Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Hvaða bresti í íslensku samfélagi afhjúpa atburðir haustsins 2008?

 

pallskula_1779986519

 

Þessarar spurningar og annarra spurði Páll Skúlason á framsögu sinni í kvöld, á fundi Félags áhugamanna um heimspeki, en þeir Ólafur Páll Jónsson héldu áhugaverð erindi og hvöttu til spurninga utan úr þéttsettnum sal heimspekinga, sem margir hverjir deildu afar áhugaverðum vangaveltum með hópnum. Björn Þorsteinsson stýrði fundinum á líflegan og skemmtilegan hátt. 

Í spurningunni er vísað til bankahrunsins og fjármálakreppunnar.

Það svar sem mér dettur helst í hug, án langrar umhugsunar, en samt með einhverri íhugun, tengist jafnvægisleysi í samfélaginu. Þetta jafnvægisleysi má sjálfsagt skýrast finna í tölum tengdum launum einstaklinga, en fáeinir Íslendingar hafa verið að fá laun á við tugi, hundruði eða jafnvel þúsundir íslenskra verkamanna. 

 

cv_slavery_04071

 

Íslenska þjóðin mun þurfa að borga laun þessarra fáu einstaklinga eftirá, í nafni fjármálahruns og kreppu. Þetta er kannski ofureinföldun á ástandinu, en hugsanlega kjarninn. Það er ómannúðlegt að manneskjur sem hafa vogað sér að kaupa íbúð á lánum sjái nú fram á að verða stórskuldug til æviloka, eða gjaldþrota.

En hvað olli þessu jafnvægisleysi?

Ég held að svarið felist í ofsatrú á árangri, hvernig hann var skilgreindur, hvaða leiðir voru farnar að honum og hvernig leiðirnar (eða kerfin) voru misnotaðar.

Það virðist vera hægt að réttlæta hvað sem er bara ef það tengist góðum árangri. Það er yfirleitt gott að ná árangri, en hins vegar getur árangur innbrotsþjófs verið góður fyrir hann sjálfan, illur fyrir þann sem tapar eigum sínum, og hann er svo sannarlega illur sem meginregla fyrir heildina. Það þykir jafnvel sjálfsagt að selja vel rekin fyrirtæki skili salan skammtímamarkmiðum fyrir eigendur, starfsmönnum engu og heildinni ekki neinu heldur.

Árangur er eitthvað sem við setjum okkur með markmiðagerð. Sama hvert markmiðið er, dæmum við árangur eftir því hversu nálægt því við komumst. Rétt eins og við dæmum nammi sem gott af því að það bragðast vel um stund, og annað nammi betra af því að það er svo miklu betra á bragðið en eitthvað annað nammi. Samt er nammi ekkert gott fyrir þig.

Til að ná enn betri árangri búum við svo til alls konar kerfi: vegakerfi, skólakerfi, flugumsjónarkerfi, bókhaldskerfi, símkerfi, og jafnvel kerfi um hvernig best er að hugsa. 

Smám saman förum við að treysta á kerfin, og höfum tilhneigingu til að trúa að þau séu góð í sjálfum sér einfaldlega vegna þess að þau skila margföldum árangri og virðast engan skaða. En svo gerist það að kerfin verða svo stór að enginn einn einstaklingur getur haldið utan um þau, og  hóp af einstaklingum þarf til þess að reka þau.

 

 

LA-Freeway-400
 

 

Vegakerfi eru dæmi um þetta. Eyðileggist partur af vegi og hætti eftirlitsaðilar að sinna honum er líklegra að slys geti átt sér stað. Verði bílhræ eftir slys ekki hirt upp er enn líklegra að það valdi frekari slystum. 

Til að einstaklingarnir geti unnið vel saman fyrir framgang kerfisins, þarf að búa til annað kerfi utan um starfsgrundvöll þeirra, þetta kerfi má líka kalla fyrirtæki eða stofnun. Þetta verður til þess að hópurinn verður þjónn kerfisins, á meðan kerfið er þjónn stærri heildar. Ef við töpum hins vegar sýn á það hver hefur valdið, og til hvers kerfið er, og hvort það skili einhverju góðu til heildarinnar, frekar en hópa eða einstaklinga, þá höfum við gefið kerfinu vald yfir okkur, vald sem getur reynst erfitt að stöðva.

Við vitum að mannleg hönd þarf að hlúa að kerfinu þannig að það virki vel. Hvað ef hin mannlega hönd ákveður að misnota aðstæður sínar og nota kerfið fyrir eigin hagsmuni eða hagsmuni ákveðins hóps, frekar en fyrir heildina? Þá er ljóst að kerfið spillist.

 

 


 

Ef ráðherra ákveður að hlíta ekki lögum og bera fyrir sig að vald hans eitt og sér réttlæti eigin lögbrot, þá erum við að tala um spillt kerfi.

Ef stjórnandi símkerfis ákveður að breyta símanúmerum hjá viðskiptavinum án þess að láta þá vita, og réttlætir það með valdi yfir símakerfinu, þá erum við líka að tala um spillt kerfi.

Ef kennari ákveður að gefa nemanda sem honum líkar vel háar einkunnir bara vegna þess að honum líkar vel við hann, þá erum við að tala um spillt kerfi.

Ef umferðaljós bilar og sýnir alltaf grænt, þá erum við með spillt kerfi.

Spillt kerfi eru ónothæf.

Því miður hafa birtingarmyndir spillingar birst í íslensku stjórnkerfi og í bankakerfinu nokkrum mánuðum fyrir hrun. Spillingin þýddi að kerfið var ónothæft og þar af leiðandi var hrun óumflýjanlegt. Þannig að brestirnir sem afhjúpaðir voru í íslensku samfélagi tengjast ofsatrú á kerfum, og ekki nóg með það, heldur trú á að spillt kerfi geti virkað. Sumir trúa þessu greinilega ennþá og banda frá sér öllum gagnrýnisröddum.

 

 

we-are-all-in-the-gutter-but-some-of-us-are-looking-at-the-stars-59682
 

 

Til að líta fram á bjartari tíma er ljóst að það þarf að laga þessi kerfi. Það þarf að hreinsa út allt það óhreina, það bilaða, spillinguna, og þegar það er frágengið og kerfið farið í gang aftur, þá þarf að hlúa að því og gæta þess að það vinni áfram, en með mannlegri umönnum og skýrum markmiðum, ekki aðeins fyrir einstaklinga eða hópa, heldur heildina.

Fyrir íslenskt samfélag er þessi heild það sem Páll Skúlason kallar almannaheill, ef ég skil hann rétt. Hvað almannaheill er nákvæmlega, það er önnur pæling.

Þú hefur kannski eigin svör við spurningunni? Ef svo er, væri áhugavert að heyra þau.

 

Myndir:

Páll Skúlason:  Ferðafélag Íslands

Þrældómur: What Haven't You Heard Lately?

Vegakerfi: I like

Brennandi hús má bíða: Blue Economics

Oscar Wilde tilvitnun: bestuff

 


Er eitthvað samband á milli 9-11 og heimskreppu?

✈ ▌▌
 
 

Karl stóð uppi á sviði með míkrófón í annarri hendi og bjórkrús í hinni. Hann söng og það nokkuð vel, þrátt fyrir falska millikafla:

 

"On a dark desert highway,
cool wind in my hair,
warm smell of colitis
rising up through the air."

 

Stöku sinnum missti hann tóninn, en hann var meðvitaður um það og tók sér þá bara sopa, þannig tókst honum að fela fölsku nóturnar, hélt hann. Tvær konur sem sátu við sama borð klöppuðu þegar laginu lauk og brostu báðar til hans, en þegar þær litu hvor á aðra þurrkaðist brosið út jafnhratt og brosið hafði birst. 

Allir hinir á barnum voru í hrókasamræðum. Maður með langa barta og klæddur skínandi jakka ruddist upp á svið og byrjaði að söngla með djúpum Elvistöktum áður en Karl komst af sviðinu og tónlistin byrjaði:

"Heh heh have I told you lately that I love you..."

"Jæja stúlkur, hvernig var kallinn?" sagði Karl og hlammaði sér við hlið Þuríðar. Hann lagði hönd á læri hennar og rak tánna í fót Sylvíu á sama augnabliki.

"Þú varst æðislegur," sagði Sylvía og lagði hönd sína á hönd hans.

"Umfram æðislegur," sagði Þuríður.

"Þið eruð ekkert smá sætar að segja þetta," sagði Karl og sötraði á bjórnum. "En hann er ömurlegur þessi Elvis." Hann benti á sviðið.

Maðurinn á sviðinu hnykkti til mjöðmum svo að ístran bærðist eins og marmelaði, benti á dolfallna áhorfendur og tók lagið af heilmikilli snilld. Það eina sem vantaði var smá tign.

"Vitiði stelpur, þó að heimurinn sé að hrynja akkúrat núna, vildi ég hvergi vera."

"Þú meinar, hvergi annars staðar vera?" spurði Þuríður.

"Einmitt."

"Heimurinn er nú varla að hrynja þó að einhver smá kreppa sé í gangi," sagði Þuríður.

"Ef þið kæmust að því að sólin kæmi ekki upp á morgun, að þetta væri síðasti dagurinn... alveg..." hann sýndi alvöru málsins með því að banda frá sér með hægri hendi og halla sér fram á borðið. "Hvað mynduð þið gera í kvöld ef þið vissuð með fullri sannfæringu að þetta væri sá allra síðasti?"

"Fullvissa og sannfæring eru nú tvennt ólíkt," sagði Þuríður. 

"Og það er sko líka komið kvöld," sagði Sylvía. "Þýðir það að morgundagurinn á morgun sé eftir?"

"Nei, ég meina hvað ef kvöldið í kvöld væri síðasti dagurinn."

Það ískraði aðeins í Sylvíu. "Síðasti dagurinn í kvöld? Tí hí hí."

"Ég er að meina svona hvað ef," sagði Karl og gjóaði augunum á Þuríði. "Hvað ef sko. Engar staðreyndir endilega, en samt satt."

"Viltu fá alvöru svar?" sagði Þuríður.

Karl kinkaði kolli og Sylvía fékk sér sopa af Bloody Mary.

"Þarf það að vera satt?" sagði Þuríður.

"Já."

Þuríður dró upp úr veski sínu svartan rýting.

"Ég myndi leita uppi ákveðinn náunga og skera hann á háls með þessu. Eftir að hafa skorið hann á háls myndi ég drekka úr honum allt blóð til að öðlast eilíft líf án hungurs. Ég er nefnilega vampíra."

"Fokk," sagði Karl.

"Æ, ég er svo hrædd. Ekki drekka blóðið mitt, vampíran þín," sagði Sylvía og skellti upp úr. 

"Fokk," endurtók Karl.

"Hvað myndir þú gera?" spurði Þuríður Sylvíu og setti rýtinginn aftur í töskuna. Sylvía hugsaði sig lengi um. 

"Má ég segja alveg satt? Það sem mig myndi í alvöru langa að gera?"

"Fokk," sagði Karl og starði á Þuríði. Þuríður kinkaði kolli og leit glottandi á Karl. 

"Þú ert búinn að segja eff-orðið þrisvar. Ertu að segja okkur að þig langi að gera það í kvöld?"

Karl eldroðnaði í framan og brosti vandræðalegur, en þá sagði Sylvía.

"Ég veit, ég veit. Ég myndi ferðast átta ár aftur í tímann til að koma í veg fyrir fjármálakreppuna."

"Ókey," sagði Þuríður brosandi og kinkaði kolli hæðin á svip. "Svo var það fyrir átta árum, að ég kvaddi þig, með tárum. Hvernig hefðirðu getað komið í veg fyrir kreppuna með tímaflakki?"

"Jú, sko... Ég hefði keypt mér flugmiða til New York og varað við hreðjuverkjaárásunum á tvíburana tvo."

"Tvíburaturnana?"

"Já, eða það. Og ég hefði látið Róbertó Gúlíaní vita að hryðjuverkamenn ætluðu að fljúga á þá með flugvélum."

"Og hvernig myndir þú vita það?" sagði Karl.

"Ég hefði komið úr framtíðinni stjúpid," sagði hún og veifaði honum frá sér. "Málið er að fjármálakreppan hefði aldrei orðið án ellefta október."

"September," sagði Þuríður.

"Sko...," sagði Sylvía. "Turnarnir sem sprungu voru peningabyggingar sem stjórnuðu öllu fjármálakerfi heimsins. Þegar þeir voru gjöreyðilagðir af hreðjuverkjamönnum þá voru allir klárustu peningamennirnir drepnir. Bara þeir heimsku lifðu af, því þeir fengu ekki vinnu í turnunum."

"Ég skil hvað þú ert að fara," sagði Þuríður. "Haltu áfram." Karl horfði ennþá tortrygginn á Þuríði.

"Þú ert engin fokkins vampíra,"

"Segðu!" sagði Þuríður og brosti til hans. 

"Sko...," sagði Sylvía. "Nú voru bara ónýtir peningamenn eftir sem höfðu ekkert vit á peningum. Þeir bjuggu til ný kerfi og fóru að eyða peningum ógeðslega mikið, og þessi hegðun smitaðist út um allan heim, eins og krabbamein, sérstaklega til Íslands, þar sem allt peningafólk varð öfgavitlaust."

"Margur verður af aurum api," sagði Karl spekingslega.

"Og hrokafull, gráðug elíta sem reynir að mergsjúga allt líf," bætti Þuríður við.

"Sko...," sagði Sylvía. "Allir öpuðu upp þetta ógáfaða við peningamálin og allir eyddu og eyddu og þóttust vera svo flottir til að sýna að hreðjuverkjamennirnir töpuðu, að þeir byggðu sér turna úr fölskum lánum og hlutabréfum, sem síðan hrundu eftir að kreppan skall á þá eins og flugvélarnar í New York."

"Fokk," sagði Karl.

Þrjár stelpur með kúrekahatta voru að reka Elvis niður af sviðinu. Hann vildi ekki skila míkrófóninum og það leit út fyrir slagsmál, þegar hann snéri sér heilan hring á gólfinu og setti míkrófóninn upp að munni, og söng djúpri röddu: "Love me tender, love me dear, never let me down... gjörið svo vel. Takk fyrir," og hann hneigði sig þessi dramakóngur fyrir gestina, og uppskar gífurleg fagnaðarlæti. Hann fór beint á barinn til að skrá sig í fleiri lög.

"Heyrðu, Þurý," sagði Karl. "Hvað meintirðu með að segjast vera vampíra? Töluðum við ekki um að segja satt? Hvað myndir þú gera í alvöru?"

"Ég er vampíra," sagði Þuríður og þóttist móðguð. "Þetta er maðurinn sem ég þarf að finna." 

Hún dró mynd upp úr handtöskunni og sýndi fyrst Sylvíu, sem virtist hafa meiri áhuga á að kveikja sér í sígarettu með bensínlausum kveikjara, og þegar hún sýndi Karli myndina hrökk hann við.

"Ertu að grínast í mér?" sagði hann. Myndin var svarthvít, af hávöxnum og grönnum manni í jakkafötum sem hélt á barni í fanginu. Bakvið hann var svartur bíll, Ford T-Bird, og hann var með barðastóran hatt á höfðinu, svona eins og tíðkaðist fyrir hippatímann."

"Nú? Hefurðu séð hann?"

"Þetta getur ekki verið hann. Útilokað."

"Það er ekkert útilokað í þessum heimi," sagði Þuríður og lagði hönd á læri hans.

"Það er útilokað að kveikja í þessari sígó með þessum kveikjó," sagði Sylvía.

"Segðu mér, hvar sástu hann og hvenær?"

"Ég hef aldrei séð þennan mann. Skál í botn." Karl drakk það eftir var úr bjórkrúsinni og stóð á fætur.

"Þarf á klóið," sagði hann og vaggaði vandræðalegur yfir stelpunum. Þuríður leit beint í augu hans og slík greind skein úr brosinu að Karl fékk gæsahúð. Sylvía var ennþá að fikta í kveikjaranum, en maður á næsta borði rétti henni eld. 

"Takk," sagði hún og tók út úr sér sígarettuna, "en veistu ekki að það er bannað að reykja. Það getur drepið starfsfólkið."

Karl gekk í átt að klósettinu og leit um öxl. Þegar hann sá að þær voru komnar í hrókasamræður lagði hann krúsina frá sér og tók stefnuna á útgöngudyrnar. Þegar hann opnaði tók hvínandi vindur við. Það var farið að snjóa. Það var runnið af honum. Hann flýtti sér að Land Krúsernum, settist í leðrið og brunaði af stað.

 

***

 

Nokkrum mínútum síðar fóru stúlkurnar að skima eftir Karli. 

"Hann er farinn," sagði Þuríður. "Myndin! Hvar er hún?" Hún kíkti í töskuna, undir borðið, á gólfið.

"Helvítis, hann stal myndinni," sagði hún.

"Hvað með það?", sagði Sylvía. Þú átt milljón eintök."

"Æ, stundum geturðu verið svo heimsk."

 

***

 

Á rauði ljósi við gatnamót Grensás og Bústaðavegs tók Karl myndina úr vasanum. Þetta var greinilega hann. Föli maðurinn á gamlársdag, maðurinn sem stoppaði hann, maðurinn sem var í speglinum en var svo hvergi sjáanlegur. Nema í speglinum. Fokk!

Hann kveikti á Léttbylgjunni af gömlum vana. Hann virti myndina fyrir sér og sneri henni við, það var eitthvað skrifað á bakhliðina. 

 

"Karl Ingólfsson, fjármálaráðgjafi, 555-4908"

 

Það var annað nafn fyrir neðan:

 

"Úlfur Skarphéðinsson, 555-4795"

 

"Fokk," sagði Karl, en hækkaði í útvarpinu þegar hann heyrði hvaða lag var verið að spila, stakk myndinni í vasann, gleymdi öllum áhyggjum og söng með:

 

 

Up ahead in the distance, I saw a shimmering light
My head grew heavy and my sight grew dim
I had to stop for the night

There she stood in the doorway;
I heard the mission bell
And I was thinking to myself,
'This could be Heaven or this could be Hell'
Then she lit up a candle and she showed me the way
There were voices down the corridor,
I thought I heard them say...

Welcome to the Hotel California
Such a lovely place
Such a lovely face
Plenty of room at the Hotel California
Any time of year, you can find it here

 

 




Textar:

Hotel California, Eagles

Have I Told You Lately That I Love You, eftir Van Morrison

Love Me Tender: W.W. Fosdick, Vera Matson og Elvis Presley

Fyrir átta árum: Tómas Guðmundsson

 

Mynd: On a Dark Desert Highway, eftir From The Field á Flickr

 

Þessi saga er skáldskapur. Nöfn, persónur, staðir og atburðir eru að mestu hugarsmíð höfundar og finnist samsvörun í raunveruleikanum er um hreina tilviljun að ræða. 


Árásin á Hótel Borg

 


 

 

"Ég er búin að fá nóg af þessum helvítis mótmælum og mótmælendum," sagði hún rám. "Þetta er eintómur skríll. Helvítis pakk. Vanvirða Alþingishúsið og þjóðina við minnsta tilefni. Það á að byggja álver. Mættir! Ísrael og Palestína sprengja hvort annað í tætlur. Mættir! Gjöld fyrir læknisþjónustu hækka. Mættir! Skólamáltíðir hækka. Mættir! Skattar lækka. Mættir! Hvalur drepinn. Mættir! Það ætti að banna þetta helvíti."

Á leiðinni niður í bæ hlustaði Karl á móður sína í handfrjálsa kerfinu. Hann kinkaði kolli og svaraði með "A-ha, U-humm, já, ókey."

"Þeir vilja helst láta hlekkja sig við eitthvað til að vera táknræn, svo að allir skilji þau. Af hverju hlekkja þau sig ekki bara við fangaklefa á lögreglustöðinni?"

Karl fann bílastæði rétt hjá Bæjarins Bestu. Þar dró hann yfir höfuðið svarta lambhúshettu og setti á axlirnar þungan bakpoka. Hann fékk sér tvær pylsur með öllu og kók, borgaði með platínukorti og skundaði svo áleiðis að Hótel Borg. Það var enginn á svæðinu. 

Á bekk undir styttunni af Jóni Sigurðssyni sat hávaxinn og afar fölur maður. Hann horfði hugsi á Alþingishúsið. Karl ávarpaði hann.

"Heyrðu, þú? Eru ekki mótmæli?"

Maðurinn á bekknum hallaði höfði er hann leit upp til Karls. Þarna stóð smávaxinn karl með svarta lambhúshettu. Það sást aðeins í þykk augun og frekar óheppilegt frekjuskarð þegar hann opnaði munninn. Maðurinn benti í átt að Laugarvegi og sagði afar stilltum en djúpum og svæfandi rómi. 

"Sæll og blessaður. Mótmælin byrja við Stjórnarráðið."

Hann leit beint í augun á Karli, eins og hann væri að lesa úr myrkri sál hans. Karl var fljótur að líta undan. 

"Stjórnarráðinu? Þarna sem strætó stoppar?"

Maðurinn kinkaði kolli. 

Karl gekk í burtu og í átt að Stjórnarráðinu án þess að þakka fyrir sig. Maðurinn á bekknum horfði á eftir honum, en stóð svo á fætur, gekk í kringum styttuna og sagði:

"Er það þetta sem þú meintir gamli vinur, þegar þú sagðir Vér mótmælum allir? Þú veist að þegar allir mótmæla, allir hafa ólíka skoðun, og enginn er tilbúinn til að hlusta, þá fyrst byrja átökin." Jón Sigurðsson stóð grafkyrr og svaraði engu, en virtist hugsi.

Víkjum aftur að Karli.

Hann gekk þungum skrefum að Stjórnarráðinu, enda klifjaður tösku fullri af múrsteinum og lóðum. Hann kom að hópi fólks sem hrópaði alls kyns slagorð sem það las af skiltum eins og "Auðvaldið burt," "Niður með ríkisstjórnina," "Fokkins helvítis fokk."

Karl var ekki með skilti. Hann fékk allt í einu kefli í hendurnar. Kona með freknur sogaði sígó og gaf honum eld. Hann veifaði rauðu blysinu og öskraði slagorð sem hann las af skiltunum. Hann fékk fleiri en eitt klapp á öxlina og fólki brost til hans. Óvenjulegt.

Hópurinn lagði af stað í hrópandi skrúðgöngu að Borginni. Aðrir menn í lambhúshettum tóku af skarið, bönkuðu á glugga hótelsins og öskruðu slagorð til að trufla sjónvarpsþáttinn. Karl gerði það sama. Hann hugleiddi eitt augnablik að taka lóð úr töskunni og grýta gegnum gluggann, en það voru of mörg vitni. Múgurinn var ekki nógu æstur. Eftir góða stund af hrópum og köllum tóku nokkrir mótmælendur sig til og stukku yfir grindverk sem leiddi inn í portið að Hótel Borg. Þegar grindverkinu hafði verið rutt úr vegi streymdu mótmælendur inn í portið og Karl í broddi fylkingar. Þau æddu beint inn, en voru stoppuð af hvítklæddum þjónum og tæknifólki með eyrnatól. Hann sló þungum bakpokanum utan í þá sem reyndu að stoppa hann.

Þá kom lögreglan. Karl huldi augun með gleraugum þegar þeir byrjuðu að öskra "Gas! Gas! Gas!" og að þetta væru ólögleg mótmæli og að fólk ætti að koma sér út. Þá sá hann tækifærið. Einn lögreglumaðurinn byrjaði að spreyja alltof snemma úr brúsa yfir mótmælendur sem reyndu skrækjandi að forða sér út úr portinu. Það gekk ekki betur en svo að einn þeirra flæktist í snúru og datt kylliflatur á andlitið og missti blysið ofan á kaplana. Það kveiknaði í þeim. Allir horfðu á reykinn. Betra tækifæri gæfist ekki. Karl kom sér upp að vegg og tók töskuna af baki sér. Hann dró upp úr henni múrstein og grýtti inn í hópinn. Lögga fékk hann í andlitið.

"Shit!" sagði Karl við sjálfan sig og drífði sig aftur inn í þvöguna og út úr hópnum. Þarna lágu mótmælendur út um allt með þrútin augu. Einn þeirra fór úr að ofan og baðaði andlitið upp úr vatni og öskraði eitthvað í myndavél og að fréttamanni sem stóð hjá. Aðrir lágu á bakinu og fengu aðhlynningu sjúkraliða og annarra mótmælenda, sem voru með augndropa, mjólk og eitthvað fleira til að vinna gegn piparúðanum. 

Lögga var borin út í sjúkrabíl. Allt var brjálað! Verki hans var lokið. Hann tók af sér gleraugun og gekk af stað. En þá steig einhver í veg fyrir hann. Hann leit upp og beint í augu föla mannsins sem hafði áður vísað honum til vegar. 

"Af hverju?" spurði föli maðurinn.

"Láttu mig vera," sagði Karl og ætlaði að strunsa framhjá honum, en fannst eins og hann hefði gengið á klett. Þessi maður er úr grjóti.

"Hverju mun ófriður skila? Viltu sjá meiri reiði og örvæntingu? Óeirðir? Hvað viltu?"

Karl fann hárin rísa á hnakkanum. Hann leit í augu föla mannsins. Þau voru djúp og stillt eins og hafið sjálft. En það var eitthvað svo skelfilega óendanlegt við þau, eitthvað sem stóð gegn öllu sem Karl trúði á.

"Helvítis," stamaði Karl,  hopaði nokkur skref og hljóp svo aftur inn í þvöguna. Þá var ýtt við honum. Hann sneri sér við. Þarna var einn af hans gömlu flokksbræðrum, og bróðir hans. Hann gleymdi sér í skyndilegum fögnuði og ætlaði að heilsa þeim, en fékk þá slíkt högg í brjóstkassann frá öðrum þeirra að hann kom ekki upp orði. Hann missti andann um stund og fylgdist útundan sér með mönnunum tveimur ganga inn í þvöguna, slá til fólks og sparka í kviðinn á manni sem lá stokkbólginn í framan. Annar þeirra öskraði á mótmælendur með reglulegu millibili: "Kommúnistahommatittir!"

Þetta voru alvöru menn. 

Karl gekk í átt að Tjörninni og á milli bíla kraup hann niður og tók af sér lambhúshettuna. Hún var orðin rök af svita. Þunnt hárið sat klesst á enninu, hann sleikti fingurgómana og lagaði hárið til. Síðan gekk hann aftur áleiðis að Stjórnarráðinu og þaðan á bílastæðið. 

Hann settist upp í hátt leðursætið og bakkaði út af stæðinu. Hann snarstoppaði. Föli maðurinn var í baksýnisspeglinum. Hann stóð fyrir aftan bílinn. Karl sneri sér í sætinu og leit út um bakgluggann. Það var enginn þarna. Hann leit aftur í spegilinn. Þarna var hann, svartklæddur í hvítri skyrtu og með rautt bindi. En þegar hann leit aftur út um bakgluggan var enginn þar. Enginn!

Karl hristi höfuðið, bakkaði út úr stæðinu og keyrði heim á leið.

"Furðulegur andskoti," tautaði Karl og kveikti á Léttbylgjunni. Úr hanskahólfinu tók hann súkkulaðihjúpaðan próteinbita og raulaði með Madonnu, og söng loks af innlifun þegar hann keyrði framhjá Seðlabankahúsinu:

Some boys kiss me, some boys hug me
I think theyre o.k.
If they don't give me proper credit
I just walk away

They can beg and they can plead
But they can't see the light, that's right
cause the boy with the cold hard cash
Is always mister right, cause we are

Living in a material world
And I am a material girl
You know that we are living in a material world
And I am a material girl

 

* * *

 

Mynd: Daylife.com

Texti úr sönglaginu Material Girl: Madonna

 

Þessi saga er skáldskapur. Nöfn, persónur, staðir og atburðir eru að mestu hugarsmíð höfundar og finnist samsvörun í raunveruleikanum er um hreina tilviljun að ræða.


Hverju er eiginlega verið að mótmæla?

 


Kemur ekki til greina. Ég mun aldrei hætta. Þið eruð ekki fólkið sem keypti húsið! Þið talið ekki fyrir þá sem eiga heima í húsinu! Þið eruð ekki ég! Ég hef ákveðið að leggja til hluta af skuldum ykkar í stofnun óeirðarhandrukkara, sem mun krefja ykkur um peninginn og banna ykkur að segja ykkur skoðun. Ef ykkur líkar það ekki, þá megið þið bara éta það sem úti frýs. Við þurfum að standa saman! Skiljið þið það ekki? Við erum öll í sama bát! (Sjá neðar)

 

Hugsum okkur að við ákváðum öll að kaupa okkur hús saman. Við leggjum til pening og húsið er keypt. Síðan ráðum við manneskju til að sjá um fjármál hússins; köllum hann fjárhirði, en hann sér um að borga reikninga og rukka nauðsynleg gjöld. Við ráðum fjárhirðinn til starfsins til fjögurra ára. Við treystum viðkomandi það mikið að okkur dettur ekki einu sinni í hug að fylgjast með hvort hann sé að gera rétt eða rangt. Við viljum bara heyra tölur um stöðuna á reikningnum á þriggja mánaða fresti.

Eftir þrjá fyrstu mánuðina trúum við ekki okkar eigin eyrum.

Fjárhirðirinn sendir dagblöðum svohljóðandi tölvupóst:

Húsið er fullbyggt, og reyndar ekki bara hús lengur, heldur höll. Við þurfum ekki lengur að borga gjöld, heldur er okkur lofað að verðmæti einfaldlega aukist margfalt, þó svo að við gerum ekki neitt. Eftir þrjú ár hefur húsið okkar þrettánfaldast í verðmæti, en þá kemur upp smá vandamál. Allur peningurinn er fastur í eignum og lokuðum reikningum, en þar sem við eigum svo ógeðslega mikinn pening, getum við einfaldlega tekið lán sem eru náttúrulega tryggð með okkar gífurlegu eignum.

Nafnlaus bloggari sem kallar sig 'Hirðfíflið' gerir athugasemd við greinina: "En af hverju ættum við að taka lán ef við eigum svona mikið?"

Svarið kemur frá fjárhirðinum sjálfum sem athugasemd: "Lán eru eina leiðin til að fá alvöru peninga í hendurnar. Allur hinn peningurinn sem situr fastur, það er bara erfiðara að ná í hann. Það er svoddan mál. Lán eru auðveld og ekkert mál að borga þau upp."

Nú skellur á mögnuð þögn. Þetta hljómar eins og ókeypis peningar. Allt í lagi. Við tökum lánið. Það þýðir reyndar að við þurfum að borga af láninu og vöxtum þess mánaðarlega að auki, en við eigum svo mikið af eignum að þær hljóta að borga þetta sjálfvirkt. Það er nefnilega allt sjálfvirkt í dag. Við erum svo þróuð.

Hálft ár líður og við eigum allt í einu ekki fyrir afborgun af láninu. Það er óhagstætt um þessar mundir að losa raunverulegu verðmætin sem við eigum, og því þurfum við eiginlega að taka lán til að borga lánið.

 

the+great+dictator

 

Við höldum opinn fund með fjárhirði okkar. Hann hefur safnað frekar stuttu og ósmekklegu yfirvaraskeggi, svona eins og Chaplin, og vatnsgreitt og örþunnt hárið liggur yfir enninu. Af einhverjum ástæðum beinir hann nefinu upp í loft en horfir á okkur þar sem við sitjum langt fyrir neðan púltið hans. Hann byrjar frásögn sína í föðurlegum tón, en ræðan á eftir að skerpast þegar spurningarnar verða erfiðari og svörin fjarstæðukenndari.

 

FJÁRHIRÐIR

Vandamálið er að það er enginn til að lána okkur. Þess vegna viljum við biðja ykkur húseigendur að lána okkur til að borga af húsinu.

 

HJÖRÐ

Við hljótum að geta reddað því.

 

FJÁRHIRÐIR

Vandinn er bara sá að lánið sem þarf að borga upp kostar í augnablikinu þrettán sinnum meira en húsið sjálft, og það er enginn til í að kaupa alvöru fjárfestingarnar. En þar sem húsið hefur líka þrettánfaldast í verðgildi, erum við að tala um þrettán sinnum þrettán. 

 

HJÖRР

Já, allt í lagi. Ertu að segja mér að í stað þess að borga fyrir mat og aðrar nauðsynjar, þá þurfi ég og mín fjölskylda að skuldsetja sig með lánum til að greiða fyrir fjárfestingarnar sem gerðar voru vegna hússins sem við keyptum?

 

FJÁRHIRÐIR

Svarið er já.

 

HJÖRР

Hvað ef ég neita að borga?

 

FJÁRHIRÐIR

Þá ferðu á hausinn og öll þjóðin með, þú og þín fjölskylda mun ekki geta tekið þátt í virku alþjóðlegu samfélagi næstu þrjár kynslóðir, eða fleiri, og við þyrftum að selja húsið og allar hinar eigurnar og flytja aftur í moldarkofa.

 

HJÖRР

Ég skil. Þú komst okkur í þessi vandræði...

 

FJÁRHIRÐIR

Bíddu hægur. Þið völduð mig til að fara með fjármál hússins. Ég gerði allt samkvæmt bókinni.

 

HJÖRР

Hvaða bók? Símaskránni? Viltu ekki bara hætta þessu bulli og leyfa okkur að sjá reikningana. Kannski getum við fundið einhverjar leiðir.

 

FJÁRHIRÐIR

Nei! Þetta eru mínir reikningar. Þið völduð mig. Ég á þá. 

 

HJÖRР

Viltu vinsamlegast láta okkur fá upplýsingarnar? Getur verið að þú hafir stungið einhverju í eigin vasa? Ertu að fela eitthvað? 

 

FJÁRHIRÐIR

Hvernig vogarðu þér?

 

HJÖRР

Við viljum að þú hættir störfum.

 

FJÁRHIRÐIR

Kemur ekki til greina.

 

HJÖRР

Jú, láttu ekki svona. Segðu af þér.

 

FJÁRHIRÐIR

Ég þarf þess ekki. Engin lög segja að ég þurfi að segja af mér.

 

HJÖRР

Heilbrigð skynsemi segir annað.

 

FJÁRHIRÐIR

Það eru ekki lög.

 

HJÖRР

Við viljum að þú sýnir okkur allt sem þú hefur gert til að tapa þessum fjármunum. Við viljum fá tækifæri til að bjarga því sem bjargað verður. Við viljum fá hæfileikaríkt fólk sem getur tekið á þessu máli og unnið með það af hæfni. Við viljum ekki að fólk fari á hausinn vegna þessa. Við viljum ekki missa fólk úr landi. Við viljum standa saman og finna lausn. Eina lausnin er að þú farir frá völdum yfir bókhaldinu og hleypir öðrum að sem við veljum, en með betri ramma.

 

FJÁRHIRÐIR

Kemur ekki til greina. Ég mun aldrei hætta. Þið eruð ekki fólkið sem keypti húsið! Þið talið ekki fyrir þá sem eiga heima í húsinu! Þið eruð ekki ég! Ég hef ákveðið að leggja til hluta af skuldum ykkar í stofnun óeirðarhandrukkara, sem mun krefja ykkur um peninginn og banna ykkur að segja ykkur skoðun. Ef ykkur líkar það ekki, þá megið þið bara éta það sem úti frýs. Við þurfum að standa saman! Skiljið þið það ekki? Við erum öll í sama bát!

 

 * * *

 

Fundargestir týnast úr salnum. Einn þeirra hripar hjá sér gátlista:

  • Það verður að frysta verðtryggingu á lánum.
  • Það verður að gefa fólki færi á að losna við eignir sem eru orðnar verðlausar miðað við skuldir og fá þessar skuldir felldar niður.
  • Það verður að fá erlenda aðila til að rannsaka alla anga málsins af dýpt - sama hvern það kann að snerta.
  • Það verður að skera á öll hagsmunatengsl milli auðvalds og ríkisvalds.
  • Við þurfum að fá inn fólk með hæfileika og getu til að takast á við vandann, það má ekki vera sama fólkið og kom okkur í vandann og reyndist getulítið þegar á reyndi.
  • Við hljótum að mega spyrja, hver gaf einhverju fyrirtæki út í bæ umboð til að fjárfesta með peningum hinna eldri, yngri, barna, barnabarna og ófæddra kynslóða?
  • Við óskum svara án hroka. Við óskum eftir auðmýkt og samvinnu.

 

 


Myndir:

Höll: Mysore District

Chaplin: Itu Zosluk


10 bestu kvikmyndir ársins 2008

 

titanic.jpg

 

Þar sem ég hef ekki enn séð þær kvikmyndir sem líklegastar eru til óskarsverðlauna fyrir árið 2008, sem koma reyndar flestar út í desember, mun ég að sjálfsögðu einungis velja úr þeim myndum sem ég hef þegar séð. Halo Ef ég ætlaði mér að afla vinsælda og gera pólitísk réttan lista um bestu myndirnar, yrðu sjálfsagt The Dark Knight og Wall-E á toppnum, því að þær voru vinsælar og almennt vel tekið. Hins vegar hef ég ekki áhuga á að þóknast neinum og lista bara þær myndir sem ég fékk sjálfur mest út úr á árinu sem er að líða og hafa framleiðsluárið 2008 stimplaðar á sig.

Íslenskar myndir komust ekki á listann, enda Mýrin sem ætti vel heima ofarlega á slíkum lista kom út 2006 og önnur góð íslensk kvikmynd, Astrópía, kom út 2007. Þær sem ég hef séð á árinu 2008 finnst mér ekki verðskulda að komast inn á listann. Auðvitað vantar evrópskar, asískar og Indverskar myndir á listann, því þær berast okkur mun síðar en það sem Hollywood dælir til okkar á færibandi. Það er því eðlilegt að bandaríska draumaverksmiðjan eigi flestar myndir á þessum lista.

Einnig sá ég nokkrar heimildarmyndir, sem ég ætla reyndar ekki að telja með sem kvikmyndir, en deila má um hvort að sú höfnun sé réttlætanleg. En sú heimildarmynd sem mér fannst merkilegust var Man On Wire, sem fjallar um franskan mann sem dreymdi um það, frá því að hann sá fyrst teikningar af tvíburaturnunum í New York, fyrir byggingu þeirra, að dansa línudans á milli þeirra einhvern tíma á ævinni, og hann var tilbúinn að deyja fyrir þennan draum.

Smelltu á fyrirsagnir til að lesa rökstuðning fyrir dómi mínum um viðkomandi kvikmynd.

 

10. besta: Red

Red

Frábært spennudrama þó að uppbyggingin sé afar hæg og sviðsmyndin hógvær. Brian Cox leikur fyrrverandi hermann sem misst hefur eiginkonu sína og tvo syni í miklum harmleik. Bilaðir unglingar koma aftan að honum þegar hann er í veiðitúr með hundi sínum, Red, og skjóta hundinn í hausinn. Gamli maðurinn leitar réttlætis og vekur upp miklu fleiri drauga en hann gerði ráð fyrir.

 

9. besta: In Bruges

Spennu og gamanmynd um tvo leigumorðingja sem njóta þess að vera í fríi í Belgíu eftir misheppnað launmorð og tekst með þeim afbragðs vinátta. Reyndar leiðist öðrum þeirra hræðilega en hinum finnst gaman. Málin flækjast þegar yfirmaðurinn sendir öðrum þeirra skipun um að drepa hinn.

 

8. besta: Get Smart

getsmart-final-poster-big

Ótrúlega fyndinn og vel gerður farsi um leyniþjónustumanninn Smart, sem loks fær tækifæri til að gera annað en að greina vandamál niður í smæstu öreindir, og fær að spreyta sig sem alvöru njósnari, - en býr því miður oft til fleiri vandamál en hann leysir.

 

7. besta: Burn After Reading

BurnAfterReadingPoster

Litskrúðugar persónur gera þessa kolsvörtu kómedíu um fáfræði og fordóma að prýðis skemmtun. Brad Pitt er sérstaklega ferskur í sínu hlutverki. George Clooney er verulega fyndinn og John Malkovich svellkaldur. Coen bræðurnir kunna ekki að klikka.

 

6. besta: The Dark Knight

DarkKnightPoster

Fyrsta ofurhetjumyndin sem reynir að láta taka sig jafn grafalvarlega og ef um sannsögulega mynd væri að ræða. Vissulega áhugaverð tilraun með sérlega skemmtilegum leik frá hinum heitna Heath Ledger. Samt gengur myndin ekki alveg upp, því að forsendur breytinga hjá einni mikilvægustu persónunni ganga ekki alveg upp. Ekki besta ofurhetjumynd ársins. Myndin var mikið töluð upp og talað um að ég hlyti að hafa misst af einhverju mikilvægu þegar ég sá hana, því mér fannst Batman Begins betri. Þannig að ég lét til leiðast, fór á hana í IMAX bíóið í London, og hún var einfaldlega ekkert betri. Mér hálf leiddist í seinna skiptið satt best að segja, enda hafði ég náð sögunni við fyrsta áhorf.

 

5. besta: Wall-E

Pixar endurtekur leikinn frá Ratatouille og framleiðir teiknimynd sem er á mörkum þess að vera listrænt stórvirki. Þemað er náttúruvernd, bundið inn í ástarsögu vélmenna sem ferðast um geiminn til að bjarga mannkyninu og Jörðinni frá glötun. Þó að Wall-E sé listræn og falleg, þá get ég ekki hugsað mér að horfa á hana aftur. Ég reikna með að Wall-E verði valin besta teiknimynd ársins á óskarnum, en það þýðir samt ekkert endilega að hún muni lifa lengst allra teiknimynda ársins. Kem síðar að því.

 

4. besta: Kung Fu Panda


Pönduna Po dreymir um að verða Kung-Fu hetja. Sem starfsmaður á núðluhúsi föður síns er það fjarlægur draumur þar til örlögin skjóta honum í stöðu Drekastríðsmannsins. Sagan er frekar einföld, en persónurnar afar skemmtilegar og þá sérstaklega Po í meðförum Jack Black og þjálfarinn hans Shifu (Dustin Hoffman).

 

3. besta: Mamma Mia!

Nú grunar mig að sumir lesendur hljóti að hneykslast á að ég velji létta grín og söngvamynd sem eina af bestu myndum ársins, en sannleikurinn er sá að það var dúndurgaman að horfa á þessa mynd í bíó, þrátt fyrir kjánahrollinn sem ég fæ ennþá þegar Pierce Brosnan tekur lagið. Meryl Streep hélt hins vegar myndinni uppi með glaðlegum leik og frábærum söng, og aukaleikararnir hver öðrum betri. 

 

2. besta: Iron Man

Besta ofurhetjumynd ársins að mínu mati. Robert Downey Jr. og Jeff Bridges sýna stórleik, og Gwyneth Paltrow sýnir óvenju góðan leik sem aðstoðarkona Tony Stark. Tæknibrellurnar eru pottþéttar og sagan frekar einföld, en þetta er ofurhetjumynd sem tekur sig hæfilega alvarlega og virkar 100%.

 

Besta mynd 2008...

 

 

...er...

 

 

Bolt

Bolt

Teiknimynd frá Walt Disney um hvutta sem uppgötvar að hann er ekki sú ofurhetja sem hann hefur alltaf haldið að hann væri. Myndin sem ég sá var í þrívídd og afbragðs vel talsett á íslensku - en ég hef satt best að segja lengi haft fordóma gagnvart talsetningu á bíómyndum - en í þetta sinn virkaði þetta. Allt smellpassar saman, létt kómedía í bland við hasar og spennu - og að auki hef ég aldrei séð jafn góða teiknimyndagerð þar sem margar persónur virðast raunverulegar - sérstaklega dúfurnar. 

Þannig er listi minn yfir 10 bestu kvikmyndir ársins 2008. Sjálfsagt mun hann breytast með tíð og tíma eftir að ég hef séð enn fleiri kvikmyndir úr öllum heimsálfum frá þessu mikla kreppuári. 

 

Gleðilegt nýtt kvikmyndaár 2009!


10 verstu kvikmyndir ársins 2008

SharkAttack3

 

Ég vil taka það fram að einungis er um að ræða þær myndir sem framleiddar hafa verið árið 2008 og ég hef séð. Þar sem ég er ekki atvinnugagnrýnandi og tími minn takmarkaður til áhorfunar hef ég ekki aðgang að öllum þeim kvikmyndum sem skemmtilegra væri að hafa séð á árinu.

 

10. versta: Quantum of Solace

QuantumOfSolacePoster

Réttara að kalla þetta mestu vonbrigðin. (Indiana Jones and the Kingdome of the Crystal Skull var reyndar skammt á eftir). Ein slakasta James Bond mynd frá upphafi, þrátt fyrir góðan Daniel Craig. Það spilar reyndar svolítið inn í að ég bjóst við einhverju miklu betra eftir snilldina Casino Royale.

 

9. versta: The Happening

Allt í einu klikkast fólk í hópum og fer að fremja sjálfsmorð upp úr þurru. Plöntur jarðarinnar hafa gert uppreisn gegn mannkyninu og ná að virkja sjálfseyðingarhvöt mannsins með ensímum. Ágætis hugmynd, en kvikmyndin frekar leiðinleg.

 

8. versta: Hancock

HancockPoster

Lofaði góðu á pappírnum. Misheppnuð ofurhetja og róni. Útkoman: misheppnað.

 

7. versta: Fool's Gold

Fjársjóðsleit í karabíska hafinu þar sem leikararnir virðast hafa meiri áhuga á sólbaði en leiklist.

 

6. versta: Untraceable

Frekar döpur mynd um internetlöggu sem lendir í klónum á netfjöldamorðingja.

 

5. versta:  Step Up 2: The Streets

StepUpToTheStreetsPoster

Frekar innantóm dansmynd, sem samt inniheldur nokkuð flotta dansa.

 

4. versta: Righteous Kill

RighteousKillPoster

Tveir af mögnuðustu leikurum kvikmyndasögunnar, Robert De Niro og Al Pacino leika tvær löggur sem rannsaka fjöldamorð. Báðir langt frá sínu besta. Ég hef reyndar heyrt að 88 Minutes með Al Pacino sé enn verri. Hef ekki séð hana, en þótti samt rétt að vara við henni.

 

3. versta: Babylon A.D.

BabylonADPoster

Vin Diesel áhugalaus í alltof flóknum söguþræði um erfðabreytta stúlku sem á að vera móðir næsta Messíasar sem verða tvíburar, fyrir framtíðartrúarbrögð, en meikar engan sens - ljóst að leikararnir höfðu jafn litla hugmynd um hvað var í gangi og áhorfandinn.

 

2. versta: The Mummy: Tomb of the Dragon Emperor

MummyTombOfTheDragonEmperor

Draumur nördans, en illa farið með góða hæfileika þeirra Brenda Frasier, Jet Li og Michelle Yeoh - sem öll eru í aukahlutverkum! Peningum og tæknibrellum sóað í vitleysu.

 

Og...

 

...versta mynd ársins 2008 (af þeim sem ég hef séð - og ég sé aðeins þær myndir sem ég hef fyrirfram einhvern áhuga á að sjá)...

 

...er

 

... 10.000 BC

10000bcPoster

Hörmulega illa sögð saga um forna menningu í þrældómi þar sem mammútar og sverðtígrar koma aðeins við sögu, en þá fyrst og fremst sem tæknibrellufígúrur og Deus Ex vélar.

 

Listinn yfir tíu bestu myndir ársins 2008 birtist væntanlega á morgun eða hinn á bloggsíðu Donsins.

 

Gleðilegt nýtt ár!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband