækir og eiga um sárt að binda. Rísa þá gjarnan upp trúarbrögð sem hjálpa þeim þjáðu að sætta sig við lífsins táradal. Kapphlaupið um lífsgæðin snýst um að lenda ekki í undirmálshópnum, sem þræll fyrir hinar æðru stéttir auðmanna, og komast frekar í hópinn þar sem hinir vinna fyrir þig.

Mér þætti áhugavert að vera fluga á vegg hjá ráðgjöfum AGS og jafnvel skimast inn í viðhorf þeirra um hvernig þjóðfélög ættu að vera þegar málið snýr að fátækt. Einnig þætti mér áhugavert að heyra hvað stjórnmálamenn, þingmenn og fólk almennt hugsar þegar kemur að þessu máli.

Finnst okkur fátækt sjálfsagður hlutur, eitthvað sem einkennir hvert einasta samfélag, nánast nauðsynlegur hluti þess að lifa í þessum heimi? Finnst okkur fátækt bara allt í lagi? Erum við meðvituð um hvað hinir ríku, þeir sem völdin hafa, fá gífurlega mikil aukin völd og auð þegar fátæktin breiðir úr sér? Erum við meðvituð um að fátækt er val samfélagsins, að hægt er að komast hjá slíkum vanda með samstöðu? Erum við meðvituð um að slík samstaða verður alltaf úthrópuð af þeim sem telja veldi sínu ógnað?

Þetta viðhorf. Þessi trú. Að fátækt sé bara veruleiki. Sú trú virðist óhagganlegri en kirkjan.

Deilum við þessari trú? Viljum við samfélag þar sem ákveðinn hópur fólks er dæmdur frá fæðingu til dauða, nema með einstaka undantekningum, til fátæktar, undirgefni og lífs án raunverulegra tækifæra?

Meta mætti gildisgapið á milli ráðgjafavalds AGS og íslensku þjóðarinnar, því mig grunar að þessir ráðgjafar lifi í heimi þar sem fátækt þykir sjálfsagður hlutur - einfaldlega kostnaður vegna uppbyggingar, en slíkt viðhorf hef ég ekki sjálfur.

Neyð eins hluta samfélags á kostnað annars hluta hins litla Íslands er ekki eitthvað sem við eigum að sætta okkur við.


Hvar er auðmýktin?

Á mánudaginn var fylgdist ég dolfallinn með mótmælum á Austurvelli gegnum Netið frá Noregi. Á einum skjá sést brenna á Austurvelli og fólk tromma á tunnur. Víggirðing hefur verið reist umhverfis Alþingi og ræðurnar sýndar beint.

Það lítur út eins og ræðumenn séu staddir innan í gríðarstórri tómri tunnu, sem verið er að berja utanfrá. En enginn bumbusláttur heyrist, aðeins innantómar ræður, tómari en nokkur tunna - og ég get ekki annað en hugsað með mér hversu hátt bylur í þeim tómu.

Átta til tíuþúsund manns stóðu fyrir utan Alþingi og öskruðu eins og hungrað barn sem ekki getur tjáð sig öðruvísi. Íslenska þjóðin er barn. Móðir þess og faðir hefur yfirgefið hana. Skilið hana eftir. Þegar venjulegt fólk notar tungumál og reynir að tjá sig í rólegheitum, er ekki hlustað. Þetta fólk þykir kannski ekki nógu merkilegt til að ná eyrum hinna háttvirtu. 

Og ég velti fyrir mér hvað getur náð þessum háttvirtu eyrum. Út frá ræðunum að dæma, ósköp fátt. Það þarf að berja á hinum háttvirtu hlustum til að þær hlusti. Enginn af þeim sem ræður, stjórnar, drottnar eða sér sig sem lítinn guð talar beint til fólksins sem stendur úti í kuldanum og skapar hávaða. Nei. Höfðingjarnir fela sig á bakvið þykka múra, lögregluvegg og sérhannaðan mótmælavegg, og þeir voga sér ekki að tala við þá sem vilja það eitt að á þá sé hlustað, tekið mark, að unnið sé saman að markmiðum og lausnum. Er beðið um of mikið?

Ég velti þessu fyrir mér. Hvað ef Jóhanna eða Steingrímur og flestöll hin hefðu sleppt því að halda sínar innantómu ræður og þess í stað vogað sér að opna svaladyrnar, gengið fram á svalir, veifað og sýnt að þau hafi áhuga á að hlusta á fólkið? Hefðu þau fengið í sig egg eða flösku? Eða hefði slík athöfn verið túlkuð sem hugrekki af fjöldanum og ráðamönnum hugsanlega tekist að vinna sér inn vott af virðingu á ný? Það fáum við aldrei að vita því tækifærið rann þeim úr greipum.

Ég velti fyrir mér auðmýktinni. Hvernig hún virðist hverfa úr hjarta stjórnmálamannsins, rétt eftir að hann eða hún lýsir yfir auðmjúku þakklæti eftir kosningar. Kannski auðmýkt sé bara einnota græja notuð á tyllidögum?

Að lokum, eitt af þeim lögmálum sem ég reyni að fylgja hvern einasta dag í mínu lífi:

Vitræn auðmýkt: Að vera meðvitaður um takmarkanir eigin þekkingar, þar með talið tilfinningu fyrir aðstæðum þar sem manns eigin sjálfhverfa er líkleg til að blekkja mann sjálfan; tilfinningu fyrir hlutdrægni, fordómum og takmörkunum eigin sjónarhorns. Vitræn auðmýkt kannast við að maður ætti ekki að þykjast vita meira en maður veit. Hún er ekki merki um hugleysi eða þrælslund. Hún hefur í för með sér skort á vitrænni tilgerð, stolti eða svikulli lund, og styrkir innsæi í rökrænar undirstöður eigin skoðana, eða skort á slíkum undirstöðum. (Foundation for Critical Thinking)


Af hverju kasta mótmælendur eggjum í þingmenn?

Fólki finnst það svikið.

Núverandi ríkisstjórn komst til valda eftir að fyrri ríkisstjórn var hrint úr valdastól. Nýja ríkisstjórnin lofaði öllu fögru en hefur reynst copy/paste fyrri ríkisstjórnar og hjakkar í nákvæmlega sama farinu.

Fólk er að tapa heimilum sínum. Ég veit ekki hvort satt sé að verið sé að bera út heilu fjölskyldurnar, en sú breyting hefur þó orðið á högum fólks að það býr ekki lengur við það öryggi að eiga heimili sitt, og getur aðeins leigt húsnæði tímabundið. Leigt húsnæði er tímabundin lausn. Það þekkja allir sem leigja. Við finnum djúpt öryggi í því að eiga okkar eigin húsnæði og vita að þaðan verðum við ekki hrakin af einhverjum öðrum eiganda.

Hæfileikaríkt ungt fólk hefur horfið af landi brott og leitað sér leiða á erlendri grundu. Ég veit ekki hversu margir hafa horfið frá Íslandi með þessum hætti frá 6. október 2008, en reikna með að þeir skipti þúsundum. Þetta fólk hverfur af atvinnuleysisskrá þegar það tekur sér búsetu annars staðar, og virðist gleymast, eins og það sé ekki lengur til.

Fólk er reitt vegna landsdómsmálsins. Ekki vegna þess að Geir var ákærður, heldur vegna þess að þingið setti upp skjaldborg um sjálft sig um leið og því var ógnað, skjaldborg sem heimilum var fyrir löngu lofað, en reynst hefur innantómur frasi einhverra kviðlinga úr Samfylkingunni.

Þar sem ég bý og starfa í dag er mest lögð áhersla á tvennt: að fólk framkvæmi í samræmi við orð sín, og allt sé gert til að vernda fólk og umhverfi frá allri hugsanlegri hættu. Mér líður vel í slíku samfélagi. Mér þykir leitt að slíkt samfélag virðist ekki fyrirfinnast á Íslandi. 

Það er móðgandi og særandi þegar maður hefur verið sannfærður um að treysta manneskju sem segist ætla að leggja á sig ferð til helvítis og aftur heim til að hjálpa þér út úr vandræðum þínum, að í ljós kemur að þessi manneskja hefur lagst upp í sófa heima hjá sér og leyst krossgátur í stað þess að það sem hún lofaði að gera. Að kasta eggi í slíka manneskju, sérstaklega ef hún virðir þig ekki viðlits eftir að þú hefur borgað henni með atkvæði þínu, virðist væg hefnd.

Að sjálfsögðu er hægt að gera lítið úr slíkum mótmælum, segja að þetta sé bara fólk sem hefur einhverja ákveðna skoðun og megi alveg hafa sína skoðun fyrir sig, það sé bara þeirra mál, það má segja að þetta fólk sé skiljanlega uppfullt af reiði og að það megi alveg tjá þessa reiði, en að reiðin sé út í marga ólíka hluti, en ekki sameiginlegan málstað.

Málstaðurinn er sameiginlegur. 

Fólk er reitt út í spillingu og svik ráðamanna. Það reiðist þegar engin virðing er borin fyrir þeim. Það reiðist þegar ráðamenn svíkja orð sín. Það reiðist þegar ráðamenn sína vanhæfni. Það reiðist þegar spillingin grasserar sem aldrei fyrr. Það reiðist þegar réttlætiskröfu almennings er hafnað með skrípalátum. 

Íslendingar eru búnir að fá upp í kok af spillingu. Spillingin sem slík er erfið viðureignar því hún er yfirleitt ósýnileg. Þingmönnum hefur tekist á síðustu dögum að gera spillinguna sýnilega og sjálfa sig að skotmörkum. Það þýðir lítið að kasta í þeim orðum, því fáir þeirra hlusta og skilja að heimurinn er stærri en það þrönga egg sem þeir búa sjálfir í.

Kannski er eggjum kastað á táknrænan hátt til að brjóta skurnina sem virðist hylja þetta furðulega fólk sem virðist lítið annað gera en gaspra skilningslaust í pontu og fyrir framan myndavélar, en geta ekki stigið fram fyrir múginn og spurt einfaldlega: "hvernig get ég orðið að liði?"

Þetta á þó ekki við um þau öll, en tilhneiging fjöldans er að dæma heild fyrir hluta, sérstaklega ef hlutinn kemst upp með ranglæti, og er varinn af meirihluta heildarinnar. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband